1.


Hann hafði aðeins orð og frásagnir annara af því sem gerðist þegar hann fannst.
Hann virtist minnislaus og hálfpartinn út úr heiminum. Einhver bæjarstarfsmaður gekk nærri því ofan á hann þar sem hann lá undir samansöfnuðum pappír og plasti, illa slasaður og rænulítill. Lögregla og sjúkrabíll komu fljótlega á staðinn og aumingja flækingurinn fluttur illa lyktandi og slepjulegur á næsta spítala. Afgangurinn er mestmegnis læknabull og sjúkrasaga, ósköp leiðinlegt.

En…

Hann man sjálfur eftir sér tveimur vikum seinna. Liggjandi vel innpakkaður undir sæng í sterkbyggðu rúmi sem virtist eina húsgagnið inni í grænmáluðu herberginu fyrir utan lítið borð og stand með pokum og leiðslum. Hann fylltist strax ótta sem virtist læðast upp með honum eins og kaldur snákur og hann kallaði á hjálp. Honum leið eins og týndu barni.

Bústin svört kona í skjannahvítum hjúkkubúning kom inn og sagði eitthvað á máli sem framandi en samt skiljanlegt. Hann spurði hana hver hún væri en hún virtist ekki skilja. Hann spurði aftur og áttaði sig þá á því að hann var að tala við hana á einhverju öðru máli en hún.

“Im sorry sir but I dont understand your language, can you speak any english?” English, það er þá málið sem hún er að tala. Eitthvað veikt braust um í huga hans og annað orð kom úr óminninu. English, hún er að tala English!
Hann hafði örugglega horft heillengi á hana því hún varð öll vandræðaleg og spurði annarar spurningar

“Sir, are you allright” Hann opnaði munninn en kom engu út úr sér, hálsinn var of þurr, hann ræskti sig
“Yes, allright” hann hikaði.
“Where am I” spurði hann á þessu máli sem honum fannst einhvernvegin ekki nógu þægilegt undir tungu til að vera hans eigið.

Hún sagði honum hvar hann var og hvernig hann fannst, alla sólarsöguna, amk það sem skildist, sem var slatti.
Þegar hún minntist á minnisleysi rann upp fyrir honum ljós. Hann leit aftur í kringum mig, á konuna og svo einhvernveginn inn í sjálfan sig og sá ekkert.
Hugsanir hans stoppuðu á einum punkti og einni spurningu; Hver er ég? Ég heiti eitthvað, en hvað? Hver í fjandanum er ég? Hvað er ég að gera hérna og afhverju?
Hann fann hvernig hjartað tók á sprett og allt í einu virtist alls ekki nóg loft þarna inni. Hann andaði hraðar og hærra og fann kæfandi innilokunarkennd læsast um sig allan. Herbergið skrapp saman og virtist blandast saman við hugsanirnar eins og svört olía. Hann braust um og reyndi að standa upp en bilað jafnvægisskynið ruglaði þennan heim enn meir þar til hann hvarf.


2.


Hann rankaði við sér seinna. Hve lengi hann hafði verið meðvitundarlaus vissi hann ekki, en honum var sama. Aðeins ein hugsun komst að í huganum. Hvað heiti ég?. Hann bar nafn, hann hlaut að bera eitthvað nafn. Þetta er það fyrsta sem er tengt við þig eftir að maður fæðist, það næsta eftir “mamma” og “baba” sem þú lærir að segja og muna. En hann hafði ekki hugmynd um það hvaða nafn hann bar.

Eftir því sem virtist margar eilífðir í heimi sem hann kannaðist ekkert við leið honum algerlega eins og týndu barni í kaldri eyðimörk. Víðáttubrjálæði, innilokunarkennd og kvíði blönduðust saman í einn graut. Hann grét, örugglega lengi því hann varð allur þrútinn og rauður eftir drykklanga stund.
Einhverjir læknar kíktu á hann, spurðu ýmissa spurninga, sumra hreint út sagt fáránlegra og potuðu í búk hans og skoðuðu. Einn sagðist vera sálfræðingur og spurði um minnisleysið. Sjúklingurinn virtist að lækna mati hafa óskemmda málkunnáttu, hann skildi tal þó hann virtist augljóslega vera útlendingur, talandi furðulegt mál sem enginn vissi nafnið á. Hann hafði þá amk tungumálakunnáttu, kunni að reikna eitthvað og vissi nöfnin á flestum hlutum í kringum sig á þessari ensku.

