BRENNIVÍNSHATTURINN

eftir Hannes Hafstein

Kvöld eitt í septembermánuði undir rökkur gekk unglingsmaður suður hjá spítalanum á Akureyri. Það hafði verið gott veður um daginn, kyrrt og hlýtt, en seinni partinn fór að syrta til, og um þetta leyti var farið að slíta úr honum nokkra dropa, og var mjög rigningarlegt. Fáir voru úti, en nokkrar stúlkur voru þó nýlega gengnar suður fjöruna, og þó að þær væru allar með stór sjöl, hafði samt sést, að þær voru prúðbúnar, því að þær höfðu ekki getað stillt sig um, þótt dálítið ýrði, að lyfta við og við frá sér sjölunum að framan, eins og stúlkum er títt, einkum þegar þær eru í sparifötunum, til þess að hagræða fellingunum á brjóstinu, sjálfum sér til hæginda og piltunum til ánægju. Allt var kyrrt, nema ómur barst frá Bauk. Þar voru auk annarra gesta nokkrir danskir hásetar af haustskipunum að hressa sig, og tóku sér fleiri og fleiri bjóra, eftir því sem þeir sögðu af ergelsi yfir því, hvað bjór gæti bæði verið dýr og vondur í einu.
Maðurinn gekk hægt suður fjöruna, hugsandi, og steig þungt. Hann var að sjá liðlega tvítugur, meðallagi hár, en þrekinn, dökkhærður og rjóður í andliti, kjálkabreiður, og tuggði tóbak. Hann var í nýrri, þykkri, tvíhnepptri duffelstreyju og hafði aðeins miðhnappinn hnepptan og mikið í vösunum. Flibba hafði hann og rauða blöðku með glertölum og gráleitar buxur utan yfir vatnsstígvélum. Það var auðséð, að þetta voru ekki hvunndagsfötin, enda var hann á leiðinni í heimboð, á sömu leiðinni og stúlkurnar höfðu verið, því að svo var mál með vexti, að frænka hans ein suðrí “Fjörunni”, gömul kona, ekkja eftir pakkhúsmann einn, hafði boðið nokkru ungu fólki, vinnukonum og ungum piltum til sín um kvöldið, og átti að dansa, hafði hún sagt.

Það var ekki að sjá, að hann hlakkaði mikið til kveldsins, því hann stansaði í öðru hverju spori og hleypti brúnum, svo að stóru gráu augun urðu kringlótt og störðu vandræðalega upp í loftið. Við og við hugði hann niður eftir sér og strauk hárið upp undir húfuna. Það var auðséð að hann átti eitthvað að vinna, sem hann treysti sér ekki sem best til. Enginn skyldi þó halda, að hann hafi verið að kvíða dansinum, þó hann væri á vatnsstígvélum; honum datt ekkert slíkt í hug; reyndar var hann ekki vel liðugur í snúningunum, né fastur í taktinum, en hann hafði aftur nóga kraftana til að halda stúlkunum, og ein hafði jafnvel sagt honum, að hann dansaði skrambi vel polka, en sem sagt, hann var um engan dans að hugsa; það voru alvarlegri hugsanir, sem hreyfðu sér í honum.

“Skyldi ég endilega þurfa að gera það í kveld, sagði hann hálfhátt. Já, það var víst ómögulegt að komast hjá því, ”Grána“ átti að fara í vikunni, og með henni ætlaði hún að sigla. Það var annars merkilegt, að frænka hans skyldi ekki vilja hjálpa honum neitt öðruvísi en svona, að bjóða þeim saman. Hún vildi ómögulega spyrja stúlkuna að þessu, sem hann hafði beðið hana, og stóð fast á því, að hann skyldi gera það sjálfur. Það kunni ekki góðri lukku að stýra. Henni sagði víst ekki vel hugur um þetta. Og hann fann að vísu fullvel, að það var mikið í ráðist að ætla svona upp úr þurru að fara að biðja innistúlku hjá kaupmanni, og hvað þá þegar hún var annar eins kvenmaður eins og hún Kristín Guðbrandsdóttir, sem var uppáhaldið allra pilta, orðlögð fyrir, hvað hún væri kát og fjörug, og jafnvel skáldmælt. En það var auðvitað ekki svo lítil bót í máli, að hann sjálfur var Magnús Ásmundsson, sonur eins ríkasta sjávarbóndans út með ströndinni, og átti ekki svo lítið undir sér, og það hafði líka mörgum stúlkum þar útfrá litist nógu vel á hann. Aftur varð því ekki neitað, að hún hafði lært marga heldri manna háttu og reynt margt, og var svo fín, og ætlaði nú jafnvel að sigla. Hún var svo sem ekki barna meðfæri, ekki síst úr því hún var talsvert eldri en hann, komin undir þrítugt. En hann var heldur ekki svo slakur, búinn að vera 3 ár í hákarlalegum og stóð til að verða formaður, því nú var hann að lesa sjómannafræði, og svo var hann kominn í reikning hjá öllum kaupmönnunum - það var heldur ekki svo ómannlegt.

