Verkefni sem ég gerði í íslensku. Ímyndið ykkur nologo ganga í skólann.





Já, það haustaði.

Og Halldór vissi það, þar sem hann barðist móti rokinu á leið sinni í skólann. Stöku sinnum fékk hann laufblað í andlitið þar sem vindurinn þyrlaði því í algjöru leyfisleysi framan í hann. Rétt eins og hann væri að hjálpa Halldóri að skýla andlitinu um leið og hann nísti hann með sínum köldu klóm.

Austurvöllur var ekki sjón að sjá. Það var eins og árshátíð árstíðanna hefði farið þar fram kvöldið áður. Allt var útbíað í laufblöðum, smágreinum, krömdum fuglaberjum og lauslegu rusli sem fauk þarna til og frá. Hreinsunardeildin var greinilega ekki að skipta sér af svona hlutum.

Þegar Halldór gekk áfram varð honum litið á gaflinn á Dómkirkjunni. Þar hafði einhver krotað fyrripart. Greinilegt að þetta lið hafði líka áhuga á skáldskap:

Þrýstilínur þekja veðurkort.
það er stórviðri á stöku stað.

Reyndar var þetta ekki alveg fullkomlega gert, en sniðug hugmynd engu að síður. Halldór var að hugsa um að ganga þarna fram hjá eftir skóla og botna vísuna. Ekki það að hann hafði nóg að gera í skólanum, þvert á móti. Hann var yfirleitt vanur að sofa fyrstu tvo tímana, sérstaklega þegar það var jarðfræðitími með myndglærusýningum þar sem þurfti að slökkva ljósin.

Skólinn leið. Halldór horfði út um gluggann, horfði á haustið silast framhjá eins og risastórt óveðursský.

Þegar hringt var úr síðasta tíma fór Halldór ekki strax heim til sín. Ekki strax. Þess í stað gekk hann í rólegheitum að Eymundsson og keypti sér tússpenna. Svo rölti hann að Dómkirkjunni þar sem skáldið mikla hafði párað á fyrripartinn.

Hann leit vandlega í kringum sig til að vera viss um að enginn væri á ferli. “Engar áhyggjur Halldór minn,” hugsaði hann, “veðrið sér til þess að enginn treystir sér út.”
Svo skrifaði hann botninn á sjálfa Dómkirkjuna í flýti. Brátt mátti sjá á gaflinum:

Þrýstilínur þekja veðurkort.
það er stórviðri á stöku stað.
Þenja öldur hafsins hafnarport
hendist þari upp á bæjarhlað.

Hann var meira að segja nokkuð stoltur af sjálfum sér. Þarna, fyrir allra augum á einni virtustu byggingu landsins var eitthvað eftir hann sjálfan. Rétt við hliðina á alþingishúsinu og Austurvelli, rétt eins og hann væri að gefa ríkisstjórninni og Jóni Sigurðssyni langt nef.
Svo gekk Halldór heim. Núna var strekkingsvindurinn í bakinu á honum sem létti óneitanlega sporin. Honum var sama um laufblöðin sem þyrluðustust í kringum hann og höfðu angrað hann fyrr um morgunninn.

Í veðurfréttunum um kvöldið brosti Halldór í kampinn þegar hann sá mynd af Íslandi eins og sebrahesti, umvafið óveðurskýjum og bláum tölum.

Hann brosti þó ekki næsta dag þegar sama fasta venjan endurtók sig; baráttan við morgunþreytuna, glýjuna í augunum og bölvaðan vindinn sem ætlaði sér ábyggilega að blása hann lengst út á haf.

En þegar hann gekk fram hjá þessum blessaða gafli á Dómkirkjunni sá hann nýjan fyrripart. Greinilega eftir sama höfund því skriftin var sú sama:

Köld er brá og kalin tá
kann ég frá að segja

Þetta var óborganlegt. Allt í einu var hann farinn að kveðast á við einhvern sem hann þekkti ekki baun. Um vont veður. Og þessar línur voru meira að segja með innrími! Hvernig í ósköpunum átti hann að botna þetta?

Hann átti enn þá tússpennann síðan í gær. Klukkan var enn þá ekki orðin átta þannig að Halldór hafði svo sem nægan tíma.

Seilist í töskuna og tekur pennann upp. Hugsar nokkra stund, og skrifar síðan:

vetrar þjá nú völdin flá
visna strá og deyja.

Skyndilega var bankað ákveðið í öxlina á honum. Hann lítur snöggt við, og er næstum því búinn að krota á nefið á lögregluþjóni.
Lögregluþjónninn lítur hvasst í augun á Halldóri og hreytir út úr sér: “Fyrirgefðu góði, en þetta er alvarlegt brot.”

“Jæja, það skiptir ekki miklu máli þótt ég fari ekki í skólann í dag,” hugsar Halldór og sýgur upp í nefið þegar hann situr í lögreglubílnum og horfir á laufblöðin þyrlast um Austurvöll.