Ferðaútvarpið

Smásaga eftir Örn H. Bjarnason


Raddir sem bárust að utan vöktu Gunnu. Ósjálfrátt og án þess að opna augun, þreifaði hún fyrir sér og fann að krumpinn svefnpokinn við hlið hennar var mannlaus.
“Það voru meiri andskotans lætin hjá þeim í nótt,” heyrði hún konurödd segja.
“Réttast væri að láta lögregluna hirða þau,” sagði önnur.
“O, þeir ansa manni ekki,” sagði hin, “þetta hyski virðist geta hagað sér eins og því sýnist.” Hún lá grafkyrr og við norðurgafl kofans voru kettir að andskotast í spýtnahrúgu. Þeir hvæstu og síðan fóru þeir að brýna klærnar á þurrum tjörupappanum sem kofinn var klæddur með að utan.
“Eigum við að gægjast inn?” var sagt.
“Heldurðu að sé enginn heima?”
“Nei, áreiðanlega ekki, þau eru yfirleitt komin út og á rand fyrir allar aldir.”
Raddirnar nálguðust og Gunna reyndi að gera eins lítið úr sér og hún gat. Það var rjálað við dyrnar og hrjúfur ullarbolur, sem hún var í næst sér, læsti sig um sveittan líkama hennar. Verk lagði úr handarkrika og fram í geirvörtur.
“En sá ódaunn,” sagði önnur konan.
“Og myrkrið.”
“Þetta er eins og hjá dýrum,” hélt hin áfram. Það marraði í gólfinu og þær voru komnar alveg inn að fótagafli. Gunna dró til sín fæturna, en um leið gall við ámátlegt öskur.
“Guð,” var æpt, “guð það liggur einhver þarna.” Síðan var ruðst og traðkað. Dyrnar skullu í vegginn og kofinn nötraði og Gunna nötraði líka. Hún reyndi að draga djúpt að sér andann, en það var eins og skjálftann ætlaði aldrei að lægja. Líkami hennar var þvalur og það var lykt af kogga þarna inni og sömuleiðis lykt af blautum tréspónum. Bölvaður svikarinn, hugsaði hún, bölvaður svikarinn hann Kjartan að laumast svona út án þess að láta hana vita. Hún leit í kringum sig og veitti nú ýmsu athygli, sem hún hafði naumast séð áður. Í gluggakistu, á málmplötu fyrir framan kolaofn og hreint um allt voru lítil, brún glös undan brennsluspritti. En frammi við dyr lá samankuðluð, þvæld pokadrusla. Það var eins og fyrirferðarmikil nærvera Kjartans hefði skyggt á þetta. Nú var hún hins vegar ein og hana langaði til þess að sofa lengur, sofa að eilífu, en vínið var rokið úr henni og svo voru það þessar nágrannakonur og kettirnir fyrir utan og hún gat ekki sofið.
Smám saman minnkaði skjálftinn og hún seildist eftir litlu ferðaútvarpi ofan á gólf. Þetta var snoturt tæki, þó það væri ekki nýtt og það glampaði á það jafnvel þarna í hálfrökkrinu. Hún fór beinaberum, óhreinum fingrum um það, lét vel að því eins og kornabarni. Síðan kveikti hún á því og samstundis fylltist kofinn af tónlist. Samræmið í hljómunum var í hróplegri mótsögn við ringulreiðina þarna inni. Togstreitan í andliti hennar þvarr og svipurinn varð mildari. Hún lét tækið frá sér á tóman appelsínukassa, en skreiddist svo fram úr. Hún var alklædd og strauk fatadruslurnar flötum lófa og reyndi að slétta úr mestu krumpunum. Svo faldi hún úfið hárið undir rósóttum skýluklút. Þegar hún ætlaði að reima strigaskóna, fann hún til svima. Ljósgeislar brutust í gegnum gisinn kofann og stóðu á henni eins og spjót úr öllum áttum, en skítugt gólfið virtist koma á móti henni. Hún spennti greipar fyrir aftan hnakka til þess að koma blóðinu á hreyfingu. Þegar hún hafði jafnað sig að mestu stauðlaðist hún fram að dyrum, en mundi þá eftir ferðaútvarpinu og snéri við eftir því.
