,,Þvílíkur svefn, ég held að ég hafi bara aldrei sofið eins vel alla mína ævi!’’ Var það fyrsta sem Gerða hugsaði með sér þegar hún vaknaði. Þá hafði hún ekki tekið eftir því að hún var ekki í sínu rúmi, þvert á móti. Hún var í einhverju rúmi sem hún hafði aldrei séð áður og ekki nóg með það, hún var í einhverju herbergi sem hún hafði aldrei séð áður. Gerða stökk á fætur. ,,Því er ég hér og afhverju í þessum ósköpum er ég klædd í þennan ömmunáttkjól?’’ Hugsaði Gerða með sér alveg undrandi á þessu öllu saman.
Hún leit út um gluggann og sá að hún var ekki heima hjá sér, ekki einu sinni í sínu hverfi, hvað þá í bænum sem hún býr í. Hún virtist vera einhvers staðar uppi í sveit, þar sem hún sá bara gras og sjóinn út um svefnherbergisgluggann.
Gerða var orðin heldur undrandi á þessu öllu saman og fór fram til að reyna að finna einhvern sem gæti hugsanlega sagt henni hvar í ósköpunum hún vær stödd og afhverju hún væri nú eiginlega stödd einmitt þarna.
Þegar Gerða kom fram úr herberginu blasti við henni þessi stórglæsilegi stigi sem lá niður á við.
Gerða fór niður, þetta hús var draumi líkast. Hún fór í gengum fjöldan allan af herbergjum, hvert öðru glæsilegra!
Hún hafði misst tölu á öllum herbergjunum sem hún hafði farið í gegnum þegar hún loks kom inn í eldhúsið.
Gerða hafði ekki fyrr stigið inn í eldhúsið þegar kona nokkur sem þar var bauð henni góðan daginn. Þessi kona var mjög vingjarnleg, líklega eitthvað á milli fimmtugs og sextugs. Konan tilkynnti Gerðu að morgunmaturinn væri framreiddur og að hún hafi látið renna í bað eins og frúin hafi beðið um.
Gerðu stórbrá við þessi orð og spurði: ,,Hver ert þú og hvaða frú áttu við?’’
,,Frú mín, auðvitað á ég við þig! Hverja aðra?’’ Svaraði konan.
,,Mig? Ég er engin frú, ég er bara fjórtán ára’’ Sagði Gerða við konuna.
,,Þú hlýtur að vera með óráði frú mín, þú ert ekki fjórtán ára frekar en ég!’’ Sagði konan og hló. Gerða var orðin ansi hissa á þessu öllu saman og spurði enn einu sinni: ,,Viltu vinsamlegast segja mér hver þú ert og segja mér hvar ég er eiginlega’’
Konan svaraði: ,, Höfum það eins og þú vilt Gerða mín, ég heiti Lára og er ráðskona þín og er búin að vera það síðastliðin fimm ár! Og nú held ég að þú ættir að fara í baðið þitt áður en það kólnar, morgunmaturinn getur beðið!’’
Gerðu brá aldeilis í brún við að heyra þessu ókunnu konu segja nafnið hennar en þorði ekki öðru en að hlýða henni. Lára fylgdi því Gerðu inn á baðherbergið og sagði: ,,Svona nú frú mín, farðu nú í bað og slappaðu aðeins af og reyndu að koma vitinu fyrir þig í guðanna bænum.’’
Gerða lokaði dyrunum og læsti á eftir sér, hún var djúpt hugsi. Hún gekk að vaskinum og skvetti köldu vatni framan í sig, hún leit í spegilinn og þá sá hún það…
Þetta var ekki hún! Eða kannski…
Þetta var einmitt Gerða, nema ekki alveg fjórtán ára Gerða, hún var allaveganna fjörutíu ára gömul. Gerðu brá vissulega í brún við þessa sýn en ákvað þó að fara í baðið og reyna að átta sig á þessu öllu saman. Eftir rúmlega fjörutíu mínútna bað og mikla íhugun hafði Gerða ekki komist að neinni niðurstöðu í málinu. Hún vissi ekki afhverju hún leit út eins og fertug kona, hún sem varð fjórtán ára fyrir rúmri viku.
