Mánudagurinn 7. júlí 2003
Jæja, þetta er fyrsta færslan í þessa dagbók mína. Pabbi gaf mér hana þegar hann leyfði mér að stjórna búðinni meðan þau væru úti. Svona til að ég gæti munað seinna hvernig það var að ráða öllu í mánuð! Hehehe. Snilld. Ég fæ að stjórna öllu! Ég má líka skrifa um hvað sem er. Hana líka. “Hún” er stelpan sem kemur hingað nokkrum sinnum í viku. Ljóshærð og alltaf með handtöskuna sína með sér. Hún hefur nokkrum sinnum komið með strák með sér. Ég held hann sé kærastinn hennar. Hann er samt miklu eldri. Örugglega 10 árum allavega. En ég á eftir að heilla hana. Ég lofa því sko! Það er einn helvítis viðskiptavinur hérna inni og ég get ekki lokað fyrr en hann fer. Ég elska samt að vinna hérna. Pabbi stofnaði þessa búð þegar hann var nýfluttur hingað suður. Fékk samning við SS um leið og viðskiptin hafa gengið eins og í sögu síðan. Við erum kannski ekki með ódýrara kjöt en Bónus og Nettó, en þetta er gæðakjöt samt sem áður. Og þá er auglýsingatímanum lokið í dag! Það er víst opinberlega hitamet í bænum í dag og á að vera þannig í einhvern tíma í viðbót. Aumingja mamma og pabbi að vera að fara út akkúrat núna!

Þriðjudagurinn 8. júlí 2003
Hún kom í dag. Ég er að segja þér það, hún er svo falleg. Fallegasta stelpa í heimi, pottþétt! Ég hef reyndar voða sjaldan talað við hana, reyndar aldrei (fyrir utan allmörg ,,eitthvað fleira”, eða “akkúrat?” og ,,takk fyrir”) almennilega, en það þýðir ekki að ég get ekki verið hrifinn af henni. Hún er svo flott! Einhvern daginn, einhvern daginn…

Föstudagurinn 11. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Hann kom hinsvegar, fullur um miðjan dag í góðum fíling. Keypti kíló af nautahakki og hálf datt svo út um hurðina. But life is good! Sólin skín, hitinn er allsráðandi og eins gott ég muni að setja kjötið í kæli á kvöldinn, annars fer allt að anga. Ullabjakk! Mamma og pabbi fóru í sumarfríið sitt í dag þannig að ég er einn heima í mánuð! Kannski maður bjóði ákveðinni ljóshærðri frú í kvöldkaffi við tækifæri? Yeah baby! Aldrei að vita…

Sunnudagurinn 13. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Ég er búinn að fatta það að ég sé líklega ekki týpan í að skrifa dagbók á hverjum degi. Kannski maður kalli þetta bara vikubók, eða annan-hvern dagbók eða eitthvað sjóleiðis. Ég veit ekki. Hitinn er farinn að hækka og allt gengur vel með búðina.

Mánudagurinn 14. júlí 2003
Hún kom í dag. Hún var með glóðurauga á hægra auganu og skurð yfir kinnina. Ég spurði hana hvort að allt væri í lagi og hvað hefði gerst og hún muldraði eitthvað um að hún hefði dottið niður stiga. Eins og ég trúi því. Helvítis kallhelvíti! Ég var svo reiður að ég var næstum dottinn niður þegar ég var að klöngrast niður stigann niður í kjallara. Pabbi ætlaði að vera búinn að panta tröppur fyrir löngu, því þetta er 10 metra fall beint niður ef þú notar ekki stigann (sem er btw. þráðbeinn uppí loftið), en hann ákvað svo að geyma það þangað til hann kæmi aftur.
Ég get samt ekki hætt að hugsa um hana. Menn eiga ekki að komast upp með svona! Maður ber ekki stelpur! Svoleðis gerir maður bara ekki, það vita það allir!

Þriðjudagurinn 15. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Ég er ennþá að jafna mig á því sem hann gerði við hana. Maður gerir bara ekki svona. Ætti ég að hringja í Kvennaathvarfið og segja þeim frá þessu? Á maður ekki að gera það? Djöfull er heitt!

