Vetrarmánuður

Smásaga eftir Örn H. BjarnasonÞað var komið fram í desember og Eyþór var að vinna við mánaðaruppgjörið í bankanum. Veðrið var kalsalegt, en samt var hitinn í herberginu hálf loðmollulegur. Hann opnaði gluggann og umferðin þumlungaðist niður Laugarveginn og á gangstéttunum var úttraðkaður snjór. Fólk skaust út úr bílum sínum og inn í verslanir með hökuna ofan í hálsmálið á yfirhöfnunum og dálitla kryppu.
Hann hélt áfram að leggja saman hvern talnadálkinn á fætur öðrum og reyndi að bægja frá sér óþægilegum hugsunum, hugsunum um skilnaðinn fyrir rúmu ári síðan og svo konuna, sem hann hafði kynnst núna í byrjun nóvember. Sumt af því var líka óþægilegt.
Hann pikkaði hratt á reiknivélina og strimillinn hékk út úr henni eins og tunga á lafmóðum hundi og hann var að vona, að hávaðinn myndi yfirgnæfa hugsanir hans. En það var í honum einhver þreyta og endurminningarnar höfðu greiðan aðgang að honum, of greiðan og hann gerði hverja skekkjuna á fætur annarri. Það var ekki að sjá, að þetta væri þrettánda árið hans í þessu sama starfi.
En hvernig hafði þetta atvikast, þetta með skilnaðinn? Hann varð að komast til botns í því í eitt skipti fyrir öll. Þá fyrst væri hann frjáls maður og gæti byrjað upp á nýtt.
Alveg frá fyrstu tíð höfðu þau Stella elskað hvort annað. Þetta var ekkert slysahjónaband, en samt höfðu þau óafvitandi lagt grunninn að skilnaðinum nánast á sjálfan brúðkaupsdaginn.
Þetta hafði byrjað ósköp sakleysislega eins og þegar viðvaningur leggur litla upphæð undir í fjárhættuspili.
“Eigum við ekki að losa okkur við Fíatinn,” hafði hann sagt, “og fá okkur Cortínu?” Meinlausara gat það ekki verið. Þau uppgötvuðu það ekki fyrr en seinna, að þarna höfðu þau verið að þoka sér inn í ævintýrið um andskotann og litlaputtann. Áður en þau vissu af var þetta kauptu-kauptu samfélag komið inn á gafl og upp frá því höfðu þau setið uppi með þá boðflennu.
Við giftinguna hafði presturinn reynt að gera á þeim einhvers konar ónæmisaðgerð, sagði að þau skyldu ekki treysta um of á það, sem mölur og ryð fær grandað. En því miður, öðlingurinn sá hafði notað orðalag, sem var svo margtuggið, að það var nánast búið að glata allri merkingu. Og málrómurinn hafði verið eitthvað svo fjarri því dags daglega og það var eins og hann tryði því svona rétt mátulega sjálfur, sem hann var að segja. Hann minnti á leikara á hudruðustu sýningu.
“Verðum við ekki að fá okkur stærri íbúð?” hafði Stella sagt, þegar hún varð ófrísk af öðru barninu og þau keyptu sér eina fjögra herbergja uppi í Hlíðum og Stella hafði ekki talið það eftir sér að fara að vinna úti. Það var þá sem hún fékk sitt eigið tékkhefti og með bumbuna út í loftið hjálpaði hún við að spasla og mála alla íbúðina og leggja nýjar flísar á baðið. Hún var ekki sérhlífin.
Já, mikið höfðu þau elskað hvort annað og Stella var með sitt eigið tékkhefti og þau höfðu alltaf nóg um að tala. Ekki að vísu það sama og þegar þau höfðu hist í fyrsta skipti í tjaldferðalagi austur á Laugarvatni. Þá höfðu þau líka verið svo ósköp eitthvað ung og barnsleg. Hann hafði farið með ljóð fyrir hana og hún hafði gleypt í sig hvert orð með þessum stóru bláu augum sínum.
En ástin hafði dýpkað fannst þeim og þau hringdu í hvort annað minnst einu sinni á dag til þess að koma sér saman um hvort þeirra ætti að kaupa í matinn eða sækja strákinn á barnaheimilið. Um fastmótaða verkaskiptingu hafði ekki verið að ræða og þess vegna varð hver dagur fullur af óvæntum uppákomum.