Svo spurði læknirinn hann hvort hann hefði séð sjálfan sig í spegli? Hann hafði sjaldan heyrt furðulegri spurningu, auðvi… En hann þagði snögglega. Hann vissi allt í einu ekki hvernig hann leit út. Allar persónur hafa andlit, en hann var varla persóna, óskrifað hvítt blað, með enga ásjónu.
Vorkunnarsamur læknirinn sótti spegil og rétti honum. Hann horfði tortrygginn á spegilinn og vildi helst ekki taka við honum. En hann gerði það, passaði sig á því að halda honum á hvolfi. Drykklöng stund leið. Við hvað í fjandanum ertu hræddur? Sagði hann við sjálfan sig í huganum. Við hvað? Veit ekki.
Samt leið honum eins og í glerinu gæti verið afskræmdur hryllingur, skemmt blóðgað fés, og umlykjandi myrkur.

Hann sneri speglinum við og horfði orðlaus á manneskjuna sem glápti opinmynnt á sig. Hann fann ískaldan hroll hríslast eftir bakinu. Hann glápir á mig! Hann leit snöggt undan en stóðst ekki mátið og horfði aftur í spegilinn, í gegnum hann. Þessi vera, hann, var með dökkbrúnt hár, barta, þrekið andlit, og þessi augu sem virtist stara inni í huga hans. Augu sem blikkuðu, manneskjan í speglinum gerði það sama. Þetta er ég!.
Hann grýtti speglinum frá sér og heyrði brothljóð sem virtust berast í gegnum langan tóman gang. Hendur hans sem voru augljóslega ekki nógu stórar til, reyndu að fela fölt andlit og hann kreppti sig saman.
“Farðu” sagði hann lágt við sálfræðinginn sem horfði bara orðlaus og opinmynntur..
“FARÐU, DRULLAÐU ÞÉR ÚT!!!” Öskraði hann svo aumingja læknirinn kipptist við og stóð upp svo snöggt að stóllinn valt.
“Ég,, kem aftur,, á eftir” virtist doktorinn stama áður enn hann stikaði út úr herberginu.
Hann dró sængina yfir sig og grét enn fleiri tárum.


3.


Alabama, það var nafnið á ríkinu sem hann var í, Alabama, Us of A. Hann lá áfram á sjúkrahúsinu í endalausa daga til viðbótar áður en hann var fluttur í furðulegum bíl á eitthvert heimili sem virtist halda nauðugum vesalings furðufuglum eins og honum. Reyndar þjáðist enginn af minnisleysi þarna en fjölmörgu öðru, ekkert nema helvítis geðsjúklingar hérna sagði hann seinna í viðtali við sálfræðing sem pólitískt rétt þenkjandi reyndi að leiðrétta hann, menn væru ekki læstir hér inni þó þeir ættu við andlega erfiðleika að stríða, þarna voru ekki geðsjúklingar, þroskaheftir eða fífl. Engin fífl, nema þú hugsaði hann með sér og brosti til sálfræðingsins.

Hann var settur í allskyns próf og meðferðir, sem áttu vonandi að vinna bug á minnisleysinu og rifja upp eitthvað. Það virkaði ekki, það virkaði ekkert. Hann vissi ekki enn hvaða tungumál þetta var sem hann talaði fyrir utan enskuna, talaði mikið við sjálfan sig á þessu furðumáli en hætti því smám saman og orðin fóru að týnast smátt og smátt eins og stakir sokkar í þvottavél.

Hann lærði smávegis í sögu þess á milli sem hann át töflur og lék tilraunarottu.. Landið hafði nýverið kúplað sig úr stríði við einhverja asíuþjóð og forsetinn svikið og prettað sjálfan sig úr embætti. Árið var víst 1976. Hann lærði skák, þótt hann virtist kunna eitthvað fyrir sér áður, sjálfsagt eitthvað af því sem hann gleymdi ekki. Hann vissi ekki hvað hann hét en kunni að hrókera.

