Sjóstakkurinn

Smásaga eftir Örn H. Bjarnason


Það var einn sunnudagsmorguninn að Óli hafði vaknað við pískur frammi á gangi. Húsaleigan fyrir júní- og júlímánuð var ógreidd og hjónin sem leigðu honum voru eitthvað að ræða það mál sín í milli.
“Láttu hann hafa það óþvegið,” hafði hann heyrt konuna segja og svo var tekið í hurðarhúninn. En dyrnar voru læstar.
“Við vitum, að þú ert þarna inni,” sagði kallinn.
“Já, ég sé þig í gegnum skráargatið,” sagði konan og Óli lá í hnipri og breiddi sængina upp yfir höfuð.
“Ef þú borgar ekki húsaleiguna í dag, látum við lögregluna fjarlægja þig,” sagði kallinn, “þig og allar þínar brennivínsflöskur.” En Óli hafði enga peninga átt og þetta var á fyrstu hæð og seinni partinn þennan sama dag laumaði hann sér út um gluggann. Tómu flöskurnar skildi hann eftir. Konan gæti kannski notað þær undir saft í haust, þó auðvitað ekki allar, því enginn er svo duglegur að fara í berjamó.
Svona hafði þetta verið og nú var Óli kominn á bísann, það var ekki um að villast. Þessa dagana fékk hann að liggja á gólfinu í “Umferðarmiðstöðinni,” svonefndu, tveggja hæða timburhúsi uppi á Bergstaðastræti, járnklæddu að utan. Dálítið óræktarflag var fyrir framan húsið, njóli og arfi, en ekkert gras. Hann lá þar í svefnpoka og það var svo sem allt í lagi, nema hvað gólfið var hart og stundum á nóttunni var ókunnugt fólk að detta um hann. Svo var fíngert ryk á gólfinu og í svefnpoka er lítið svigrúm til þess að hnerra.
Í “Umferðarmiðstöðinni” réð húsum Filippus, en hann var í senn jógi, fylliraftur og alhliða andans maður. Hann hafði ekki gert handtak í mörg ár og var hreykinn af því. Auk þess var þarna að staðaldri kokkurinn, en Óli þekkti ekki hans rétta nafn, enda kallaði Filippus hann aldrei annað en kokkinn.
“Hvar er kokkurinn minn?” öskraði hann stundum svo hátt, að rykið á gólfinu þyrlaðist upp og gluggarnir hristust í falsinu. Þegar búið var að hafa uppi á honum, sagði Filippus, og var þá allt annað en blíður á manninn. “Ég hef ekki fengið neinn hádegismat,” sagði hann, “er ekki eldhúsið þín deild?” Og ef enginn matur var til, hristist kokkurinn líka eins og gluggarnir, enda bar hann óttablandna virðingu fyrir Filippusi og ekki dró úr óttanum, ef Filippus var mjög svangur. Þá fór kokkurinn ýmist út á götu og sníkti aura eða hann gerði sér ferð niður á höfn og fékk þar gefins fisk í soðið. Í fyrrahaust hafði hann víst farið alla leið suður í Skólagarða Reykjavíkur og stolið þar blómkálshöfði og rófum og tekið undan nokkrum kartöflugrösum, ágætis grænmeti, nema hvað rófurnar voru dálítið trénaðar.
Eftir því sem Óli komst næst hafði kokkurinn slæðst í þetta hús fyrir tveimur árum að selja líftryggingu. Honum hafði verið boðið í glas og strax kunnað ljómandi vel við sig og orðið innlyksa. Filippus sá að hér var snyrtimenni á ferð og þess vegna var hann settur í eldamennskuna.
Óli hafði líka sitt embætti í þessu húsi, en það var að varpa mönnum á dyr, ef þeir gerðust uppivöðslusamir eða gjömmuðu frammí, þegar Filippus var að segja mönnum undan og ofan um lífið.