Ef hann þurfti að vinna aukavinnu, þá keypti hún í matinn og sótti strákinn á barnaheimilið. Hún fór létt með þetta og þegar heim var komið vatt hún sig í tiltektir og að elda matinn. En þau hjálpuðust að við uppvaskið og hann sá um að baða litla fósa nema eftir að þau fóru að byggja raðhúsið. Þá útbjó hún handa honum nesti á morgnana og kaffi á hitabrúsa. Strax eftir vinnu fór hann út í hús að beygja steypustyrktarjárn og naglhreinsa spýtur og hræra steypu. Já, þau höfðu verið hamingjusöm og Stella taldi ekki eftir sér að sjá um uppvaskið líka og baða strákinn og koma honum í rúmið. Þau voru að búa í haginn fyrir framtíðina.
Snemma höfðu þau keypt sér tjaldgræjur, en hið eiginlega tómstundagaman þeirra var að skoða í búðarglugga og mikið fögnuðu þau því, þegar húsgagnaverslanir fóru að hafa opið á sunnudögum líka. Það fannst þeim framför.
Þau höfðu einmitt verið stödd inni í húsgagnaverslun, þegar Stella fékk hríðirnar og hann hafði brennt með hana upp á fæðingardeild og Stella hafði verið með verðlista frá húsgagnaversluninni í höndunum. Meira að segja svona á sig komin var hún að hugsa um hvernig hún mætti sem best prýða og fegra heimilið.
Þau höfðu eignast stelpu og lánið lék við þau og hann hafði látið innrita sig í viðskiptafræði í háskólanum til þess að hægt væri að koma barninu á vöggustofu sem allra fyrst. Eftir þrjá mánuði var Stella aftur farin að vinna.
“Þetta verður bara svona í nokkur ár,” hafði hann sagt, “þegar við verðum komin yfir erfiðasta hjallann geturðu hætt að vinna úti.”
Og stelpan var komin á vöggustofu og strákurinn var á barnaheimili. Samt höfðu þau einhverja óljósa hugmynd um, að þau ættu nú kannski líka að ala upp börnin sín. Þau vissu þó ekki almennilega hvort þeirra ætti að gera hvað. Átti hann að vera sá, sem skammaði krakkana sjaldan en duglega eða átti hann að finna að jafnt og þétt eins og móðir hans hafði gert? Þetta gátu þau ekki almennilega komið sér saman um og auk þess tímdu þau varla að skamma krakkana. Þau voru svo lítið með þeim.
Stöku sinnum fóru þau í sunnudagsheimsóknir til pabba hans og mömmu. Þetta var þó æ sjaldnar. Foreldrar hans voru af gamla skólanum. Faðir hans sá um fjármálin og móðir hans fékk matarpeninga reglulega og auðvitað fyrir fötum. Í staðinn lagði hún til vinnu sína. Hún virtist alltaf hafa verið ánægð með hlutskipti sitt. Þegar þau systkinin voru lítil hafði hún saumað allt mögulegt á þau og á haustin tók hún slátur og hún var með matjurtagarð. Hún réði því sem hún vildi ráða, en það var ekki mjög mikið utan hvað ætti að vera í matinn og hverju þau systkinin skyldu klæðast.
Stella ásamt hinni tengdadótturinni höfðu stundum verið að ávíta hana fyrir, að hún skyldi láta fara svona með sig, en hún lét þær ekkert vera að hræra í sér.
“Ég kann ágætlega við þetta svona,” sagði hún og þar með var málið útrætt af hennar hálfu. Í hennar augum hafði fjölskyldan ávallt verið þungamiðjan og innst inni vissu allir, að hún var þungamiðjan í fjölskyldunni. Hún leit á heimilið fyrst og fremst eins og hvern annan vinnustað og foreldrar hans höfðu aldrei gengið að því gruflandi hvort þeirra ætti að gera hvað. Faðir hans kom heim með ýsuna og móðir hans sá um að koma henni á matborðið. Þetta var kaup kaups. Ást og umhyggja, það var hvort tveggja ágætt, en alls ekkert nauðsynlegt til þess að halda heimilinu gangandi. Fyrir föður hans var heimilið hvíldarstaður. Hann átti sitt afdrep í hægindastól inni í stofu. Þar gat hann setið og lesið blöðin í rólegheitum eða velt fyrir sér atburði liðins dags á meðan hann tottaði pípuna sína.
