Ég hef núna endanleaga fengið það staðfest að kennarar hlusta ekki á nemendur. (Og nemendur hlusta reyndar sjaldnast á kennara.) Þessi saga er því skrifuð með það í huga að kennarar eru hugsunarlaus fífl án mannlegra tilfinninga sem eiga ekki skilið að fá laun sín hækkuð um svo mikið sem krónu…

Ég vaknaði seint. Svo seint að ég var orðin of sein. Svo sein að ég hafði misst af þremur tímum. Sosum alltí lagi mín vegna, en kennarar eru nú einusinni með þeim ósköpum gerðir að vilja endilega að nemendur mæti í skólann, margir þeirra krefjast þess jafnvel að það sé á réttum tíma. Þessvegna sletti ég smá jógúrti framaní mig, burstaði tennurnar og flaug (hljóp allavega mjög hratt) í skólann. Þar beið mín það ánægjulega verkefni að biðja Þórhildi stærðfræðikennara afsökunar á þessu ófyrirgefanlega framferði mínu. Hún gerði sig gribbulega í framan og urraði á mig að andskotast í sætið mitt. Þetta blessaða sæti mitt er hliðiná Möggu, bestu vinkonu í heimi, sem hefur bara einn galla. Hann er reyndar frekar stór, og hann er sá að hún er englabossi. Þessháttar englabossi sem hefur aldrei skrópað og bara einusinni komið of seint (en það var þegar hún festist í snjóskafli í öðrum bekk). Magga horfði rosalega alvarlega á mig á meðan ég veiddi útkrassaða stærðfræðibókina uppúr skólatöskunni.

Síðan sem ég var að vinna þá stundina var orðin mögnuð, efst voru drekar og eðlur af öllum stærðum og gerðum sem hringuðu sig um hvort annað einsog um meiriháttar hópsex væri að ræða, í miðjunni var stór gamaldags vekjaraklukka með handlegg og fót í stað vísa, og neðst drukknuðu fuglar og mýs í einhverjum óþekkjanlegum vökva. Ég hafði verið í dálitlum vandræðum með þennan óþekkjanlega vökva í upphafi (dáldið erfitt að fá gljándi áferð með skrúfblýanti) en leyst það með hugarorkunni. Þessi síða hafði tekið mig tvo stærfræðitíma. Í hvert skipti sem Þórhildur nálgaðist fletti ég yfir á næstu síðu þarsem ég var búin að krota nokkur dæmi. Í þetta skiptið sá gribban þó í gegnum mig, ætli hún hafi ekki haft sérstsakt auga með mér tilað refsa mér fyrir seinaganginn. Hún gekk á milli allra borðanna, og alltíeinu var hún komin að mér með gömul yfirlit á lofti.

,,Helga Valborg! Þú ert á nákvæmlega sama stað og fyrir… ein… tvær… þrjár… þremur vikum!” Auðvitað sagði ég nokkur ha? Og það getur ekki verið! en var ekki alveg að hafa áhrif á hana. Svo þreif hún bókina af mér og fletti henni. Að sjálfsögðu fann hún öll meistaraverkin mín, horfði á þau einsog nýliði í lögreglunni sem hefur fundið fullan gám af dópi, og byrjaði aftur að rífa sig. ,,Er það þetta sem stærðfræðitímarnir hafa farið í!?! Þetta er ósköp flott hjá þér, en það er ekki til prófs!!!” Það rauk útúr eyrunum á henni. Eða gufaði. Auðvitað! Allur sá fjandi sem maður er mataður á í þessum helvítis skóla er eitthvað fyrirfram ákveðið og skrásett rugl sem að sjálfsögðu er til prófs! Má maður ekki vera skapandi eða frumlegur? Hvar er frelsið í þessu frjálsa landi? Hún lét mig hafa blað og sagði mér að reikna á það þartil hringdi út og tala þá við sig. Og hún tók bókina mína. Ég notaði restina af tímanum tilað reikna samviskusamlega (í herfilega vondu skapi þó) lengd loftlínunnar á milli Suðurbæjar og Norðurbæjar. Og svo blakaði ég eyrunum líka smávegis, bara uppá grínið. Þegar bjallan fór loksins að tjá sig þaut allur bekkurinn út, mínus ég. Magga lét fara lítið fyir sér í dyrunum.

,,Jæja,” sagði Þórhildur. ,,Þér finnst gaman að teikna.” Þetta var bara staðreynd, ekki hægt að svara þessu. ,,Svaraðu mér!” ,,Þú spurðir ekki,” benti ég henni vinsamlega á. Það heyrðist í henni einsog lekri vinsæng. Svona: Phvsss… ,,Þetta verður að breytast. Ætlarðu nú að fara að leggja þig fram í stærðfræði framvegis?” Ég yppti öxlum. ,,Ég ætla ekki að verða stærðfræðingur.” Hún flippaði alveg. ,,Þetta er ekki spurning um það, þetta er spurning um að vera vel undirbúinn fyrir samræmt próf á næsta ári! Það fer eftir þessu samræmda prófi hvort þú kemst í einhvern skóla!” Ég var ísköld áðí. ,,Ég ætla í myndlistarskóla, og ég efa stórlega að þessi bölvuð brot deiltmeð exum og öðrum brotum og ennþá bjánalegri andskota komi að einhverju gagni þar.” Ííísköld. En Þórhildur var kaldari. Hægt og rólega hóf hún stærðfræðibókin mína á loft, glotti svakalega og reif hana í tvennt. Síðan reif hún hvorn helming í aðra tvo hluta. Ég stóð stjörf og gapti. ,,Hvað ertu að gera…?” stundi ég. ,,Þú mátt fara, Helga,” sagði gribban sallaróleg og hélt hurðinni opinni fyrir mér. Magga gerði sig ósynilega. Og ég fór út. Hm…?

Jæja, ef þið höfðuð ekki fattað þetta fyrr, þá vona ég að þessi saga hafi opnað augu ykkar fyrir því að kennarar eru verkfæri andskotans og einnig að þið skiljið þann einfalda hlut að skólakerfi og námsskrá nútímans eru í sameiningu að drepa einstaklingsframtak og lifandi hugsun. Lifi kannabis og allt það…

Kv. Gokka Gorkulus