Við þessa hugsun stansaði hann, dokaði svolítið við, hugsaði sig um, sneri sér svo á hæl og hálfhljóp út í kaupstaðinn aftur.

Eftir góða stund kom hann fyrir hornið á ný. Hann gekk miklu rösklegar en áður og vingsaði handleggjunum meira, og hafði nú spánnýjan, mjög barðastóran hatt á höfðinu, aftan í hnakkanum eins og sjómönnum er títt. Hann hafði lengi langað til að eignast svona hatt til þess að sýna það svart á hvítu, hvort hann var ekki maður með mönnum, og hvenær þurfti hann að sýna það, ef ekki nú. Þess vegna hafði hann þegar gripið tækifærið, þegar hamingjan blés honum í brjóst, að taka hatt út í reikninginn.

Það var reyndar búið að loka búðum, svo hann hafði orðið að sækja Eyjúlf búðarmann vin sinn upp á Bauk til að opna - Magnús lofaði honum 5 glösum af púnsi fyrir ómakið - og hann hafði orðið að fara til faktorsins að fá lykilinn, og allt þetta hafði tekið tíma. En það hafði haft sín áhrif, nú leit hann allt öðruvísi á málið, eftir að hann fékk hattinn, og þegar hann var kominn dálítið suður fyrir spítalann, tók hann hann af sér, strauk hann brosandi með erminni og setti hann aftur betur á sig, alveg aftur í hársrætur. Nú var hann ekki svo smeykur um, að þeir væru margir sleipari en hann. Þetta var í rauninni enginn vandi. Það var eiginlega hún, sem var bráðskotin í honum, og það að minnsta kosti fyrr en hann í henni, eftir því sem Eyjúlfur búðarmaður hafði sagt honum um kveldið góða, og hann fann enga ástæðu til að rengja Eyjúlf, sem þekkti hana svo vel.

Hann mundi eftir því kveldi. Það var ekki nema rúm vika síðan; þeir höfðu setið saman í litlu stofunni á Bauk, og hafði Magnús verið að gefa honum púns. Hann hafði þá enn ekkert af ástum að segja, því hann hafði verið Kristínu samtíða á Akureyri allt sumarið svo, að hann hafði ekki fundið til neins óvanalegs. Hafði hann nú gaman af að láta Eyjúlf segja sér allrahanda. Meðal annars sem á góma bar hafði Magnús svo farið að nudda honum um nasir, að það væri víst eitthvað á milli Kristínar og hans, því hann hafði séð þau í einhverju flangsi uppi á ullarlofti um morguninn. ”Nei, það er nú annar sem hún hefur hugann við, Magnús minn, hafði hann þá sagt svo undarlega alvarlegur í málrómnum allt í einu; síðan gerði hann ekki annað það sem eftir var kvelds en að útmála þá fjarskalegu ást sem hún hefði á þessum manni, og hvað hún tæki sér kulda hans nærri, og hvernig hún ekki væri alveg með sjálfri sér út úr þessu öllu saman, og loksins trúði hann Magnúsi fyrir, að þessi maður, sem hún elskaði svona, væri hann sjálfur, Magnús.

Alla nóttina dreymdi hann svo Kristínu, daginn eftir sá hann, hvað hún var dæmalaust falleg, og daginn þar á eftir var hann orðinn bálskotinn í henni. En nú skyldi allt verða gott, hugsaði hann með sér. Hann þyrfti aðeins að segja eitt orð, - svo væri allt búið, - og búið með siglinguna líka, fyrst um sinn. Ósköp skyldi hann verða góður við hana. Fyrst skyldi hann koma henni fyrir hjá foreldrum sínum, ef hún vildi fara úr kaupstaðnum, og hún skyldi ekkert þurfa að gera. Svo skyldi hún fá fullan rétt yfir honum Gráskjóna litla, sem var besti hesturinn út með ströndinni, og enginn kvenmaður enn hafði fengið að koma á bak. Svo gætu þau riðið út á sunnudögunum - kannski líka dansað, fyrst henni þætti það svo gaman, í öllu falli gæti hann útvegað henni harmóníku.