Við dyrnar utanvert var forarvilpa og hún fikraði sig eftir plánka, sem lá þar yfir. Það var ekki auðvelt eins og hún var á sig komin, en samt hafði hún sig á þurrt að lokum. Andartak stóð hún kyrr í sömu sporum og andaði að sér fersku lofti. Framundan niðri við sjó blasti við húsið Höfði, þar sem Einar Benediktsson hafði átt heima, en að baki vissi hún af íllgjörnu augnaráði í þreytulegum andlitum. Konur í þunnum léreftskjólum að gægjast framhjá gardínum eða við húsgafl eða hjá þvottastagi.
“Held að kjaftanöðrurnar megi snuðra,” hugsaði hún og gekk niður Borgartúnið í áttina að sjónum. Þetta var silfurtær sunnudagsmorgun og hún þrýsti ferðaútvarpinu upp að snjáðri kápu sinni. Hún ætlaði að ganga í bæinn, enda átti hún ekki aura fyrir strætisvagni og þó svo hefði verið var óvíst, að hún hefði fengið far. Stöku sinnum leit hún til fjalla, en mest hafði hún augun á gangstéttinni eða fugli hnitandi hringi yfir flæðarmálinu.
Það leyndi sér ekki að það var sunnudagur. Prúðbúið fólk á morgungöngu, gljáfægðir bílar skínandi fallegir í sólskininu, spariásjóna á öllu. Jafnvel fjöllin handan við sjóinn voru ekki eins og þau áttu að sér, né grágrýtið í fjörunni. Allt var svo sunnudagslegt. Henni fannst hins vegar hún sjálf vera blettur á þessum fallega degi, falskur tónn inni í miðju lagi.
Helvítis þrjóturinn, hugsaði hún, honum skal ekki takast að stinga mig af. Hún hélt áfram göngunni og skóreimarnar slettust eins og dauðir ánamaðkar á gangstéttina og hana verkjaði í fæturna. Sársaukinn var næstum kærkominn. Hann fékk hana til þess að gleyma annars konar vanlíðan, vanlíðan sem hún vissi naumast upphaf né endi á. Vínið fékk hana líka stundum til að gleyma og sömuleiðis Kjartan, þrátt fyrir allan hrottaskapinn. En nú var hann týndur og hún búin að sofa úr sér vímuna og þá var sársaukinn betri en ekki neitt. Hugsun hennar var á tvístringi, einbeiting ekki til. Það var einmitt á slíkum augnablikum, sem fortíðin átti greiðastan aðgang að henni. Hún dróst saman í eina mynd og henni fylgdi kökkur í hálsi. Umgerðin: Fallegt heimili. Úti fyrir snotur garður. Sumarkvöld. Börnin í angandi hreinum náttfötum. Maður hennar að koma heim frá vinnu. Hún stóð við ísskápinn og hann gekk yfir til hennar og kyssti hana blíðlega á kinnina. Þetta sá hún, en í gegnum þessa mynd þröngvaði sér önnur. Hún varð þeim mun áleitnari, sem hana langaði meira til þess að bægja henni frá sér. Það var andlit á lögfræðingi. Miskunnarlaus skynsemi í bláum augum. Stórar hendur á gljáfægðu skrifborði. Óbifandi sjálfstraust. Fyrir aftan hann þykkar bækur í hillu og svo var það lykt af skjölum.
“Þú missir allan umráðarétt yfir börnunum,” hafði hann sagt, “það er einróma úrskurður Barnaverndarráðs.” Það var þegar hún sá fyrir sér þennan mann, sem hana langaði mest til þess að gleyma.
En hvernig hafði þetta allt saman byrjað, hvernig hafði hún getað sokkið svona djúpt? Hún sem hafði ekki bragðað áfengi fyrr en hún var komin hátt á þrítugs aldur og fyrst í stað hafði henni fundist það vont á bragðið. Já, hvers vegna? Aftur og aftur leitaði þessi sama spurning á hana. Hvers vegna? Hvers vegna? En það var eins og að hlaupa á steinvegg. Ekkert svar. Nú hafði hún aldrei orðið fyrir neinu sérstöku áfalli í lífinu, alltaf verið heilsuhraust og hún hafði fengið gott uppeldi. Og eiginmaður hennar fyrrverandi, hann var ekkert nema gæðin. Kannski var það í mesta lagi einhver óútskýranleg tómleikatilfinning, sem hafði gripið hana eftir að börnin voru byrjuð að ganga í skóla. Jú, þannig var það. En hún hafði bara fengið sér sérríflösku af og til. Hvað gat verið saklausara? En sérríið hafði breyst í koníak og koníakið hafði breyst í brennivín. Að lokum hafði hún algjörlega misst stjórn á drykkjunni. Og núna var svona komið fyrir henni, lífið ekki annað en tilgangslaust traðk. Hún var orðin útigangsmanneskja og stundum fannst henni hún vera stödd á myrkasta afkima tunglsins, en ekki sólríkri jörð.