En svo höfðu þau Stella orðið þreytt á þessum sunnudagsheimsóknum eða aðallega hann, því að eftir hverja slíka heimsókn skapaðist á milli þeirra ónotaleg togstreita.
“Baða þú nú krakkana í kvöld, Eyþór minn,” sagði Stella kannski eða hún flýtti sér að fylla ruslafötuna svo hún gæti sent hann út með hana.
Einu sinni hafði hann ætlað að svissa úr sígarettum yfir í pípu til þess að spara svolítið. Um kvöldið þegar hann kom heim settist hann í stól og fór að lesa í blaði og hann var í inniskóm.
“Æ, settu kartöflurnar yfir fyrir mig á meðan ég tek til á baðinu,” hafði Stella þá sagt og næsta kvöld reyndi hann að vera svolítið minna makindalegur, en samt fór hann eitthvað í taugarnar á henni. Það var eins og hún þyldi ekki að hafa hann í lausagangi.
Eftir nokkrar vikur kom hún sér svo loksins að efninu.
“Skelfing ertu eitthvað líkur honum,” hafði hún sagt.
“Honum hverjum?”
“Nú en honum pabba þínum.” Þetta var ögrunin. Eyþór mátti ekki líkjast föður sínum. Hann var af gamla skólanum, eins konar tímaskekkja með fyrir stríðs háttalag á miðri frystikistuöld. Nei, hann mátti ekki líkjast manninum, sem hann hafði haft fyrir augunum nær daglega öll sín uppvaxtarár og Stella mátti heldur ekki líkjast henni mömmu sinni. Það er að segja á kvöldin mátti hún líkjast mömmu sinni, en á daginn átti hún að vera nútímakona vel tilhöfð og gjaldgeng á vinnumarkaðnum.
Núna þar sem hann sat þarna á skrifstofunni fannst honum hann sjá þetta allt saman í miklu skýrara ljósi. Stella hafði nær öll þeirra hjónabandsár verið úrvinda af þreytu og hann líka. Á morgnanna paufuðust þau svefndrukkin hvort í sína vinnu með viðkomu á barnaheimilinu. Þegar þau loksins voru búin að koma öllu frá seint um síðir á kvöldin voru þau orðin of þreytt til þess að geta talað ærlega saman. Þau ræddu aldrei neina hluti alveg í botn. Stöku sinnum jaðraði þó við, að þau næðu sambandi hvort við annað. Það var þegar þau voru búin að vera nokkrar vikur í sumarfríi. Þá loksins höfðu þau náð að safna nægum kröftum til þess að geta rætt einarðlega um málin og líka rifist duglega. Það hreinsaði andrúmsloftið og á eftir voru þau hvort við annað næstum því eins og þegar þau höfðu hitst í tjaldferðalaginu austur á Laugarvatni. Augu hennar urðu aftur skærblá og ný von var komin í þau og þreytuslikjan horfin.
En svo tók rúmhelgi dagurinn við. Það var svo merkilegt með þessa víxla, að fyrr eða seinna féllu þeir í gjalddaga. Þau héldu áfram að brenna kertið í báða enda og þegar þau voru pirruð var ekki lengur hnakkrifist. Við tók eitruð þögn og togstreita og þaðan er stutt í lokauppgjörið. Þau sigldu hraðbyri til prestsins aftur og lögfræðings og borgardómara. Skilnaður var óumflýjanlegur.
Hann mundi svo glöggt hvernig þetta hafði verið, þegar þau stóðu á gangstéttinni fyrir framan borgardómara og búið að ganga frá skilnaði á borði og sæng. Þau litu vandræðalega hvort á annað og minntu á krakka, sem höfðu verið á tombólu allan guðslangan daginn og ekkert haft upp úr krafsinu annað en vítissóda og ræstiduft, afgangurinn tóm núll.
