- Hefurðu einhverntíman elskað einhvern án þess að skilja hvers vegna?
- Afhverju spyrðu?
Hann horfði á mig eins og ég ætlaði að fara að tala um hann sjálfan. Natan var víst alltaf dálítið upptekinn af sjálfum sér.
- Æi, bara.
- Já, já. Ætli það ekki.
- Hvern?
- Litlu systur mína, gelgjuna. Hún getur verið óþolandi en ég elska hana alltaf.
Í kjölfarið fylgdi niðurbældur hlátur. Hann talaði aldrei um hana öðruvísi en að gera grín að henni. Hann gat sjálfur verið gelgja, gat ekki tekið mig alvarlega, tuttugu og eins árs gamall.
- Hefurðu lent í ástarsorg.
- Ég býst við því, einhvern tíman. En þú?
Ég virðist hafa kveikt áhuga hans á samræðum. Hann byltir sér undir sænginni og ýtir mér varlega frá sér, þannig að við sjáum framan í hvort annað.
- Ég hef elskað án þess að vera elskuð til baka. Ég hélt alltaf að þetta væri raunverulegt sem ég fékk frá honum, en þetta var víst bara endurkast af eigin ást.
- Það er sorglegt.
- Já, það er það.
- Þessi gaur sem elskaði þig…eða ekki, hvað er hann að gera í dag?
- Ekki neitt. Hann er ekki til lengur.
- Úff. Afhverju lendiru alltaf í þessu versta?
- Veit það ekki (…) Þessi strákur var dálítið líkur þér.
- Virkilega?
- Hann var með svona, svipaðan hárlit og þú. Og eins augu, sömu augun.
Hann glottir sjálfbirginn.
- Heppinn gaur.
- Ég hefði fórnað öllu fyrir hann, öllu sem ég ætlaði mér að verða, öllu sem ég þekkti. Ég hefði fylgt honum út í óvissuna, allslaus. Bara ef hann elskaði mig til baka.
- Og hvað varð síðan um hann? Hvað gerðist?
- Hann hætti að standa við það sem hann sagði, og síðan fann ég fyrstu vísbendinguna.
- Fyrstu vísbendinguna?
- Það var símtal, frá konu. Hún hljómaði ekkert sérstaklega gáfuð í símann. Beið ekki eftir að ég heilsaði, byrjaði bara að tala um leið og svaraði símanum. Fattaði ekki að hún væri að tala við kærustuna hans, suðaði bara eitthvað um að hún vildi hitta hann aftur. Beyglan klúðraði þessu alveg fyrir þeim, framhjáhaldinu.
- Já?
- Einhvern veginn hætti þetta að skipta mig máli. Hann var svo asnalegur þegar hann kom heim og hver lygin á fætur annari flaut af vörum hans. Vörum hans sem enn voru heitar og blautar eftir kossa hennar. En aumkunarverð ásjóna hans og pínlegar tilraunir til leyndar voru nánast sem friðþæging fyrir mér.
Natan fær heitan koss frá mér, til áhersluauka.
- Hvað gerðist svo?
Hann kyngir munnvatni, hendur hans sem áður héldu um mínar halda nú þétt utan um sængina.
- Ég kom að þeim. Reyndar held ég að það hafi verið önnur kona. Stunurnar í henni pössuðu ekki alveg við heimskulegu röddina sem var í símanum.
- Þú komst að þeim?
- Já, en ég sagði ekki neitt. Fór bara aftur út. Fann mér annað að gera.
- Annað að gera?
- Fékk mér auka hjásvæfu,… reið öðrum gæja villt og galið þegar minn heittelskaði trúði því að ég væri í viðskiptaferð erlendis.
Hann lítur undan, getur ekki horft í bláu augun mín lengur. Ég opna skrifborðsskúffuna, hann sér glampa á eggina og bláu augun fanga hann á ný.
- Sá nýji kunni bóltækni sem hinum svikula elskhuga mínum hafði aldrei getað hugkvæmst.
Hnífseggin dansar á adamseplinu, hendurnar sem kremja lakið eru farnar að hvítna af áreynslunni.
- Veistu, þessi maður sem ég varð ástfangin af, dó fyrir löngu síðan… en aldrei hætti ég þó að elska hann. Guð veit hvers vegna.
- Ástin mín, ekki… ég skal útskýra þetta allt fyrir þér.
- Ástin … varir að eilífu. Var það ekki eitthvað lag?
- Ég trúi ekki að þú ætl…
Hnífur í hold, hold í hníf, blóði drifin sæng.
Augu. Tvö augu stara á móti mér.
- Vaknaðu manneskja!
Natan starir á mig undrunaraugum. Ekkert blóð, aðeins martröð.
- Jesús Kristur! Það var rosalegt að sjá þig. Ég ætlaði að leyfa þér að sofa út en svo varstu farin að bylta þér svo mikið, og svo heyrði ég þig bara umla og rugla upp úr svefni, og svo barðistu um eins og stunginn grís!
- Stunginn grís …?
Ég er morgunhás, rödd mín sem kvak vindlareykjandi kántrísöngkonu.
- Ég er farinn í vinnuna, meira að segja dálítið seinn…. skrattans lyklar… Lyklar! Er ég að gleyma einhverju? Nei, …nei. Við sjáumst á eftir, ég sé þig í hádeginu. Flugið þitt er klukkan fjögur er það ekki? Allt í góðu, bless.
Hurðinni skellt aftur og ég er ein í hvítmálaðri íbúðinni. Ég rölti fram, öll sveitt og rugluð.
- Riing, riing.
- Sæll elskan. Er kellingin farin? Hittu mig aftur… ég hef engu gleymt frá því á þriðjudaginn… Stóri bangsi.
I love Stan, Stan loves ham… ham I am!