Í “Umferðarmiðstöðina” voru annars allir velkomnir. Þangað komu fylliraftar í lörfum, ungt fólk að puða í ástarsorg, fylliraftar með hvítt um hálsinn, soltnir vesalingar, giftir menn í þann veginn að skilja, smáþjófar að koma af Litla-Hrauni eða búa sig undir að fara þangað aftur. Einu sinni hafði álpast þarna inn dómari, en það var óvart, hafði ætlað í næsta hús. Þó staldraði hann við dágóða stund, til þess að sýna hversu víðsýnn hann væri og að dómarastarfið væri bara eins og hvert annað skítverk, sem einhver yrði að sinna. Og hann skálaði við smáþjófinn, sem hann myndi kannski dæma næsta dag eða hinn.
Svona var hópurinn sundurleitur, en mestir aufúsugestir voru peningamenn. Þeim fylgdi lífleg atburðarás. Snældan tók aftur að snúast mönnum í vil, óðara komin kjötsúpa í pottinn og leigubílar hafðir í förum eftir áfengi og öðrum nauðþurftum. “Bíbb,” leigubíll fyrir utan. “Bang”…tappi úr flösku. Þetta voru oftar en ekki flóttamenn.
“Konan er búin að skipta um læsingu í útidyrunum,” sögðu þeir kannski. Eða: “Konan er flogin á sólarströnd.” Sumir áttu fyrirtæki, sem var á síðasta snúningi eða þeir áttu í útistöðum við skattstofuna. Þessir menn voru aldrei beinlínis skemmtilegir, en peninga höfðu þeir umleikis. Ef þeir gerðust hnuggnir um of, tók Filippus þá afsíðis og reyndi að porra þá upp, oftast með ljóðum eftir einhvern Ómar gamla Kaíam, sem hann nefndi svo. Óli mundi sérstaklega eftir einni ljóðlínu, en hún var á þessa leið: “Þótt ómi fjarlæg trumba, sittu kyr;” og gullkálfarnir dvöldu kannski í einn, tvo sólarhringa og þá voru ekki drukknir neinir kardemommudropar eða dingaling. Kokkurinn var hundrekinn og á þönum í matseldinni og gullkálfurinn fékk að velja bestu kjötbitana og hann fékk hreint glas til að drekka úr. Sumir voru með marga fimmþúsundkrónaseðla í veskinu og Filippus hafði glöggt auga fyrir slíku. Við þá sagði hann kannski.
“Þetta grey,” sagði hann og benti á Óla, “þetta grey er að fara á sjóinn, en vantar fyrir stakk og stígvélum.” Og ef þeir voru saddir eða kannski svolítið meyrir, eftir að hafa komið sér í skömm heima fyrir létu þeir oft eitthvað af hendi rakna. Þannig fengna peninga tók Filippus ávallt í sína vörslu og það voru gerðar áætlanir fram í tímann og þegar gullkálfurinn var farinn var keypt áfengi fyrir peningana.
Annars var það alveg rétt, Óli ætlaði á togara. Það var aðeins tímaspursmál hvenær af því yrði. Hann var orðinn langþreyttur á þessu svalli, nánast úrvinda og það var ekki nema um tvennt að velja, drykkjumannaspítala eða togara.
En hvernig hafði hann dottið svona hroðalega í það, tveggja mánaða stanslaus drykkja? Stundum þegar hann lá vakandi seinni part nætur eða á morgnana, rifjaðist það upp fyrir honum…Jú, það hafði eiginlega byrjað með smá fingurmeini. Hann hafði langað að breyta svolítið til, hætta á sjónum um tíma og ráðið sig sem gluggapússara. Nema hvað einn daginn var hann að klifra upp í stiga við Reykjavíkurapótek og fékk þá flís í löngutöng, agnarlitla flís og hann náði henni fljótt úr.
Í fyrstu virtist þetta ekki ætla að verða neitt, en um kvöldið var puttinn orðinn rauður og svo kom ígerð.