Fyrstu mánuðina eftir skilnaðinn hafði hann haft tilhneigingu til þess að kenna henni um hvernig fór. Svo tók við tímabil sjálfsásakana. Honum fannst hann vera sökudólgurinn. Seinna rann það upp fyrir honum, að þjóðfélagið spilaði ekki svo lítið inn í þetta. Tímarnir höfðu breyst frá því þau sjálf voru að alast upp og þau höfðu ekki náð að aðlaga sig þessum breytingum. Þau höfðu látið hneppa sig í fjötra. Smám saman hættu þau að kunna að gleðjast og lifðu stöðugt á einhverju fáranlegu fullorðinna manna plani, sáu ekkert nema það hagnýta. Að gera eitthvað sér til skemmtunar fannst þeim vera að dreifa orkunni út í veður og vind. Nei, þetta var engum að kenna eða kannski þeim báðum. Þau hefðu átt að sjá við þessu ofneysluþjóðfélagi, sem hafði frá fyrsta degi setið um þau líkt og óargadýr. Þetta þýddi ekki að þau hefðu átt að gefast upp í steypukassaleiknum, en þau hefðu átt að hoppa af þeirri hringekju, sem fór hraðast og upp á aðra sem var meira við þeirra hæfi. Hvaða vit var líka í þeirri lífsskoðun, að nauðsynlegt væri að vera búinn að koma sér þægilega fyrir um þrítugt? Þau höfðu farið fram úr sjálfum sér.
Þannig hafði þetta verið og nú var rúmt ár síðan þau skildu. Lengi framan af hafði Eyþór nær stöðugt verið haldinn einhverjum tómleika og einmanakennd. Hvenær sem færi gafst tók hann að sér aukavinnu. Það var eins og hann óttaðist að sitja uppi með sjálfan sig og þessi tilfinning hafði magnast eftir að Stella fór með krakkana vestur á Ísafjörð. Hún ætlaði að dvelja þar hjá foreldrum sínum um tíma.
En það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að vinna mikla aukavinnu og eitt laugardagskvöldið í byrjun nóvember hafði hann setið einn heima yfir sjónvarpinu. Hann hafði horft á einhverja bang-bang mynd og fengið sér í glas og þegar stillimyndin kom á skjáinn fylltist hann nær yfirþyrmandi einsemdartilfinningu. Hann hugsaði með sér, að best væri að skreppa aðeins út á Mímisbar og kíkja á lífið áður en hann færi í háttinn.
Klukkan var orðin hálf eitt þegar hann gekk inn á barinn og skvaldrið benti til þess, að fólkið þar hefði talsvert forskot fram yfir hann í drykkjunni og við flýgilinn stóð kona og var að suða í huggupíanistanum að spila uppáhaldslagið sitt.
Eyþór pantaði tvöfaldan Ballantine, en settist síðan við lítið, kringlótt borð úti í horni. Hann þekkti fáein andlit, en var ekki í neinu skapi til þess að hafa sig eftir félagsskapnum og hann sötraði viskíið hægt. Litla dansgólfið rúmaði varla alla sem þar vildu vera og þarna voru miðaldra hjón, sem báru sig þannig að í dansinum, að það líktist helst skopstælingu á diskódansi. Maðurinn var á svipinn eins og hann sæti á ólmu tígrisdýri.
Við næsta borð sat kona eitthvað innan við þrítugt og var að tala við aðra sér þó nokkuð eldri. Sú eldri virtist pínulítið hreif af víni og allt í einu snéri hún sér að Eyþór.
“Hvers vegna dansarðu ekki?” spurði hún.
“Ég kann það ekki,” sagði hann og þetta var í sjálfu sér engin lygi. Þau Stella höfðu ekki farið út að dansa nema rétt á meðan þau voru nýtrúlofuð og svo á árshátíðum í bankanum. Dans flokkaðist undir munað og þjónaði ekki hagnýtum tilgangi.
“Ég trúi því ekki,” sagði konan, “svona ungur maður.” Ungur maður, hafði hún sagt, en þetta var auðvitað ekkert annað en skjall. Sjálfum fannst honum hann vera hund, hund gamall og nú var konan komin að borðinu til hans.
“Þú átt að dansa maður,” sagði hún og benti þeirri ungu að koma líka. Henni virtist þvert um geð að færa sig, en samt gerði hún það.
“Ég er að sýna systurdóttur minni borgarlífið,” sagði sú eldri. “Hún býr austur á landi greyið og þar þekkir fólk ekkert annað en fisk og aftur fisk.”
Eyþór virti ungu konuna betur fyrir sér. Andlitsfall hennar var óreglulegt og dökkt hárið féll í sveig fram á ennið og hún hafði úðað það í fastar skorður. Það var eitthvað prakkaralegt í fari hennar og hún brosti með augunum og andlit hennar var óvenju lifandi. Þau fóru að spjalla saman og hún sagðist vinna í kaupfélagi, en vera hérna fyrir sunnan á tölvunámskeiði og hún hafði skakkan sjarma.