Allt í einu stansaði hann ósjálfrátt, gretti sig og þreif upp undir hattinn og klóraði sér í höfðinu. Já, “harmóníku”. Ýmislegt, sem honum hafði ekki komið til hugar þessa daga, síðan hann hafði talað við Eyjúlf, raktist nú upp fyrir honum við þetta orð. Hvernig hafði hann farið að gleyma helv . . . honum Madsen beyki með harmóníkuna og pípuhattinn? Hann sem hafði setið á hverju kveldi, meðan hann var á Akureyri, niðrí beykishúsinu, og gaulað á harmóníku fyrir Kristínu, oft eina. Nú mundi hann, hvað Kristín hafði brosað blítt til hans og hvernig þau oft höfðu verið að pukra eitthvað saman. Nú mundi hann, hvað hann sjálfur hafði sagt um þau þá, og seinast fyrir svo sem þrem vikum, þegar fréttist, að Kristín ætlaði að sigla, hafði hann sagt: Ætli hún ætli ekki að elta hann Madsen sinn tetrið, svo sem hann hafði nú kveðið á.

Það skyldi þó aldrei vera rétt, hugsaði hann. Helvítis danskurinn. Hann gekk nokkur spor auðsjáanlega í mestu vonsku. Svo fór að smáhýrna yfir honum aftur: Nei, það er ómögulegt, að það hafi verið trúlofun eða svoleiðis, því ég sá hún var næstum eins blíðleg við hina beykjana, og marga búðarmenn líka, og hún getur þó ekki verið trúlofuð þeim öllum saman, hugsaði Magnús með sér. Síðan hélt hann í huganum heilmikla lofræðu yfir henni, að hún væri svo glaðleg og innileg við alla jafnt, af því að hún væri svo góð og blíð í sér. Þó fékk hann enn ofurlítinn sting í hjartað. Hvernig gat þá staðið á því, að hún hafði aldrei sýnt honum neina blíðu, fyrst hún annars var góð við alla og ekki síst, fyrst hún elskaði hann svona heitt. Hún hafði meira að segja verið byrst við hann oft fyrrmeir, þegar hann kom inn í beykishúsið. En þegar hann var búinn að ganga dálítinn spöl var hann búinn að sansa sig á, að það væri náttúrlegt og hlyti að vera svo. Hann fann, hvað hann var feiminn við hana, síðan hann fór að elska hana, og skildi því að hún væri eins feimin við sig og auk þess sár yfir því, að hann skyldi ekki skilja hana.

Við höfumst ólíkt að, hugsaði hann; ég geri þér getsakir, og þú elskar mig út af lífinu; ég bregð þér um, að þú ætlir að elta strák úr landi, og þú ætlar kannski að flýja úr landi mín vegna, af því þú ert úrkula vonar - nei, elskan mín, það skal aldrei verða.

Og hann gekk hart og karlmannlega upp að húsi frænku sinnar. En við götudyrnar stansaði hann og roðnaði. Kannski hún sé nú í forstofunni, hvað á ég þá að segja? Nei, það er vissara að finna frænku fyrst og spyrja hana, hvort hún hafi ekki komist að neinu. Og hann læddist boginn framhjá glugganum og fór inn um skúrdyrnar.


* * *


Inni í stofunni var þegar farið að verða glatt á hjalla. Lampi stóð á miðju borði, og kastaði ljósinu framan í fimm brosleitar stúlkur, sem hlógu að öllu því, sem karlmennirnir sögðu við þær. Umtalsefnið var þetta gamla, að Pétur og Páll hefðu verið nokkuð skvompaðir þá og þá, að það væri nú svona og svona ástatt fyrir henni Gunnu og henni Guddu, að þessi hefði sagt þetta, og hinn hefði sagt hitt, o.s.frv. Stúlkurnar voru allar þekkilegar og höfðu þetta einkennilega röska í augum og hreyfingum, sem norðlenskt kvenfólk almennt hefur framyfir sunnlenska kvenfólkið. Karlmennirnir voru fjórir, einn ljóshærður, langur búðarmaður, tveir skólasveinar frá Möðruvöllum, sem höfðu dvalið lengst sumars á Akureyri, og “verið fínir”, og einn piltur norðan úr Bárðardal, sem var að læra á orgel. Hann stóð þegjandi út við glugga og blístraði smám saman upphöf á lögum. Hinir sátu saman fyrir framan borðið.