“Hafðu hægt um þig í nokkra daga,” hafði læknirinn á slysastofunni sagt, þegar hann var búinn að binda um fingurinn, “taktu þér frí frá vinnu.” Og hvað er hægt að gera í landi, ef menn eiga frí, nema drekka? Ekki gat hann legið upp á dívan alla daga og mælt göturnar ófullur, þá list kunni hann ekki. Auk þess átti hann dálítið af peningum og þetta var um hásumar og það voru margir, sem vildu drekka með honum. Fyrstu dagana rússaði hann um í leigubílum, en það var of dýrt til lengdar og þá settist hann á bekki með félögum sínum eða þeir fóru suður í Hljómskálagarð og lögðust þar í grasið. Nóg er hægt að gera í góðu veðri, þegar maður er fullur og fínn. Þetta voru áhyggjulausir dagar og hann var guðsfeginn að þurfa ekki að hanga uppi í stiga og pússa glugga. Honum hafði raunar aldrei fallið það starf, þetta að horfa á fólk í gegnum glerrúður, sjá það hreyfa munninn og vita ekki um hvað það var að spjalla sín í milli, vélritunarstelpur að flissa, alvöruþrungnir menn að ræða saman í kringum stórt borð og hann með tusku í hendi og hálfvitinn, yfirmaður hans fyrir neðan stigann. Þá sjaldan sá drumbur opnaði munninn, var það einungis til að gefa einhverjar fáránlegar fyrirskipanir.
“Demdu ekki svona mikilli sápu í vatnið,” var viðkvæðið. Það var stundum engu líkara en að guli sápulögurinn væri bráðið gull.
Eða.
“Þennan glugga verðurðu að pússa sérstaklega vel, því innan við hann situr maðurinn, sem skrifar upp á reikningana.” Og þá hló fíflið. Nei, honum hafði aldrei fallið þetta starf, heyra ekkert nema niðinn í umferðinni og bílflaut og hróp í blaðsölustrákum. Auk þess vildi hann sjá mannlífið af jafnsléttu og ekki hvirfilinn á kvenfólki. Kvenfólk tekur sig best út ef horft er á það liggjandi í grasinu. Þaðan er hægt að fylgjast með þokkafullum hreyfingum þess. Þess vegna dásamaði hann nú þessa flís jafn mikið og hann hafði bölvað yfirmanninum áður. Hún var kærkomin afsökun til að slæpast og ef einhver var svo nærgöngull að spyrja nánar út í þetta slark, þurfti hann ekki annað en rétta upp veika fingurinn og segja.
“Handlama, því er nú fjandans ver,” með viðeigandi eymdarsvip.
En handarmein hafa tilhneigingu til þess að gróa og yfirmaðurinn fór að ganga stíft eftir því, að hann mætti aftur til vinnu. Það var þá, sem hann keypti heilmikið sárabindi og batt um heibrigða fingurinn. Ekki sparaði hann umbúðirnar og þær sáust langar leiðir,svo öllum mátti vera ljóst að það var ekki nema eðlilegt að hann hlífði sér.
Einn daginn var hann að slangra oní Austurstræti og gekk þá fram á yfirmann sinn.
“Vottorð eða mæta góði,” hafði hann sagt, alltaf jafn nákvæmur. En vottorð er ekki hægt að fá út á sáraumbúðir einar saman og skömmu seinna var hann rekinn. Hann var hálfpartinn feginn, þó hann væri orðinn heldur auralítill.
Skömmu eftir þetta hafði hann svo lent í “Umferðarmiðstöðinni”, þekkti þar dálítið til, þó hann væri þar ekki beinlínis inni á gafli. Og hann hafði farið úr jakkanum, af því að það var svo heitt þar inni.
“Nei, lommér sjá,” hafði Filippus sagt, “tattóveraður og með þessa líka fínu vöðva…Úr því þú ert atvinnulaus, viltu þá ekki verða útkastari hjá mér?” Eftir það hafði hann svo sofið þar á gólfinu, en upp á síðkastið var farið að gera ráðstafanir til þess að útvega honum bedda og þess vegna ætlaði hann að koma sér á togara sem fyrst. Hann vildi ekki daga þarna uppi eins og kokkurinn. Auk þess var hann orðinn pirraður á áreynsluleysinu. Þegar hann impraði á þessu við Filippus, sagði hann bara.