“Merkilegt að þú skulir ekki dansa,” sagði hún og einhvern veginn æxlaðist það svo að handarbök þeirra mættust á milli sætanna. Notaleg hlýja fór um hann og hún sagðist heita Björg og það rann upp fyrir honum, að í langan, langan tíma hafði hann lifað í einhvers konar tilfinningalegu einskismannslandi.
Seinna fór fólkið smám saman að yfirgefa tæmd glösin.
“Hvað segið þið um að koma heim til mín?” sagði frænkan þegar klukkan var að verða þrjú. “Ég á smá lögg af hvítvíni.”
Þetta hafði orðið úr en löggin dugði ekki nema rétt neðan í þrjú glös og frænkan snéri þessu upp í kaffidrykkju. Eyþór fannst að strangt til tekið væri þarna verið að hafa endaskipti á sólarhringnum, en það var kominn einhver smitandi gáski í báðar konurnar og hann gat ekki annað en hrifist með.
Svona hafði þetta byrjað og það var sprell í þeim öllum og klukkan fimm um morguninn fór frænkan að baka pönnukökur.
“Suður á Ítalíu hef ég séð kokk snúa pönnuköku við með aðeins einni úlnliðshreyfingu,” sagði hún og hún hélt um skaftið á pönnunni og vúbbs..hálfbökuð kakan hófst á loft. En þegar hún lenti aftur var hún ekki flöt eins og vera bar heldur samanböggluð og minnti á krumpinn vasaklút. Þau hlógu dátt öll þrjú og augu Bjargar ljómuðu og þau settust inn í stofu á meðan frænkan hélt áfram að æfa sig á þessum flugpönnukökum sínum.
“Ég sé að þú ert gift,” sagði hann og horfði á höndina á henni.
“Já,” sagði hún og hún fór að segja honum frá börnunum sínum þremur. Svipur hennar varð hlýlegur og mildur eins og hún saknaði þeirra nú þegar, þó að hún væri ekki búin að vera nema nokkra daga í bænum.
“Og maðurinn þinn, hvernig er hann?” spurði Eyþór.
“Ég þekki hann of vel til þess að geta lýst honum fyrir þér,” sagði hún og frænkan kom með hlaða af pönnukökum og skellti á borðið fyrir framan þau. Hún hellti meira kaffi í bollana og þau borðuðu pönnukökur fram til klukkan sjö um morguninn.
“Verður þú kannski samferða?” sagði Eyþór, þegar hann loksins bjóst til þess að kveðja.
“Nei, ég bý hérna,” sagði Björg og hún laumaði litlum miða í lófa hans. “Ætlarðu kannski að hugsa til mín þegar þú kemur heim?” bætti hún við. Þau voru komin fram að dyrum og hann ætlaði að kyssa hana, en þá kom frænkan blaðskellandi.
“Hérna fáðu þér þessa í nesti,” sagði hún og rétti honum samanrúllaða pönnuköku og leigubíllinn var nú kominn.
Á leiðinni heim sat hann í aftursætinu og borðaði pönnukökuna og honum fannst hann vera staddur inni í miðju einhvers konar framúrstefnuleikriti.
“Þú hefur verið leystur út með gjöfum,” sagði leigubílstjórinn og leit spotskur á hann.
Eyþór vaknaði ekki fyrr en um tvö leytið á sunnudeginum og á meðan hann var að snarla úr ísskápnum setti hann plötu með söngkonunni Cleo Laine á fóninn og síðan aðra með Errol Garner og svo Billy Holliday, sem hann hafði ekki hlustað á í háa herrans tíð. Hvað var eiginlega að honum?
Og þegar hann fór í vinnuna næsta morgun var sunnudagsblaðið enn í póstkassanum. Hann hafði ekki hirt um að lesa það, fannst eins og nýjustu fréttir myndu hrífa hann út úr þessum værðarlega draumi. Æ, þetta er bara eins og hver önnur flensa, hugsaði hann. Hún myndi morkna úr honum. En svo var kominn miðvikudagur og enn sá hann fyrir sér líflegt andlit Bjargar og þennan skakka sjarma. Miðinn hafði verið að velkjast í vasa hans og á honum var símanúmerið hennar og nú gat hann ekki lengur stillt sig um að hringja í hana.