Fimmtudagurinn 17. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. En ég sá hann í gærkveldi. Þegar ég var að loka búðinni. Hann var eitthvað að sniglast í kringum búðirnar í kring og var svalur, eins og alltaf. Gott ef hann var ekki líka vel í því. Of vel kannski. Hann fór eitthvað að reyna að tala við mig, en ég svaraði engu.
Dreymdi að ég væri að berja hann í köku. Endaði með því að sparka svo fast og svo oft í hausinn á honum að hann lá eftir með stóran skurð yfir ennið, tunguna úti og slefið lekandi út um allt. Hættur að anda. Opinberlega dauður!
Ég vaknaði kátur, hress og endurnærður! Svona á þetta að vera!

Föstudagurinn 18. júlí 2003
Hún kom áðan. Ein. Við spjölluðum saman í smá tíma. Það hefur ekki gerst áður. Glóðuraugað er búið að minnka helling síðan síðast. Hún er samt ennþá smá fjólublá. Það er búið að sauma skurðinn eða eitthvað álíka. Það er allavega komnir saumar í kinnina á henni. Hún stoppaði ekki lengi, en hún hló samt smá á meðan hún var hérna. Ég get verið soldið fyndinn stundum sko. Ágætis byrjun eins og einhver myndi segja.

Laugardagurinn 19. júlí 2003
Hún kom aftur í dag. Hún var ein aftur. Keypti 500 gr. af hakki. Sagðist vera að elda lasagna fyrir fjölskylduna. Ég gaf henni 10% afslátt. Hún var ánægð. Ég held að þetta sé allt að koma sko. Þarf bara smá tíma. Glóðuraugað sést næstum ekkert og hún er farin að brosa aðeins meira. Það er gott. Hún er sæt þegar hún brosir.
Hitabylgjan er ekkert að fara að hætta, RÚV spáði 25 stiga meðalhita næstu daga! Ég held að niðurfallið í kjallarnum sé farið að stíflast, það er geðveikt vond lykt hérna. Spurning með að kíkja niður við tækifæri.

Þriðjudagurinn 22. júlí 2003
Hún er ekki búinn að koma í nokkra daga. Viðskiptin eru farin að ganga eitthvað illa. Fólki er farið að fækka og fækka síðan kjallarinn byrjaði að lykta. Ég sagði fólki að þetta væri ekkert, en það setti bara á sig einhvern helvítis svip og fór. Ég er búinn að fara tvisvar þarna niður til að gá, en ég finn ekki neitt. Veit ekki hvað í andskotanum þetta lið er að væla um. Ég verð samt að gera eitthvað. Ég ætla að fara aftur niður og athuga hvort ég finni hvaðan þessi lykt kemur.
Var að skoða Fréttablaðið í morgun þegar ég rakst á tilkynningu frá Lögreglunni. “Hefur ekki sést síðan síðastliðið fimmtudagskvöld. Fólk sem getur gefið upplýsingar um hvar hann sé niðurkominn er bent á síma…”
Hann er horfinn! Djöfuls snilld! Kannski á ég séns núna?
Ætli ég hafi verið einn af þeim síðustu sem sáu hann? Það er samt örugglega allt í lagi með hann. Hann er pottþétt bara á fylleríi einhvers staðar niðri í bæ og hefur gleymt hvar hann á heima. Pottþétt!

Miðvikudagurinn 23. júlí 2003
Guð minn góður! Ég veit af hverju kjallarinn lyktar svona illa. Ég fór niður rétt eftir lokun í gærkveldi og reyndi að finna af hverju allt angaði svona. Ég meina, ég var búinn að leita allstaðar og hafði ekki fundið neitt, þannig að ég var nokkrun veginn viss um að niðurfallið hefði stíflast. Ég kemdi allt svæðið, fann ekki neitt og var á leiðinni aftur upp þegar ég datt um eitthvað. Ég stóð upp og hélt að þetta hefði verið steinn eða eitthvað. Ég þreifaði um á gólfinu í kringum mig og fann loksins steininn. Nema málið var að þetta var ekki steinn.

Þetta var skór!

