Þessi saga er hugsuð sem svar á móti sögunni sem tmar sendi inn fyrir hann, ,,Sveindómsmissir Antikrists(Nauðgun)". Ég ætlaði að senda hana í flýti, en netið mitt var bilað svo ég hafði nægan tíma til að betrumbæta hana. Það er öllum smásöguhöfundum hollt að hafa bilaða nettengingu.



Bíllinn rennur áfram, Pabbi hefur sleppt bensíngjöfinni. Við rennum stjórnlaust á Þingvallaveginum og ég veit ekki hvert við erum að fara. Kannski veit það enginn heldur.
Mamma vildi alltaf að fjölskyldan væri saman. Það er þess vegna sem ég hef þurft að eyða nær öllum frítíma mínum með henni. Um hverja einustu helgi fórum við upp í sumarbústað sem Pabbi og Nonni bróðir hans smíðuðu svo að við gætum eytt helginni þar í rólegheitum. Annars þá var aldrei rólegt þar sem við vorum. Fjögur börn með eins árs millibili hlaupandi til og frá, sífellt að trufla Pabba þar sem hann sat með blaðið sitt og vindilinn. Við hlupum upp í brekku og kútveltumst niður, trítluðum niður í hraun að skoða stóru álfasteinana, stundum fór mamma með okkur.
Mamma var lítil kona. Hún var feitlagin og stjórnsöm, allir gerðu sem hún sagði og vildi. Okkur systkinunum, Dóra, Höllu, mér og Systu líkaði aldrei sérlega vel við hana. Það var eins og hún væri fóstra og mamma okkar væri einhvers staðar í burtu að bíða eftir að við kæmum heim úr leikskólanum sem gerðist aldrei. Þessi fóstra sem ég kynntist á fyrstu árum ævi minnar var kona sem átti nóg af hjartahlýju og kærleik innan við stóra barminn en sýndi okkur það aldrei. Lét svona rétt glitta í það til þess að stríða okkur, en svo kom kuldalegt viðmótið aftur fram um leið og hinn gullni kjarni persónu hennar skaust inn aftur.
,,Hannes réttu mér andrésblaðið!” hvæsti í Systu þar sem hún teygði makindalega úr sér í framsætinu.
,,Já…ðétta Þyþþu adjésbaði!” glumdi við í þeim litla sem tók meira en helminginn af aftursætinu. Þessi heimskulegi bílstóll fyllti nær út í alla veggi bílsins og passaði engan veginn við smámæltu mannveruna sem í honum sat. Við hliðina á honum sat Halla, eða öllu heldur undir honum.
,,Náðu þér bara í það sjálf fyrst þú getur nú teygt alla skanka svona langt út…ætlaru kannski að skrifa á það líka?” svaraði ég. Allt í einu var ég orðin einhver mamma og allir krakkarnir horfðu á mig. Systa var alltaf að skrifa allt niður sem hún sá og hugsaði. Ég hafði stolist í nokkrar af sögunum sem hún geymdi í læstri skúffu, þær voru ekkert merkilegar.
Pabbi skipti um gír en einbeitti sér ekki nógu mikið svo bíllinn kipptist við. Hann horfði á mig í baksýnisspeglinum og ræskti sig.
,,Hannes minn viltu ekki láta svona við systur þína. Það er óþarfi að vera svona kuldalegur.”
Ég losa bílbeltið og reigi mig aftur í skottið. Stóri svarti plastpokinn lá yfir blaðinu. Það hellist skyndilega yfir mig ógeðstilfinning sem nístir merg og bein. Ég hristi hausinn svona eins og til að hrista þessa ógeðslegu leðurblöku sem hefur lagst yfir hausinn á mér. Allt í einu verður plastpokinn hvítur og gegnsær og það sem er inn í honum brosir…
Systa má eiga sitt Andrésblað í friði. Ég ætla ekki að ná í það. ,,Pabbi má ekki opna fleiri glugga? Mér líður illa.”
Svona nú Hannes minn, við erum að verða komin. Sjáðu hraunið þarna, er það ekki tilvalið?”
