Tréð



Fyrir vestan er fjörður sem fyrir löngu lagðist í eyði. Áður fyrr var þar þó nokkur byggð en þegar farið var að leggja vegi fyrir bíla og árabátar urðu að gufuknúnum skipum fækkaði íbúum fjarðarins smám saman. Enn í dag má finna leifar þessarar byggðar: hlaðna veggi og fúna bryggju.
Þar má finna í brekku einni rétt hjá mosavöxnum húsarústum gróna laut. Miðja vegu milli hennar og rústanna er gröf merkt kringlóttum steini. Fyrir löngu síðan var nafn grafið í hann en vindar og regn hafa máð það. Við gröfina vex birkitré, að lögun eins og hokinn maður. Fyrir þremur árum var ég á ferðalagi um þennan fjörð og rakst þá á bónda nokkurn. Hann vitjaði kinda en, eins og ég, þurfti að dveljast þar næturlangt. Bóndinn kunni margar sögur úr þessum firði, en þó var ein sem hefur setið einna lengst í minni mér og tengist þessu tré.
Fyrir mörgum árum þegar húsið hjá lautinni var nýbyggt bjuggu hér bræður sem þóttu hagir á að höggva í stein og hét annar Kolfinnur en hinn Refur. Um land allt var handverk þeirra rómað og þótti erfitt að skera úr um hvor þeirra væri ríkari að hæfileikum. Það kom ekki að sök því á milli þeirra var engin keppni, heldur fögnuðu þeir velgengni hvors annars sem sín eigin væri.
Þó að þeir byggju saman í mesta bróðerni, var skapferli þeirra ólíkt. Á meðan Refur naut þess að finna aðra íbúa fjarðarins og skemmta sér, dró Kolfinnur sig í hlé og vildi fremur sitja í lautinni og vera einn. Var það trú manna að hann sæti þar með álfum og huldufólki.
Vinnulag þeirra var einnig ólíkt. Refur kallaði til sín fyrirmyndir og lét þær standa kyrrar tímunum saman á meðan hann mótaði lögun þeirra í steininn, en Kolfinnur vann alltaf einn. Þetta ýtti undir sögur um að hann væri í slagtogi með álfum og væri það lögun og andlit þeirra sem hann mótaði.
Kvöld eitt í mars barst þeim bréf frá Laursen sem var landstjóri í þá tíð. Hann bauð þeim að búa til fyrir sig styttu af gyðjunni Freyju. Þó var boðið með þeim annmörkum að hvor um sig gerðu þeir sína styttu en síðan myndi hann velja úr hvora hann vildi. Þeir máttu þó hjálpast að og þiggja ráð hjá hinum. Þetta settu bræðurnir ekki fyrir sig og hófust handa.
Er kvöldaði héldu þeir sínum hætti hvor, Refur fór að finna skemmtan en Kolfinnur hélt í lautina í leit að næði. En eftir því sem að leið á vorið tók útlit Kolfinns að breytast. Hár hans tók að grána og þótti þetta vera miklar fréttir þar sem ekki var hér um aldurs sakir að ræða. Skaplyndi Kolfinns tók einnig breytingum. Hann varð þungbrýnni og styggari með hverjum degi sem leið. Refur lét hins vegar sem ekkert væri.
Dagar liðu og sífellt versnaði skap Kolfinns. Hann fékkst varla til að stíga fram úr rekkju og í húð hans var komin undarlegur grámi. Refur gat ekki lengur leynt áhyggjum sínum og fékk til sín vitra og reynda lækningamenn. Allir tóku þeir eftir hve fölur og grár Kolfinnur var. Hann var kinnfiskasoginn og dökkir baugar höfðu myndast undir bláum augum hans. En því miður kunnu lækningamennirnir ekkert svar við því sem virtist hrjá geð Kolfinns. Samt virtist einhver kyrrð svífa yfir honum, sem gerði það að verkum að næstum göldrótt var loftið umhverfis hann. Undir ábreiðu stóðu stytturnar tvær, ekki langt frá rekkju Kolfinns og hafði heimilisfólkið orð á því að stundum teldi það sig sjá hann stara í þá átt.