Gerða fór í baðsloppinn sem hékk á einum snaganna á veggnum og fór fram. Hún gekk inn í eldhús til að hitta Láru aftur og ræða aðeins við hana.
Þegar Gerða kom inn í eldhúsið var Lára ekki þar en Gerða sá þar á borðinu þennan dýrindis morgunverð framreiddan og ákvað að fá sér aðeins að borða, þar sem hún var orðin sársvöng. Eftir þennan frábæra morgunverð fór Gerða upp í svefnherbergið aftur til að klæða sig í föt, ef hún ætti þá einhver föt til.
Þegar hún kom upp mætti hún Láru sem var önnum kafin við að strauja glæsilegan kóngabláan kjól, en kóngablár var einmitt uppáhalds litur Gerðu.
Þegar Lára sá Gerðu sagði hún: ,,Þú ert alveg tímanlega frú mín, Karl fer alveg að koma.’’ ,,Tímanlega í hvað og hver er Karl?’’ Spurði Gerða.
,,Gerði baðið ekkert gagn frú mín? Karl er bílstjórinn þinn og þú ert að fara í formlega heimsókn til Odds.’’ ,,Hver er Oddur?’’ Spurði Gerða þá. ,,Oddur Davíðsson auðvitað og komdu nú.’’ Gerðu gafst ekki tími til að spyrja fleirri spurninga þar sem Lára dró hana inn í þetta ótrúlega stóra fataherbergi, rétti henni undirföt og skipaði henni að klæða sig snöggvast. Gerða hlýddi Láru og því næst rétti Lára henni fallega bláa kjólinn og sagði henni að drífa sig nú í áður en Karl færi að bíða.
Þegar Gerða var komin í kjólinn, sem vildi svo til að smellpassaði rétti Lára henni fallega svarta kápu sem Gerða klæddi sig í.
Því næst dró Lára hana niður og út úr húsinu þar sem svakalega flottur svartur bíll beið hennar og maður sem Gerða gerði sér grein fyrir að væri Karl opnaði afturdyrnar á bílnum og bauð frúnna góðan dag og bauð henni að setjast inn. Gerða þorði ekki annað en að hlýða eftir allt sem fyrr hafði á dunið og settist inn, hún kannaðist við húsið og umhverfið en gat þó engan veginn komið því fyrir sig hvar hún væri.
Karl settist svo inn í bílstjóra sætið og ók af stað. Gerða sat þögul í aftursæti bílsins og var djúpt hugsi. Þegar bílinn nam staðar var hún stödd fyrir utan hár&snyrtistofu, þá kom ung kona út og bauð Gerðu velkomna. Þær gengu saman inn og Gerða látin setjast í einn stólanna. ,,Það sama og venjulega?’’ Spurði unga konan Gerðu. Gerða kinkaði bara kolli og unga konan hófst handa við að farða og greiða Gerðu.
Rúmri klukkustund síðar var Gerða orðin eins og prinsessa, í þessum fallega kjól, með greiðsluna og farðann og áður en Gerða vissi af var hún aftur komin í bílinnn til Karls sem ók af stað. Þau voru búin að aka dágóða stund þegar bíllinn nam staðar á ný, þá fyrir utan glæsilegt einbýlishús sem var augljóslega í ofur fínu hverfi.
Karl opnaði dyrnar fyrir Gerðu og fylgdi henni upp að dyrum og hringdi bjöllunni.
Til dyra kom feitlaginn maður með mikið svart krullótt hár, hann bauð Gerðu innilega velkomna og bauð henni inn. Karl kvaddi og sagðist mundu koma aftur innan fimm klukkustunda. Gerðu brá svolítið við þessi orð enda fannst henni Karl mjög notalegur og þægilegt að sitja með honum í bílnum og aka um. Henni þótti fremur óþæginlegt að þurfa að vera í þessu húsi í fimm klukkustundir án þess að þekkja nokkurn mann.
