Magnús er húsvörður Þjóðarbókhlöðunnar. Hann fer í vinnuna klukkan hálfátta og er fyrsti maðurinn sem mætir í Þjóðarbókhlöðuna hvern dag, en hún opnar klukkan níu. Það sem hann þarf að gera áður en fróðleiksfús ungmenni mega ganga þar um, er m.a. að hleypa vatni á litlu tjörnina sem umlykur húsið, kveikja ljósin sem lýsa það upp, hita kaffi o.s.frv. Yfirleitt er vel gengið um húsið og allt hreint og snyrtilegt, en núna hefur einhver tætt upp agnarsmáa bita úr gólfteppinu einmitt á innganginum þar sem hvað mestur umgangur er. Þórður lýtur niður til að skoða verksummerkin betur. Það er rétt eins og einhver skemmdarvargur hafi komið með hníf og skafið duglega af teppinu. ,,Þetta þarf að laga eins og skot,” hugsar hann.
Þegar hann kemur inn í fornbókadeildina bregður honum við. Þarna er u.þ.b. fjórum sinnum stærra svæði sem hefur flagnað af á teppinu! En, þótt undarlegt megi virðast, er steypan sem var undir því fullkomlega óskemmd, sem þýðir það að skemmdarvargurinn hefur vandað sig við verkið, sama hver tilgangurinn með því er. ,,Æ, þessi bölvuðu ungmenni sem geta ekki látið neitt í friði. Hvar endar þetta?” dæsir Magnús við. Hann sér annan bút úr teppinu sem búið er að skafa af. Nákvæmlega eins og gert var á hinum stöðunum.
Hann drattast inn á kaffistofu til að vakna betur með hjálp kaffibolla og rannsaka þetta mál nánar. Á leið sinni um húsið sér hann æ fleiri steypubletti, og er hætt að lítast á blikuna þegar hann sér hvað búið er að skafa langa rönd meðfram veggnum. ,,Þetta þarf nákvæmni til að gera,” hugsar Magnús um leið og hann hlammar sér niður á litla stólinn í kaffistofunni. Hann sér nokkra bletti hér og þar í kaffistofunni og þegar hann stendur upp og opnar skápinn til að fá sér sykur út í kaffið sér hann að það er búið að naga gat á sykurpokann og… litlir svartir kögglar út um allt!
Magnús hrekkur frá skápnum. Hann hefur aldrei verið hræddur við mýs, en í þessu tilfelli er eins og þær sitji um fyrir honum, liggi í leyni við hvert fótmál til þess eins að hrekkja hann. Veiðieðlið kemur upp í honum og hann ákveður strax að hann skal útrýma þessum músum sama hvað tautar og raular. En, hvað á hann að gera fyrst?
Í óðagoti sínu hringir hann í yfirmenn sína og tjáir þeim vandamálið. Að því loknu þrammar hann þungbúinn á svip að dyrunum og læsir þeim aftur. ,,Þjóðarbókhlaðan verður lokuð í dag vegna óviðráðanlegra aðstæðna,” má lesa á stórum miða við innganginn.
Magnús veit þrátt fyrir að hafa horft á margar teiknimyndir að mýs eru eftir allt saman ekki svo sólgnar í ost, þær halda sig heldur ekki í holum þar sem opið liggur í fullkomnum egglaga hálfhring svo músin eigi greiða leið inn. Veggirnir í Þjóðarbókhlöðunni eru úr steypu svo teiknimyndakenningin kemur ekki til greina, en bókaskáparnir eru aftur á móti úr viði. Eftir því sem Magnús man best er stallurinn sem þeir standa á með holrými. Hann fer strax að leita. Í kring um hvern einasta bókaskáp í öllu húsinu tiplar hann á tánum, tilbúinn til að stökkva á holuna þegar hann sér hana með Tarsan-öskri og þurrka þessar viðbjóðslegu mýs út af yfirborði jarðar áður en þær vita af. Leitin ber engan árangur. Magnús gerir eins og sannur veiðiköttur myndi gera, fer aftur inn á kaffistofuna og hugsar sig um. Hugsar um alla þá staði sem þessar litlu lífverur gætu haldið sig á. Efsta hæðin? Nei, það passar einhvern veginn ekki. Miðhæðin(sem kaffistofan liggur á)? Alls ekki, búinn að leita og það er enginn staður þar sem mýs gætu haldið sig. En, kjallarinn? Já, það hlýtur að vera kjallarinn!