,,Kannski.” Ég er staðráðinn í því að láta Pabba ekki mýkja mig upp þrátt fyrir þennan yndislega sólskinsdag. Við Pabbi stígum út úr bílnum og hjálpumst að við að bera plastpokann út í hraunið. Systkini mín ærslast í kringum okkur, hlaupa til og frá. Dóri dettur og skrapar á sér góminn á hrauninu og systa er næstum því dottin ofan í djúpa gjótu. Pabbi reynir ekki einu sinni að þagga niður í þeim.
Dóri kemur. Efri vörin hans er næstum því farin af. ,,Pabbi sjáðu, systa er að skrifa á skýin. Geturu sagt henni að hætta?”
Pabbi lítur upp í himininn og sér systu svífandi um þar sem hún teiknar og krotar á skýin. Þar má lesa: ,,Einu sinni var maður sem átti ýsu sem gæludýr. Hann fór oft með hana út að sinda. Ýsan var stundum einmana því eingir aðrir fiskar vildu leika við hana. Dag einn fór…” Skýin breytast sífellt og það sem hún skrifaði fyrst er rétt svo horfið eða afmyndað. Fyrir neðan textann var systa búin að teikna mynd af ýsu í bandi sem var orðin nokkuð bækluð.
Lengra út í hraunið förum ég og Pabbi. Finnum nógu djúpa gjótu fyrir pokann. Við þræðum hraunið þvert og endilangt því Pabbi vill fá fullkomna gjótu þar sem við getum lokið verkinu. Ég horfi aftur upp á systu, ýsan sem hún teiknaði hefur breyst, bandið sem hún var bundin í hefur tognað og lengst og orðin þráðbein lína. Allt í einu kemur sólin askvaðandi og smeygir sér í gegnum ýsuna sem nú lítur út eins og gullið víkingaskip. Ég sé það koma, árarnar tígulegar, borðstokkurinn úr skíragulli. Þetta er fögur sjón. Hin systkinin horfa á með aðdáun. En Pabbi lítur bara niður og heldur áfram að leita að haganlegri gjótu.
Loksins finnst hún. Pabbi kallar á börnin og skipar systu að koma sér niður úr skýjunum eða hún hafi verra af. ,,Krakkar, segið nú bless við hana mömmu ykkar.” Við signum okkur og ég sé mömmu hverfa ofan í myrkrið. Aftur kemur yfir mig þessi hrollkennda tilfinning sem leðurblakan gerir. Ég skipa þessari ógeðslegu leðurblöku að fara. En hún fer ekki. Hún læsir klónum í hársvörðinn á mér, inn undir skinnið og skrapar hauskúpuna. Ég fæ leiftandi höfuðverk, öskra og æpi, æpi á leðurblökuna svo hún fari burt. Þá byrja ég að signa mig. Um leið og ósýnilegi krossinn myndast á brjóstinu æpir leðurblakan, enn þá hærra en ég. Hún sogast ofan í gjótuna og hverfur með skerandi veini.

Þá skil ég það. Pabbi hefur gifst djöflinum. Við erum ekki í útför mömmu, heldur í fæðingu antikrists. Heimskinginn hann pabbi að láta djöfulinn sökkva ofan í jörðina, beinustu leið í gegnum flekasprunguna og niður í jörðina þar sem hann á heima. Systa lítur sem snöggvast upp og sér hvar hinn guðdómlega tign víkingaskipsins hefur farið í burtu og í staðinn er gatið í skýinu orðið að leðurblöku. Hún er meira að segja rauðglóandi, flýgur í áttina til okkar og rekur upp vein sem ekki aðeins sker sig í gegnum allt, heldur hefur veinið þennan tón sem fær brjóstkassann til að titra. Við erum öll komin með skelfingarsvip á andlitin þegar við sjáum þennan djöfullega dreka æða í áttina til okkar. Nú skil ég það, heimurinn er að farast. Ég gríp fyrir andlitið og það síðasta sem ég sé er þegar sól sortnar og fold sígur í mar.