Enn eitt af mínum stærðfræðitíma rugli.. nema þessi tók 2 tíma.. hún er u.þ.b. helmingi lengri en hin fyrri (þ.e. B&B) og því verð eg ekkert hissa eða fúl þótt enginn hafi sig í gegnum hana!
gaman að þessu samt…




Þetta byrjaði eins og ósköp venjulegur þriðjudagur.

Ég rankaði við mér í þriðja tíma, með störu á töfluna, við að garnirnar í mér gauluðu sáran. Ég hafði ekki haft tíma til að borða áður en ég rauk út rétt fyrir 8 í morgun, og svo illilega vill til að þegar maginn í mér kvartar þá kvartar hann hátt! Þess vegna leit allur bekkurinn við og starði á mig, sem sat aftast í stofunni við hliðina á Sverri, besta vini mínum.

Ég sleit augun af töflunni sem var þakin einhverri óskiljanlegri stærðfræðiþvælu og uppgötvaði mér til skelfingar að ég var með rautt far vinstra megin á andlitinu eftir að hafa hallað mér fram á hendina. Og úlnliðurinn var helaumur. Líklegast hafði ég setið svona í 30 mínútur, jafnvel lengur. Ég ræskti mig og leit á Sverri, sem mér til gremju virtist skilja allt sem kennarinn sagði svo ég lagði við hlustir;

„…þarnæst setjið þið x-ið í 17. veldi, flytjið höfuðstólinn yfir samasem merkið, ekki gleyma að breyta um formerki, reiknið síðan út úr svigunum, munið samokaregluna, og þá er það deginum ljósara að útkoman er í raun 275.000,756, eða 17% á ári!“

Ég deplaði augunum og leit skelfingu lostin niður á stærðfræðibókina mína og vonaði að ég næði að þrauka út þennan tíma. Eftir hann var ég í eyðu og gæti farið heim að borða og sofið til klukkan 2.

Bjallan hringdi.

„Og munið svo að þið eigið að skila heimadæmum 7-22!“ reyndi kennaraómyndin að kalla yfir bekkinn, vel vitandi að á morgun mundi a.m.k. helmingur bekkjarins mæta óundirbúinn.

„Gína?!“ heyrði ég Sverri kalla. Gvuð hví gerðir þú mér þann óleik að eignast svona foreldrar sem dettur slík mannvonska í hug að skíra barnið sitt Regína Sigmundína? Í höfuðið á BÁÐUM ömmum mínum.

„Yeeeees….“ svaraði ég letilega meðan ég klæddi mig í útjaskaða Highroad skóna sem ég fékk í 9. bekk.

„Hvert ertu að fara?“ spurði hann mig hissa, jafnvel þótt hann bæri engin svipbrygði þess. „Ætlarðu ekki að mæta á æfingu?“

~Shit fuck satan!~ æpti ég í huga mér. Fjandans, fjandans bridge! Og ég sem hélt að þetta yrðu auðfengnar 2 einingar. Aldrei datt mér í hug að bridge gæti verið svona leiðinlegt!

„Nei, ég ætla heim að éta!“

„Þú veist að ef þú skrópar meira ertu búin að segja þig úr áfanganum?“

„Bæ Sverrir!“

Ég gekk hröðum skrefum heim. Þessi ljóti, ælugræni blokkarræfill er lýti á landslaginu. Ég labbaði upp á þriðju hæð og dró upp lykilinn, til þess eins að uppgötva þá hræðilegu staðreynd að ég heyrði í einhverjum inni í íbúðinni. Það var einhver að spila tónlist. Meira að segja BRANDY!

Þá rann það upp fyrir mér…. Vetrarfrí! Það er vetrarfrí í barnaskólanum! Þar fór svefninn minn sprangandi út í buskann.

~Jæja, lífið er ekki úti enn.~ hugsaði ég. Ég hlaut að geta sofnað þótt Kristín hlustaði á tónlist… Ég gekk inn og þá mættu mér kassafjöll og hrúgur af drasli. Við erum ekki enn búin að flytja almennilega inn eftir að við fluttum út frá pabba, þeim drullusokki.