Beint móti dyrunum sat Kristín. Hún var lítil vexti og þéttvaxin, og var peysan flegin niðrá hálsinn. Hún hafði stórt hárautt silkislifs, og voru endarnir nældir út á axlirnar. Peysubrjóstið kom mjög fram, því þrjú eða fjögur krókapör voru ókrækt fyrir neðan peysuopið. Húfan var uppá miðju höfði, og hallaðist eftir skúfnum, út í aðra hliðina, en hinumegin var snúður á hárinu upp á höfðinu. Hún var jarphærð, móeygð, rjóð í kinnum, neflítil og nokkuð munnstór. Gerði hún ýmist að hlæja mjög kátínulega eða setja upp alvörusvip, og kipraði þá dálítið saman munninn, og hálfræskti sig við, ógnar blíðlega. En alltaf dillaði hún öðrum fætinum framundan pilsinu, og var stór reimaður skór á honum.

Húsmóðirin, Sæunn gamla, kom inn með bolla á bakka. Hún var nokkuð gild, öldruð kona, en hafði verið lagleg fyrrmeir, og hélt sér enn nokkuð til.

“Ég get ómögulega verið að bíða lengur, það er orðið svo framorðið,” sagði húsfreyja. “Gerið þið svo vel, hérna er ofboðlítið súkkulaði. Það er skömm að því, hvað það er vont, held ég. Ég skil annars hreint ekkert í honum Magnúsi, að hann skuli ekki koma. Bara að það gangi ekkert að honum, greyinu litla, mér hefur sýnst hann vera svo utan við sig seinustu dagana.”

“Sá held ég sé utan við sig,” sagði búðarmaðurinn. “Hann sem er farinn að halda sér svo til, að hann fer bráðum að taka frá okkur allar stúlkurnar, þó að hann segi ekki mikið, ef svona heldur áfram. Hann keypti hjá okkur nýja treyju í fyrradag og vasaspegil bæði í gær og í fyrradag, annan víst svo sem spari.”

Stúlkan, sem sat við hliðina á Kristínu, hvíslaði einhverju að henni, og tístu þær síðan mikið og pískruðu saman.

“Ætli hann sé ekki útá Bauk karlinn,” sagði sá Möðruvellingurinn, sem yngri var.

“Ósköp eru að heyra til yðar,” sagði húsfreyjan, “hann sem aldrei drekkur, nei, ó nei, hann er mesti skikkelsispiltur hann Magnús minn. Ég segi bara það, stúlkur, að hún á ekki ofboðs amalegt stúlkan sú, sem fær hann, svo laglegan og góðan pilt. Það verður einhverntíma maður úr honum, það er víst um það.”

“Ójá,” sagði Möðruvellingurinn, sem eldri var, hægt og með mikilli áherslu. “Það getur skeð, að menn geti orðið uppá vissan máta nýtir menn, þó þeir séu ekki lærðir, en á okkar tímum - frelsið, sem við höfum, getur framfarir, og framfarir heimta mikla menntun.”

“Já það er satt, að vísu, og þess vegna er ég líka alltaf að segja við Magnús, að hann ætti að ganga svo sem misseristíma á Möðruvallaskólann. Eða er hægt að komast af með öllu styttri tíma?”

“Ja, ég skal ekki segja nema maður geti komist af með minna.”

“Já, því segi ég það, en hann Magnús vill það nú ekki; hann er allur í hákarlinum.”

“Það er skrýtið að vilja það ekki,” sagði búðarmaðurinn, “þá gæti hann þó komizt á mótið mikla árið 1900 - eða er það ekki þá, sem þið fóstbræður ætlið að gera uppskátt, hvað þið hafið gert ykkur til sóma?”

“Má ég ekki bjóða meira súkkulaði,” sagði húsmóðirin. “Ég skil annars ekkert í honum Magnúsi, það segi ég satt.”

“Ég heyrði þau dæmalaus ekkisens læti, þegar ég gekk framhjá vertshúsinu í kveld,” sagði ein vinnukonan.

“Ekki hefur það verið hann Magnús, sem alltaf þegir,” sagði búðarmaðurinn. “Það hafa verið kavaljerarnir yðar, Kristín.”

Kristín leit upp brosandi, strauk báðum höndunum niður barminn og rétti sig í mittinu, sléttaði úr svuntunni og sagði blíðlega: “Hvað, mínir kavaljerar?”

“Já, þeir af Gránu; því það er þó víst meira en tómt snakk, að þér ætlið að fara frá okkur með Gránu?”

Í þessu kom griðkonan, sem Sæunn hafði fengið til að hjálpa sér með framreiðsluna, inn í gáttina og sagði, að það væri einhver maður úti í skúr, sem vildi finna húsmóður.

“Æ, hver skyldi það nú vera, aldrei er friður,” sagði Sæunn.

“Ég veit ekki, hann Magnús bað mig að segja ekki að það væri hann.” En í því hún sleppti orðinu hrökk hún við, æjaði upp og greip um handlegginn.

