Ég veit ekki hvað ég á að segja, það er eins og slökkni á sálinni.
Ljósastaurar gnæfa yfir borgina líkt og börn næturinnar, dansa á himnum.
Velkominn í huga geðveiks manns.
Ætli þetta hafi ekki allt byrjað þegar ég drap næstum föður minn,
Málið var að eins og alla fimmtudaga var svið í matinn, sama gamla rútínan, kjamminn á borðið!
En þá gerðist eitthvað sem ég bjóst ekki við, það kviknaði á ljósastaurunum mínum…kindin talaði. “Má ég fá vatnsglas, ég er eitthvað svo þurr í hálsinum?”
Ég hrökk við og stökk uppúr sætinu, “hvað er að þér drengur? Sestu niður og éttu eins og maður!” Heyrði ég föður minn segja, en það var eins og orðin kæmust ekki inn.
Ég sótti vatnsglas og hellti yfir líflausa andlitið, “hvað þykistu vera að gera, drengur?? Ertu alveg genginn af göflunum??”
Ég virti hann ekki viðlits, bróðir minn var þyrstur.
“Vilt þú líka að drekka?” spyr ég hálfétna kjammann sem faðir minn hafði verið að smjatta á og skvetti yfir hann.
Faðir minn stóð við borðið agndofa, en fór svo að hlæja og settist niður. Hann minntist ekkert á hvað gerðist.
Ég kláraði kjammann með bestu lyst og strauk á mér magann.
Faðir minn leit á mig og spurði “Má bjóða þér meira?”
Þessi orð opnuðu augu mín fyrir matarvenjum manna.
“já, takk” sagði ég, stóð upp og beit kinnina af pabba.