Mig langaði alltaf tilað hitta hann. Ég lét mig dreyma um að sjá hann einn daginn, kannski á tíu ára afmælinu mínu eða við annað álíka stórafmæli. Ég sá hann alltaf fyrir mér faðma mig að sér og lyfta mér upp, snúa mér í hringi og hlæja framaní mig, svona einsog í bíómyndum og skáldsögum, þegar foreldrar finna glötuð börn. Ég leyfði mér meiraðsegja að ímynda mér að hann vildi eiga mig og byrja að verða pabbi minn, en ekki bara einhver sæðisgjafi. Hann myndi þá senda mér afmæliskort og jólagjafir, og ég fengi kannski að fara út til hans í sumarfríum. Ég var búin að hugsa hvert smáatriði okkar fyrsta fundar til enda, búin að skipuleggja hvert orð sem ég ætlaði að segja. Ég æfði mig meiraðsegja stundum í huganum.

Og á endanum hitti ég hann. Fyrir einhverja tilviljun (og sökum sætaleysis hjá öðrum vélum flugfélagsins) átti ég flug út til hans einmitt á tíu ára afmælisdaginn minn. Mamma hafði verið á ráðstefnu úti og beið með honum á flugvellinum. Ég var svo spennt þegar ég labbaði í gegnum flugstöðina að ég sá varla útúr augunum. Allt var í nokkurskonar móðu, og þaut hjá á ógnarhraða, en þó fannst mér það svo alltof hægt. (Ætli ég hafi ekki verið á einhverskonar adrenalínfylleríi.) Skyndilega kallaði mamma á mig og benti mér á mann, og þessi maður varð sjálfkrafa eini nokkurnveginn skýri bletturinn í þokunni fyrir augum mér. Þetta var sá blettur í tilverunni sem ég hafði séð fyrir mér sem stóran og sterkan mann, einhvern sem myndi alltaf verða til staðar framvegis. En ég varð fyrir vonbrigðum.

Sæðisgjafinn ónefndi var lítill og bjórvambaður, gráskeggjaður og með brúnar krullur, hann var klæddur í rifnar gallabuxur og drullugrænan bol, og á vinstri handleggnum geymdi hann leðurjakka. Næstum sextugur maðurinn. Þetta fyrirbæri, “pabbi” minn, sem ég hafði séð í hillingum alla ævi, var orðið að aumingja. Mín fyrstu viðbrögð voru einfaldlega: ,,Á þetta að vera pabbi minn?” Hann brosti bara, af þeirri einföldu ástæðu að hann skildi ekki íslensku, og faðmaði hann mig. Það eina sem ég fann fyrir þá stundina var vindlafnykurinn úr skegginu hans. Samt lét ég mig hafa þetta eina faðmlag, og stóð einsog tuskudúkka undir kreistingunum. Ég var næstum farin að gráta.

Síðan, fjórum árum (mínus ellefu dagar) eftir þennan fyrsta fund okkar, sást hann aftur. Fermingin mín, hin svokallaða manndómsvígsla íslenskra ungmenna, og hann kom. Kannski smá pabbaskapur í því hjá honum, og ég virði hann fyrir það. Í ausandi rigningu (í takt við stemninguna, samkvæmt amerískum bíómyndum þarsem vaðrið rímar alltaf við skap persónanna,) keyrðum við mamma því útá flugvöll að ná í hann. Þegar þangað var komið þurftum við að bíða óralengi, Ríkið og fríhafnarverslunin máttu ekki verða útundan.

Eftir meiren klukkutíma bið eftirað vélin var lent kom hann loksins út. Í annarri hendinni var plastpoki með áfengi og sælgæti úr fríhöfninni, og í hinni gatslitinn gallajakki. Maðurinn hafði minnkað, skeggið gránað, og lyktin var verri. Í þetta skiptið varð ég samt ekki vyrir neinum vonbrigðum, eða þannig, þetta var allt viðbúið fyrirfram. Samt varð ég einsog pirruð. Svolítið reið við hann fyrirað koma svona í ferminguna, og ætla alltíeinu að verða pabbi. (Ég meina, er ekki allt-allt-alltof gamalt að ætla sér að verða akyndilega pabbi á sextugastaogöðru árinu?)

En, hann kom semsagt og var í fermingunni sjálfri, veislunni og fékk náðarsamlegast að eiga hlutdeild að gjöfinni sem mamma gaf mér, tók örfáar myndir, teiknaði ennþá færri, og sagði mér frá öllum hinum stórkostlegu myndunum sem hann hafði tekið og teiknað áður, aðferðunum sem hann notaði tilað fá þær sem undursamlegastar, römmunum sem hann kom þeim fyrir inní tilað þær nytu sín sem best, og öllum þeim óteljandi bókum sem hann átti að vera nefndur á nafn í. Myndlistarbókum. Ég hef hvergi rekist á nafnið hans annarsstaðar en aftaná myndinni sem mamma gaf mér þegar ég var bara maur. Sex ára, eða eitthvað svoleiðis.

Myndin er tekin þegar hann var að vinna hérna heima, á Íslandi, hann er í hermannagrænni úlpu, með krosslagðar hendur, það er rok og krullurnar fjúka svo mikið til að það sést varla í andlitið. Einhversstaðar stendur þó nefið útúr öllu faxinu, oddhvasst, beint og ákveðið, og það segir manni algjörlega hver ræður. Þetta er nef manns sem veit hvað hann vill.

Það skal tekið fram að ég sit uppi með kartöflunefið hennar mömmu.