Sæunn lauk snöggt upp dyrunum, og þar stóð þá Magnús kafrjóður með stóra hattinn aftan í hnakkanum. Allt fólkið fór að hlæja.

“Hann klípur, ekki nema það þó,” sagði vinnukonan og gaf honum olnbogaskot um leið og hún gekk framhjá honum.

“Nei, ert það þú, Magnús,” sagði Sæunn. “Því kemur þú ekki inn um götudyrnar, maður? Það var þó mikið, að þú komst, ég var orðin dauðhrædd um, að það gengi eitthvað að þér, og kvenfólkið var á nálum um, að þú kæmir ekki. Komdu nú fljótt inn, góði minn, og drekktu súkkulaði, það er orðið svo framorðið. Hvar hefurðu verið?”

Magnús vissi ekki, hvað hann átti af sér að gera. Loksins tók hann af sér hattinn og kom inn fyrir þröskuldinn.

“Ég ætlaði bara . . .,” sagði hann lágt, “ég ætlaði bara að tala svolítið . . .”

“Veskú, súkkulaði, Magnús!”

Magnús gekk inn með hattinn í vinstri hendinni og rétti öllum gestunum þegjandi hina.

“Nei, þú ert þá líka búinn að fá þér nýjan hatt,” sagði búðarmaðurinn. “Að þú skyldir ekki heldur taka einn hjá okkur, úr því þú fékkst þér hatt á annað borð, t.d. pípuhatt.”

Stúlkurnar skelltu upp úr, nema Kristín.

“Já, það segi ég satt,” sagði hún.“Í Kaupmannahöfn ganga allir ”penir“ herrar með pípuhatt, það veit ég, að minnsta kosti á sunnudögum. Úff, ég get ekki liðið þessa brennivínskúfa.”

“Þeir gera sitt gagn í regni,” sagði annar Möðruvellingurinn.

“Það er eins og mig minni, að ég sæi hann Madsen beyki með einn svona,” sagði búðarmaðurinn. “Þú ert þó ekki að herma eftir honum, Magnús?”

“Uss, hann gekk alltaf með silkihúfu hvunndags og pípuhatt á sunnudögum,” sagði Kristín. “En hann var líka ”pen“ maður.”

Magnús stóð enn, og var alltaf að brjóta heilann um, hvað hann ætti að segja. Þegar Madsen var nefndur, horfði hann fast á Kristínu, og augun urðu næstum því kringlótt, en þegar hann sá, að hún roðnaði ekki, þó að hann væri nefndur, létti honum mikið, og loksins fannst honum við eiga að reka upp hlátur, og sagði “pípuhatt!” Síðan hengdi hann hattinn upp á snaga og fór að drekka, en Bárðdælingurinn tók hattinn og skoðaði hann í krók og kring og endurtók setninguna um, að hann “gerði sitt gagn í regni”, setti hann upp, og sagðist ekki vera alveg frá því að fá sér ef til vildi einn svona, eða líkan.

“Það var gott að þér komuð, Magnús,” sagði Kristín. “Þá getum við byrjað að dansa bráðum.”

“Alltaf vill þetta kvenfólk vera að dansa og tralla,” sagði búðarmaðurinn.

“Mér finnst nú alltaf svo vel til fallið, að unga fólkið lyfti sér upp,” sagði húsfreyjan, “og dansinn er þó alltaf saklausasta skemmtunin.”

“Þá er munur að ríða út, t.d. suðrí Fjörð eða út að kirkju, finnst ykkur það ekki líka, stúlkur?”

Ein vinnukonan hnippti í þá, sem við hliðina á henni sat; hún laut niður, brá vasaklútnum fyrir andlitið á sér, og hló óvart út um nefið.

“Átti ég ekki á því von,” sagði búðarmaðurinn. “Þér Kristín megið absolút til með að fá yður einn fjörugan ennþá áður en þér farið. En það er satt, þér svöruðuð mér aldrei upp á það, hvort það væri alveg víst, að við misstum yður.”

“Já, ég fer til Kaupmannahafnar,” sagði Kristín.

“Ég skil ekkert í þér, að þú skulir vilja vera að fara þetta út í óvissuna,” sagði húsmóðirin. “Þér líður þó fullvel hér, og þú veist hverju þú sleppir, en ekki hvað þú hreppir.”

“Uss, jú, þar eru allir svo nettir og þægilegir. Þar geta allir haft það svo gott. Vitið þið bara hvað? Þar eru böll á hverjum degi, sem allir geta komist inn á, stúlkurnar fyrir ekki neitt, því herrarnir eru allir svo kavaljermessugir. Ó, og þar er svo margt fallegt að sjá og heyra. Hér er allt svo leiðinlegt. Já, það segi ég satt, það er eins gott að vera ”pía“ þar eins og frú hér, að öllu leyti.”