“Hvað líður þér ekki bærilega hérna, færðu ekki mat annað slagið og nóg brennivín?” Jú, Óli hafði svo sem ekki yfir neinu að kvarta þannig séð, hann hafði það gott, kannski of gott.
Annars var það undarlegt, hvað Filippus hafði mikið vald yfir fólki og konur löðuðust sérstaklega að honum, ekki einungis eldri, ráðlausar konur með annan fótinn í einhverri botnlausri fortíð, heldur líka ungar stúlkur. Þó var hann áreiðanlega kominn eitthvað á sextugsaldur með grásprengt hár og oftast margra daga skeggbrodda í andlitinu og út úr eyrunum óx líka hár og nefinu.
“Það eru augun í honum,” sagði kokkurinn, “hann bókstaflega dáleiðir þær.” Sjálfur hafði kokkurinn nokkra reynslu af þessum dáleiðsluhæfileikum, enda hafði hann lagt lífsköllun sína, sölumennskuna, á hilluna til þess að geta snúið sér óskiptur að því að stjana í kringum þennan sundurleita hóp, sem Filippus taldi sér heiður af að umgangast. Og hvað snerti konurnar, þá gerðust sumar þeirra svo aðgangsharðar, að Óli varð að stugga þeim frá og þá lokaði Filippus sig inni í jógaherberginu svonefnda og þar mátti enginn trufla hann.
“Hann er að æfa sig,” sagði kokkurinn hátíðlega, en aldrei sá Óli neitt þvíumlíkt til hans, nema hvað Filippus var vanur að þvo sér um lappirnar upp úr eldhúsvaskinum og þurfti þá að lyfta fætinum, þannig að hnéð nam við höku. Vera má að þetta hafi verið einhver angi af jógakerfinu, einhvers konar æfing. Hugleiðslu stundaði hann áreiðanlega ekki, þó hann sæti raunar stundum í þungum þönkum, ef enginn slæddist inn með áfengi og daprir peningamenn ekki látið sjá sig í langan tíma.
En hvað um það, Óli ætlaði aftur á sjóinn og hann vantaði stakk og stígvél. Einn daginn, þegar allt var rólegt í “Umferðarmiðstöðinni” lá hann fyrir og bollalagði um, hvernig hann gæti útvegað peninga. Þá allt í einu fékk hann innblástur…Geirþrúður frænka. Hvers vegna hafði hann ekki munað eftir henni fyrr? Hún bjó inni á Njálsgötu og hann læddist út svo að lítið bar á og rölti heim til hennar.
“Nei, mikið ertu vænn að koma og heimsækja mig,” sagði Geirþrúður og bauð honum inn fyrir, “góður drengur, Óli minn, að heimsækja einmana frænku þína.” Honum fannst hún spotsk á svipinn, en kannski var það bara samviska hans sjálfs, sem ekki hafði tekist að svæfa til fulls, þó að hún hefði farið nokkrar kollsteypur undanfarið og orðið fyrir töluverðu hnjaski.
“Er annars nokkuð að frétta að vestan, frá mömmu þinni og pabba?” sagði hún og fylgdi honum inn fyrir.
“Bara allt gott.” Hún bauð honum inn í stofu.
“Nei, hvað er að sjá þig,” sagði hún, þegar þangað kom, “með gat á rassinum og skín í bert.” Æ, þurfti hún nú endilega að reka augun í það. Hann hafði vitað af þessari rifu á buxunum, en talið sjálfum sér trú um að jakkinn hyldi hana.
“Best ég dytti að þessu á meðan þú stendur við,” sagði hún og sótti saumakassa. Hann reyndi að malda í móinn, en það var ekki við annað komandi en að hún gerði við rifuna og hún rak hann úr buxunum.
“Ertu enn að pússa glugga, væni minn?” sagði hún og Óli var í þess háttar nærbuxum, sem gerir menn hrædda við slys og óvænt ástarævintýr og yfirleitt það að þurfa að fara úr buxunum. Hann teygði sig eftir púða og setti framan á sig.
“Nei,en ég er að fara á sjóinn aftur,” sagði hann.
