Geðshræringar

„Náðu í kústinn og sópaðu þetta upp,“ heyrði ég frá stofunni. Ég sat inni í eldhúsi á náttfötunum. Leið enn verr enn í gær. Gat ekki hugsað fyrir höfuðverknum og gat ekki borðað vegna verksins sem var í hálsinum.

„Hvar er kústurinn? Ég finn hann ekki,“ sagði ég hásri röddu. Ég gat varla talað. Fann einhvern lítinn sóp inni í skáp og settist á gólfið. Drullan eftir mömmu var á gólfinu. Mér leið eins og Öskubusku, þrífandi skítinn eftir aðra. Öllum var sama. Enginn tók eftir mér því ég var alltaf á gólfinu. Þrífandi á meðan aðrir voru að hafa það gott. Horfandi á sjónvarpið inni í herbergi. Það gerðu bræður mínir þrír allan daginn. Ekki fengu þeir skammir.

Tárin streymdu niður kinnarnar. Enginn tók eftir því, hárið var svo sítt og huldi fyrir andlitið. Ég hljóp inni í herbergið mitt og undir sæng. Grét og hélt um hausinn, höfuðverkurinn var svo mikill. Var svo sterkur. Tók yfirhöndina. Ég réð ekki við neitt. Gat ekki haldið honum í skefjum.

Ég vaknaði við hróp. Það var mamma. Hún var að kalla á mig. „Pantaðu franskar,“ kallaði hún. Ég sat í myrkrinu. Pabbi kom og kveikti ljósið. Dró fyrir gardínurnar og horfði vinalegum augum á mig. Ég heyrði einn bræðra minna panta franskar. Sjónvarpsfréttirnar voru byrjaðar og voru stillar hátt. Svo hátt að allir gætu heyrt vandamál heimsins. Hvar sem maður var í húsinu. „Hver ætlar að sækja franskarnar?“ kallaði mamma í bræði. Hún var á fullu að elda fiskborgara. Einn bróðir minn bauðst til þess að sækja þær.

Var þetta allt misskilningur? Voru kannski allir mjög vingjarnlegir við mig, ég bara tók ekki eftir því? Var ég bara svona brjáluð að ég hugsaði bara um sjálfan mig? Vorkenndi sjálfum mér?

Röddin í hausnum fór aldrei. Hún þagði aldrei. En stundum náði ég að halda henni í skefjum. Ég var ekki alltaf svona geðbiluð. Stundum var ég venjuleg. Enn innst inni, var ég sú eina sem vissi um geðbilunina inní mér.