Ég vakna við að ég anda hratt. Og ég velti fyrir mér hvers vegna. Mér finnst ég hafa andað svona hratt í margar vikur.

Ég sný mér við og lít á þinn helming af rúminu. Þú ert ekki þar. Ekki frekar en venjulega, þú hefur ekki sofið í rúminu síðustu sjö mánuði.
Í stofunni er enn kveikt á sjónvarpinu. Dagskráin er að sjálfsögðu búin. Ég kveiki mér í rettu og sýg í mig reykinn. Í öskubakkanum er sígarettan þín uppbrunninn. Þú hefur sofnað út frá henni. Aftur. Síðast, þá brenndirðu göt í teppið mitt. Þú ert sofandi. Ég skil ekki hvernig þú getur sofið svona, nótt eftir nótt. Í öllum fötunum og þú hefur ekkert breitt yfir þig. Ég tók eftir því í gær hvað sófinn er skítugur. Á armbríkinni er dökkur fitublettur eftir hárið á þér og áklæðið er gegnsósa af svita. Ógeðslegt. En ég er hætt að reyna að fá þig til að sofa í rúminu hjá mér. Þú getur ekki sofið þar, finnst það ekki gott. Samt hélt ég að þetta væri besta rúmið á markaðnum, kostaði tvö hundruð og sextíu þúsund. Kannski þess vegna sem þér líkar það ekki.

Ég tek einn smók enn og stubba svo rettuna. Ég þarf að kúka. Inni á klósetti, við vaskinn, rekst ég á manneskju. Við horfumst í augu, eins og við séum að reyna að átta okkur hvor á annarri. Ég veit að ég á að þekkja hana, eða að ég hef þekkt hana einhvern tímann, en ég kem henni ekki fyrir mig.

Ég sest og tek eftir því að það er enginn pappír. Bölvað fíflið þitt, minnti ég þig ekki á þetta í dag, tvisvar sinnum? Á hverju á ég að skeina mig? Vinnufatahrúgunni þinni, sem liggur þarna við tærnar á mér, kannski? Myndirðu þá hætta að skilja þetta eftir þarna, aftur og aftur? En þú tækir sjálfsagt ekki eftir því.
Ég sleppi því að kúka í bili. Áður en ég fer út af klósettinu lít ég aftur á hana, þessa konu við vaskinn. Og við horfumst aftur í augu. Hún segir ekki neitt. Það geri ég ekki heldur. En ég horfi í augun á henni og það er eins og hana langi að segja mér eitthvað, en þori því ekki, vegna þess að hún er hrædd um að það komist upp að hún er búin að gleyma mér, eins og ég henni. Það er alltaf svo neyðarlegt.

Í stofunni sest ég aftur og ég horfi á þig sofa. Ég man ekki hvenær ég gerði það síðast. Það er langt síðan.

Varstu líka svona ljótur í gær? Þú ert bara alls ekkert myndarlegur. Þú ert með djúpar svitaholur í kinnunum og á enninu. Vörtur á höndunum sem ég finn nuddast við mig þegar þú strýkur mér um bakið. Það er sjaldan. Annað eyrað á þér er neðar en hitt og þú ert alltaf með sprungnar varir.

Já.
Þú varst líka svona ljótur í gær. Og í fyrradag. Og daginn þar áður. Skrýtið að ég sé að taka eftir því fyrst núna. Ég hef mikla löngun til að vekja þig og segja þér þetta. En ég nenni ekki að berjast við að fá þig til að opna augun. Eða eyrun í það minnsta. Held að ég fari bara aftur að sofa. Það sem ég hef að segja þér má alveg bíða til morguns. En áður en ég skríð aftur upp í tvö hundruð og sextíu þúsund króna rúmið, tek ég fjögur blöð af eldhúsrúllunni og geri aðra tilraun við klósettið.
Hún stendur enn við vaskinn, konan. Hún hefur greinilega grafið það upp úr minningatöskunni sinni hver ég er, því hún heilsar mér með brosi. Og nú kemur það líka fram í huga minn, hægt og rólega.

Auðvitað! Og við hlæjum báðar að því hvað við vorum vitlausar að missa sambandið í svona mörg ár. Skiljum ekki hvernig við gátum látið það gerast. Ég fæ samviskubit yfir mig í stórri gusu.
Svo kúka ég. Á meðan segir hún mér það sem hana hafði langað að segja síðast þegar hún sá mig. Og ég hlusta. Fyrst verð ég öskureið yfir að hún sé að stinga nefinu í mín einkamál. En það sem hún segir höfðar til mín. Ég veit að hún hefur rétt fyrir sér. Þegar hún hættir að tala, er ég löngu búin að kúka og komin með far á lærin eftir klósettsetuna og náladofa í tærnar. Áður en ég skeini mig á eldhúsrúllublöðunum fjórum rek ég augun í vinnufatahrúguna. Ætti ég…? Eftir það sem konan við vaskinn sagði mér þá finnst mér það rökrétt. En ég er mannleg, og geri það mannlega.

Í svefnherberginu kveiki ég ljósið og dreg fram tösku sem ég set nærföt, sokka og tannbursta í. Og maskarann minn. Verð að halda andliti. Kíki á rúmið, fegin að sá kafli er liðinn.

Og áður en ég og konan við vaskinn förum út, skrifa ég á miða til þín og skil eftir á þínum helmingi af rúminu:

Ég hef tekið eftir því undanfarið
að ég er farin að anda svo hratt.
Í þeirri von að tíminn
sem ég eyði með þér
líði kannski fljótar.

Þetta er búið.
H.

Þegar ég kem út bítur frostið mig í nefið. Konan við vaskinn er horfin. En ég finn að hún er hérna einhvers staðar. Og ég anda djúpt.
Hægt.