“Og kominn til þess að kveðja frænku þína.” Það varð dálítil þögn.
“Geirþrúður,” sagði Óli svo með þungri áherslu, en lengra komst hann ekki. Hann sat þarna með púðann framan á sér og honum var ómögulegt að stynja upp erindinu. Maður biður ekki fólk um lán á nærbuxunum, hugsaði hann. Þannig á sig kominn er engin leið að halda röddinni í því jafnvægi, sem nauðsynlegt er.
“Hvað, vinur?” sagði hún og hélt áfram að gera við rifuna.
“Ekkert.”
“Ekki veitir af að pressa þær,” sagði hún, þegar hún var búin að gera við buxurnar og setja saumakassann á sinn stað. Hún fór fram í eldhús og Óli var að hugsa um að hætta við allt saman.
“Kviss,” heyrðist í straujárninu, “kviss.” Síðan þurftu buxurnar að þorna og hún hitaði handa honum kaffi og bar fyrir hann smákökur á diski. Það minnti hann á, hvað hann var svangur og mikið skelfing langaði hann í kjöt eða brauðsneið með osti. En þarna fyrir framan hann voru smákökurnar og hann fékk sér eina og hún varð strax að mylsnu uppi í honum. Önnur og sú þriðja fór sömu leið og kaffið skerpti taugarnar.
“Má ég ekki fara í buxurnar núna?” sagði hann.
“Nei, ekki alveg strax,” sagði hún og hellti aftur í bollann hans. Því næst fór hún eitthvað að dedúa í eldhúsinu, en á meðan brá hann sér í buxurnar. Hann kreppti annan hnefann utan um lyklakippu, sem hann var með í jakkavasanum, og hinn utan um óvissuna, en fór síðan fram til hennar. Nú var að duga eða drepast.
“Geirþrúður,” sagði hann og hún snéri sér spyrjandi að honum. “Mig vantar peninga,” ruddi hann út úr sér og lyklarnir skárust inn í krepptan hnefann. Sársaukinn gerði þetta allt saman heldur auðveldara viðureignar.
“Vantar peninga…óekki.”
“Já, fyrir stakk og stígvélum.”
“Hefurðu verið að drekka undanfarið?” sagði hún, en það var engin ásökun í röddinni. Í langan tíma hafði hann ekki þorað að líta í spegil, en hann fór nokkuð nærri um útlitið, baugar undir augunum, órakaður og hárið eins og á smurningi, þurrt og dautt.
“Já,” sagði hann, enda vissi hann að það var ekki til neins að þræta. “Geirþrúður,” bætti hann svo við, “þú veist að ég skrökva ekki að þér, mig vantar fyrir sjógalla.” Hún gaf ekkert út á það.
“Ertu búinn að fá skipspláss?”
“Nei,” sagði hann, “en það vantar alltaf menn núna.” Hún leit rannsakandi á hann, en sagði ekki neitt og hann dró djúpt að sér andann eins og hann væri ekki meira en svo viss um, að þess gæfist kostur framar. Hún fór inn í næsta herbergi og hann heyrði hana opna klæðaskápshurð og því næst hverja skúffuna á fætur annarri. Þegar hún kom aftur fram var hún uppábúin.
“Best ég komi með þér í verslunina,” sagði hún, ekkert annað og svo var hún komin í kápu og setti á sig hatt.
Þegar þau komu í vinnufatabúðina voru tveir afgreiðslumenn óðara farnir að snúast í kringum þau.
“Mátaðu stakkinn,” sagði Geirþrúður og Óli bar hann við sig.
“Hann passar alveg,” sagði afgreiðslumaðurinn.
“Mátaðu hann,” sagði Geirþrúður og hann varð að fara í sjóstígvélin líka. Hún gekk nokkur skref aftur á bak eins og hún væri að athuga sídd á kvenmannskjól. Því næst gekk hún aftur til hans. Hún beygði sig með erfiðismunum og þrýsti á stígvélin til þess að fullvissa sig um, að nógu rúmt væri um tærnar.
“Vantar þig nokkuð fleira?”