Kolfinni hélt áfram að hraka. Kvöld einn um mitt sumar kallaði hann Ref til sín. Hann bað Ref um að styðja sig út í lautina, sem hann naut svo að vera í. Refur hjálpaði bróður sínum út. Kolfinnur bað hann um að finna sig á ný eftir nokkra tíma því hann vildi fá að vera einn. Refur beygði sig undir vilja hans og gekk á braut. Svona gekk þetta nokkur kvöld í röð og ávallt vildi Kolfinnur einn vera í lautinni. Loks kom að því að Kolfinnur bað bróður sinn að sitja hjá sér um stund. Hann bað Ref um að sjá til þess að hann yrði jarðsettur þarna rétt hjá, því ekki vildi hann hvíla í kirkjugarðinum, sem var hinum megin fjarðarins. Eftir þessa beiðni var Kolfinni aðeins ein ósk í huga og fór hann þess á leit við Ref að hann gróðursetti birkitré á leiði sitt. Og nokkrum kvöldum síðar, þar sem hann lá einn í lautinni, andaðist Kolfinnur.
Refur hjó sjálfur grafstein handa Kolfinni og var það mál manna að aðeins hinn látni hefði getað leikið eftir það handbragð og myndir sem í steininn voru grafnar. Refur tók sjálfur Kolfinni gröf þar sem hann hafði óskað og gleymdi ekki að gróðursetja birkitréð.
Að nokkrum dögum liðnum settist Refur einn inn í hús þeirra bræðra og dró ábreiðuna af styttunum. Hann hófst handa á nýjan leik við að móta gyðjuna. Hann var nú einn um allan heiðurinn, þar sem landstjórinn vildi ekki neinn annan til verksins en hann. Þegar Refur sat að verki gleymdi hann tímanum og fjarveru bróður síns. Með hverjum degi sat hann lengur og lengur að verki. Hann fór ekki lengur út til að skemmta sér, heldur sat hann einn á kvöldin við leiði Kolfinns. Þar hafði sprottið upp kræklótt hrísla og á undraverðum tíma náð þó nokkrum vexti. Þeir sem sáu hana undruðust hversu mjög hún óx og Refur sjálfur var gáttaður en um leið fannst honum hríslan fráhrindandi.
Þremur árum síðar sendi Refur bréf til landstjórans og ekki leið á löngu þar til að sá kvittur hafði borist milli bæja að styttan væri fullbúin. Birkitréð var nú orðið all stórt og mun hærra en menn vestur á fjörðum voru vanir. Þung og mikil grein slútti yfir húsinu þar sem Refur bjó og þó að þeir væru margir sem kæmu til að dást að handbragði Refs voru þeir ekki færri sem komu til að bera þetta undarlega tré augum. Refi var ekki illa við þessa gesti, þvert á móti virtist hann síður vilja vera einn. Suma daga, þegar vindur var allhvass, mátti heyra hvernig hvein í greinum trésins.
Það var þungt yfir þegar sendimenn landstjórans komu niður í fjörðinn. Þeir höfðu næturdvöl á bæ einum því degi var tekið að halla og ekki þótti við hæfi að halda áfram í myrkri. Vind tók að hvessa og eftir því sem leið á kvöldið versnaði veðrið. Sendimennirnir prísuðu sig sæla yfir því að hafa ekki haldið áfram. Óveðrið sótti í sig meiri kraft og það söng í öllu. Inni í bænum varð engum svefnsamt.
Dagur reis. Enn blés en mikið hafði dregið úr. Bóndinn á bænum ákvað að fylgja sendimönnunum. Þeir fóru inn fjörðinn og heim að húsi Refs.
En um nóttina hafði nokkuð undarlegt gerst. Greinin sem slútti yfir húsið hafði brotnað og fallið í gegnum þakið. Mennirnir störðu um stund á eyðilegginguna en fóru síðan að leita Refs. Það sem kom þeim á óvart var, að hvorki hann né styttuna var nokkurs staðar að finna. Sendimenn landstjórans héldu því tómhentir heim. Aftur á móti, birtist stytta af Freyju eina vetrarnótt á torgi í höfuðstaðnum og stendur þar enn.
Og lautin er enn á sínum stað, sem og gröf Kolfinns. Þar stendur birkitréð einnig, bóndinn sagði mér að stundum á vindasömum kvöldum mætti heyra hvernig það hvín í greinunum og þá er næstum eins og einhver segi:
-Ég veit, ég veit…