Ég henti töskunni á gólfið í forstofunni og reyndi að arga “halló” í þessum ekkisens hávaða sem skók húsið. Það var auðheyrt að mamma var ekki heima… En ekkert gekk. Í eldhúsinu fann ég mér grænan banana og blandaðan Chiquita ávaxtasafa sem rann út fyrir 2 dögum. Mamma hefur ekki efnað í neinu sætara en KEA kindakæfu síðasta mánuðinn. Ég tróð þessu í andlitið á mér, til þess eins að friða magann, og lallaði annars hugar fram í stofu, þar sem mér mætti óyndisfríð sjón.

Á miðju stofugólfinu sat Sara, 7 ára gömul systir mín, klædd í uppáhalds svörtu peysuna mína, þessa grófu með stóra kraganum sem fer mér svo vel, og rauðbrúna sparipilsið mitt, öll þakin í niðurrifnu frauðplasti. Og, eins og þetta væri ekki nógu slæmt í sjálfu sér, þá stóð Kristín, hin 11 ára gamla ný-orðin-gelgja systir mín, yfir henni með þríarma kertastjaka í annarri hendinni og bók, risastóran Sögu-Atlas ef mér missýndist ekki, í hinni. Hún var klædd í ullarpeysu og föðurland sem móðir mín prjónaði á mig fyrir ári síðan. Kristín sneri baki í mig en virtist vera að ganga hringinn í kringum Söru, og þegar hún var komin hálfa leið sá ég að hún var með lokuð augun, eins og Sara, og hún hreyfði munninn eins og hún væri að tóna líkt og prestur. En ég heyrði ekki hvað hún sagði fyrir þessari ekkisens, ótuktans hljómlist sem allt ætlaði að drepa.

Og þá var sem ég missti mig.

Ég rauk í Kristínu, skeytti engu að ég væri með safa í glasi í annarri og hálf-étinn banana í hinni, reif í hana svo henni dauðbrá og missti draslið úr höndunum á sér . Ég hristi hana og skók, öskrandi á hana eitthvað sem hún greindi ekki í hávaðanum, og gaf mér ekki tóm til að pæla hvert maturinn minn hafði þvælst. Eftir að ég hafði öskrað á hana í svolítinn tíma reif hún sig lausa og hljóp inní herbergi til að slökkva á músíkinni.

Þá loksins leit ég á Söru, sem sat á gólfinu við hliðina á mér. Hún var hágrátandi. Í skollitaða hárinu var banani, blandaður blönduðum ávaxtasafa og vax-slettur skreyttu toppinn. Glær brotin úr glasinu láu á víð og dreif í kringum hana. En það var ekki að henni sem áhyggjur mínar beindust.

„Peysan mín!“ æpti ég skelfingu lostin og kraup við hlið Söru. „AH, pilsið mitt!!“ Mér fannst himininn hvolfast yfir mig. „Hvern fjárann eruð þið að gera!?“ æpti ég á grenjandi krakkarassgatið og byrjaði að plokka kertavax og gegndepa frauðplastbúta úr grófu, svörtu peysunni minni.

„Við *ekkasog* vorum bara *innsog* að leika Jón Sigurðsso-on *soguppínef* og Ingibjörgu í festum…“ og síðan hélt hún áfram að skæla með óþroskaðan banana á kinninni og híðið í kjöltunni.

„Ha?“ var það eina sem ég gat stunið upp. Ég hristi hausinn og stóð upp, nennti ekki að fást yfir þessari peysu. Hún var mér glötuð. Að eilífu! Ég grét sáran inní mér og gekk inn í herbergi.

Ég henti mér í rúmið mitt, óumbúið, og lygndi aftur augunum. Loksins… svefn….

En himnaríki hélt ekki lengi. Alltof fljótt heyrði ég Kristínu læðast inn í herbergið sitt, sem er við hliðina á mínu, hinumegin við vegginn sem rúmið mitt liggur upp að, og kveikja á græjunum á ný. Sæl aftur, elsku Brandy.

Ég lagðist á vinstri hliðina, þá sneri ég frá veggnum, lokaði augunum aftur og reyndi að tæma hugann.

En alltof, alltof, alltof fljótt heyrði ég, þaðan sem ég lá í dróma, hvar Sara gekk skælandi inn í herbergið sitt og byrjaði að jagast í tökkunum á gamla, útjaskaða kasettutækinu mínu. Það gat bara boðað eitt…

———-KISULÖGIN!————

Alveg frá því að Sara lærði á þríhyrningstakkann höfðu kisulögin ekki fengið eins dags frí. Óviljug hafði ég lært hvert einasta þessarra laga utanað gegnum árin og hefði getað sungið með, hefði ég bara kært mig um það.