“Já, belgvettlinga,” stundi Óli út úr sér og hann var hálf viðutan, af því það var svo margt fólk í búðinni og Geirþrúður var við hann eins og hann væri lítill strákur að fá fyrstu sunnudagsfötin sín.
“Jæja, þá er það skipsplássið” sagði hún, þegar þau voru komin út á gangstétt, “hvar er togaraskrifstofan?”
“Má ég ekki fara þangað einn?” sagði hann auðmjúkum bænarómi, “ég skal svo hringja til þín og láta þig vita, hvernig mér hefur gengið.”
“Jú, ætli það sé ekki í lagi,” sagði hún og þau kvöddust og hann gekk af stað út í Bæjarútgerð Reykjavíkur. Á leiðinni keypti hann maltöl og fór inn í næsta port og blandaði úr koggaglasi, sem hann var með í jakkavasanum. Hann hafði blönduna sterka, svo hann guggnaði ekki í miðri setningu og stæði eins og þvara fyrir framan ráðningarstjórann, ef hann var þá við.
Jú, hann var við og Óla var vísað beint inn til hans. Hann var ekki lengi að koma sér að efninu.
“Mig vantar pláss á togara,” sagði hann og ráðningarstjórinn fiktaði við aðra augabrúnina, eins og hann væri að leita þar að einhverju.
“Kanntu að gera að?” sagði hann.
“Ef þú getur útvegað þorsk og flatningshníf hingað upp á skrifstofu, þá skal ég sýna þér handtökin,” sagði Óli. Áhrifin af koggablöndunni voru farin að segja til sín og hann var í essinu sínu, skeytti því raunar engu þó að sprittlyktin bærist með orðaflaumnum yfir skrifborðið.
“Þú ert ráðinn,” sagði ráðningarstjórinn vafningarlaust, “mættu niðrá togarabryggju klukkan átta í kvöld, ég verð búinn að tala við skipstjórann.”
Þegar hann var kominn í dyrnar kallaði ráðningarstjórinn á eftir honum.
“Hvað heitirðu annars?”
“Óli.”
“Ekkert annað?”
“Er það ekki alveg nóg?”
“Jú,” sagði ráðningarstjórinn og Óli lokaði dyrunum á eftir sér.
Að þessu loknu fór hann upp í “Umferðarmiðstöð” og sagði tíðindin. Þar var þá fyrir hópur af fólki. Filippus sagði ekki orð og kokkurinn þagði líka. Óli fór þá með sjógallann upp á loft, en síðan út að hringja í Geirþrúði.
“Ætli ég rölti ekki ofan eftir og kveðji þig,” sagði hún, “hvenær fer skipið?” Óli sagði henni það og lagði svo tólið á. Nú var ekki annað að gera en bíða.
Í “Umferðarmiðstöðinni” flóði allt í víni, en Filippus var samt þögull. Klukkan varð fimm, síðan sex og haugafull kerling var farin að dansa úti á miðju gólfi, slæðudans átti það víst að heita. Óli reyndi að sjá eitthvað fallegt við þessa konu, eitthvað gott á bak við afkáralega tilburði hennar. En hann var eins og tepoki, sem hefur tekið of margar dýfur. Pokanum er dýft enn einu sinni, en vatnið heldur áfram að vera vatn. Öll hrifning hafði fjarað út, hann var þurrausinn. Hann fékk sér í glas, en hann var svo þreyttur, að hann sá ekkert nema slæðurnar hreyfast og skugga af þessari manneskju, rétt eins og hún væri huldukona eða bara gufa úr hraðsuðukatli…Og klukkan varð sjö. Þá var að kveðja mannskapinn. En þegar hann ætlaði að sækja sjógallann var hann ekki á sínum stað. Hann innti Filippus eftir þessu.
“Hvaða sjógalli?” sagði Filippus ólundarlega.
“Nú sjógallinn, sem ég fór með upp á loft.”
“Ég veit ekkert um hann,” sagði Filippus og kveikti á útvarpinu, “það eru komnar fréttir,” bætti hann við.
