- Hvað ertu að gera heima? Ég opna augun, sé kallinn og andvarpa.
- Ég er veikur, geturðu látið mig vera, ég ætla að sofa aðeins lengur. - Það er ekkert að þér, þú ert bara aumingi. Svo skellti hann hurðinni og ég heyrði hann ganga upp stigann.
Svona er þetta búið að vera í nokkrar vikur. Ég hef ekkert mætt í skólann, ég hef varla farið út. Það er eitthvað búið að vera að mér, sem ég veit eiginlega ekki alveg hvað er.
Ég heiti Sharif Jónsson og er 22 ára gamall strákur af egipskum uppruna. Mamma og kallinn ættleiddu mig þegar ég var bara smá polli. Um foreldra mína veit ég voðalega lítið, það er blóðforeldra mína, annað en það að þau voru mjög fátæk. Ég er í Menntaskólanum í Kópavogi að læra félagsfræði, ekki það að ég hafi sérstakan áhuga á þessu, þetta hljómaði bara skást af þessu rugli.
Klukkan var hálf átta en ég gat ekkert sofnað aftur. Þegar maður vaknar við svona drama er erfitt að sofa. Þannig ég ligg bara uppí rúmi. Djöfull, hversvegna þarf ég að vera svona? Ég skil kallinn alveg. Ég veit að hann hatar mig ekkert, og vill mér vel, en það verður kaldur dagur í helvíti þegar hann loksins fattar mig. Við erum svart og hvítt.
Ég stóð upp og leit í spegilinn, húðin var ekki eins slæm og hún hafði verið undanfarið. Kannski ég ætti bara að drífa mig í tíma. Ég dreif mig í sturtu, klæddi mig og fór upp. Þau voru bæði farin. Ég fékk sér morgunmat og dreif sig svo í skólann.
Eins og alltaf var ég í svörtu úlpunni sem ég keypti í sumar. Við bjuggum ekki langt frá og eftir um það bil fimm mínútur var ég kominn að skólanum. Ég gekk frá skónum mínum og dreif mig að stofunni. Sem betur fer var kennarinn seinn á ferðinni og hópur af krökkum stóð fyrir utan. Ég andvarpaði og tók mér stöðu með þeim. Það leið ekki að löngu þar til kennarinn kom og allir settust niður. Ég settist aftast.
Það var ömurlegt að mæta í tíma sem hefur lítið sem ekkert mætt í og veit ekkert hvað er að gerast. Það er enn ömurlegra þegar maður hefur kennara sem spyr hvern og einn nemanda um svar á einhverju verkefni, eins og þessi kennari sem var hér. Þessi hér var með einstaklega ömurlega kennslutækni. Hann lét nemendurna svara, og ef fleiri en einn í röð gátu ekki svarað, eða höfðu ekki lært heima, hélt hann fyrirlestur. Hann talaði alltaf um að í hvert skipti sem einhver lærði ekki, þá yrði prófið aðeins erfiðara. Loks var komið að mér. Sem betur fer var stelpan sem sat hliðin á mér yndisleg og leyfði mér að sjá hjá sér. Úff, rétt slapp. Eftir tímann gekk ég að kennaranum og ætlaði að fá meiri útskýringu á verkefni sem við áttum að fara að skila.
- Hversvegna ætti ég að hjálpa þér? Hversvegna ætti ég að eyða tíma í að hjálpa þér þegar þú mætir ekki einu sinni í tíma? Hann starði á mig eins og ætlaðist í alvörunni til að ég svaraði þessu. Ég brosti vandræðalega, en hann starði bara á mig. Flestir krakkanna voru enn að ganga frá þegar þetta gerðist og ég tók eftir að allir urðu hljóðir.
- Ef þú ætlast til að ég hjálpi þér, þá verð ég að sjá að þér er alvara með þessu námi. Ég hef ekki séð það ennþá. Þú átt örugglega eftir að falla. Hérna er blað með leiðbeiningum, það stendur allt þar. Kennarinn gekk frá dótinu sínu. Ég tók blaðið og hraðaði mér heim. Hvern var ég að plata?
Klukkan var nákvæmlega tíu þegar ég kom heim. Það var alltaf best að vera heima um daginn, þegar settið var ekki heima. Þá gat ég gert það sem ég vildi, hvar sem ég vildi. En þegar þau komu heim, þá lokaði ég mig af inní herbergi.
Ég fékk mér að éta og settist inní stofu. Ég átti mynd sem ég hafði horft á hundrað sinnum. Einhver bjánaleg grínmynd. Það var ágætt að éta fullt, og sofna svo yfir þessari steypu. Það var eiginlega eina leiðin fyrir mig að sofna svona á daginn.
Þegar ég vaknaði sat mamma yfir mér. Hún brosti þegar ég opnaði augun, en þetta var svona þvingað bros.
- Er allt í lagi elskan? Pabbi sagði að þú værir slappur. Nagandi samviskubit.
- Já ég er eitthvað slappur, beinverkir og hausverkur og þannig. Samt aðeins skárra núna eftir að ég lagði mig. Hún strauk á mér hárið. Hún þurfti ekki að segja neitt, ég sá að hún hafði áhyggjur af mér. Mamma var yndisleg, en hún var mjög meðvirk kona, og átti erfitt með að segja það sem henni langaði, var bara alltaf hrædd.