Ég hljóp útí horn, náði í skófluna og byrjaði að grafa. Eftir smá stund kom í ljós gulur Bónuspoki og lyktin kom greinilega þaðan. Ég gróf í kringum pokann og lyfti honum upp. Pokinn var þungur, en ég náði að tosa hann uppúr.
Ég sturtaði úr honum á gólfið.
Það tók mig smá tíma að fatta hvað ég var að horfa á; Þarna var afhogginn fótleggur, hendi og læri.
Ennþá í fötunum.
Ennþá í djammgallanum.
Það var dauf áfengislykt í bland við fýluna sem annars kom uppúr pokanum. Ég rétt náði að snúa mér undan áður en ég ældi á gólfið.

Ég gerði þetta ekki. Ég sver það. Ég kom ekki nálægt þessu…

Fimmtudagurinn 24. júlí 2003
Hún kom í dag. Sagðist hafa verið veik og brosti þegar ég sagðist hafa saknað hennar. Hún keypti kjötfars fyrir 1000 kall og borgaði akkúrat. Ég spurði hana hvort að það væri búið að finna hann eða hvort það væru einhverjar hugmyndir um hvar hann væri. Hún sagði að hann væri ennþá týndur, en lögreglan væri að rannsaka málið á fullu. Shit!
Ég fór aftur niður í kjallara eftir lokun í dag. Prófaði að grafa soldið meira. Fann þrjá poka í viðbót. Kjötið skemmist ótrúlega hratt útaf öllum hitanum og lyktin niðrí kjallara er orðin viðbjóðsleg. Ég veit samt ekkert hvað ég á að gera við hann. Datt í hug að geyma hann inní frysti tímabundið til að minnka lyktina.
Ég er ekki búinn að púsla honum neitt saman, en ég held mig vanti samt allavega tvo poka enn.
Og ég er ekki ennþá búinn að finna hausinn.
Ég veit ekki hvað ég á að gera. Hvað ef einhver kemur? Hvað ef gaurinn með sendingarnar frá SS slysast inní frysti og sér pokana?

Ég verð að losa mig við þetta strax.
Hvað á ég að gera? Ég gerði þetta ekki!

Ég er hættur að geta sofið…

Föstudagurinn 25. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Skrapp í hádeginu niður í Byko. Keypti mér hakkavél. Stóra hakkavél. Ég veit hvað ég ætla að gera.
Vonandi hætta draumarnir núna.

Laugardagurinn 26. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Hakkavélin virkaði fínt. Ég tók fötin og henti þeim út með ruslinu. Er búinn að smygla út slatta af kjöti með hinum og þessum…

Sunnudagurinn 27. júlí 2003
Hún kom í dag. Keypti kjöt.

Man ekki hvernig kjöt…

Held að það hafi verið hreint.

Er samt ekki viss…

Draumarnir vilja ekki hætta!

Mánudagurinn 28. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Það var mikið að gera í dag. Ég er ekki búinn að sofa í tvo daga. Mér er kalt. Er ekki ennþá búinn að finna hausinn.
Fer strax eftir vinnu á hverju kvöldi og gref.
Finn samt ekki neitt.

Þriðjudagurinn 29. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Ég hljóp niður í kjallara þegar það var ekkert að gera til að grafa. Ég verð að finna hausinn. Ég verð. Ég var svo á fullu við að grafa að ég tók ekki eftir því að það var viðskiptavinur að bíða uppi. Ég verð að passa mig á þessu. Láta þetta ekki koma fyrir aftur. Viðskiptavinurinn var eldri kona. Hún var að kvarta yfir hárum sem höfðu verið í hakkinu hennar sem hún keypti hjá mér í gær. Ég baðst afsökunar og gaf henni nýtt hakk. Ég var ekkert búinn að hugsa útí þennan möguleika. En það er of seint núna.

Hann leyfir mér ekki að sofa!

Miðvikudagurinn 30. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Ég veit ekki hvað ég held þetta lengi út í viðbót. Ég get ekki meira. Kjötið er næstum allt farið út. Mér er illt í hausnum.