Hælið var í niðurníslu. Veggirnir virtust leka niður með upplituðu veggfóðrinu og gólfin voru ísköld. Helvítis skítabæli umlaði hann oft þegar gæslumennirnir ráku hann í rúmið. Næturnar voru mun verri en dagarnir. Hann fékk martraðir á hverri nóttu í marga mánuði, martraðir sem hann man ekki nema í örsmáum slitrum hvernig sem hann reyndi. Að púsla slitrunum saman gagnaðist honum ekkert og sálfræðingshelvítin gáfu honum bara fleiri pillur.




4.


Mánuðir liðu, ár, eilífð, áður en almáttug yfirvöld þessa helvítis staðar sem hann húkti á gáfust upp og lýstu því yfir að minnisleysi hans væri ólæknanlegt að svo stöddu.
Hann var útskrifaður og átti að byrja á nýju lífi. Eftir allan tíma með þetta svokallaða líf eins og í pásu fannst honum eins og hann væri frjálsari en nýsloppinn fugl úr búri. Hann hafði lært með erfiðismunum þann einfalda hlut að komast í gegnum daginn án grátkasta, án hræðslunnar við þetta stóra gap í huganum. Hann varð smátt og smátt að nýjum manni.
Hann fékk kennitölu, nýtt líf, nýtt nafn (hann valdi að heita Gary Jones, hljómaði flott og bíómyndalegt. Gary Grant var líka í uppáhaldi eftir langar kvöldstundir fyrir framan eina sjónvarpið á staðnum.). Hann varð formlega Bandarískur borgari, sex árum eftir atburðinn sem fæddi hann minnislausan á ný í heiminn.


5.


Níundi áratugurinn var byrjaður og tónlist sem kallaðist diskó varð eitt af fjölmörgu sem fóru í taugarnar á Gary ásamt ruglandi heimilisfangi hans og afgömlum bílskrjóð sem hann fékk á lítin pening fljótlega eftir að hafa tekið bílprófið. Hann komst klakklaust í gegnum það próf, hafði augljóslega kunnað að aka bíl og var ekki breskur því hann ók ekki öfugt á veginum og hafði fínar tennur (Ökukennari hans sem var sköllóttur langt fyrir aldur fram og þrekinn fyrrverandi hermmaður úr Víetnamstríðinu hafði tönnslast á þessum brandara sí og æ í bland við raunasögur frá “Nam”)

Lífið komst nokkurn vegin á skrið hjá honum eftir smávegis hökt og stapp við vinnuveitendur sem vildu fyrir alla muni ekki ráða minnislausa furðufugla eða glæpamenn (hann gæti allt eins hafa verið slíkur áður en hann vaknaði upp sem ekkert á spítalanum) en hann fann starf að lokum og vann frá 9 til 5 við að aka lyftara á stórum timburlager. Launin voru lág en nægðu fyrir viðhaldi á bíldruslunni, hrörlegri íbúð og mat.
Hann fór reglulega í heimsókn til sálfræðings. Hann var svosum ekkert skyldugur til þess en samþykkti að lokum eftir langa sannfæringarræðu sálfræðingsins á hælinu. Það var alltaf von, og þó ekkert gerðist í þeim málum var nauðsynlegt að líf Garys kæmst klakklaust á nýtt ról, jafnt innra með sem utan. Tímarnir hjá sála voru ágætir, þeir spjölluðu um daginn og veginn og hann var aldrei spurður um neitt viðkvæmt og honum leið betur á eftir. Þetta var næstum því eins og kaffistofuspjall nema hvað kaffitíminn kostaði 300 dollara.

Árin liðu áfram og burt og Gary flutti burt, til Indianaríkis, nánara tiltekið til bæjar sem hét Gary. Tilviljunin var fyndin, eða svo fannst honum þó kunningjum hans á nýjum vinnustað þætti ekki mikið til þess koma, það bjó áreiðanlega hellingur af mönnum í Gary, Indiana sem hétu Gary. Hann komst í ræstingar hjá fyrirtæki sem sérhæfði sig í verksmiðjum. Launin voru nokkuð hærri en starfið sóðalegt og lýjand, betra en ekkert þó. Gary Jones var amk eigin herra og púslaði nýjum bitum í tómlegt púsluspilið sem hann áður var.


