Bráðnaður ís á yfirborði jarðar fyrir áratugi.
Ofvaxnir tómatar á mygluðum, sundurtættum bananahýðum sunnan við Bombai í hinum vanalega nútíma.
Framtíðin var, er og verður eitt stórt spurningarmerki.


Drengurinn var að horfa út um gluggann og starði á sjúkrabílana utan við blokkina á móti húsinu þeirra.

“Ekkert er ósvikið. Heimur versnandi fer með bjánum eins og mér.”

“Svona svona, þetta getur ekki verið svo slæmt…” svaraði systir mín með ómótstæðilega svarinu hennar. Eins og alltaf.
“Hvernig í fjandanum ættirðu að vita hvort þetta sé slæmt eða ekki?! Við erum í aðstæðu fjandans hérna og þú lýgur að mér,” svaraði ég… en ég vissi að hún kæmi með eitthvað sniðugt á móti. Að hún myndi gefa mér laglegan kinnhest með einhverju kjaftæði eins og vanalega. En mér skjátlaðist.
“… lýg að þér..?”
Ég sá að hægra augað hennar var að þorna upp á mettíma og ég vissi að það var mér að kenna. Lítið, saklaust tár rann niður kinnina hennar og loks niður að höku eftir vandræðarlegu þögnina sem hafði staðið yfir í u.þ.b. þrjár mínútur. Hún stóð upp og ég sá að sorgin varð fljótlega að heift.
“Hvernig í fjandanum ætti þér að detta í hug að ÉG….. Ég…. ég…..” hún brotnaði niður og lét sig detta í rúmið sem að yngsta systkinið átti. Afhverju þarf ég að vera svona mikill hálfviti og botna setninguna hennar. En samt geri ég það.
“… að þú hafir logið að mér..?”
Allt var hljótt. Hún hafði hætt að gráta. Ég vissi að ég hafði gert hana að ísnál. Afhverju? Því ég bókstaflega fann kuldann frá hjartanu hennar. Getiði hvað? Kuldinn stefndi að mér.

“… ég vissi bara að þú hafðir logið að mér. Þú gerir það alltaf. Þú reyndir að segja mér að aðstaða okkar væri ekki slæm. Ég veit að þú ert tilfinningarrík… en ég veit líka að þetta var lygi.” Þó ég lét eins og ég hafði rétt fyrir mér að utan hugsaði ég öðruvísi að innan. Ég var hálfviti að innan. Ég vissi að ég hafði enga ástæðu til að lifa. En hvaða unglingur heldur það ekki? Loks sast hún upp. Hún var blá í framan og tárin höfðu runnið niður í koddann með fallega barnamunstrinu á. Hún valdi koddaverið sjálf. Sprungurnar í andlitinu hennar eftir gangstéttina fyrir framan blokkina á móti höfðu mótast í andlitinu. Ég sá að blóðið var á leiðinni.
“Guð minn góður…”
Ég trúði því varla en ég kom engu öðru upp úr mér. Vísifingurinn lyftist sjálfkrafa upp að andliti systur minnar og sýndi henni að eitthvað var að. Hún sá það líka í óttanum framan í mér. Framan í hálfvitanum að innan. Sprungurnar urðu augljósari og augljósari.

“… hvað?”
Hún var orðinn nærri jafn óttaslegin og ég. Að lokum stóð hún upp og gekk að speglingum undir kojunni í herberginu.
“NEI!!” Öskrið hennar varð að tísti og maður heyrði að innan í henni voru tengingarnar í líkamanum að lokast. Hún var að kafna af hræðslu. Loks kom ég vitinu fyrir í hausinn á mér.
“… við verðum að koma okkur..”
Hvað var ég að segja?! Ég vissi að heimur nr. 3 var ekki tilbúin fyrir okkur fyrr en eftir einn og hálfan klukkutíma.
“Ertu ekki eitthvað klikkaður!?!? Þú veist að…”
“Ég veit hvað þú ætlar að segja og ég veit að allt fer í rugl ef við förum, en..”
“EN HVAÐ?!? Þú veist vel hvað gerist ef við förum!! Það er… það er… ekkert LÓGÍSKT við það að fara og…”
Ég var orðinn þreyttur á kjaftæðinu og stóð upp úr barnarúminu og gekk upp að kojunni, speglinum og systur minni.
“Þú sérð helvítis sprungurnar í hausnum á þér ekki satt?! EKKI SATT?!?”
Hún vissi vel að mér var fúlasta alvara. Þess vegna fór hún að gráta. Hágráta. Hún var ráðalaus. Ég var ráðalaus. Þess vegna fór ég að gráta líka.
“ÞÚ SÉRÐ HELVÍTIS SPRUNGURNAR ER ÞAÐ EKKI?!?”
Ég var orðinn svo æstur að ég tók utan um hausinn hennar og ýtti honum að speglinum þannig hún neyddist til að horfa á viðurstyggilega andlitið sitt í speglinum. Það fékk hana ekkert til að skilja mig. Hún lokaði bara augunum. Tárin urðu smám saman að blóði. Ófríð samblanda af blóði og vatni.