“Hvað mun þá að verða frú þar,” sagði vinnukonan, sem hnippt hafði. Kristín ræskti sig blíðlega, og setti upp alvörusvip.

“En mér finnst nú eiga betur við,” sagði húsmóðirin, “að ungu stúlkurnar séu ekki að fara úr landinu til að gifta sig, ekki síst, ef þeim kynnu að bjóðast fullhressilegir brúðgumar án þess.”

“Já það er ljóta níðið, hvernig þær eru farnar að láta flytja sig út með haustskipunum, eins og saltkjöt,” sagði búðarmaðurinn.

“Eins og hross og kindur,” bætti Bárðdælingurinn við.

“Mér er víst sama, hvað þið segið,” sagði Kristín. “Ég fer af því mig langar til þess og af því ég veit, hvernig er að vera þar.”

“Hefurðu skoðað vel ofan á kaffibollann þinn seinustu dagana, hefurðu ekki séð neitt synda þar og staðnæmast í miðjum bollanum?” sagði Sæunn gamla og drap tittlinga framan í Kristínu.

“Ég gef ekki um neina íslenska korgbiðla,” sagði Kristín.

“En þessar haustferðir, heillin mín góða, mundu eftir, að nú er allra veðra von úr þessu; ef þú værir mín dóttir, Kristín, þá mundi ég að minnsta kosti láta þig bíða vorsins. En það leggst nú einhvern veginn í mig að það muni ekki koma til. Ég er ekki svo slök spákona, og ég spái því að það muni eitthvað koma fyrir þig svoleiðis, sannaðu til, góða.”

“Nei, ég fer nú með Gránu held ég; ég er búin að tala við Petersen kaptein, það er víst ómögulegt að breyta því.”

Það varð dálítil þögn. Magnús hafði hlustað á með mestu athygli og var smám saman orðinn skolli öruggur, af því að heyra hvernig frænka hans talaði. Hann rétti dálítið úr sér, gaut hornauga upp til hattsins, og svo til Kristínar, kímdi ögn, og sagði svo: “Svo-o,” og rak síðan upp hlátur mikinn úr eins manns hljóði. -

Eftir dálitla stund var komið inn með púns, og farið að dansa. En áður en byrjað var, kom fólkið sér saman um að ríða suðrí Fjörð næsta sunnudag, og þegar farið var að tala um hestavandræðin, hvíslaði Magnús að Kristínu, að hún gæti fengið hann Gráskjóna sinn, og gat þess um leið, að enginn kvenmaður hefði komið honum á bak.

“Það var ”pent“ af yður, en er hann þá ekki ólmur? ætli ég detti ekki af baki?”

“Ég passa folann,” sagði Magnús.

Svo byrjaði “ballið” og gekk liðlega. Drýgstur var búðarmaðurinn að dansa. Hann dansaði oftast með aðra höndina lausa, og söng á meðan:


Vil du valse med mig
saa kysser jeg dig.
Hinir gerðu það sem þeir gátu. Stúlkan úr eldhúsinu kom inn líka, og sættust þau Magnús á málið, að hún hafði svikið hann og sagt til hans, en hann klipið hana. Magnús náði tali frænku sinnar og sagðist heyra á henni, að hún mundi vita eitthvað um þá sönnu ástæðu fyrir burtför Kristínar, þá sömu sem hann hafði fundið á leiðinni suðureftir, að hún mundi vera að flýja, af því að hún örvænti um sig. Sæunn var reyndar ekki vel trúuð á það og þótti hitt líklegra, að það mundi vera eitthvað milli Madsens og hennar, en gaf Magnúsi þó bestu vonir og sagðist skyldi hjálpa honum af fremsta megni, en bað hann þess lengstra orðanna að leggja sig þá duglega eftir henni um kveldið og dansa sem mest við hana; það væri alltaf vissasta ráðið, sagði hún.

Magnús lét sér þetta að kenningu verða og bar sig að vera þar alltaf nálægt, sem Kristín var, og bjóða henni upp þegar hann gat komist að, og engri annarri. Sæunn sat á stól og horfði á, með óvanalega breiðu ánægjubrosi, og tók Kristínu við og við á eintal og fór líka með hana fram og gaf henni að smakka úr hálfflösku af góðu víni, sem hún hafði, en bar ekki fram, af því það var svo lítið. En hún Kristín sín yrði að bragða það, sagði hún.