“Hver hefur tekið sjógallann minn?” sagði Óli og var nú orðinn reiður. Konan hélt áfram að dansa og þulurinn las fréttirnar, en það virtist enginn hvorki heyra né sjá. Það horfði hver ofan í sitt glas, allir nema Filippus, hann lagði eyrað upp að útvarpstækinu. Óli settist við hlið hans.
“Þú hlýtur að vita um hann.”
“Ég veit ekki um neinn andskotans sjógalla,” sagði hann, “og þegiðu svo, ég er að hlusta á fréttirnar.” Óli fór nú í hvert herbergið á fætur öðru, en allt kom fyrir ekki, sjógallann fann hann hvergi.
“Ætli það hafi ekki einhver stolið honum,” sagði kokkurinn.
“Vertu feginn,” sagði Filippus, “það er hvort eð er heilvítis rassgat að velkjast á þessum togurum.” En Óli var ekki á sama máli og nú var Geirþrúður frænka örugglega farin að bíða niðrá bryggju. Hitt var jafnvíst, að Filippus hafði tekið sjógallann á meðan hann skrapp út að hringja og falið hann einhvers staðar. En Óli gat ekki sannað neitt upp á hann. Það var því ekki um annað að ræða, en að fara niðrað skipi og segja Geirþrúði hvernig komið væri. Hann hafði svo sem svikið marga um ævina, en hana vildi hann ekki svíkja.
“Hvaða asi er þetta?” sagði Filippus, “fáðu þér aftur í glas.”
“Snarhaltu kjafti,” sagði Óli og hann sá, að Filippus skipti litum. Þetta hafði áreiðanlega enginn leyft sér að segja við hann fyrr og hann gerði sig líklegan til þess að standa upp.
“Já, haltu kjafti,” endurtók Óli og Filippus seig niður í stólinn aftur. Þar með var Óli farinn og hann lokaði útidyrunum hægt, en ákveðið. Hann þurfti ekki að skella á eftir sér til þess að fullvissa sjálfan sig um, að hann myndi aldrei framar stíga fæti inn í þetta hús. Þó svo að hann kæmist ekki á þennan togara hefði hann einhver ráð.
Bílar renndu niður bryggjuna og konur stóðu þar og börn, allir að kveðjast. Geirþrúður stóð þar líka.
“Nú er íllt í efni,” sagði Óli og skýrði út fyrir henni málið.
“Það var og,” sagði hún.
Áhöfnin var nú nær öll komin um borð og skipstjórinn stóð á dekkinu. Óli þekkti hann frá fyrri tíð.
“Átt þú ekki að vera hjá mér?” kallaði skipstjórinn.
“Jú,” sagði Óli.
“Flýttu þér þá, við erum að fara.” Óli gekk í áttina til hans.
“Mig vantar stakk og stígvél,” sagði hann.
“Hvað, við reddum því,” kallaði skipstjórinn rétt eins og hann stæði uppi í brú, en ekki þarna rétt fyrir framan hann, “um borð með þig,” bætti hann við. Óli var ekki seinn á sér og snaraði sér yfir lunninguna.
Hann stóð á þilfarinu og togarinn var að leggja frá bryggju. Konur og börn fóru að tínast í bílana og Geirþrúður gekk upp bryggjuna. Hún var með litla, svarta tösku, sem hefði getað verið frá öldinni sem leið og það var svolítil gola og hún studdi við hattinn sinn.
Skipið tók að rugga undir fótum hans og Óli fór nú að kannast við sig aftur. Þetta var eitthvað annað en að hanga uppi í stiga og pússa glugga fyrir einhverja hálfvita eða hlusta á Filippus hafa fé út úr mönnum með kvæðum og lygasögum. Brátt fengi hann að reyna á sig og fengi nóg að borða og blóðið myndi streyma um æðarnar á ný, streyma á eðlilegan hátt, ekki pískað áfram í djöfulmóð af brennivíni, kogga eða dingaling.
Geirþrúður frænka var nú komin upp að skemmu Eimskipafélagsins og hún var svo agnarlítil að sjá og það var eins og taskan hennar tilheyrði annarri öld.