- Sumarlína Henriksdóttir! Hvernig dettur þér í hug að láta svona fyrir framan heldrimanninn!
- Mamma, ég var nú bara að segja skoðanir mínar!
- Ja, það má samt ekki vera með dónaskap, stúlkan mín.
- Allt í lagi, mamma.
Af hverju var hún alltaf skömmuð, en ekki Sólberg eða Hringur. Þeir voru alltaf að stríða henni og svo átu þeir heilu kökurnar, sem voru reyndar faldar inni í skáp. Þeir fundu þær alltaf.
- Jæja, Sumarlína, farðu og biddu heldrimanninn afsökunar.
- En mamma!
- Ekkert en, þú gerir eins og ég segi.
Ég gekk út úr herberginu þar sem mamma hafði dregið mig inn á eyrunum og bað Engiljón Ísólfsson afsökunar. Ég hafði reyndar bara svarað hreinskilningslega og sagt að mér fyndist búðingurinn hans vera vondur. Hann hneykslaðist ekkert, bara hló. Mamma þurfti samt alltaf að vera svo virðuleg og börn máttu aldrei vera börn, í hennar augsýn.
- Engiljón, búðingurinn sem þú gerir er alveg ágætur. Á meðan ég þarf ekki að borða hann.
Hann hló bara aftur sínum háa hlátri og þótti kímni mín með eindæmum. Það leið samt ekki á löngu og mamma var búin að draga mig á eyrunum inn í eldhús. Jú, ég átti að skúra. Alveg týpískt. Þetta gerir hún alltaf þegar ég fer ekki eftir hennar reglum. Skúringarfatan stendur alltaf út í horni og hana nota ég svona þrisvar á dag. Gólfið hjá mömmu er alltaf einstaklega hreint, mér að þakka.

Skúri, skúri, skúr. Mér fannst samt ekkert svo hræðilegt að skúra. Ég er búin að venjast því. Samt vona ég að þetta verði ekki ævistarf mitt. Maður uppsker ekki mikið með því, ja, nema að gólfið er ávalt hreint. Það skal ég segja ykkur.
- Mamma!
- Hvað viltu Sumarlína, veistu ekki að maður öskrar ekki í heldrimannaboðum?
- Fyrirgefðu mamma en ég finn ekki skrúbbinn. Ég er búin að skúra gólfið og ég skal bara skrúbba það líka fyrir þig.
- Nei, það er óþarfi. Þú gerðir það tvisvar í gær þannig gólfið helst vonandi hreint þangað til á morgun.
Hún gaf mér þennan svip þegar hún er þakklát en vill ekki sýna það. Mamma þurfti alltaf að vera sterk kona. Pabbi er alltaf í burtu, á fundum með forsetanum og ríkisstjórninni. Þess vegna þarf mamma að vera sterk til að geta hugsað um þrjú börn. Það var örugglega ekki létt.

Ég hef samt hitt hann, forsetann sko. Hann er með hárkollu, eða það held ég allavega. Hann er kominn með skalla og vill ekki sýna hann. Þess vegna notar hann þessa mottu og hefur hana á hausnum á sér. Hann talaði einu sinni við mig og spurði mig hvort mér fyndist gaman að eiga heima á Sólvallarhólum. Ég sagði auðvitað það sem mér finnst og það endaði með því að ég þurfti að skúra svefnherbergi mömmu og pabba. Forsetanum fannst gaman að tala við mig. Hann sagði mér það. Ég hitti hann oft því ég fer stundum með pabba til útlanda og þá er hann með mér í flugvélinni. Ég hef oft teiknað handa honum myndir og hann segist geyma þær í skúffu heima hjá sér. Í stóra húsinu á Bessastöðum. Ég hef reyndar aldrei komið þangað. En forsetinn, sem ég kalla oftast Svenna forseta sagði að ég fengi kannski einhvern tímann að koma þangað. Ég vona að hann hafi verið að segja satt.