Geir á Hóli stóð á hlaðvarpanum og klappaði og strauk hestinum eftir sprettinn. Það gljáði á fífilbleika snögghærða búkinn nýgenginn úr hárum, sívalan, sællegan og nokkuð grannvaxinn; vöðvarnir voru harðir og stæltir; faxið sveipaðist til fyrir hafgolunni. Hesturinn reisti hátt höfuðið, skaut snöggt til eyrunum, hvessti augun og frísaði hátt; dró fast og þungt andann nokkrum sinnum, svo var mæðin eftir sprettinn farin. Það var auðséð á þessum stríðalda fimm vetra fola að fjörið sauð í blóðinu, og léttleikinn titraði í hverri taug í honum uppkefluðum og sumarsælum.
“Einstakt hestagull er þessi foli, þar vantar ekki snarræðið.”

Og Mera-Mangi gekk frá hinum gestunum á hlaðinu til þess að handleika folann og virða hann fyrir sér; ástin og aðdáunin skein úr augunum á karlinum.


“Níutíu og fimm! Bíður enginn betur?”

“Og hundrað,” sagði Eilífur í Gröf.

Hreppstjórinn sló honum hestinn; sneri sér að Eilífi, klappaði á öxlina og sagði:

“Þú getur borgað Eilífur minn, en nóg er nú samt gefið fyrir Fölskva sautján vetra gamlan.”

“Reyndar er það - en Geir heitinn hefði heldur viljað vita hann hjá mér en á flækingi: það datt mér í hug þegar ég hækkaði boðið.”

Þetta fyrsta haust sem Eilífur átti Fölskva fékk hann það nýnæmið að standa úti í krepjum og rigningum, en sá hrollur fór svikalaust úr honum þegar Eilífur var sestur á bak. Sérstaklega var það í síðari kaupstaðarferðinni sem Eilífur drakk heldur ósparlega og fékk gott færi á að reyna klárinn móti öðrum hestum sem nokkuð sópaði að. Ungu reiðhestarnir gerðu ekki betur en taka á móti Fölskva þegar hann var orðinn heitur og mjúkur. Hann sló ekki vindhöggin á sprettinum; strokaði þráðbeint; stökk riðulaust og hikaði hvergi, en Eilífur náði sjaldan úr honum vekurðinni, og í þeirri ferð hafði hann fullt í fangi með það að tolla í hnakknum. Það var raunar Fölskvi sem hafði allt ferðavaldið þótt Eilífi sjálfum virtist annað.


Suður Vindmelsbarðið hleyptu þeir allir þrír félagarnir. Fölskvi náði ekki viðbragðinu móti Brún Jóns í Felli, enda var hann bráðléttur klárhestur sjö vetra gamall, en Sigurður á Fífumýri varð strax aftur úr. Syðst á barðinu var Fölskvi kominn á hlið við Brún, enda var spretturinn orðinn geysilangur. Brúnn hafði götuna og beygði fyrir barðendann, en Fölskvi henti sér suður af þar sem hann kom að, og nú rambaði Eilífur ekki lengur í söðlinum, heldur byltist fram af og niður í grágrýtið.

Þeir félagar stumruðu yfir Eilífi og hagræddu honum eins og þeir höfðu lag til; svo reið Sigurður heim í Gröf og sótti menn og brekán. Það varð að bera Eilíf í fjórum skautum heim, en til allrar gæfu var vegurinn ekki langur. Eilífur var viðbeinsbrotinn, höggvinn á tveim stöðum á enninu og skinnið flegið af nefinu. Hann þurfti sannarlega hjúkrunar við og fékk hana líka.

Eilífur lá í mánuð og varð jafngóður af byltunni; vinir og vandamenn lofuðu guð fyrir þá handleiðslu og mildi, en bölvuðu þessum gapafengna klárskratta sem óhappinu olli.

Siggi Eilífsson spretti af Fölskva þegar heim kom og rak beislið af öllu afli yfir afturfæturna á honum; svo þveittu hundarnir honum suður á mýrar til hinna hestanna. Um kvöldið var hvasst veður og krapahríð, í myrkrinu frysti og gerði norðan stórhríð; daginn eftir var harðviðri og fjúk. Hestarnir hömuðu sig allir undir beitarhúsunum þegar Þórður kom þangað um daginn. Fölskvi kumraði við þegar hann sá manninn og elti hann að dyrunum, lamdi snjókekkina úr framfótarhófunum, stiklaði og snerist og saup hregg; reyndi síðast að reka snoppuna inn um dyragættina, en ekkert dugði. Þórður skellti aftur hurðinni og tróð torfi í gættina; Fölskvi snerist við dyrnar meðan hann var inni og hafði sömu viðleitnina þegar Þórður kom út aftur, en sá maður var ekki til einskis búinn að vera fjögur árin hjá Eilífi; hann vissi að það er lítill búhnykkur að koma hestum á húsvistina strax á haustin þar sem svo hagar til að þeir geti bjargað sér nokkuð úti. Eilífur hafði í full tuttugu ár vanið hesta sína á það að ganga úti meðan nokkur snöp var, og öll þau ár hafði hann grætt fé svo hér var við fulla reynslu að styðjast. Þórður hespaði vel báðar dyrnar og setti spýtur framan við; það var þó ætíð vissara.