6.


Árið 1987 gekk í garð og hin hlið rúmsins sem Gary hafði sofi í einn svo margar nætur var loks hituð upp af öðrum líkama.
Hann hafði kynnst konu á bar rétt við jaðar bæjarins. Hún var blikksmiður, hreinn frumherji síns kyns og kallaði fátt ömmu sína. Hún var samt engin brussa, nokkuð grönn af rúmlegra fertugri konu að vera og brjóstgóð. Svörtu hárinu hélt hún enn síðu en huldi það með þykkum klút við vinnu. Hún var sjálfsagt 5-10 árum eldri en Gary þó hann gæti ekki sagt nákvæmlega til um það svosum, hann vissi ekki hvað hann sjálfur var gamall svo..
Hún hét Stacy, var af indjánaættum og stærði sig réttilega af því að vera í valdamiklum Cherokee ættbálki þó hún væri uppreisnargjörn í sér og hefði snemma yfirgefið verndarsvæðið og gengið gegn fjölskyldu og ættbálkaráði (konur voru ekki sérlega vel liðnar í karlastörfum)

Það var einmitt fyrir áeggjann hennar sem Gary fór í iðnnám og vann á undraskömmum tíma upp samning sinn í járniðnum og gerðist járnsmíðameistari.
Þau hjónin unnu vel saman í öllu því sem tengdist hjónabandinu og unnu brátt einnig vel saman á stóru verkstæði sem þau opnuðu í sameiningu. Viðskiptin gengu vel og ástin dafnaði.

Ári seinna voru þau bæði komin með sinnhvorn sveininn á samning og hugðu að því að stækka við sig. Stækkarnir urðu líka á öðrum sviðum seinna þetta ár og erfingi fæddist inn í Jones fjölskylduna. Lítið kríli með stór brún augu sem vildu helst sjá allan heiminn í einu, svo mikil var forvitnin.
Svona auka munnur þurfti auðvitað sinn mat og Gary fæddi og klæddi af góðum efnum. Stacy hætti auðvitað að vinna og tók við húsmóðurhlutverkinu en það kom ekki að sök. Verkstæðið þeirra óð í verkefnum og fleiri starfsmenn bættust við. Og árin liðu áfram.



7.


Árið er 2003. Stórt hús í hljóðlátu úthverfi lýsir upp víðáttumikinn garðinn snyrt limgerði, hellulagða innkeyrslu og tvo nýlega bíla. Dofnandi haustsólin gerir hvítmálaða veggina rauðbleika og langir skuggar af ljósastaurum renna eftir götunni. Í stofu hússins blikka og lýsa óreglulegir glampar frá Big-Screen sjónvarpi. Gary situr makindarlega í La-z boy stólnum sínum og skiptir á milli rása. Vinnudagurinn er búinn og dýrleg kvöldmáltíðin meltist hægt en þægilega í maganum. Hann hefur bætt svolitlu á sig en er alltaf á leiðinni í líkamsræktina. Meir að segja sonur hans sem var kominn í byrjunarlið skólans í ruðningi var farinn að ýta á hann. Jájá, ég fer nú bráðum krakkar, svaraði hann oftast.
Hann er nú ekkert svo feitur finnst honum sjálfum, bara með hæfilega pabbabumbu, og sífellt færri hár á gráum kollinum. Tja, svona eru efri árin að banka upp á hjá fólki, líka honum.

Útihurðin lokast með látum og litlir fætur trítla eftir ganginum, Lily komin heim. Börnin eru orðin þrjú og eitt á leiðinni. Gary er stoltur af þeim öllum og sérstaklega Bradley sem var þegar farinn að fá athygli frá útsendurum háskólaliða. Sá yngsti heitir Benjamin og er sá eini sem hefur nefið hans pabba.