Hún var nú komin ofan í Hafnarstræti og þar inn á Bryta. Verkakallar voru að maula flatbrauð og kleinur af bláum diskum. Þykkir kaffifantar huldu gráskeggjuð andlit. En ekki nema stutta stund, svo komu þau aftur í ljós, starandi augnaráð, þreytulegir drættir. Úti í horni sátu þrír menn. Rónaandrúmsloft var í kringum þá, en Kjartan var ekki á meðal þeirra. Við annað borð sátu ungir, galsafengnir strákar, þesslegir að hafa drukkið alla nóttina. Um leið og hún gekk þar framhjá, var togað í pils hennar og hún rykktist til.
“Er þetta ekki Tóta trunta?” spurði einn strákanna.
“Eða Indíána-Bogga,” sagði annar og þeir skelltu upp úr og hláturinn stóð kyrr í loftinu líkt og fallöxi.
“Viltu snabba?” sagði einn þeirra og gaukaði að henni óbrjótandi glasi.
“Gefðu henni heldur dry,” sagði annar, “við fáum víst ekki meira bland.” Vodkaflaska hófst á loft og hún fann hvernig málmbeltið skarst í munnvik hennar, en flöskustúturinn nam við kokið. Hún var of máttfarin til þess að veita viðnám.
“Það blæðir úr henni,” sagði einn strákurinn og hún fann eitthvað leka niður hökuna og ofan í hálsmál. Aftur fyllti hláturinn loftið.
“Láttu ekki helvítis kerlinguna klára allt vínið,” var sagt og flaskan tekin af munni hennar. Allt hringsnérist fyrir augunum á henni, stólarnir fóru upp á borð, en gráyrjóttur öldugangur þar sem steingólfið átti að vera. Verkamennirnir héldu áfram að maula bitann sinn og gerðu ekkert henni til hjálpar. Þeir höfðu líklega séð of mikið af þessu lífi eða kannski voru þeir dauðir, án þess búið væri að uppgötva það. Hún fann að fætur hennar voru að gefa sig, geðshræringin hafði hlaupið í hnésbæturnar. En allt í einu var tekið utan um hana og sinaberar hendur leiddu hana í burtu.
“Hvíldu þig smástund,” var sagt og maðurinn fór með hana yfir að rónaborðinu.
“Ungt fólk getur verið harðbrjósta,” sagði náungi með svartar, djúpar hrukkur í andlitinu, “það á eftir að uppgötva lífsþjáninguna.” Hún starði fram fyrir sig, en sagði ekki neitt. Útvarpstækið var enn í handarkrikanum og hún var hálf vaunkuð. Einn róninn gaf henni sígarettu, sem hann var ný búinn að kveikja í, en síðan héldu þeir áfram að rausa sín í milli og létu hana afskiptalausa. Þegar hún hafði jafnað sig að mestu stóð hún upp og staulaðist út.