Kristín hafði verið hálfsposk við Magnús fyrst, þegar hann var að stíga ofan á tærnar á henni og standa við og tvístíga, til þess að komast í takt, en það smámildaðist úr henni, því hann vann sitt verk með svo kristilegri þolinmæði, og gleðin skein svo út úr honum, að henni hitnaði af því um hjartaræturnar, þó að hann segði reyndar ekki mikið annað en einu sinni eitthvað um gráskjótta folann, að það væri karl, sem væri liprari í löppunum en hann. En það er ekki alltaf heppilegast að tala svo mikið undir þeim kringumstæðum, heldur færa sig uppá skaftið svona hinsegin. Vínið hjálpaði ef til vill nokkuð og orð Sæunnar gömlu líka, þó að hún segði ekkert beinlínis, og þeim kom saman um það undir rós, Sæunni og henni, að Magnús væri einna álitlegastur og langþreklegastur af karlmönnunum, sem inni væru. Þegar fram í sótti fór hún að verða blíðlegri og blíðlegri við hann, gefa honum hlýtt auga, koma til hans, fá hann í dans og setjast hjá honum, og þegar hún sagði eitthvað, hló hann alltaf og sagði já og amen. Hann var í sjöunda himni og hugsaði með sér: “Rétt mun það hafa verið þó, sem ég sagði frænku. Aumingja blessuð stúlkan. En bráðum skal ég gera allt gott.”

Kristín þurfti að fara heim klukkan liðlega ellefu; hafði hún lofað því húsbændum sínum úti í bænum og sagðist ómögulega þora annað, enda þyrfti hún að venja sig á pössunarsemi, ef hún ætti að koma sér vel í Kaupmannahöfn. Hinu fólkinu þótti of snemmt að hætta, enda kvaðst Sæunn ekki sleppa því; ætlaði Kristín þess vegna að fara ein. En þegar út var litið, var komið húðar dynjandi hrakveður og myrkur, og sagðist Sæunn því heldur ekki sleppa Kristínu nema einhver karlmannanna fylgdi henni og ábyrgðist hana og fyndist sér þá hann Magnús hafa best beinin til þess. Hann varð himinlifandi, eins og gefur að skilja, stökk upp og tók stóra hattinn, og flýtti sér svo, að hann gleymdi hreint að kveðja.

“Nú gerir hatturinn sitt gagn,” sagði Bárðdælingurinn, “þvílík steypa!”

Sæunn stóð úti í dyrunum, þegar þau fóru, óskaði þeim lukkulegrar ferðar og að hún sæi þau bæði glöð á morgun; síðan kallaði hún til Magnúsar, hvort hann ætlaði ekki einu sinni að styðja stúlkuna í þessu veðri, og hætti ekki, fyrr en þau tóku saman handleggjum. Síðan fór hún inn og var mjög ánægð, fékk sér eitt aukaglas og hafði orð á því við gestina, að það mundi ekki verða mikið úr þessari siglingu Kristínar, sér segði svo hugur um.

Magnús og Kristín gengu þegjandi fyrst.

“Ósköp er að sjá, hvernig þér hafið hattinn, rignir ekki framan í yður?” sagði Kristín loksins.

“Jú,” sagði Magnús, og færði þegar hattinn niðrí mitt enni.

Svo þögðu þau aftur.

“Hvernig skemmtuð þér yður í kveld?” spurði Kristín.

“Dæmalaust vel.”

Kristín tók fastara um handlegg Magnúsar og gekk fast við hann.

Hann var í standandi vandræðum. Nú var annaðhvort að hrökkva eða stökkva, duga eða drepast. Hann var sannfærður um, að hún væri eins skotin í sér og honum hafði verið sagt, en að finna orð til þess að segja henni frá sínu ástandi, með öðrum orðum biðja hennar, það var ekki svo hægur vandi. Hann var að smá opna munninn, og mynda hann til, en ekkert hljóð kom. Loksins kom eins og út úr tómri tunnu:

“Kristín, ef nokkuð gengur að þér, þá ætla ég að segja þér, að ég er líka, ekki minni . . .”

“Hvað eruð þér að segja?” sagði Kristín og hrökk frá honum.

“Nei, nei, nei,” flýtti Magnús sér að segja, og dró hana aftur nær sér. “Það var bara viðvíkjandi honum Gráskjóna ofboðlítið.”

“Nú, kannski þér tímið ekki að lána mér hann?”

“Jú, jú, jú jú, hann og allt sem ég á, og sjálfan mig - gefa meina ég.”

