-Ég trúi þessu ekki, segir hann byrstur.
-Hverju trúirðu ekki, spyr ég.
-Heldurðu að hundspottið sé ekki aftur komið í garðinn, svarar hann og snýr sér frá glugganum.
Undanfarið hefur það komið fyrir að tík hjónanna á númer ellefu hefur sloppið út. Ég er svosem ekkert að taka það nærri mér, enda ólst ég upp í sveit og þar var alltaf nóg af hundum. Hann aftur á móti, af einhverjum orsökum, hatar þá. Ég skil ekki alveg af hverju, enda vill hann ekkert tala um það.
-Djöfullinn hafi það, hvað á ég að þurfa að fara oft með tíkarhelvítið oft niður að númer ellefu?
-Láttu nú ekki svona, þetta er bara hvolpur. Rétt að verða eins árs.
-Hvað með það?
-Nú, hvolpar eru forvitnir um umhverfi sitt.
-Mér er andskotans sama hvað tíkin er gömul, hún á ekkert að vera að róta í garðinum hjá mér.
Ég lít undan, til að fela brosið. Seinast þegar tíkin kom þá tók það hann hálftíma að ná henni. Hún hélt að hann væri að leika við sig og hljóp undan honum. Það var ekki fyrr en hann var kominn hálfur ofan í blómabeðið, og í raun búinn að eyðileggja meira en tíkin nokkurn tímann, að hann náði taki á henni. Ég stóð út við stofugluggann, fylgdist með öllu og skemmti mér konunglega. Kannski að það hafi pirrað hann enn meira.
-Hvaða, hvaða. Þetta er nú ekki svona hræðilegt þó að einn hundur læðist inn í garðinn.
-Er það ekki, nei?
-Nei, það er nú ekki eins og hún sé að grafa eða skíta.
Það hnussar í honum og hann hristir höfuðið.
-Það er nú bara spurning um tíma og hvað ætli þú segir þá, ha, þegar þú stígur ofan í stóran hundaskít?
-Ætli maður segi nú svo mikið.
-Eða þegar hún verður búin að grafa upp alla vorlaukana, sem ég gróðursetti í haust.
-Borða hunda lauka? Ekki minnist ég þess að hundarnir í sveitinni…
-Byrjaðu nú ekki á hundunum í sveitinni.
Ég horfi á hann. Hann er kominn í ham. Alveg er ég viss um að eftir augnablik verður hann orðinn nógu pirraður til að hlaupa út og eltast við tíkina, þó svo að hann sé enn í jakkafötum. Ég efast um að hann muni hika og velta því fyrir sér hvort að hann eigi nú ekki að skipta um föt.
-Í guðanna bænum, það er nú ekkert tiltökumál þó svo að hundurinn þefi eitthvað af garðinum þínum.
-Ég vil ekki sjá þetta. Hundar eiga heima í sveit og ekki í borg.
-Nú, er það já?
-Já, þar geta þeir hlaupið og leikið sér, en ekki í borginni.
-Jæja, dr. Friðrik hundafræðingur, geta hundar þá ekki átt gott líf í borg?
-Nei.
-Hvað með alla smáhundana?
-Það eru ekki alvöru hundar.
Ég skelli upp úr.
-Ekki alvöru hundar, nei, og við hvað miðast alvöru hundur.
-Æ, láttu mig vera, ég nenni ekki að ræða þetta.
Hann strunsar út úr eldhúsinu. Ég glotti við og held áfram að vaska upp.
Hvernig stendur á því að hann hatar hunda. Ég hef oft velt þessu fyrir mér og jafnvel spurt hann, en hann er þjóskari en andskotinn þegar hann vill það og neitar alfarið að segja mér afhverju. Hann er reyndar svona gagnvart köttum líka, en ég veit afhverju það stafar.
Ég teygi mig í útvarpið og hækka í því. Blístra með Bjögga Halldórs og Einu óskinni hans. Fyrir ofan vaskinn er gluggi og í honum hef ég fjallið mitt, hinum megin við ládauðan fjörðinn. Veðrið hefur verið með eindæmum í dag, bæði sól og logn.
Fyrir utan gluggann liggur tíkarhvolpurinn í grasinu og leikur sér með einhvern bolta.
Stuttu síðar gengur Friðrik aftur inn í eldhúsið. Hann er kominn í gallabuxur og bol. Hann er líka búinn að setja á sig vinnuvettlinga. Alveg er ég viss um að hann sé að fara út að reyna að ná greyið tíkinni.
-Jæja, bara kominn í veiðigallann, spyr ég.
-Hvað áttu við, svarar hann önugur.
-Nú, ertu ekki að fara út að veiða tíkina?
-Jú, eða allavega að ná henni og koma henni til síns heima.
-Viltu ekki taka með þér pyslubita, svona til að lokka hana til þín?
-Nei, fer nú ekki að eyða pylsu í tíkarandskotinn.
-Jæja, þú um það, vinur.
Hann fer inn í vaskhús og opnar bakdyrnar.
Ég sé hann ganga framhjá glugganum og kalla á tíkina. Hún dillar skottinu og sprettur á fætur þegar hann kemur. Hann nálgast hana hægt. Hún leggst niður á framlappirnar og lætur boltann liggja þar á milli. Svartur feldurinn er gljáandi í sólinni og ég hugsa með sjálfri mér að henni hlýtur að vera mjög heitt.
Friðrik á eftir tvö skref að henni þegar hún grípur gulan boltann í kjaftinn og stekkur af stað. Hleypur tvo hringi um garðinn og kastar afturendanum til og frá. Hún minnir mig á beljurnar heima, þegar þeim var hleypt út á vorin. Ég brosi og tek af mér uppvöskunnarhanskana. Mig grunar að þetta eigi eftir að verða skemmtilegur eltingarleikur.
