*Sofðu, ástin mín*


Ég beygi mig yfir þig og horfi inn í augun þín, ég heillast svo af þessu bliki. Ég vona svo innilega að þetta blik þýði hamingju því að ég vil gera þig svo hamingjusaman. Þú brosir til mín, dregur mig að þér og smellir á mig einum kossi. Þegar ég reisi höfuðið aftur upp brosiru meira og tjáir tilfinningar þínar. Ég elska þau orð, orðin um hvernig þér líður í minn garð. Ég sé að þú ert þreyttur og þú reynir að loka augunum en getur það samt ekki því að ég veit að þú vilt ekki missa af einu augnabliki okkar saman. En á endanum sigra augnlokin og þú fellur í fastan svefn. Ég leggst samt ekki niður heldur horfi ég lengi vel á þig og virði fyrir mér hverja andlitslínu og legg andlitsfall þitt á minnið. Þú liggur svo áhyggjulaus þarna undir sænginni, svo hamingjusamur og sáttur við lífið.
Ég finn fyrir þreytunni læðast um kroppinn minn en tími því ekki að fara að sofa. Mig langar til að horfa á þig alla nóttina. Mig langar ekki að missa af einu augnabliki, það getur svo margt gerst á einu augnabliki. En, eins og hjá þér, þá sigrar þreytan mig og ég legg höfuðið á koddann. Þú rumskar aðeins og opnar augun. Ég tek eftir því og gef þér merki um að þú megir sofna aftur, þetta er allt í lagi. Þú brosir til mín þessu brosi sem hefur alltaf heillað mig svo mikið. Ég strýk þér létt um kinnina og kyssi þig á ennið. Þú lokar aftur augunum og festir svefn. Andardráttur þinn er svo djúpur og rólegur að ég finn fyrir vellíðan og öryggi. Þú hefur alltaf verið mér góður og ég hef alltaf fundið fyrir öryggi í örmum þínum, það mun aldrei hverfa – vertu viss um það.
Ég stenst ekki mátið og renni fingrunum í gegnum stutt hár þitt, horfi á þig og kyssi þig aftur á ennið. Ég veit ekki hvort að þú finnur fyrir þessu því að þú er nú sofandi. Ég vona samt að þú finnir hve vænt mér þykir um þig. Mér mun alltaf þykja vænt um þig og ég vona að þú vitir það. Ekki efast um ást mína. Ég hendi sænginni minn af mér og skríð undir hjá þér, finn hlýjuna koma frá þér og mér líður vel. Ég vef mig inn í arm þinn og kúri á brjóstkassa þínum. Ég heyri hjartað berjast um –búmm-búmm- heyrist úr hjartanu og ég veit að þú ert til, þú ert ekki draumur. Mikið er ég fegin að þú sért til, ég var farin að halda að þú værir of góður til að þetta gæti verið raunverulegt. Ég hef aldrei verið svona heppin. Þú ert draumurinn sem mig hefur alltaf dreymt. Þú ert riddarinn á hvíta fáknum sem bjargar mér úr kastala vondu nornarinnar. Svo tekur þú mig með þér til suðrænna landa þar sem enginn nær okkur, þar sem aðeins öryggið eitt er.
Þú rumskar aðeins, ég hrekk við og hugsanirnar fljúga burtu. Þú þrýstir mér að þér og kyssir mig á eyrað. Mér finnst það svo gott, bara öll snerting þín er svo góð. Þú nýrð hausnum aftur niður í koddann og sofnar í þriðja skipti. Ég loka augunum og hugsa með mér að svona eigi þetta alltaf að vera, þetta er framtíðin okkar og við verðum að eilífu saman. Í staðinn fyrir tvö líf þá myndum við eina heild og eitt líf sem endist að eilífu. Eitt líf sem geislar mest af öllum öðrum, eitt líf sem við elskum og virðum og eitt líf sem bindur okkur saman órjúfanlegum böndum, gullböndum.