Ég stari á lyklaborðið. Hef ekki litið augum af því síðasta hálftímann. Það er eins og lyklaborðið sé frumskógur, ókannaður og hver takki sem óleyst ráðgáta.

Ég get ekki skrifað, ég meina hvað á maður að skrifa? Það er ekkert sem getur lýst þessu…

Ég fékk skilaboðin í kvöld. Ég var að horfa á grínmynd með Rúnari og vorum að fagna 2 og hálfs árs afmæli okkar. Dagurinn hafði verið yndislegur, þótt veðrið hafði skyggt aðeins á það, og fyrri hluti kvöldsins hafði verið rólegur og notalegur. Ég sá ekki þegar þú sendir skilaboðin en tók eftir þeim stuttu áður en ég kvaddi Rúnar. Þetta voru skilaboðin sem ég hafði alltaf óskað að kæmu aldrei.

…Ranka við mér.
Heiða, reyndu nú að hugsa hvað þú eigir að skrifa! Þú sem ert svo vön að geta skrifað undir hvaða kringumstæðum sem er. En ekki í þetta skipti. Ég er gjörsamlega frosin í líkama og sál. Það er eins og þetta sé fjarlægur draumur. Nei, fjarlæg martröð sem ég vil vakna af!

En hvað er ég svo sem að kveina? Hvað með vinkonu mína? Hvað á ég að gera? Hún vill ekki tala við neinn sem ég skil vel, en ég er vinkona hennar og ætti að standa við bakið á henni undir svona aðstæðum.

Heiða, hættu að skæla! Reyndu að koma þessu niður á blað!

Elsku vinkona, ég samhryggist þér innilega vegna fráfall móður þinnar. Megi sál hennar hvíla í friði.
Mundu, ég verð alltaf til staðar.

Þín vinkona,
Heiða Hrönn


( Í minningu Jónu Sigurðardóttur 1948 - 2003)