“Mig langar að hitta þig,” sagði hann nær formálalaust og Björg tók strax vel í það. Þegar hann var búinn að leggja tólið á fór hann að hugsa um, að þetta var í fyrsta skipti í mörg ár, sem hann virkilega langaði til þess að gera það sem hann var í þann veginn að fara að gera. Það var í honum einhver tilhlökkun, sem hann var farinn að halda að hann ætti aldrei framar eftir að upplifa.
Um kvöldið höfðu þau svo farið í bíltúr saman. Fyrst óku þau inn fyrir Elliðaár, en síðan út í Örfirisey og Björg var eitthvað svo blátt áfram og opinská, að hann fór smám saman að opna sig líka. Hún hafði vakið traust hans, en hitt var þó meira um vert, að hún laðaði fram hjá honum sjálfstraust.
Hann var nú eiginlega farinn að ryðga í þessum bílabransa og gírstöngin var í gólfinu og hann kyssti hana.
“Ég held að við séum orðin brjáluð,” sagði Björg.
“Já, það er víst alveg áreiðanlegt,” sagði hann og setti í fjórða gír þannig að gírstöngin væri síður fyrir. Allar frumur líkamans voru samstilltar og hann klæddi sig úr jakkanum og frumurnar áttu sér aðeins eitt markmið og inn í höfnina sigldi skip.
Dálítið seinna snéri hann sér frá henni og skipið var lagst að bryggju og blágrænt, hlýtt myrkrið gældi við kaldann hafflötinn. Um stund hafði þeim tekist að láta eins og þau væru tvö ein í heiminum. Þetta var þá allur galdurinn, hugsaði hann, bara að kunna að látast vera tvö ein í heiminum af og til, nema hvað þetta gat auðvitað verið dálítið erfitt, þegar konan vann úti og varð að vera tipp-topp og mátti ekki líkjast mömmu sinni nema á kvöldin og eiginmaðurinn að naglhreinsa spýtur fram á nætur og um helgar líka.
“Bara þetta væri á björtu sumarkvöldi,” sagði hann og treginn í röddinni minnti á hlýja myrkrið.
“Já,” sagði hún og fór með höndina inn undir skyrtuna og gældi við bringuna. “Þú mátt ekki halda að ég sé lauslát,” bætti hún við.
“Ég held það alls ekki,” sagði hann. “Í mínum augum erum við einungis tvær manneskjur, sem vorum stödd í einhvers konar blindgötu og ég er svo sem enginn glaumgosi.” Hún leit snöggt á hann og hann hafði það á tilfinningunni, að hún vildi fullt eins að hann væri glaumgosi. Því fylgdi minni ábyrgð.
“Kannski við látum hjólin snúast,” sagði hann og setti bílinn í gang. Lífið var nú aftur orðið að heillandi leik og snjórinn lá dúnmjúkur yfir öllu og umvafði borgina líkt og værðarvoð.
Þau óku austur Miklubrautina og háhýsin í Breiðholtinu minntu á uppljómaða klakahöll og götuljósin vörpuðu hlýlegri birtu á bílana framundan. Þetta var sams konar notaleg birta og frá leslampa í stofunni heima hjá honum, þegar hann var unglingur og foreldrar hans farnir að sofa og líka systkinin og enginn til þess að ryðjast inn í dagdrauma hans. Aldrei hafði hann skynjað það jafn ljóst og nú, að fegurðin er í augum sjáandans.
“Ætlarðu að hringja í mig á morgun?” sagði Björg, þegar þau stönsuðu fyrir framan húsið hjá frænku hennar.
“Já,” sagði hann og kyssti hana á ennið.
Morguninn eftir vaknaði hann til notalegra tilfinninga og þær hurfu ekki, þegar hann fór að sápa inn syfjulegt andlitið og heldur ekki í morgunkulinu þar sem hann sat og beið eftir því, að bíllinn hitnaði. Og á leiðinni úr bílnum og inn í banka nánast dansaði hann eftir gangstéttinni og þó var fljúgandi hálka og skórnir hans voru sleipir. Já, Björg hafði fengið hann til þess að slappa af bæði þegar þau voru saman og eins þegar hann var einn.