Tíkin er öll hin glaðasta og lætur öllum illum látum. Geltir og manar Friðrik í að reyna að ná boltanum. Hann aftur á móti, sé ég, er farinn að blóta henni allhressilega. Ég er hálfpartinn farin að hafa áhyggjur af börnum nágrannanna.
Eftir um hálftíma eltingarleik kemur Friðrik aftur inn, móður og másandi.
-Ég er búinn að fá mig fullsaddan af þessari helvítis tík.
-Nú? Henni, sýnist mér, finnst þú ægilega skemmtilegur.
-Hvar er símaskráin?
-Hún er á símaborðinu, þar sem hún er vön að vera. Nú, ætlarðu að hringja niður á ellefu?
-Já, þau geta sjálf komið og sótt þennan óþvera.
Á meðan hann er að hringja athuga ég hvernig tíkinni líður. Hún stendur fyrir utan vaskhúsdyrnar og vælir. Ég fer og opna en tíkin stekkur frá um leið og heldur að ég sé komin út að leika við hana. Ég beygi mig niður og reyni að lokka hana til mín, en hún er óvanalega vör um sig, svona eins og hún hræðist mig. Ég stend upp aftur og um leið geltir tíkin á mig.
Ég sussa á hana, en hún geltir aftur. Ég heyri að Friðrik er búinn í símanum. Ég loka dyrunum og held aftur inn í eldhús.
-Jæja, eru þau á leiðinni?
-Nei, það svaraði enginn, bara einhver símsvari.
-Og lastu inn skilaboð?
-Já, ég sagði að tíkin væri enn og aftur komin í garðinn til mín og þau ættu að drífa sig að sækja hana.
-Þau hljóta þá að koma um leið og þau heyra skilaboðin.
Fyrir utan byrjar tíkin að gelta.
-Meiri djöfuls beljandi í þessari litlu skepnu, segir Friðrik.
-Hún vill ábyggilega bara komast inn.
-Já, nei, hingað inn stígur hún ekki.
Síðan fer hann fram og inn á skrifstofuna sína. Hann lokar á eftir sér. Ég sný mér aftur að eldhúsverkunum.
Hálftíma síðar er tíkin enn fyrir utan geltandi. Ég er einu sinni búin að fara fram og opna, til að sussa á hana, en hún virðist eitthvað stygg. Ég velti fyrir mér hvort að ég eigi að fara út og reyna að fá hana með mér niður að númer ellefu, en kartöflurnar eru komnar í pott og fiskurinn á fati inni í ofni.
Friðrik kemur æðandi inn í eldhúsið og ég sé það á honum að hann er orðinn nokkuð pirraður. Hann spennir alla vöðva í kringum kjálkana og varirnar mynda þráðbeint bleikt strik í andlitinu.
-Jæja, segir hann höstugt. –Nú er nóg komið. Ég ætla að sækja hólkinn inn í bílskúr og losa götuna við þennan ófögnuð.
-Hvað segirðu?
-Ég ætla að skjóta helvítis hundspottið, ég er búinn að fá mig fullsaddann af þessu ónæði og fyrst að eigendurnir gera ekki neitt í því, þá verð ég bara að grípa til minna ráða.
-Er ekki allt í lagi með þig? Varla ferðu að skjóta hana?
Ég gríp í handlegg hans.
-Ég trúi því ekki upp á þig.
Hann horfir á mig og ég greini eitthvað sem ég hef aldrei séð áður í augum hans: Kulda.
-Mér er svo sem sama hvort þú trúir því eða ekki.
-Friðrik, þú skýtur ekki hundinn!
-Ja, eitthvað verður að gera.
Hann rýfur sig lausan.
-Og ég ætla að gera eitthvað, bætir hann síðan við.
Ég horfi á eftir honum út í bílskúr. Ég stekk í símann. Verð helst að vera á undan honum. Síminn hringir hinum megin en aðeins símsvarinn er við.
Ég stend á fætur, hleyp fram í vaskhús og opna dyrnar. Tíkin verður afskaplega glöð að sjá mig. Hún stekkur til mín og dillar rófunni en passar sig á því að láta mig ekki ná tökum á sér.
Hún hleypur undan mér lengra inn í garð. Ég flýti mér á eftir henni en inniskórnir þvælast fyrir mér. Ég fer úr þeim og kasta þeim inn í vaskhúsið.
Ég tek af mér eldhússvuntuna og veifa henni framan í tíkina. Hún æsist öll upp við þetta. Hún stekkur til mín og geltir á svuntuna. Loks bítur hún í hana og ég reyni að toga hana til mín. Tíkin urrar og togar á móti. Hún virðist ekki skilja að ég er að reyna að bjarga henni.
Allt í einu heyri í honum fyrir aftan mig. Hann er að koma fyrir hornið á húsinu. Mér finnst eins og hann hljóti að ganga frekar hægt. Hann horfir á mig en mér finnst eins og hann sjái mig ekki. Hann starir stíft á tíkina.
Hann kemur nær. Ég hristi höfuðið og reyni að losa svuntuna. Tíkin tekur ekkert eftir honum.
Hann kemur nær. Ég lít á hann en athygli hans beinist að því að hlaða byssuna. Tíkin urrar og mér virðist hún vera orðin frekar æst.
Hann kemur nær og miðar. Ég sleppi svuntunni. Tíkin horfir á mig og hrósar sigri. Ég horfi á hann.
Hann tekur í gikkinn. Ég stend upp.
Þetta augnablik er eins og heimurinn hætti að snúast. Þetta augnablik snýr þess í stað mér í hringi, aftur og aftur, hraðar og hraðar. Þetta augnablik finnst mér ég segja: Nei.
Hann tekur í gikkinn.