“Andskoti skalf bleika hræið í dag,” sagði Þórður um leið og hann byrjaði að borða.

“Hann má skjálfa fyrir mér þrjóturinn,” og Siggi Eilífsson henti skafinni bóndahnútunni til Lappa gamla.

Heimilisfólkið studdi flest að því að honum væri það “rétt passlegt, óláninu því arna”. Siggi Eilífsson gekk á undan og vinnufólkið í andlegri halarófu á eftir þessum tuttugu vetra forystusauð. Það gerði samt ekki Gunna systir hans; hún lét eigin tilfinningar ráða. Gunna var aðeins þrettán vetra gömul svo hún þaut strax upp í hús til föður síns og bað að hýsa aumingja Fölskva, hann skylfi eins og hrísla.

“Ég er ekki vanur að hýsa hestana þó gráni í rót - og hann hefur ekkert til þess unnið að ég dekri meira við hann en hina hestana; eða sýnist þér það?”

“Má þá ómögulega hýsa hann, pabbi - hann er alveg að deyja úr kulda . . .”

“Lofaðu pabba að ráða, og vertu ekki að gera honum ónæði. - Ég vorkenni honum ekkert, þessum bleika glanna. - Hættu nú hreint við þetta, Gunna mín.” Þorkatla rétti höndina eftir mjólkurkönnu og gaf bónda sínum vænan nýmjólkurteyg að drekka.

Þegar hestarnir voru teknir um nýárið var Fölskvi orðinn horaður og tók sérlega illa á móti fóðri. Þórður kvartaði um hvað hann væri frámunalega vandætinn, hann léti svo illa við moði og rekjum, henti því til í stallinum og biti og berði hina hestana, “það væri ljóta bölvað illfyglið”.

En á góunni var þó Fölskvi loksins hafður sér og gefið það hey sem hann vildi vel éta; þegar hann svo var farinn að lifna í holdi var hann járnaður; Eilífur reið honum til messu, en Fölskvi var svo daufur og mæðinn, alveg ólíkur því sem hann hafði verið um sumarið og haustið, að Eilíf og heimamenn hans stórfurðaði á því. Svo kom það upp að klárinn væri brjóstveikur; það var svo sem engin meining í því að tigla honum mikið þegar ekki var hægt að brúka hann.

Um vorið var Fölskvi horaður og skáldaður; alveg ber bjórinn; stórar skellur til og frá sem hárguðu svo seint og illa; því það var dauðans þurrt og kalt þetta vor og gróðurinn lítill lengi fram eftir.

“Ég drep hann í haust,” sagði Eilífur, “það var ljóta helvítis kaupið á honum.”

“Já, það var nú ljóta kaupið.” Þórður góndi framan í Eilíf meðan hann sagði þetta.

Það var farið með Fölskva um sumarið eins og húðarhest sem maður vill hafa sem mest gagn af. Í lambarekstrinum varð Siggi Eilífsson að ganga af honum, og það gerði hann þó ekki fyrri en í fulla hnefana, sögðu félagar hans. Þórður reið honum í fyrstu göngurnar, og þá dugði hann, “en ósköp og andskoti íldi í honum ef nokkuð var farið hart,” sagði Þórður; og hann fékk að íla allar þessar þrennar göngur um haustið; eftir það tóku kaupstaðarferðirnar við. Hann reyndist furðu þolinmóður að bera og fór einstaklega vel með burð svo það var verið að hnauka honum fram yfir veturnætur.

“Bölvuð skömm er að sjá hann Fölskva, alveg drepinn og horaðan og svona meiddan eins og hann er orðinn:”

Jónas á Þröm sagði það við alla nábúa sína nema Eilíf í Gröf.

Fölskvi lærði ýmislegt í nýju vistinni; svo lengi lærir sem lifir. Nú gerði hann sér allt moð að góðu þegar hann fékk það. Kaus heldur að hafa á bakinu það sem ruggaði svona ofur hægt til þegar hann gekk fót fyrir fót, heldur en þessi snöggu, tíðu og þrotlausu högg rétt aftan við bógana beggja megin; honum varð svo þungt um andardráttinn ævinlega þá, og svo fékk hann smellandi sár högg á lærin og undir kviðinn, undir þennan nárann og yfir í hinn; hann sveið undan þeim og þoldi ekki að stökkva hart, þá ætlaði hann að kafna, og að sjá hina hestana stroka sig fram úr var líka sárt, en við það varð hann að venjast. Það var ekki til neins að kumra nú, það skildi enginn það. - Jú, einn maður skildi það þó, og það var Gunna; hana sá hann aldrei svo að hann gengi ekki á eftir henni, “humrr! hummrr! hummrr!”