Hversu hafði honum ekki fundist allt vera sér andsnúið og önugt aðeins fyrir nokkrum dögum síðan? Deildarstjórinn hafði beðið hann um að skrifa bréf á þýsku og það hafði verið að vefjast fyrir honum í marga daga. Hann hafði verið gjörsamlega innantómur. Nú veittist hins vegar allt svo auðvelt. Jafnvel setningar eins og þær geta orðið knosaðastar á þýsku lágu í augum uppi og hann hristi bréfið fram úr erminni í einni atrennu.
Björg var á námskeiðinu, en samt fann hann fyrir nálægð hennar. Hún hafði vakið hann til lífsins á ný og það var í senn yndislegt og sársaukafullt. Sársaukafullt af því að hann þekkti sjálfan sig naumast lengur.
Þau höfðu hist líklega sex eða sjö sinnum á einum mánuði og þennan tíma hafði Eyþór verið hamingjusamur. Áður hafði hann verið eitthvað svo hryllilega fastur í farinu líkt og áætlunarbíll á fastri rútu, þetta að borða, vinna, horfa á sjónvarpið og sofa. En henni hafði tekist að losa hann úr þessum vanaviðjum. Eitt kvöldið höfðu þau meira að segja farið í Þjóðleikhúsið saman.
Svo var það einn daginn, að hún hringdi til hans rétt áður en vinnutíma lauk.
“Ég þarf að tala við þig,” sagði hún.
“Er nokkuð að?”
“Ég segi þér það á eftir,” sagði hún og bíllinn hans var á verkstæði og Björg hafði sótt hann í vinnuna á bíl frænku sinnar.
“Eigum við kannski að koma heim til mín?” hafði hann sagt, en hún vildi heldur keyra eitthvað, fannst það kannski róa taugarnar. Þau óku fyrst suður í Hafnarfjörð, síðan út á Seltjarnarnes, en svo á gamla staðinn út í Örfirisey. Á leiðinni höfðu þau talað um allt milli himins og jarðar, allt nema það sem hún hafði ætlað að segja honum. Eyþór spurði hana einskis, vildi að hún fitjaði upp á því að fyrrabragði.
“Ég fer heim á morgun,” sagði hún, þegar hún var búin að stöðva bílinn, “stelpan mín er lasin.”
“Er það eitthvað alvarlegt?” spurði hann.
“Nei, en ég verð samt að fara heim.”
Eyþór leit út um hliðarrúðuna til þess að reyna að leyna því, að honum stæði langt frá því á sama um hana. Þegar þau Stella höfðu staðið á gangstéttinni fyrir framan borgardómara hafði hann komið sér upp þeirri lífsskoðun, að ef honum stæði á sama, þá gæti enginn sært hann. Úti í grænbláu myrkrinu blikkaði viti og þarna var skip að sigla út úr höfninni. Eyþór þurrkaði héluna af rúðunni til þess að komast enn lengra í burtu frá þeirri tilfinningaspennu, sem hafði magnast á milli þeirri, en hyldjúpt myrkrið rak hann til baka.
“Ég…ég, el…” Lengra komst hann ekki, því að nú lagði Björg vísifingurinn á munn hans.
“Ekki,” sagði hún og hann tók utan um hana.
“Bara að þú þyrftir ekki að fara,” sagði hann.
“Við vissum að þetta myndi taka enda,” sagði hún og sem snöggvast fannst Eyþór þau vera eins og tvær manneskjur, sem höfðu hitst á stríðstímum í rústum borgar og væru sitt frá hvoru landinu, hann frá landi óvinarins. Auðvitað vissu þau að þetta myndi taka enda, en þau höfðu lifað í núinu og látið hverjum degi nægja sína þjáningu.
Seinna ók hún honum heim og þau þögðu alla leiðina. Það var eins og þau vildu ekki eyðileggja þessar síðustu mínútur, sem þau ættu eftir að vera saman með einhverju masi um allt og ekki neitt.
“Ég mun alltaf hugsa um þig sem yndislega konu,” sagði hann, þegar þau voru komin upp að blokkinni.
“Þú veist hvað ég mun hugsa um þig,” sagði hún og þau lögðu kinn að kinn.
Svo opnaði hann bílhurðina og leit í augu hennar í síðasta sinn. Síðan lokaði hann hurðinni án þess að skella, en þó ákveðið. Út undan sér sá hann, að hún lét sig falla fram á stýrið, en aðeins í fáeinar sekúndur. Þá reisti hún sig upp og tók bílinn af stað. Hann gekk röskum skrefum að útidyrunum, vildi með því leggja áherslu á, að hann væri að ganga út úr lífi hennar í eitt skipti fyrir öll og hann heyrði að hún jók hraðann. Vélarhljóðið rann smátt og smátt saman við hávaðann frá öðrum bílum og loksins gat hann ekki lengur greint hvað var hvað.
