FIMMTA BÁSÚNAN

eftir Þórdísi Bachmann


Listahátíðin var hringd inn með klukknahljómi á sumardaginn fyrsta í bænum Lögleysu, menningarborginni þar sem turnarnir námu við himinn sem aftur nam við glampandi sæinn. Allt frá kænum upp í stærstu skip í höfninni voru fánum prýdd. Á götunum milli húsa með rauðum og bláum bárujárnsþökum, milli gamalla mosagróinna garða bakhúsanna og við velli og torg hlykkjuðust skrúðgöngur með fagurklæddum börnum, eldra fólkinu gráklæddu eins og sæmdi, alþingismönnum þungum á brún, eins og sæmdi, glaðlegum konum með smábörn í fanginu sem mösuðu á göngunni. Í öðrum götum var takturinn hraðari og unga fólkið dansaði á götunum, þarna var skrúðgangan orðin að dansiballi. Börn skutust fram og til baka, hróp þeirra minntu á höfrunga því tíðnin var hærri en í tónlistinni og söngnum. Allar skrúðgöngurnar hlykkjuðust niður að tjörninni þar sem ráðhúsið sat, þar átti borgarstjórinn að flytja ræðu og segja hátíðina setta.

Hátt í norðri og suðri stóðu fjöllin og hálfumvöfðu Lögleysu þarna við flóann sinn. Morgunloftið í júní var svo kyrrt að snjórinn á fjallstoppunum í norðri logaði platínuskær svo langt sem augað eygði undir himinblámanum. Stinningskaldinn lék sér að því að smella fánareipunum taktfast niðri við höfn. Í úthverfaþögninni mátti heyra tónlistina hlykkjast gegnum götur borgarinnar, lengra í burtu og nær til skiptis, alltaf á leiðinni, ljúfir tónar í loftinu sem einstaka sinnum urðu að fagnandi klukknahljómi.

Hvílík gleði! Hvernig er hægt að setja slíka gleði í orð! Hvernig er hægt að lýsa íbúum Lögleysu?

Því þeir voru ekki fáfróðir sveitamenn, þótt þeir væru hamingjusamasta fólk í heimi. En við erum hætt að nota þessi ánægjulýsingarorð. Brosin eru öll orðin úrelt. Fólk sem heyrir svona lýsingu fer að hafa vissar væntingar. Næst verður farið að svipast um eftir kónginum á hvíta gæðingnum, umkringdum riddurum eða kannski í gullstól, sem borinn er af þrælum. Lögleysubúar eru engir villimenn. Ég veit ekki við hvaða lög eða reglur þeir styðjast í þessu samfélagi en ég er þess fullviss að þau eru teljandi á fingrum annarrar handar. Vegna þess að Lögleysa var hvorki konungsríki né hélt þræla, var margt annað óþarft þar, á við verðbréfamarkað, auglýsingamennsku, lög og reglur. Þó vil ég ítreka að þetta var ekki óupplýstur skríll, hvorki fjárhirðar, villimenn né hugsjónafólk með óraunhæfar hugmyndir. Þetta fólk var menntað og ekkert minna flókið en við erum.

Vandamálið er, að við í siðmenntuðu löndunum höfum komið okkur upp hárfínni fyrirlitningu á hamingju; að hún sé eitthvað ofan á brauð, eða réttara sagt, eitthvað fyrir hálfvita. Engin önnur tilfinning en sársaukinn einn hugnast menntamönnunum; mannvonskan ein er áhugaverð. Þetta eru landráð listamannsins: hann neitar að viðurkenna hvað mannvonska er í raun fáránleg og sársauki hrikalega leiðinlegur. Gakktu í liðið, ef þú getur ekki burstað það. Gerðu það aftur, ef það svíður undan því. En að hampa örvæntingunni er að gera lítið úr yndinu, að umfaðma ofbeldi er að missa sjónar á öllu öðru. Við erum næstum búin að missa sjónar; við kunnum ekki lengur að lýsa hamingjusömu fólki, því síður að skemmta okkur í barnslegri gleði.

Hvernig á ég að lýsa fólkinu í Lögleysu fyrir ykkur? Það minnti ekkert á bernsk og lukkuleg börn - þótt börnin þeirra væru, reyndar, lukkuleg. Það var þroskað, greint og ástríðufullt fólk og líf þess var ekki ömurlegt. Hvílíkt kraftaverk, en ég vildi óska að ég gæti lýst þessu betur.