Gary skiptir um stöð og fær sér örlítin sopa af bjórnum sínum.
Hann staldrar við á þætti sem er að byrja, Worlds Yet Unsolved Crimes. Eitthvað nýtt þarna. Skruðningar fram í eldhúsi vekja athygli hans og hann stendur upp. Stacy er komin heim úr vinnunni. Hún gaf blikksmíðina upp á bátinn stuttu eftir annað barnið, það var ekki auðveld ákvörðun en hún fann sér strax annan vettvang. Tupperware. Söluferðir um helgar, á eftirmiðdögum og á á kvöldin, kynningar í saumaklúbbum og í fyrirtækjum voru furðulega ábótasamar enda voru fáir dreifiaðilar í bænum fyrir utan Stacy.

Gary stendur upp, fer fram í eldhús og faðmar konu sína eins og hann hafi ekki séð hana í marga mánuði.
Hún flissar hvellt

“Gvuð Gary þú ert bara eins og ástsjúkur unglingur” segir hún brosandi. Gary kyssir á henni hálsinn.
“Og svona mikill sjarmör” heldur hún áfram rétt áður en Gary hittir á spes staðinn á hálsi hennar og lág stuna læðist úr henni.
“Eigum við ekki að eyða restinni af vikunni upp í rúmi” hvíslar hann í eyra hennar. Hún brosir enn breiðar og snýr sér við.
“Úú beibí,you´d wish” segir hún og kyssir hann löngum kössi.
“En ég verð að skreppa í kvöld til Gwen, hún er með saumaklúbb og og lofaði að kíkja þangað með kynningu” Segir hún afsakandi og pínleg brosvipra myndast á vörum hennar. Jæja þar fór það.
Hann opnar ísskápinn og nær sér í annan bjór.
“Hvenær kemurðu heim?” Spyr hann.
“Ég skal reyna að koma snemma, þú mátt hita rúmdýnuna upp á meðan” Svarar Stacy glottandi og rennir vísifingri niður eftir bringu hans.

Guð hvað hún er æsandi hugsar Gary með sér og finnur liminn stífna enn meir. Hún er enn jafn falleg, grönn og þrýstin eins og fyrir sextán árum. Hárið enn svart, aðeins styttra þessa dagana en þó jafn skínandi. Þau virka flott þessi indjánagen. Stacy tiplar burt, eins og ballerína hugsar Gary og stendur sig að væmninni í sjálfum sér.

Hann gengur hægum skrefum inn í stofu svo freiði ekki úr bjórdósinni. Lily dóttir hans situr í húsbóndastólnum og horfir stórum augum á sjónvarpið, hún er tólf ára og alger engill á jörðu, ætíð með þetta bros sem smitar alla af gleði og hefur alltaf eitthvað að segja um lífið og tilveruna í kringum sig. Hún er með munninn fyrir neðan nefið eins og mamma sín.
En nú er hún þögul og skelft andlit hennar virðist eins á líki í birtunni frá sjónvarpinu.

“Hvað er að” Spyr Gary dóttur sína áhyggjufullur. Hann hefur aldrei séð þennan svip á henni sem gefur honum vægan hroll. Hún lítur hægt á föður sinn og blikkar eins og með erfiðismunum.
“Pabbi er þetta ekki þú?” spyr hún svo lágt að varla heyrist og bendir á sjónvarpið. Hann kemur hikandi nær og rýnir á skjáinn.

“Hva er ég í sjónvarpinu?,” segir hann og reynir að hljóma kátur en missir svo málið. Honum verður skyndilega ískalt og hjartað tekur eitt stórt stökk áður en það staðnæmist í sporunum. Birtan frá sjónvarpinu virðist bora sig inn í heila hans í endalausum litum og myndirnar frá sjónvarpsskjánum festast í augum hans.
Eitthvað virðist smella í huga hans og ískrapaflóð minninga ryður sér leið inn í vitundina með offorsi.
Svo verður allt tómt, orð myndast á tungu hans en komast ekki lengra. Þetta er ég!

Alþjóðlegi Glæpaleyndardómaþátturinn er í gangi. Á skjánum er blárömmuð mynd af dökkhærðum manni með mikið hárið greitt til hliðar í seventísstíl, barta og alvarleg augu. Undir myndinni er nafn sem allt í einu virðist svo sjálfsagt í huga Gary,
Geirfinnur Einarsson.
—–