Fimmtudagurinn 31. júlí 2003
Hún kom ekki í dag. Löggan kom í dag að spyrja mig um hvort ég hefði séð hann um kvöldið. Einhver sagði að hann hefði verið að þvælast á þessu svæði. Ég sagði að ég hefði bara séð hann út undan mér og ég hafi ekki einu sinni verið viss um að það hafi verið hann. Þeir þökkuðu fyrir og bentu mér á að gera eitthvað í sambandi við lyktina.

Föstudagurinn 1. ágúst 2003
Ég gat ekki hamið mig í dag. Ég þurfti að fara niður í kjallara og grafa. Það er það eina sem ég hugsa um núna. Grafa. Það kom fleira fólk að kvarta yfir hárum í hakkinu þeirra. Ég gaf þeim öllum nýtt. Ég þaut niður í kjallara um leið og ég sá að enginn var á leiðinni og fór að grafa. Ég var næstum búinn að grafa upp allt kjallaragólfið. Það eina sem var eftir var gólfplássið sem var undir kælinum og þar eru flísar yfir. Ég fann fjórða pokann útí horni, rétt hjá stiganum. Hendi, brjóstkassinn, en enginn haus. Það eina sem ég var ekki búinn að grafa upp var kælirinn. Ég hljóp með pokann í annari og skófluna í hinni inní kæli og notaði skófluna til að banka í flísarnar, athuga hvort að eitthvað væri undir.
Á sirka miðju gólfinu kom tómahljóð. Ég beygði mig niður og ýtti við flísinni.
Hún var laus.
Ég tók hana upp.

Og þarna var hann.

Guð minn góður, þarna var hann. Ég tók um hárið og lyfti honum upp. Ég hélt honum fyrir framan mig og horfði í tóm svört augun. Það var breiður skurður yfir ennið. Storknað blóð allt í kringum hann.
,,Ég gerði ekki neitt…” hvíslaði ég til haussins.
Ekkert svar.
Allt í einu heyrðist þrusk.
Það var einhver að koma niður stigann.

Ég stóð grafkyrr.

Það var einhver í kjallaranum.
Ég sneri mér snöggt við og þarna stóð hún. Ljósa hárið flæddi niður bakið á henni, handtaskan hennar sveiflaðist í takt við göngulagið. Hún var brosandi og ætlaði að fara að segja eitthvað þegar hún sá á hverju ég hélt.
Hún fattaði ekki strax hvað þetta var. Allt í einu stækkuðu augun á henni og munnurinn fór að opnast og lokast eins og á fiski. Hún reyndi að segja eitthvað, reyndi að öskra, en ekkert hljóð kom út.
,,Ég gerði ekki neitt…” hvíslaði ég og steig fram. Hún bakkaði.
,,Ég gerði ekki neitt…” sagði ég aðeins hærra og rétti út hina höndina. ,,Komdu, þetta er allt í lagi.”
Hún bakkaði aftur og datt næstum um stigann. Allt í einu var eins og röddin hennar komst í gang. Hún gaf frá sér hátt væl sem hækkaði alltaf og hækkaði. Hún sneri sér við og byrjaði að reyna að klifra upp.
,,Ég gerði ekki neitt…” sagði ég hærra. ,,Bíddu, ekki fara.” Það skipti engu. Hún hafði komið undir sig fótunum og stefndi á hraðri leið upp. Vælið hafði þróast úr öskri yfir í grátur. Ég sleppti hausnum og klifraði upp á eftir henni. Hún var komin langleiðina upp þegar ég náði í löppina á henni.
,,Bíddu, vertu róleg, ég gerði ekki neitt,” reyndi ég að útskýra, en hún sparkaði í andlitið á mér svo ég datt næstum niður. Hún leit ekki við og hélt áfram að klifra upp.
Hún var næstum komin út um hurðina þegar ég náði að grípa í báðar lappirnar á henni. Hún datt og lá hálf í stiganum og hálf í dyragættinni.
,,Slepptu mér!” öskraði hún.
Tárin streymdu niður kinnarnar á henni. Saumurinn í kinninni hafði opnast.
,,Slepptu mér!” öskraði hún aftur og fór að veifa löppunum til og frá til að reyna að losa mig. Ég hélt mér í eins fast og ég gat, en allt í einu missti ég fótana og allur þunginn fór yfir á hana.