- Greyið litla, er eitthvað sem ég get gert fyrir þig? Ertu svangur ?
- Ég redda mér, takk samt. Ég settist upp og sá að klukkan var að nálgast fjögur. Það var smá tími þangað til kallinn kæmi heim. Ég kyssti mömmu á kinnina og fór inní eldhús. Ég hafði löngu hætt að pæla í því útaf hverju mamma var svona, hún bara var það og ég gat ekkert gert í því. Ég smurði mér samlokur og fór niður í herbergið mitt.
Það var enn kveikt á tölvunni frá því í gær. Ég át og skoðaði nokkrar vefsíður. Svo fór ég í tölvuleik sem ég var nýbúinn að dávnlóda. Hérna leið mér best. Við tölvuna. Ég gat bara gleymt í mér öðrum heimi, ég gat fengið að vera til. Flestur tími minn fór í þetta. Sérstaklega undanfarið. Málið var að ég fílaði bara ekki skólann. Ég var ekkert að nenna þessu. Ég þekkti eiginlega engan þar, átti allavega enga vini þar Strákarnir voru allir hættir í skólanum. Undanfarið hafði ég ekki nennt að fara að hanga með þeim eins og ég hafði svo oft gert. Ætli að húðin á mér hafi ekki spilað stórt hlutverk þar. Mér er illa við að fá neikvæða athygli, svona eins og þegar fólk er að horfa á húðina á manni.
Ég hélt áfram að leika mér í tölvunni. Mamma kallaði á mig í mat en ég sagðist ekki vera svangur. Ég meikaði bara ekki að fá enn einn fyrirlesturinn frá kallinum. Þegar þau voru búin að borða laumaðist ég fram í eldhús og fékk mér eitthvað.
Þegar ég kom aftur niður lagðist ég uppí rúm og borðaði. Og svo var bankað, það var kallinn.
- Sharif, ég verð að ræða aðeins við þig. Er þetta slæmur tími? Hann opnaði, sá hann matinn og varð þungur á brún. Ég setti matinn til hliðar.
- Nei, þetta er allt í lægi. Kallinn settist hliðin á mér, setti hendur í kjöltu sér og andvarpaði.
- Sharif, hvað er í gangi með þig? Þú hangir hérna heima daginn inn og daginn út í þessari tölvu þinni. Ég og mamma þín vitum ekkert hvað er í gangi með skólann hjá þér. Mamma þín hefur miklar áhyggjur af þér. Hann stoppaði aðeins. – Þú verður að útskýra fyrir mér hvað er í gangi hjá þér, þetta gengur ekki svona mikið lengur.
Ég þagði bara. Hvað átti ég að segja? Hvað vill hann heyra? En þetta er rétt hjá honum. Þetta gengur ekki svona. Þannig ég byrjaði.
- Hefurðu einhverja hugmynd um hvernig það er að vakna dag eftir dag og vita það að þú ert óhæfur til að ábyrgð. Dag eftir dag þá vaknarðu og þú veist að þú ert að bregðast öllum. Og þú veist ekki útaf hverju. Þú bara getur ekki mætt í vinnu eða skóla, og situr bara heima og reynir að fá ekki samviskubit. Þögn. - En þú gætir aldrei skilið þetta. Ég er bara svona, ég veit ekkert útaf hverju, ég bara er það og mér finnst ég vera að deyja. Eftir hvern dag liðinn er eins og það sofni eitthvað innra með mér og ég dofna sífellt meira, og vill bara burt. En þú gætir ekki skilið þetta, hjá þér er allt fullkomið. Hjá þér á maður bara að herða sig upp og halda áfram. En ég get það ekki, ég veit ekkert hvað ég á að gera.
Kallinn sat bara stjarfur eins og hann væri að hugsa eitthvað mikið. Svo loksins opnaði hann á sér munninn.
- Þetta er alveg rétt hjá þér, ég skil þig ekki. Ég og mamma þín vorum að tala saman og komust að þeirri niðurstöðu að það væri best fyrir þig ef þú færir að taka meiri ábyrgð á lífi þínu. Hérna er ávísun fyrir sjötíuþúsund. Við viljum að fáir þér eigin heimili.
- Er mamma alveg sammála þér? (Var hann ekkert búinn að vera að hlusta á mig?)
- Þetta var erfið ákvörðun fyrir mömmu þína en hún er sammála. Þú hefur tvær vikur til að finna þér eigin íbúð. Svo stóð hann upp og gekk út.
Er þetta vondur draumur? Oh jæja, hefði getað endað verr. Ég er allavega laus við þennan ömurlega skóla.
Ég setti föt og annað dót sem mig vantaði í tösku og fór upp. Þau sátu bæði inní stofu. Mamma var öll þrútin í andlitinu og pabbi sat þungur á brún við hliðin á henni.
- Ég kem seinna og sæki restina af dótinu mínu. Sjáumst.
Ég heyrði að mamma kallaði eitthvað á eftir mér en ég gekk bara áfram.