Tíminn hér í líkkistunni er ótrúlega lengi að líða. Allt líf sitt hefur maður verið negldur fastur innan í þessari bölvuðu líkkistu án þess að fá hreyft legg né lið. Er að undra að maður sé farinn að örvænta?
Herbergi, hús, bílar. Allt eru þetta líkkistur. Skólastofur, háhýsi; já heilu borgirnar, allt stútfullt af kviksettu bráðlifandi fólki. Ævinni eyðum við öll grafin lifandi, það er mold í hárinu okkar.
Eini raunverulegi munurinn á lífi og dauða er sá að fyrst þá er maður velur sér líkkistu til frambúðar er maður talin látinn.
Mér finnst sífellt þrengt að mér og tilhugsunin er að æra mig. Ég í hreinskilni sagt get ekki skilið hvernig mannfólkið, systkini mín, tórir heilar og hálfu ævirnar innan í þessum litlu kössum, starandi á lokið eða krafsandi í botninn, og þykjast geta kallað það líf. Án nokkurrar glætu, ekki einu sinni allrar minnstu rifu, bara eilíft myrkrið. Læst inn í líkamanum, hinni einu sönnu líkkistu, umkringd alheiminum, raunveruleikanum sem lokar okkur inni.
Er hægt að hugsa sér meiri þjáningu en þá að vera fastur á milli fjala og geta ekki haft samskipti við neinn. Maðurinn er félagsvera, það hlýtur því að svíða hann að geta aldrei, fastur inn í líkkistunni, snert í raun og veru annað fólk, heyrt í öðru fólki, talað við annað fólk, séð það. Hann reynir eftir fremsta megni, en alltaf er hann háður spýtnabrakinu umhverfis sig. Hann þykist tala og heyra, en hvað veit hann í raun við hvað hann hefur samskipti handan viðarins. Er þetta blekking? Og hver er þá að blekkja hvern?
Hvað ég þrái að spenna aftur lokið, krafsa mig upp á yfirborðið og fá að sjá himininn. Að fá að vita hvaða kirkjugarður þetta er sem að geymir okkur. Að fá, þó það væri ekki nema einu sinni, að líta yfir þúsundir leiða okkar undir háum trjám þar sem við hvílum öll í einstökum ófriði. Að fá að nota augun í fyrsta skipti. Að fylla lungun af hreinu andrúmslofti í fyrsta skipti. Lifa í fyrsta skipti.
Þetta er vitaskuld mjög öfuguggalega þrá, að vilja upp á yfirborðið á ný, því að auðvitað veit maður að sá sem er grafinn er ekki ætlað að snúa aftur. Samt.
Ætli þeir verði ekki bráðum orðnir þrír ártugirnir síðan ég var borin í þessa fjötra. Eftir að hafa upplifað einstaklega óspennandi æsku skildi ég að þetta væri væntalega ekki í fyrsta skipti sem ég fengið lifað ævi manneskju, líf mitt samanstóð af svo miklu meira en bara þeim fáu tíðindalitlu árum sem ég hafði þá lifað.
Áleitnar spurningar sóttu, og sækja enn, á mig. Hvernig komst ég hingað? Hvað er ég búin að vera lengi hérna? Og kannski allra helst; hversu miklu lengur verð ég fastur hér?
Ekki mikið lengur, ef ég fengi einhverju ráðið. Það er orðið dálítið langt síðan að hugmyndin um viðleitnina spratt í fyrsta sinn. Eilífðin er óskaplega leiðinlegur tími, en núna, eftir heila eilífð, held ég að þessi viðleitni hafi borið mig á endapunkt.

Gildismat hverrar manneskju ræðst af lífviðhorfum hennar. Ég er þess vegna löngu búin að henda mínu. Mitt eina lífsviðhorf er einfaldlega að haga seglum eftir vindi og deyja ekki út. Bíða eftir tækifærinu. Bíða og leita.
Selja eigur sínar, hús sitt, föt og gripi hæstbjóðenda. Selja vini sína, fjölskyldu, öll samskipti við aðra hverjum sem tilbúin er að kaupa. Selja getu sína, hæfileika, metnað og líkama. Ganga á fjöll. Skima en finna ekkert. Ganga niður. Fara á heiðar, sigla vötn, fljúga heimshornanna á milli. Ég var ekki að leita að sjálfum mér. Þvert á móti, sjálfur ég var það eina sem ég hafði, ég var að leita að öllu öðru.
Ég fann fólk sem kenndi mér ýmislegt um sálina. Lærði að trúa á hluti sem áttu að færa mér sannleika. Notaði aðferðir sem áttu að frelsa mig.
Mjög skemmtilegt allt saman en tilgangslaust. ÉG var alltaf fastur í sömu illalyktandi líkkistunni.

Og nú sem aldrei fyrr. Á bryggjusporðinum í heimabænum þínum situr einmana maður á hækjum sér og starir í gegnum gárurnar í myrkvað dýpið. Það er ég. Hugsanlega snjóar hann. Flauelsvart himinhvolfið er alsett aragrúa tindrandi stjarna. Eða það er skýjað. Himininn rauðglóir að minnsta kosti fyrir aftan mig, yfir ljósastaurunum í bænum. Í huga mér vildi ég óska þess að ég væri með kínverska sveðju og gæti klofið mig í tvennt, frá hvirfli niður í nára, og prílað upp úr kistunni.
Sjórinn má eiga mig, hann mun eyðileggja kistuna, leysa hana upp eins og sýra, og ég mun loksins verða frjáls. Dauðinn er manngert hugtak, og innihaldslaust eftir því. Ég var dauður fyrir; hversu miklu dauðari get ég orðið? Kannski svo dauður að ég yrði lifandi? Ég vildi að minnsta kosti ekki gefa upp öndina á elliheimili og verða jarðsettur sex metra ofan í jörðinni undir steini og leyfa sálinni að morkna innaní raunverulegri líkkistu.
Ó, nei.
Þess vegna stekk ég.
Þess vegna stökk ég.


µ