Hún hélt okkur báðum uppi í smá stund, eiginlega bara á nöglunum held ég, en svo missti hún takið.
Við flugum bæði niður.

Hún öskraði örstutt áður hún lenti á gólfinu.

Ég lenti á bakinu.
Hún lenti á höfðinu.

Ég missti meðvitund.

Það varð allt svart.

Þegar ég vaknaði aftur var ég ennþá niðri í kjallara.
Ég held ég hafi bara dottið út í nokkrar mínútur. Ég settist upp og var að drepast í bakinu.
Hún lá á gólfinu.
Það var blóð útum allt. Það kom úr hausnum á henni.
Ég tékkaði á púlsinum, reyndi að lífga hana við, en það gekk ekkert. Augun á henni störðu tóm útí loftið og munnurinn var hálfopinn.
Ég tók utan um hana og faðmaði hana að mér. Þetta mátti ekki enda svona. Við áttum að verða gömul saman og giftast og eignast krakka og vera hamingjusöm. Ég veit ekki hvenær ég byrjaði að gráta, ég fann bara tárin renna niður kinnarnar eins og foss. Þetta mátti ekki enda svona.

Að lokum stóð ég upp, tók undir hendurnar á henni og dró hana inní frystinn. Ég kom henni vel fyrir, með bakið upp við vegg og höfuðið til hliðar.
Það er þægilegast að sitja þannig. Hún hefði viljað sitja þannig. Ég veit það.

Ég veit ekki hvað ég á að gera núna.
Ég gerði ekki neitt, þetta var slys. Þetta átti aldrei að gerast.

Ég gerði ekki neitt…

Sunnudagurinn 3. ágúst 2003
Ég byrjaði á henni í dag. Að hakka, meina ég.
Ég rakaði hana frá toppi til táar þannig að það yrðu engin hár. Ég henti fötunum út í gám og faldi veskið hennar. Ég tók gemsann í sundur og henti honum í ruslið.

Ég svaf ekkert í nótt.

Þriðjudagurinn 5. ágúst 2003
Kláraði hana rétt í þessu.

Ég ældi tvisvar undir lokin.

Mér hefur aldrei liðið svona illa.

Miðvikudagurinn 6. ágúst 2003
Ég hef verið að spá hvort ég ætti að geyma hana. Fyrir mig, meina ég. Ég get skilið eftir pláss í frystinum. Þannig get ég alltaf munað eftir henni. Ég get geymt hárið í poka eða eitthvað. Þarf bara að passa að mamma og pabbi slysist ekki í það. Þau koma heim á morgun. Ég fór í gær og fyllti aftur uppí holurnar sem ég var búinn að grafa í kjallaranum. Þannig að þau taki ekki eftir neinu.
Löggan er ekki ennþá búin að koma. Kannski kemur hún ekki neitt. Þeir fóru að auglýsa eftir henni í fréttunum fyrir nokkrum dögum. “Allir sem geta gefið upplýsingar”-kjaftæðið aftur. Alveg eins og síðast.

Shit, ég er þreyttur.

Fimmtudagurinn 7. ágúst 2003
Mamma og pabbi komu heim í dag. Spurðu hvernig hefði gengið. Ég sagði vel. Pabbi kíkti í búðina rétt fyrir lokun. Spurði afhverju gólfið í kjallaranum væri svona ójafnt. Ég sagði að það hefði verið eitthvað vesen með niðurfallið og það hefði þurft að grafa eitthvað upp.

Lyktin er næstum farin…

Sunnudagurinn 10. ágúst 2003
Ég held að þetta reddist úr þessu. Löggan hefur ekki ennþá komið og jafnvel þó þeir myndu leita eiga þeir ekki eftir að finna neitt. Ég sé til þess.
Ég er farinn að geta sofið nokkurnveginn aftur. Samt ekki alla nóttina. Ég vakna ennþá, en ekki eins oft. Stundum finnst mér eins og einhver sé í herberginu með mér. Stundum er ég einn. Ég veit ekki hvort er verra.

Ég er búinn að ákveða hvað ég ætla að gera við hana. Þannig að enginn geti fundið hana.

Ég er svangur.

Ég ætla að fá mér eitthvað að borða…
"