Presturinn er kominn. Er mér engin huggun en mömmu finnst greinilega þæglegt að vita af honum. Við erum öll inni hjá henni, hún liggur í rúminu, deyjandi. Hjúkrunarkonan sagði kannski í nótt eða á morgun. Ég sit hægra megin við rúmið ásamt pabba og systur minni, litla systir mín er frammi að tala í símann, og u.þ.b. 15 aðrir ættingar standa allt í kringum rúmið. Við ætlum að fara að syngja fyrir hana. Syngja hana í svefn. Við erum búin að vera þarna í íbúðinni síðastliðinn sólahring og bara beðið, grátið, hlegið, talað og þagað.
Mamma getur ekki talað, við vitum ekki einu sinni hvort hún viti af okkur lengur. Það er komið kvöld.
Inni í herberginu er þögn, við erum að koma okkur fyrir, ekki stórt herbergi fyrir 20 manns. Ég held í hendina á henni og strýk þær, svo mjúkar og fallegar. Pabbi strýkur um hárlaust höfuðið og kyssir hana öðru hvoru. Systir mín strýkur fæturnar. Við erum núm öll komin inn nema litla systir sem er enn í símanum að tala við frænku okkar. Fyrr um daginn hafði litla systir setið hjá henni mömmu og hvíslað hvað eftir annað í eyrað á henni “bráðum færðu að fara heim, heim í sveitina” þá í fyrsta skipti í sólahring sáum við merki þess að hún vissi af okkur. Hún hvíslaði með brosi í augunum “já”ofurlágt.
Svo ekkert.
Ég strýk og kyssi fingur hennar og horfi á pabba strjúka henni svo blítt, svo sárt. Hún er með hálflukt augun og andar stuttum sogum með sífellt lengra millibili. Allt í einu lýkur hún upp augunum. Ég sný mér snöggt að eldri systur minni og í augum okkar beggja er vantrú, hræðsla, vonleysi. Lít svo aftur á mömmu. Heyri að einhver kallar á litlu systur mína sem hendir símanum frá sér og kemur hlaupandi inn og þegar hún sér hvað er að gerast kikknar hún í hnjáliðunum og kallar grátandi, “nei mamma, nei mamma !” Mamma spennist upp snýr höfðinu að pabba sem horfir á hana, biðjandi, hræddur. Ég hætt að taka eftir öllu þessu fólki sem er þarna inni. Öllu þessu fólki sem elskaði hana svo mikið. Eins og ég mamma. Mamma hálflokar augunum og mamma er farin. Mamma er farin. Pabbi brestur í ofsafenginn grát og allir standa og gráta, enginn segir neitt, nema ég heyri í einhverju út undan mér sem segir lágt “góða ferð”. Ég þrýsti föstum kossum á handarbak hennar stend upp , halla mér yfir hana og segi “ég elska þig mamma mín”.