Hann varð dauðhræddur, þegar þetta var komið út úr honum, og hélt að Kristín mundi stökkva frá sér. En hún var grafkyrr, dró djúpt andann, svo að brjóstið á henni lagðist upp að handleggnum á honum, og brosti blíðlega.

Svo gengu þau bæði þegjandi um hríð, Magnús með ákafan hjartslátt og í óðaönn að leita að einhverju til að segja. Allt í einu hallaði hún sér upp að honum, benti upp í himininn og sagði með mjúkum róm:

“Nei, sjáið þér, þarna er þá blessað tunglið, og skín þarna á himninum þrátt fyrir regnið! Er það ekki yndislegt. Ó hvað það er skáldlegt, hm!”

Magnús lagði höndina um mittið á henni, og ætlaði að fara að tala.

“Viltu . . .”

Hún greip frammí fyrir honum:

“Ó heyrið þér, er ekki tunglið ímynd þeirrar birtu, sem ljómar stundum í lífinu, þegar dimmast er og tárin falla tíðast?”

Þau voru komin fast að húsinu, sem hún átti heima í, og stóðu í skjóli undir gaflinum. Hún hallaði sér upp að honum, og horfði upp í tunglið, svo andlitið sneri upp á við, og voru hálfopnar varirnar. Hann var næstum utan við sig. Sleppt henni gat hann ekki, og kyssa hana þorði hann ekki, af því hann hélt hún mundi reiðast svo mikið. Allt í einu herti hann sig þó upp og beygði höfuðið í einum rykk niður að henni.

En við rykkinn steyptist allt regnvatnið, sem safnast hafði í stóru börðunum, beint niður í andlitið á Kristínu, fór upp í augu, munn og nef og rann ískalt niður eftir hálsinum á henni.

Hún hljóðaði upp yfir sig, reif sig af Magnúsi, og hljóp eins og píla inn í dyrnar. Þar sneri hún sér við og hrópaði:

“Svei og fjandinn, svona eruð þið allir þessir íslensku rustikusar; ég held ég þekki ykkur, þið eruð ekki til neins brúkandi, sneypstu burt, ruddinn þinn. Skammastu þín ekki að geta ekki séð í friði saklausa stúlku? Snautaðu heim.” Og svo skellti hún í lás.

Magnús stóð eftir agndofa. Hann skildi ekkert, hvaðan á sig stóð veðrið. Hann tók af sér hattinn, skoðaði hann í krók og kring, fleygði honum niðrí götuna, tók hann upp aftur, þurrkaði af honum, horfði á dyrnar, upp í tunglið, á hattinn, og gat ekkert botnað í, hvernig þetta hefði viljað til. Hann gat ekki áttað sig, og loksins hélt hann, að þetta væri bara spaug úr Kristínu. Það var þó allténd gott merki, að hún var farin að þúa mig, sagði hann í hálfum hljóðum.

Þá var opnaður gluggi fyrir ofan hann, og Kristín kom út í gluggann.

“Stendurðu þarna enn þá með brennivínshattinn, þér er skammarminnst að snáfa heim, held ég.”

“Kristín, elskarðu mig?” sagði Magnús.

“Ertu vitlaus?”

“Kristín, er það þá ekki út úr mér, sem þú ætlar að sigla?”

“Nei, ónei, ég held þú sért genginn af göflunum, aulinn þinn.”

“En til hvers ætlarðu þá að vera að sigla?”

“Ef þú endilega vilt vita það,” sagði Kristín í mildari tón, “þá ætla ég til hans Madsens, kærastans míns í Kaupinhöfn, þar sem allir herrar eru eins og hann, fínir og penir og enginn annar eins klunni og þú.” Svo lokaði hún glugganum.

“Bölvuð tófan, ætlar samt að elta Madsen, eins og ég sagði einu sinni. En grýtið hann Eyjúlfur, hann skal fá það. Og þó var hún skotin í mér.” Svo setti hann hattinn mjög fast á sig, bretti niður börðunum, og labbaði burtu.

Kristín sigldi með Gránu, og hitti Madsen sinn í heilögu hjónabandi við efnaða og aldraða ekkju, eða réttara sagt hún hitti hann ekki, því að hann forðaðist hana eins og heitan eld. En saga væri að segja frá því, hvernig hennar viðskipti urðu við hina “herrana”, sem allir voru eins “fínir og penir” eins og hann Madsen, en hún á naumast við á þessum stað. Aftur á móti kynni mönnum ef til vill að þykja fróðlegt að heyra, að Magnús seldi Bárðdælingnum brennivínshattinn fyrir hálfvirði, því hann var reiður við hann og vildi ekki eiga hann. Og nú er hatturinn organistahattur norður í Bárðardal, og þykir kostaþing.