Ég vildi óska að ég gæti sannfært ykkur. Mín útgáfa af Lögleysu málar borgina eins og ævintýraborg sem einu sinni var. Kannski væri best að þið ímynduðuð ykkur hana eins og ykkur þóknast, því eitt er víst, að ég get ekki gert ykkur öllum til hæfis. Hvernig er til dæmis tæknilega hliðin, gæti einhver ykkar spurt? Ég held ekki að það séu neinir bílar á götunum og heldur engar þyrlur sveimandi yfir; þessa ályktun dreg ég af þeirri staðreynd að fólkið í Lögleysu er hamingjusamt. Hamingja byggir á réttlátum greinarmun á því hvað er nauðsynlegt, hvað er hvorki nauðsynlegt né skaðlegt og hvað sé skaðlegt. Í miðflokknum - það sem er ónauðsynlegt en ekki skaðlegt, er allt sem flokkast undir þægindi, munað, fjör og svoleiðis - gæti meira en verið að þau væru með hitaveitu, þvottavélar og eftirlitsmyndavélar á hverju götuhorni í stað lögreglu og alls kyns dásamlegar uppfinningar upp um alla veggi sem enn er ekki búið að finna upp hérna hjá okkur, á við eldsneytislausa orku og lækningu við kvefi. Eða kannski eru þau ekki með neitt af þessu en það skiptir ekki máli. Þið megið hafa það eins og þið viljið.

Ég hef tilhneigingu til að halda að fólk hafi flogið inn til Lögleysu dagana áður en hátíðin hófst á einkaþotum og alls konar farartækjum og að í raun sé flugvallarbyggingin fallegasta húsið í landinu, þótt hún sé einfaldari í sniðum en Kringlan, þar sem allar verslanir menningarborgarinnar er nú að finna undir einu þaki. En þótt flugvélarnar eigi greiðan aðgang, er ég svolítið hrædd um að mörgum ykkar finnist Lögleysa vera tilgerðarlega grandvör og heiðarleg. Bros, kirkjuklukkur, skrúðgöngur og borgarstjórar, ojbara. Bætið þá inn eins og einni orgíu. Ef þið teljið að orgía myndi bæta úr skák, gjöriði endilega svo vel. Við skulum samt ekki hafa musteri, hvaðan út hlaupa ægifagrir naktir prestar, í helgreipum lostans, reiðubúnir að leggjast með hvaða konu eða karli, elskhuga eða ókunnugum, sem þess óskar, þótt það hafi verið það fyrsta sem mér datt í hug. Það fer betur á því að hafa alls engin musteri í Lögleysu - að minnsta kosti ekki mönnuð musteri. Guðstrú og góða siði, já, en enga prestastétt. Þetta ægifagra nakta fólk getur fengið að reika um göturnar og falboðið sig eins og frábærar bökur hungri hinna þurfandi og algleymi holdsins. Leyfum þeim að fara í skrúðgönguna. Látum smella í tambúrínum fyrir ofan þá sem eðla sig og látum trumburnar tilkynna lostaljómann og (síðast en ekki síst) látum afkvæmi þessara unaðslegu helgisiða verða uppáhaldsbörn borgarinnar. Eitt sem ég veit með vissu að ekki fyrirfinnst í Lögleysu er sektarkennd.. en hvað annað ætti að vera þar?

Í fyrstu ákvað ég að þar væru engin fíkniefni en í slíku banni felst allt of mikil siðavendni. Fyrir þá sem það vilja, ætti höfugur ilmur einhvers hamps að geta lagst yfir borgina, hamps sem fyrst gerir hugann léttann og skíran og að nokkrum tímum liðnum veitir draumkennda ró og dásamlegar sýnir inn í innstu leyndardóma alheimsins, auk þess sem hann eykur ánægjuna af kynlífi um allan helming; og er ekki ávanabindandi.

Fyrir þá með borgaralegri smekk finnst mér að ætti að vera til bjór. Hvað annað? Hvað annað á heima í menningarborginni? Sigurvíma, vissulega, sigurvíma hinna hugrökku.

En fyrst við vorum ekki með prestastétt, skulum við heldur ekki vera með her. Gleðin yfir velheppnaðri slátrun er ekki rétta tegundin af gleði; hún gengur ekki; hún er bæði skelfileg og ómerkileg. Þrotlaus og gjöful ánægja; sigurvíma, ekki byggð á sigri yfir einhverjum ytri óvini heldur á því besta og fegursta i sálum allra manna alls staðar og góðærinu: þetta er það sem hrærir hjörtu fólksins í Lögleysu og sigurinn sem þeir fagna er sigur lífsins. Ég held ekki að margir þarna þarfnist dóps til að lyfta sér upp.

Flestar skrúðgöngurnar eru nú komnar að Vesturvelli. Yndisleg matarlykt svífur út úr tjöldum pulsu- og blöðrusalanna. Andlit minnstu barnanna eru krúttlega kámuð; í fallegu gráu skeggi má sjá nokkrar vínarbrauðsörður. Lágvaxin eldri kona selur blóm og hávaxnir ungir menn kaupa þau af henni fyrir stúlkurnar sínar. Átta ára barn situr eitt utan hópsins og spilar á flautu. Fólk nemur staðar til að hlusta og það brosir en talar ekki við hann því hann leggur aldrei frá sér flautuna og sér aldrei fólkið, dökkblá augu hans einblína á töfra laglínunnar. Hann lýkur við lagið og færir hendurnar, sem enn halda um flautuna, hægt niður.

