Aldrei mun nokkur vera nokkrum eins og þú varst mér. Eins góður. Þótt ég verði 300 ára mun enginn skilja mig eins og þú. Aldrei aftur mun ég finna manneskju sem nær eins vel utan um allt sem ég er, klárar setningarnar mínar með augunum einum saman, hlær þegar mig vantar hlátur og leyfir mér að gráta þegar ég græt, án þess að telja sig geta leyst úr vandamálum mínum og bjargað mér frá hinum ógurlegu tárum. Aldrei verður til manneskja eins og þú.

Ég er ekki einu sinni hálf án þín. Þú varst óþreytandi við að leysa úr læðingi allar tilfinningarnar sem ég vildi ekki sýna. Þú slóst mig utanundir með sannleikanum eins oft og lengi og þurfti til þess að ég feisaði hann. Svo leyfðriðu mér að gráta umræddan sannleika þar til lá við vökvatapi. Þú skildir mig alltaf miklu betur en ég sjálf. Þú vissir hvers ég þarfnaðist á hverjum tíma. Í fimmtán ár hef ég ekki verið ein. Frá því að þú settist við borðið mitt í matsalnum fyrir fimmtán árum, höfum við verið tvö. Eitt.

Hér eftir verð ég aldrei nema ein. Síðustu fimmtán ár hafa liðið svo hratt að nú, þegar ég er orðin ein, hugsa ég með þess til hryllingi að ég gæti þurft að lifa í heil fimmtíu í viðbót. Ég veit nú þegar, áður en líkið þitt er farið að kólna, að hér eftir mun hver dagur vera jafnlangur og öll árin með þér.

Ég skammast mín fyrir tilfinningar mínar. En ég get ekki neitað þeim. Ég er reið út í þig. Ég er meira að segja svo bandsjóðandikolbrjáluð út í þig að ef þú værir ekki þegar dauður væri ég sjálfsagt búin að kyrkja þig. Hvers vegna? kannt þú að spyrja. Og ég skal segja þér það. Það er vegna þess, að þú, sem kenndir mér allt sem ég kann og sagðir mér allt sem ég veit, fórst án þess að kenna mér að vera til eftir að þú værir farinn. Hér sit ég eftir með allar tilfinningarnar og öll tárin, alla heiftina og hatrið, alla sorgina og samviskubitið og milljón orð sem ég kann ekki að púsla saman og ég er gjörsamlega ráðalaus. Í öllum orðaflaumnum, hefðir þú nú alveg mátt gauka að mér nokkrum litlum þumalputtareglum um hvernig ég ætti að gera þetta sjálf eftir að þú dræpir þig. Helvítið þitt.

Fyrirgefðu mér, ástin mín. Það er ekki líkt mér að tala svona, en á því sérðu líka hversu buguð ég er. Heimurinn er alltof stór og brjálaður fyrir mig eina. Allt er svo yfirþyrmandi. Og veistu hvað mér finnst verst? Við höfðum aldrei neitt nema hvort annað og það að þú hafir tekið líf þitt, segir mér aðeins það að ég hafi aldrei verið þér sáluhjálpin sem þú varst mér. að mér hafi ekki tekist að vera tilgangur fyrir þig eins og þú varst fyrir mig. Ég hef nefnilega alltaf haldið að við værum einhverskonar drifkraftur hvort fyrir annað. Tvær einmana sálir, öðruvísi en allar hinar, hvor þeirra líflína hinnar. Nú sit ég uppi með það að sambandið okkar hafi verið einstefnugata; ég hafi þegið, tekið, hrifsað, stolið, en aldrei gefið.

Ég er ringluð elsku hjartað mitt. Þetta eru of miklar sveiflur og of margar tilfinningar. Ég er hjálparlaus. Kann ekki að takast á við svona stóra hluti og þú veist það vel. Ég skil ekki hvernig þér datt í hug að kasta mér út í djúpu laugina, ósyndri og gjörsamlega hjálparvana. Hvernig á ég að takast á við þetta án þinnar leiðsagnar? Ég hef alltaf litið á það sem hræsni þegar fólk segir sjálfsmorð vera eigingjarnt úrræði. En ég veit ekki hvað annað ég get sagt núna. Ég er sjálf svo hrottalega egósentrísk að ég get ekki annað en látið mér detta í hug að sjálfsvígið þitt hafi verið kennsluaðferð. Að þú hafir hreinlega ákveðið kasta mér út í sjálfsnám í sundi, sjálfsbjargarviðleitni. Ég hlýt að vera geðveik. Að mér skuli detta svona lagað í hug. Nú vantar mig að þú sért hjá mér að greiða úr flækjunni, laga te, nudda á mér fæturna og hjálpa mér skref fyrir skref í gegnum tilfinningafrumskóginn sem ég er orðin rammvillt í.

Veistu engill, ég er þreytt. Mig verkjar í allan líkamann eftir allan grátinn. Sársaukinn í sálinni leitar út á við. Kertin mín eru brunnin upp, hvítvínsflaskan er tóm og orðin mín eru búin. Takk fyrir að þola mér að ég skuli vinda mig svona á þetta blað…

Sofðu vel ástin mín. Vittu alltaf að í miðri veröldinni er ein villt sál sem tapaði drifkraftinum sínum þegar þú fórst. Ég sakna þín.