Það var ekki fyrr en hann var kominn inn til sín, að hann gaf sig þreytunni og vonbrigðunum á vald. Hann lét sig falla í stól úti við glugga og hann var enn í frakkanum og blokkin við hliðina á blasti við honum köld og grá. Mikið hafði honum liðið vel í návist þessarar manneskju. Hún hafði kennt honum að hlæja svo dátt. Honum fannst að aldrei framar myndi hann hitta konu, sem gæti slökkt lífsþorstann í brjósti hans, slökkt og kveikt á ný, slökkt og kveikt.
Svona hafði þetta verið og Eyþór sat við skrifborðið í bankanum og snjórinn á gangstéttinni handan götunnar var úttraðkaður. Upprifjunin hafði verið sársaukafull og svitinn perlaði af honum. Þessi sársauki var þó betri en tilfinningadoðinn, sem hann hafði verið haldinn svo lengi. Lítil stúlka var með mömmu sinni að skoða í búðarglugga. “Nei, sko mamma, sko;” sagði hnakkasvipurinn á henni og mamma hennar var að reyna að tosa hana frá búðarglugganum.
Já, það var komið fram í desember, þessi blessaði jólamánuður, og Stella ætlaði að vera vestur á Ísafirði í allan vetur og hann átti ekki von á krökkunum í bæinn. Þó að stelpan væri orðin ellefu ára og strákurinn þrettán, leit hann enn á þau sem pínulitlu börnin sín. Og hvað eru jól án barna? Það eru ekki jólaljósin sem heilla svo mjög, heldur hitt að sjá hvernig þau endurspeglast í augum barnsins.
Eyþór var að vísu boðinn til systur sinnar á aðfangadagskvöld, en hún og maður hennar voru barnlaus eins og hann að sínu leyti. Það yrðu jól fullorðna fólksins, nóg að borða og rauðvín með matnum en síðan reynt að teygja samræðurnar fram undir miðnætti og öll því fegnust að komast í háttinn. Já, hann saknaði barnanna sinni, sérstaklega stelpunnar.
Og litla stelpan handan við götuna togaði í ermina á mömmu sinni og þetta snerti kviku innst í honum. Það rifjuðust upp jólin eins og þau höfðu verið á meðan hann var enn giftur og hann reyndi að bæla niður þessar tilfinningar. Karlmenn eiga ekki að finna til. Þeir eiga að bíta á jaxlinn eða glotta við tönn eins og Skarphéðinn í Njálsbrennu forðum.
En svo náði maðurinn, sem Björg hafði vakið til lífsins yfirhöndinni og hann táraðist. Við það komst á eitthvert samræmi í öllum líkamanum og honum var ekki sama lengur og hann var ekki bitur. Hann vissi að ef hann færi að líta á sjálfan sig sem eitthvert fórnarlamb þá var leikurinn tapaður. Og næstum eins og ósjálfrátt greip hann símtólið og valdi svæðisnúmerið vestur á Ísafirði og síðan númerið hjá foreldrum Stellu.
“Hvenær fer Sólrún í jólafrí?” sagði hann, þegar Stella var komin í símann.
“Eitthvað í kringum tuttugasta,” sagði Stella og rödd hennar var glaðleg. Frá því þau skildu hafði það farið í taugarnar á honum, ef hún var of ánægð í málrómnum. Nú var þessi barnaskapur horfinn.
“Heldurðu að hún vilji koma í bæinn og vera hjá mér um jólin og fram yfir áramót?”
“Ég býst alveg við því,” sagði Stella, “en viltu ekki bara tala við hana sjálfa.” Og Sólrún var fljót að koma í símann.
“Sæll, pabbi minn,” sagði hún.
“Mér var að detta í hug,” sagði hann hálf hikandi. “Heldurðu að þú viljir kannski koma og heimsækja mig í jólafríinu?”
“Já, hvort ég vil,” sagði hún.
Þegar hann var búinn að kveðja fann hann til léttis. Nú yrðu jólin ekki tómt skammdegismyrkur. Honum var ekki sama lengur og Björg var komin heim til sín og hann bar hlýjan hug til Stellu og barnanna sinna.