Hún systir mín, Árelía, var þremur árum eldri en ég. Samt var eins og ég lenti alltaf í hlutverki verndarans. Ég var bara 10 ára þegar hún fékk hvítblæði fyrst. Endalausar spítalaferðir í tvö ár fóru að vissu leyti verr með mig en hana. Engum datt í hug að ég þyrfti að fá gott knús af og til. Sú eina sem mundi eftir mér mitt í öllum látunum var Árelía sjálf og saman unnum við ötulum höndum að því að koma henni til heilsu.
Það hafði verið ég sem hafði faðmað hana að mér allar þesssu löngu nætur, þessar endalausu nætur, þegar henni hafði liðið svo illa eftir erfiða meðferð. Það var ég sem hafði vakað með henni og sagt henni sögur. Og aldrei nokkurn tíma hafði ég sofnað fyrr en ég heyrði taktfastan andardrátt hennar við brjóst mitt.
Það var ég sem hafði huggað hana allar þessar nætur tveimur árum seinna eftir að Grímur, kærasti hennar dó í bílslysi. Og það var ég sem sat nú hjá henni á spítalanum bæði daga og nætur eftir að hvítblæðið tók sig aftur upp.
Ég sat við hliðina á rúminu hennar, eða stóð við gluggann og lýsti fyrir henni öllu sem gerðist fyrir utan í sumarsólinni. Og þegar ég þreyttist á því settist ég aftur niður við hlið hennar og hún leit á mig: “Segðu mér frá lífinu, Sara.” Ég hóf að segja söguna sem ég hafði fyrst sagt henni fyrir 7 árum síðan og endurbætt eftir því sem árin liðu.
“Lífið er allt það góða í fólki. Allt sem fallegt er og allt sem gerir okkur hamingjusöm. En lífið er líka prófraun. Lífið er til að prófa okkur. Styrk okkar, þol og þor. En lífið leggur aldrei á okkur of þungar byrðar. Lífið elur ekki af sér of þungar byrðir, aðeins of veikar sálir. Lífinu er ætlað að veita okkur aðhald og aðhlynningu. Lífið er vegur og fyrir hverja okkar gjörð leggjum við einn stein í lífsvegi okkar. Sumir þurfa að leggja þunga steina, aðrir létta en aldrei verður vegagerðin okkur um of. Því þungu steinarnir leggja breiðari braut sem auðveldar okkur að halda áfram þó erfitt sé að bera þá. Sú er saga lífsins að þeir sem leggja stærstu steinana fá mesta umbunina.”
Við sátum þöglar um stund. “Segðu mér frá ástinni, Sara.” sagði hún. Og ég sagði henni söguna sem ég samdi fyrir hana þegar Grímur dó.
“Ástin var okkur gefin til að létta okkur lífið. Ástin er umbun okkar fyrir erfiði okkar. Ljós sem lýsir í gegnum svartnættið. Ástin veitir okkur skjól fyrir grimmd lífsins og hjálpar okkar að finna ró.”
Ég leit á hana og hlustaði á jafnan andardrátt hennar. Ég gekk fram á gang og að matarsjálfsalanum. Ég keypti mér eina samloku og kók. Borðaði hálfa samlokuna og drakk smá af kókinu og henti síðan leifunum. Þegar ég kom aftur inn til hennar lá hún með opin augun og horfði í átt að glugganum. Og án þess að líta á mig sagði hún lágt: “Segðu mér frá dauðanum, Sara.”
Þetta var saga sem ekki hafði verið sögð áður. En af því að ég hafði aldrei getað neitað Árelíu um neitt, setttist ég niður og hóf að segja söguna: “Dauðinn er frelsun okkar. Hann veitir okkur lausn. Hann er umbun okkar fyrir öll þau þungu verk sem lífið lætur okkur í té. Dauðinn veitir okkur endanalegan frið undan striti heimsins og hann markar endalok lífsvegs okkar. Með dauðanum… er lagður síðasti steininn.”
Hún rétti út hendina í áttina að mér og ég kom. Ég lagðist hjá henni og tók utan um hana. Eftir smástund leit hún beint í augun á mér og sagði: “Má ég fara núna, Sara?”
“Má ég fara?”
Ég kinkaði kolli og þrýsti henni að mér í síðasta sinn.