„Oh, how I loath that box!“ Sideshow Bob úr Simpson skaust upp í huga mér. Ég hata þetta kasettutæki jafnvel meir en hann hataði sjónvarpið. Og nú voru kisulögin í botni í herberginu hinumegin við mitt.

„Have you ever loved somebody so much…“ í örðu eyranu og „..grátt er þitt gamla trýn! Mikið malar þú, mér það líkar nú…“ í hinu. Von bráðar, þar sem ég lá þarna milli svefns og vöku, fór mig að hálf-dreyma um Gunnar, köttinn hans Sverris, að gráta úr sér augun yfir því að hann elskaði einhvern högna sem malaði mikið svo mikið að það fékk hann til að gráta og liggja andvaka allar nætur…

„AAHH!“

Ég rauk upp úr rúminu og þaut fram úr herberginu mínu, fram í forstofu, gleymdi skólatöskunni og rauk út úr íbúðinni. Hurðinni skellti ég fast á eftir mér svo glumdi í á stigaganginum. Þvílíkt geðveikrahæli sem ég kalla heimili mitt.

Ég flaug niður stigana og hoppaði í skóna. Ég gleymdi kápunni minni uppi en ég var ekki á leiðinni þangað aftur.

„Út vil ek!“ þaut gegnum hugann.

Leið mín lá niður í bæ. Ég veit ekkert hvert. Algjörlega auralaus og illa klædd, ein á vappi um miðbæinn. Mál&Menning, bókakaffi… skársti kosturinn hingað til…! Ég geng gegnum þjófavörnina og „BINGÓ“! Hver blasir við mér annar en déskotns dræsan hann faðir minn, Benedikt Jóhannsson, með nýju konuna, sem ég hef enn ekki lagt á minnið hvað heitir, og krakkagríslingana 3. Var verið að skemmta djöfullegum ormunum? Allaveganna voru þeir með rjómaís í brauðið í skítugum krumlunum, gosdrykk í hinni og poka frá Leikfangalandi, stútfullan af drasli sem þeir hafa ekkert við að gera. Þessir spikfeitu boltar. Strákurinn passar örugglega í skál C, ekki nema 6 ára gamall. Og þessi jússa, móðir þeirra. Ég hef nú svo sem séð feitara fólk og ekki fundist það jafn feitt, en hatrið gerir fólkið feitt…?

Ég stöðvaðist örskotsstund í sporunum og mat stöðuna. Auraleysið skaut upp kollinum svo ég ákvað að notfæra mér stöðuna. Lymskuglott færðist yfir varirnar og…

„Pabbi!?“ Ég setti upp mitt margfræga gervibros. Föður mínum virtist brugðið.

„Regína?“ Hann reyndi að fela skelfingarsvipinn. „Hvað ert þú að gera hér?“

Ég heilsaði og kynnti mig, klappaði á kollinn á einu akfeita svíninu, ekki alveg hægt að greina hvort þetta átti að vera strákur eða stelpa, og svaraði;
„Átti bara leið hjá. Ég þarf að kaupa mér nýjar skólabækur, en það er þröngt í búi svo…“ Andlitsvöðvarnir slöknuðu og augun urðu sorgleg og mændu biðjandi á föður minn, sem dró up veskið hikandi og efins.

„Á ég ekki bara að splæsa? Hvað þarftu mikið?“

Ég rétt náði að halda aftur sigurglottinu og hélt áfram í sama uppgjafartóninum;

„Ja, náttúrufræðin ein er 6,000 og svo er það enska, íslenska, danska, stærðfræði, þjóðhagfr…“

„Já, hvað segirðu… 30.000!?“

Ég glennti upp augun.

„Ja-á!“ stamaði ég. Kallin dreif upp seðlabúntið. Hann vildi mig örugglega burtu. Ég reif peningana úr hendinni á honum, blikkaði og blés honum fingurkoss og hljóp rakleiðis út úr búðinni.

Sigurvíman steig mér til höfuðs. 30.000 krónur? Það þarft auðvitað ekki að taka fram að þetta með skólabækurnar var lygi. Skíthællinn átti alveg nógan pening til að blæða smá í vasann hjá mér…

Ég rauk beint í næstu sjoppu og keypti mér innistæðu.