Eins og þessi einkaþögn væri tákn, rjúfa hana allt í einu blásturshljómar úr fimm básúnum. Borgarstjórinn, þunnhærð kona með bolabítsbrag, er að koma. Listahátíðin er hafin.

Trúið þið þessu? Kaupið þið þessa listahátíð, þessa menningarborg, þessa lífsgleði? Ekki? Leyfið mér þá aðeins að segja ykkur eitt í viðbót.

Í kjallara, undir enn einni glæsilegri opinberri byggingunni í Lögleysu eða kannski í kjallara eins rúmgóða einbýlishússins, er herbergi. Á því eru einar læstar dyr og enginn gluggi. Annars staðar í kjallaranum er gluggi grár af köngulóarvef, svo svolítið ljós berst inn með rykinu þar sem borðin ná ekki alveg að falla hvort að öðru. Í einu horni litla herbergisins standa skrúbbar með stífum, illa lyktandi burstum rétt hjá ryðgaðri fötu. Gólfið þarna er moldargólf, svolítið rakt eins og kjallaramold er yfirleitt. Herbergið er þriggja feta langt og tvö fet á breidd: kústaskápur í raun eða gamalt verkfæraherbergi. Í herberginu situr barn. Þetta gæti verið telpa eða drengur. Það virðist vera um sex ára gamalt en er reyndar að verða tíu ára. Það er greindarskert. Kannski fæddist það vangefið eða kannski það hafi orðið að fávita af skelfingu, næringarskorti eða jafnvel vanrækslu. Það borar í nefið og fiktar öðru hverju við tær sínar eða kynfæri, þar sem það situr þarna hokið í horninu lengst frá fötunni og skrúbbunum. Barnið er hrætt við skrúbbana. Barninu finnst skrúbbarnir skelfilegir. Það lokar augunum en það veit að skrúbbarnir eru þarna ennþá; og dyrnar eru læstar og það kemur enginn. Dyrnar eru alltaf læstar; og það kemur aldrei neinn, nema stundum - barnið hefur ekkert tímaskyn - stundum hriktir hroðalega í dyrunum og þær opnast, og þar stendur manneskja eða kannski margar. Ein þeirra kemur kannski inn og sparkar í barnið til að láta það standa upp. Hinar hætta sér aldrei nálægt því, heldur píra á það skelfd augun, full viðbjóðs. Matarskálin og vatnskannan eru fyllt í hvelli, dyrunum er læst og augun hverfa á ný. Fólkið við dyrnar segir aldrei neitt, en barnið, sem bjó ekki alltaf í þessum kústaskáp og minnist sólskins og rödd móður sinnar, talar stundum: “Ég skal hlýða”, segir það. “Gerið það, leyfið mér að komast út. Ég skal hlýða!” Fólkið svarar aldrei. Hér áður fyrr öskraði barnið á hjálp á kvöldin og grét en núorðið vælir það bara: “Æ-æ” og er eiginlega alveg hætt að tala. Það er svo horað að það er ekki með neina kálfa; magi þess stendur út í loftið; það lifir á hálfri skál af hafragraut á dag. Barnið er bert. Rasskinnar þess og lærin eru útsteypt í sárum sem grefur í, af því að það situr stöðugt í eigin saur.

Það veit allt af barninu þarna, fólkið í Lögleysu. Sumt kemur það að skoða barnið, öðrum nægir vitneskjan um að barnið sé þarna. Allir vita að það verður að vera þarna. Sumir skilja hvers vegna og aðrir ekki en allir íbúarnir skilja að þeirra eigin hamingja, fegurð menningarborgarinnar og ríkidæmi, dýrmæt heilsa barnanna, viska landsfeðranna, jafnvel aukning þjóðartekna og góða veðrið sem þeir búa við, allt byggir þetta á viðurstyggilegum vesaldómi barnsins.

Þessi staðreynd er yfirleitt útskýrð fyrir börnum þegar þau eru á milli átta og tólf ára, hvenær sem þau virðast fær um að skilja hana; og flestir þeirra sem koma að skoða barnið eru ungt fólk, þótt oft komi fullorðin manneskja, eða komi aftur, til að skoða það. Einu gildir hversu vel málið hefur verið útskýrt; ungu áhorfendurnir eru ævinlega slegnir og verður óglatt við þessa sjón. Þeir finna til viðbjóðs, þótt þeir hefðu talið sig yfir hann hafinn. Þeir finna til reiði, hneykslunar og getuleysis, þrátt fyrir allar útskýringarnar. Þá langar til þess að gera eitthvað fyrir barnið en þeir geta ekkert gert. Ef farið væri með barnið út í sólskinið og út af þessum skelfilega stað, ef barnið væri þrifið og því gefið að borða og það huggað, þá væri það vissulega gott; en ef það yrði gert, samdægurs, samstundis, yrði öll velmegun, fegurð og yndi Lögleysu að engu, allt myndi þetta tortímast.