Hún taldi samt í sig kjark og gekk inn. Í stofunni var mikið um fólk, allir fallega klæddir líkt og hún sjálf. Hún taldi sig jafnvel hafa séð nokkra blaðamenn á sveimi. Gerðu var margoft boðið kampavíns glas sem hún þáði að sjálfsögðu ekki þar sem tæknilega hún hafði ekki aldur til þess að neyta áfengis þar sem hún var bara fjórtán ára, þetta fólk vissi það augljóslega ekki. Hún hafði talað við mikið af fólki um allskyns málefni, allt frá því hvar hún hafði fengið þennan fallega kjól til umræðna um svöngu börnin í Afríku. Allir virtust vita hver hún var jafnvel þekkja hana persónulega, hún kannaðist vissulega við flest af þessu fólki en hún vissi ekki fyrir víst hver þau voru. Hún var þó viss um eitt, maðurinn sem hafði komið til dyra var gestgjafinn sjálfur, Oddur Davíðsson.
Hún heyrði út undan sér nöfn eins og Sólrún Ingibjörg, Oddur Einar, Katrín Þorgerður, Ingi Tómas og Árni Guðmundur.
Eitthvað af fólkinu hafði verið með ræðuhöld sem voru mjög skemmtileg og sumar ræðurnar virtust jafnvel vera beint til Gerðu sjálfrar.
Á milli ræðuhalda spjallaði fólkið saman um daginn og lífið, stjórnmálin í landinu og utanlands. Gerða hafði skemmt sér konunglega og alveg gleymt því að hún var alls ekki fjörutíu ára gömul og átti raun ekki heima þarna innan um allt þetta áhugaverða fólk, þegar fólkinu var boðið að setjast til borðs.
Maturinn var nú ekkert annað en þriggja rétta glæsimáltíð sem Gerða átti nú í engum vandræðum með að borða þar sem hún var orðin sársvöng enda einungis búin að borða morgunmat. Þegar fólkið var búið að ljúka mat sínum var því boðið inn í betri stofuna þar sem fólkinu var boðið enn meira kampavín sem Gerða afþakkaði í hvert skipti. Fólkið hafði spjallað létt saman þegar slegið var í glas og Oddur hóf að flytja ræðu sem greinilega hafði verið vel undirbúin því hún var alveg stórskemmtileg í alla staði. Þegar ræðan var á enda sagði Oddur: ,, Kæri forseti ég vil bjóða þig kærlega velkomna fyrir hönd okkar allra og bjóða þér orðið, gjörðu svo vel.’’
Allir klöppuðu og klöppuðu þar á meðal Gerða. En þegar engin forseti stóð upp var fólkið farið að undrast á stöðu mála.
,,Forsetinn hlýtur að vera á staðnum þar sem Oddur hafði beðið hana velkomna, en skrýtið, ég hélt að forsetinn væri karlmaður, en ég hef ekkert séð Ragnar Ólaf hérna’’ Hugsaði Gerða með sér.
Konan sem sat við hliðina á Gerðu hnippti aðeins í hana og hvíslaði að henni: ,,Drífðu þig nú upp, fólkið er farið að bíða.’’
Gerðu brá aldeilis í brún, var hún forseti Íslands? Það myndi að vísu skýra margt en það gat bara hreinlega ekki verið.
Gerða stóð þó upp og um leið byrjaði fólkið að klappa á ný. Þegar fólkið hafði hætt að klappa ætlað Gerða að hefja máls á ræðu sem hún virtist kunna alveg utan að, fram og til baka, heyrði hún kallaði fyrir aftan sig ,,Gerða…Gerða mín, drífðu þig nú!’’
Gerða svaraði á móti: ,,Já..Já, drífa mig hvert?? Hvert er ég að fara núna?’’
Þá fann hún þessa sömu manneskju hrista sig fram og aftur, og kalla: ,,Gerða mín snögg núna einu sinni.’’ Gerða snéri sér við á sá mömmu sína.
,,Gerða mín, á fætur núna og drífa sig í skólann!’’
Imagination is more important than knowledge. (A.Einstein)