Hún féll niður í gólfið og ég líka, ekki löngu eftir á. Við vorum bæði þarna. Tveir ráðalausir unglingar fastir á milli andstyggilegs heims og undurfallegs heims sem var ekki leyfður fyrr en eftir klukkutíma. Ég horfði á fataskápinn og hann freistaði mín.
“… þú veist að þau eru alveg að koma heim..”
Mér brá alvarlega, því ég hafði ekki hugmynd um að hún hafði orku til að tala. Ég vissi ekki sjálfur hvort ég hefði orku til að svara. Samt fékk ég mig til þess.
“… ég veit… ég veit.” Ég vissi ekki hvort þetta var huggun eða enn eitt ráðið mitt til að þagga niður í henni til að horfa á fataskápinn sem var ekki leyfður fyrr en eftir óratíma. Ég stóð upp og lét mig hafa það. Ég gekk rösklega að skápnum, en höndin hennar greip snöggt í mig.
“Ekki!!” Ég vissi að hún vissi betur en ég… en alvöru vitið mitt var í undirmeðvitundinni. Eitthvað sem ég gat ekki teygt mig í, þó húnninn á skápnum var eitthvað sem ég gat teygt mig í. Hún hélt áfram.
“Þú veist að allt fer í rugl ef við förum þangað OF SNEMMA”
“Mér er alveg sama!! Þú veist að foreldrar okkar fara að koma heim frá sjúkrahúsinu og þau mega ekki sjá þig svona,” svaraði ég.
“Hvað með þig?!” Þarna kom það. Snilldarlega svarið hennar sem ég hafði beðið eftir.
“Heldurðu að þau hræðist ekki líka af því að sjá þig?!”
“Þú veist að þau geta dáið af því að sjá þig svona… þau mega ekki verða á eftir okkur innan í fataskápinn. Frekar fer okkar hringur í rugl en að þau fari af yfirborðinu of snemma.”
Ég fann það á mér að ég þyrfti ekki að spyrja hana, en ég gerði það samt.
“… ertu ekki sammála?”

Ég heyrði í lyklunum smeygja sér inn í skráargatið á húsinu. Ég heyrði í grátri frá konu og manni að hugga konuna. Þau voru komin heim af sjúkrahúsinu. Ákvörðun systur minnar var það eina sem ég gat haldið mér í. Fast í. Hjartslátturinn minn fór hraðar. Ég fann það í æðunum. Hurðarskell. Fótartök nálgast litla barnaherbergið.

Eftir að systir mín féll í yfirlið yfir mikilvægu ákvörðuninni hennar, hafði ég borið hana inn í fataskápinn. Göngin voru lengstu göng sem ég hafði nokkurn tímann séð á ævi minni. Það var ekkert ljós á endanum. Við komum hálftíma of snemma. Það sem beið okkar var myrkur. Endalaust myrkur.

Æviskeiðið fór hring eftir hring. Frá fyrsta brosi systurinnar til fyrsta kossins. Frá fyrsta hlátrinum bróðurins til fyrstu ástarinnar. Þetta leið allt svo hratt. Of hratt.

Þetta leið allt að unglingssystkinum á barmi blokkarinnar á móti litla húsinu þeirra. Þrýstingurinn á leiðinni niður að sprungunum í andlitunum þegar líkamarnir snertu stéttina á bílastæðinu fyrir neðan. Þau fundu engann sársauka lengur. Eftir marga hringi urðu þau alveg tilfinningalaus.

Þau vanvirtu biðlista þriðja heimsins og því er þeim refsað.



Bráðnaður ís á yfirborði jarðar fyrir áratugi.
Ofvaxnir tómatar á mygluðum, sundurtættum bananahýðum sunnan við Bombai í hinum vanalega nútíma.
Framtíðin er sorg.
_________________________________________________