Brunabörð af pottbrauði, kökur bæði bakaðar og hráar, fiskroð, hræringur og grautarskófir, það var með gleði þegið þegar Gunna gat laumað því til “gamla Fölskva”.

Fólkið hló að henni og hæddi hana fyrir þessa viðkvæmnis heimskuna. Siggi bróðir hennar var þó langverstur; en honum gat hún svarað og borgað í fullum mæli. En ávítur móður sinnar reyndi hún ekki að borga; henni datt ekki í hug að hún væri að stela fyrri en móðir hennar sagði það og sýndi fram á að hverju hún stefndi, “stórþjófnaði og æruleysi”. Gunna grét og lofaði bót og betrun; þá fór hún að draga af matnum sínum, vann til þess að vera svöng sjálf; hún var heilluð af þessum biðjandi, blíðu, móbrúnu augum sem töluðu því huliðsmáli sem gekk beint til hjartans: “humrr! hummrr! hummrr!” og Gunna klappaði og strauk ljósbleika höfuðið með tárin í augunum. Hún gat ekki við því gert; þessi augu gengu ekki úr huga hennar hvað sem pabbi og fólkið sagði, hvað sem Siggi hæddi hana og móðirin predikaði.


Það var einn frostharðan hríðarsnæringsmorgun, þegar mánuður var af vetri, að Fölskvi stóð undir fjóshlöðustafninum; þar hafði hann staðið frá því einhvern tíma um nóttina. Hann skaut hárri kryppu upp úr bakinu og stóð svo nærri með fram- og afturfætur sem hann gat. Holdið var dregið úr lendinni rétt eins og lærhnúturnar ætluðu að ganga út úr skinninu. Það þurfti ekki að standa fast hjá þessum klár til þess að telja rifin og það hárrétt. Faxið lafði niður með hálsinum annars vegar, ennistoppurinn var í togum og hálfrotnaður, gagnaugun gengin inn og augun virtust komin lengra inn, undir brúnabeinin; niður frá þeim voru dökkar klístraðar rákir. Svipurinn var þungur og þreytulegur; höfuðið hékk niður, og augun stóðu hreyfingarlaus og ógagnsæ líkt og rúðugler sem er orðið grænt af elli og aldrei hefur verið þvegið né skyggnt frá því það var sett í gluggann. - Taglið, sem áður fyrri var sérlega þykkt og stælt, var rotið og slitið; aðeins nokkur hár tóku niður undir hófskeggið og þykkur harðflókinn vöndull í því miðju. En andardrátturinn þungur og fastur snögg-kippti honum til svo sogaði við með lágu, hásu stuni. Það var hann, andardrátturinn, sem var gleggsta og ótvíræðasta lífsmarkið hjá gamla Fölskva.

Klárinn leit upp þegar hann heyrði fótatak Þórðar, hengdi svo niður höfuðið og bærði ekki á sér. Þórður kom ekki kjaftamélunum upp í, klárinn beit svo fast saman framtönnunum; svo bölvaði Þórður þrjóskunni og reif mélin í bræði sinni upp í hann.

Siggi Eilífsson og Jóhann smali komu báðir fyrir hlöðuhornið í þeim svifum.

Þórður hóf höfuðið á Fölskva hærra, Siggi Eilífsson lagði byssuna við ennið. Klárinn leit til hans undrandi augum.

Smellur, dimmur hljómþungur smellur, og ljósbleiki húðarklárinn datt niður, að framan fyrst; það gnast og marraði í tönnunum þegar kjálkarnir skullu í freðið túnið. Þarna lá hann á hliðinni og bærði hvorki legg né lið.

Þórður teygði fram höfuðið á hestinum og hélt fast í teyminginn. Jóhann brá hnífnum á hálsinn. Dökkrautt blóðið fossaði úr undinni. Á örskammri stundu var allt meginblóðið runnið, en þegar þeir ætluðu að brjóta Fölskva úr banakringlunni tók sig æð og spýttist bunandi framan á Sigga Eilífsson þar sem hann stóð framan við og studdist við byssuna.


En inni í rúmi sínu lá Gunna og breiddi yfirsængina upp yfir höfuðið; og grét beiskum tregatárum. Hún fékk aldrei að horfa framar í móbrúnu augun sorgblíðu; nú voru þau brostin og lifðu hvergi nema í hjarta hennar og endurminningunni.