Hún gekk út Tryggvagötu og vestur í Skeifu. Þegar þangað kom opnaði hún dyrnar gætilega. Þarna mætti henni samskonar andrúmsloft og úti á Bryta, nema kannski ívið meiri súrlykt. Rónar voru þarna og sömuleiðis verkakallar og svo stráklingar að þykjast vera komnir í hundana. Hún skimaði í kringum sig, en hvergi sá hún Kjartan. Vonsvikin lét hún aftur dyrnar og rölti niður á hafnarbakka, framhjá kössum og tunnum. Bjórdós hallaði undir flatt á sléttum sjónum, en svolítið utar gúlpaði olíumettaður strigapoki upp fyrir vatnsborðið. Hún fór að hugsa um, að drukknun hlyti að vera slæmur dauðdagi, fljóta upp eins og þessi pokadrusla og vitin full af óþverra. Hún gekk nú áfram norður hafnarbakkann og framhjá kolakrananum. Jörðin var hörð viðkomu og skugginn frá krananum teygði sig í áttina til hennar líkt og hrammur á risaeðlu. Það var óhugur í henni og ef fætur hennar hefðu ekki verið svona sárir, hefði hún tekið á rás, hlaupið undan skugganum, undan sjálfri sér, lífinu, öllu. En hvað var þetta? Henni sýndist Kjartan vera þarna framundan. Jú, það var ekki um að villast, kallóþverinn sat þarna á steinbrík ásamt nokkrum öðrum rónum. Hún fann lífskraft leggja á móti sér og líka hrottaskapinn og henni leið næstum vel.
“Hvaða þvælingur er eiginlega á þér?” spurði Kjartan hranalega þegar hún var komin til hans. Hinir rónarnir pírðu upp í sólskinið, blásvartir í framan og þegjandalegir.
“Nú, má ég ekki vera hérna eins og þú?” sagði hún.
“Þarftu endilega að elta mig hvert sem ég fer?” sagði hann, en hún ansaði engu, leit einungis á blámennina eins og þaðan væri samúðar að vænta.
“Lánaðu mér hárklemmu, Gunna mín,” sagði einn þeirra.
“Gjörðu svo vel ef þú finnur einhverja,” sagði hún og beygði höfuðið fram. Blámaðurinn sótti klemmu í flókann undir skýluklútnum, brá henni utan um þvældan sígarettustubb og kveikti í. Hann setti totu á munninn og stubburinn næstum hvarf á milli sólþurrkaðra varanna. Rammur tóbaksþefur eins og hann verður sterkastur á fastandi maga, barst að vitum hennar.
Seinna byrjuðu rónarnir að tínast í burtu og að lokum voru þau aðeins þrjú eftir, Gunna, Kjartan og einn til.
“Hvaða apótek er opið núna?” spurði Kjartan.
“Ekki veit ég það,” sagði hinn, “enda fæ ég hvort eð er hvergi afgreiðslu lengur.”
Gunna kveikti á útvarpinu. Kirkjutónlist og söngur heyrðist þaðan og svo tón úr presti og ræðustúfur. Málmhljóð var í rödd prestsins.
“Slökktu á þessu gargani,” sagði Kjartan pirraður, “ég er að hugsa.” Hún hlýddi orðalaust.
“Gunna, hvar er opið núna?” spurði hann svo.
“Ég veit það ekki.”
“Nei, þú veist aldrei neitt, heimskinginn þinn,” hreytti hann út úr sér. Hún tók að fægja útvarpið með kápuerminni, en sagði ekki neitt. Veðrið var kyrrlátt og handan við sjóinn hímdu dimmblá fjöllin. Lítill bátur sigldi inn um hafnarmynnið. Það gáraði út frá honum og vélarhljóðið sagði tugg-tugg. Að öðru leyti heyrðist ekkert og kyrrðin var næstum óþægileg. Allt í einu gerði Kjartan smell með fingrunum.
“Nú datt mér snjallræði í hug,” sagði hann, “ég veit um náunga inni á Grettisgötu, sem á alltaf nóg af brennivíni. Við förum með útvarpið og stömpum því fyrir einni flösku.” Gunna varð skelfingu lostin og hún fór öll í keng utan um tækið.
“Nei, ekki Kjartan,” sagði hún.
“Hvað er að þér manneskja, við leysum það út strax á morgun.”
“Ekki fara fram á þetta við mig,” sagði hún með grátstafinn í kverkunum.
“Nú tækið er ekki glatað þó að við setjum það í pant.”
“Ekki,” sagði hún biðjandi.
“ Jæja, þá stingum við hana bara af,” sagði Kjartan við hinn rónann.
Gunna fann eitthvað herpast innan í sér. Það var eins og lungun væru að þrengja sér út á milli rifja. Dauníllur kofinn birtist henni…krumpinn svefnpoki, koggaglös og svo augnagotur úr öllum áttum. Ekkert var eins hryllilegt og tilhugsunin um að þurfa að fara heim og hírast þar alein allan daginn.