8-4-6-9-6-4-6…

„Sverrir?&#8220 ;

„Gína? Hvað er? Ég er í dönsku!“

„Skítt með það babbl! Komdu og pickaðu mig upp niðrí bæ!“

„Núna? Af hverju?“

„Gettu hver á 30.000 kall!!“

„HA!? Shit! Núna?!“

„Jább!“

„Og viltu fara núna?“

„Jább!“

„Ok, ég kem og næ í þig eftir… … ! … … tre rundstykker med ost! 150 kroner… gefðu mér hálftíma!“

„OK! Takk!“

Ég hékk á Hlemmi í 40 mínútur. Snake var farinn að verða býsna þreyttur…

En á endanum keyrði Sverrir við á gamla Saab-num með ónýta hljóðkútnum.

„Getum við splæst í bensín?“ spurði Sverrir mig, spennan auðheyrð.

„Auðvitað! Hún kostar nú ekki nema 22.750-!“ Alveg með verðið á hreinu eftir eins árs þráhyggju…

Við stoppuðum á Essostöð á leiðinni út úr bænum. Ég var komin með fiðring í magann og kláða í lófana. Hvílík heppni að eignast pening í sama mánuði og hún var á 50% afslætti. Hvílík tilviljun! Hvílík hamingja!

Við beygðum út afleggjarann merktur “Selfoss”. Yfir Hellisheiðina. Við keyrðum í þögn með Foo Fighters í gangi, Sverrir upptekinn af akstrinum, og ég af landslaginu. En hálfkomin yfir heiðina, sem þótt ótrúlegt megi virðast var þakin snjó, sáum við grilla í bíl. Og ekki nóg með það heldur var honum lagt á veginum með hættuljósin á og tvær manneskjur voru á vappi í kring.

„Slys?“ spurði ég.

„Nei, bilaður sýnist mér!“ svaraði Sverrir. Við ákváðum að stoppa. Þegar ég steig út, á peysunni einni fata, mætti mér óskapar rok og skafrenningur. Annar mannanna gekk í átt að mér, en hinn til Sverris.

„Hvað er að?“ kallaði ég yfir vindgnauðið.

„Bilaður!“ svaraði hann, rödd hans hálf-kæfð gegnum trefil sem huldi andlit hans. Hann gekk örlítið nær mér og dró undan úlpunni sinni risastóran hníf. Ég æpti og hljóp til baka í átt að Saab-num en sá þá mér til skelfingar að hinn maðurinn hélt Sverri föstum, hnífseggin við barkann á honum. Svo fann ég manninn rífa í mig aftanfrá.

„Útí kantinn!“ heyrði ég hann öskra. „Út í kantinn!!“ og hann ýtti mér hranalega. Ég hlýddi og Sverrir tók sér stöðu við hlið mér. Maðurinn leitaði á Sverri og síðan á mér en fann ekkert merkilegra en símann minn og bíllyklana (ef þeir teljast ómerkilegir…), sem hann hyrti. Mennirnir voru fljótir að, augljóslega búnir að skipuleggja þetta áður, og áður en ég vissi af voru þeir horfnir á braut…. á báðum bílum….

Og hér sit ég, og Sverrir við hliðina á mér, og bíð eftir að lögreglan komi og nái í okkur. Mennirnir höfðu verið nógu góðhjartaðir til að skilja eftir símann minn svo, með því litla sambandi sem náðist, við gátum hringt eftir hjálp.

En samt líður mér ekkert vel.

Þvert á móti.

Mér líður hræðilega.

Því peningarnir voru í bílnum.

Allt er búið. Öllu er lokið. Draum okkar Sverris til eins árs sem virtist við það að rætast var rykkt úr sambandi. Nú eigum við aldrei eftir að geta keypt hana. Hvenær á heimurinn eftir að skilja sorg okkar, sitjandi hér úlpulaus, alslaus, uppi á heiði í skafrenningi og vindi? Hvenær á heimurinn eftir að skilja að það eina sem vannært unglingshjartað þráir er tveggja metra há gúmmípottaplanta frá Búrma með löngum nálum og mjúkum berki!?

Og þetta byrjaði allt eins og ósköp venjulegur þriðjudagur…


Arasaka
"