Skilmálarnir eru svona. Ef skipt yrði á öllu góðærinu og hóglífi allra í Lögleysu fyrir þessa einu, litlu bragarbót: ef hamingju fleiri þúsund manns yrði varpað fyrir róða, svo einn mætti eiga möguleika á hamingjunni: þá væri svo sannarlega búið að greiða sektarkenndinni leiðina inn fyrir múrana.

Skilmálinn er strangur og afdráttarlaus; það má ekki einu sinni segja eitt einasta orð við barnið.

Oft fer unga fólkið grátandi heim eða þurreygt en froðufellandi af reiði eftir að sjá barnið og horfast í augu við þessa skelfilegu þverstæðu. Stundum sekkur það sér niður í sorglegar hugsanir yfir þessu vikum eða árum saman en með tímanum gerir það sér grein fyrir því að jafnvel þótt barninu yrði sleppt, þá fengi það lítið út úr frelsinu: vísast einhverja ánægju af hita og mat, en ekki mikið meira.

Barnið er of illa farið og þroskaheft til þess að þekkja nokkra raunverulega gleði. Það hefur verið óttaslegið svo lengi að úr þessu losnar það aldrei við óttann. Ósiðir þess eru of grófir til þess að það svari mannekjulegri meðhöndlun. Og eftir allan þennan tíma yrði það áreiðanlega vansælt án veggja til að vernda sig og myrkurs fyrir augun og síns eigin saur til að sitja í. Tár unga fólksins yfir þessu bitra óréttlæti þorna þegar það fer að skilja hið hryllilega réttlæti sem í raunveruleikanum felst og sætta sig við það.

Kannski eru það þó tár þeirra og reiði og viðurkenning þeirra á getuleysi sínu, sem er hin sanna uppspretta lífsgæða þeirra. Það er langt því frá að hamingja þeirra sé einhver kauðsk og óábyrg hamingja.

Unga fólkið í Lögleysu veit, að það, eins og barnið, er ófrjálst. Það er ekki sálarlaust, það á til samúð. Það er tilvist barnsins og vitneskja þeirra um tilvist barnsins, sem gerir göfugan arkitektúrinn mögulegann, tónlistina þeirra og vísindafrömuðina, fallegustu mennina og sterkustu konurnar. Það er barnsins vegna að íbúarnir í Lögleysu eru svo einstaklega góðir við börn. Þeir vita að ef vesalingurinn væri ekki þarna snöktandi í myrkrinu, myndi hitt barnið, litli flautuleikarinn, ekki geta spilað á meðan ábúðarfullir alþingismennirnir raða sér upp í skrúðgönguna á sumardaginn fyrsta.

Eruð þið farin að skilja íbúana betur núna? Eru þeir ekki að verða svolítið trúverðugri? Þó er eitt enn ósagt og í þetta sinn er það alveg með ólíkindum.

Það kemur fyrir að unglingsstúlka eða drengur sem fer að skoða barnið fer ekki heim til sín grátandi eða í reiðikasti, fer reyndar alls ekki heim til sín. Stundum hendir það líka að miklu eldri maður eða kona segir ekki orð í einn eða tvo daga og fer síðan að heiman. Þetta fólk fer eitt út á götu og gengur síðan eitt götuna á enda. Það heldur göngunni áfram og gengur rakleitt út úr Lögleysuborg, gegnum fallega hliðið. Það heldur áfram göngunni yfir fjalllendin fyrir utan borgarmörkin. Sérhvert þeirra er eitt á ferð, hvort sem það er piltur eða stúlka, maður eða kona.

Það húmar að kveldi; og ferðalangurinn þarf að ganga eftir götunum í bænum, milli húsanna með bláa ljósið út um gluggana og áfram út í myrkur fjallanna. Einn síns liðs gengur hver fyrir sig vestur eða norður í átt til fjalla. Og heldur síðan áfram. Þetta fólk yfirgefur Lögleysu, það gengur áfram í myrkrinu og það kemur aldrei aftur.

Staðurinn sem það ætlar á, er staður sem við getum enn síður ímyndað okkur en hamingjusömu menningarborgina með myndavélarnar.

Ég get alls ekki lýst honum. Það getur meira en verið að hann sé ekki til, en þeir virðast vita hvert þeir eru að fara, þeir sem yfirgefa Lögleysu.