“Kvikindið þitt,” öskraði hún, “þú ert djöfull.”
“Æ, hættu þessu kvaki.”
“Ég veit þú svíkur mig, ég fæ það aldrei aftur.”
“Jú það sver ég.”
Blámaðurinn fylgdist annars hugar með því sem fram fór, en lagði ekkert til málanna.
“Treystu mér,” sagði Kjartan og tók þétt um axlir hennar, “treystu mér.”
“Sverðu það til guðs?” sagði hún.
“Til guðs,” sagði hann og hún rétti tækið í áttina til hans, en augu hennar hvörfluðu langt, langt út yfir sléttan sjóinn. Þau gengu af stað og hún hélt í Kjartan, en blámaðurinn kom í humátt á eftir.
Það var langt síðan veðrið hafði verið svona gott. Grasið á Arnarhólstúni var hvanngrænt og styttan af Ingólfi Arnarsyni var líka græn. Litlir sölustrákar hlupu um með dagblöð undir hendinni og sumir voru í stuttbuxum.
Leiðin inn á Grettistgötu var að mestu upp í móti og Gunna þreyttist fljótlega. Hún bað Kjartan um að hægja á sér, en hann ansaði því ekki og hún varð að reyna að dragnast með. Loks voru þau komin alla leið. Kjartan leiddi þau inn í tvílyft steinhús og þar ofan í kjallara. Þau komu að dyrum, sem var öll útspörkuð að neðan, en í mannhæð var lítið gægjugat. Kjartan bankaði létt á dyrnar og eftir andartak birtist gæðalegt andlit í gættinni. Það var engu líkara en að maðurinn hefði átt von á þeim.
“Hvað get ég gert fyrir ykkur?” sagði hann smeðjulega.
“Ég er hérna með lítið ferðaútvarpstæki,” sagði Kjartan og Gunna kunni ílla við auðmýktina í röddinni, “geturðu ekki látið okkur hafa eina flösku út á það?” Maðurinn leit eftir ganginum í báðar áttir, en hleypti þeim síðan inn fyrir. Herbergið var dimmt og loftlaust, birtan ekki önnur en sú, sem hafði það af að brjótast í gegnum rykuga gluggaboru.
“Næst Keflavík á það?” sagði maðurinn.
“Já, það næst allt á það, bæði Keflavík og Reykjavík,” sagði Kjartan.
“Hvað viljið þið?” spurði maðurinn.
“Brennivín er ágætt,” sagði Kjartan. Kallinn skreið þá undir dívan og Gunnu fannst leiðinlegt að sjá svona elskulegan mann á fjórum fótum. Eftir nokkurt umstang kom hann aftur undan dívaninum.
“Ég vona að þið komið fljótt og leysið tækið út,” sagði hann og rétti Kjartani flösku, “annars neyðist ég til að selja það.”
“Já, strax á morgun,” flýtti Gunna sér að segja. Maðurinn brosti vingjarnlega og fylgdi þeim til dyra, en hvarf síðan aftur inn í myrkrið sitt.
Það var ekki fyrr en þau voru komin út á gangstétt, að Gunna áttaði sig til fulls á því hvað gerst hafði. Og þegar flaskan var opnuð hafði hún naumast lyst á víninu. Augu hennar voru kvíðaskyggð og hvítan rann allt að því saman við sjáaldrið. Þau minntu á tvær litlar biðukollur. Lífið virtist geta fjarað úr þessum augum jafn skyndilega og smá snáði blæs svifhárin af biðukollunni eitthvað út í bláinn að gamni sínu. Þau gengu niður götuna og framandi tilfinning sótti að henni. Allt varð svo óraunverulegt, húsin, trén í görðunum og jafnvel Kjartan. Sem snöggvast var eins og tengsl hennar við þessa veröld væru rofin, allt svo óhugnanlega langt í burtu. Hún tók í Kjartan og þrýsti sér upp að honum, en það dugði ekki til.
“Sverðu það, fæ ég útvarpið aftur?” sagði hún og átti erfitt með að leyna angist sinni.
“Hvað, treystirðu mér ekki?” sagði hann og þau héldu áfram göngunni.
“Jú,” sagði hún, “jú ég treysti þér.” Rödd hennar var myrk og orðin hurfu máttvana út í þennan yndislega sunnudag.