Þórður grípur vasaljós sem hangir á ryðguðum nagla inni í kompu og rýkur niður í kjallarann. Hann er minni en hinar hæðirnar, og er notaður fyrir alls konar dót sem enginn veit hvað á að gera við. Allt er á rúi og stúi en innan um draslið kemur Magnús auga á músaskítinn aftur. Hann rennur á lyktina og loks finnur hann sérstaklega mikið af músaskít fyrir framan gamla harmoniku(sem inniheldur litla holu) sem einhver hefur skilið eftir og vonast til að einhver fengi not fyrir hana í framtíðinni. Ef hann vissi hverjir fundu tilgang fyrir hana!
Magnús er efins. Ætti hann að taka harmonikuna í burtu eða láta hana vera og finna önnur ráð til að útrýma músunum? Enginn meindýraeyðir skyldi koma nálægt þessu, hann ætlar sko að sjá um þetta sjálfur!
Magnús stekkur út í næstu búð og kaupir músaeitur. Hann stráir duglegum skammti fyrir framan harmonikuna, hleypur síðan aftur upp í kaffistofu og nær í matskeið. Með henni matar hann litlu holuna á harmonikunni. ,,Þær skulu sko fá fyrir ferðina!” flýgur í gegnum hausinn á Magnúsi um leið og hann mokar duglegum skammti inn. Á pakkanum stendur að eftir að músaeitri hefur verið notað skuli staðurinn láta óhreyfur í u.þ.b. viku svo að eitrið geti haft sín áhrif.

Magnús stekkur aftur út í Byko til að kaupa nýtt teppi. Það var hvort eð er orðið gamalt og slitið og notar vikuna sem eitrið á að virka til þess að skipta um teppi. Brátt skartar gólfið bláu glæsilegu teppi, og Magnús liggur ekki í vafa um að þetta eigi eftir að gera staðinn heimilislegri. Reyndar er nokkur fýla í húsinu þessa viku sem teppalagningin fór fram, en Magnús hefur ekki áhyggjur. ,,Þetta er ábyggilega bara límið undir teppinu, lyktin fer um leið og það nær að þorna til fulls” hugsar hann er hann situr á litla stólnum inni í kaffistofunni og flettir dagblaði.
Lyktin magnast eftir að safnið var opnað aftur. Fólk virðist vera almennt ánægt með breytinguna, en þó hafa sumir á orði hvað það sé hálfgerð ólykt í húsinu. Magnús lætur það sem vind um eyru þjóta og hugsar helst um hvenær hann getur farið að skoða harmonikuna og mýsnar sem ættu að vera dauðar næsta dag.
Næsta morgun mætir Magnús klukkan kortér yfir sjö. Hann rétt gefur sér tíma til þess að kveikja á rofunum sem hleypa vatni í tjörnina, og fer svo í austurálmuna þar sem stiginn liggur niður í kjallarann. Fýlan hefur stigmagnast síðan í gær, og er sérstaklega sterk því neðar sem dregur í stiganum. Þegar hann stígur í neðsta þrepið, lenda fætur hans ekki á mjúka teppinu heldur á hörðum fleti. Magnúsi bregður við um leið og hann lítur niður fyrir tærnar á sér og sér hvar steypublettirnir eru komnir aftur!
Fýlan er orðin ógeðsleg því innar sem Magnús leitar í kjallarann og hann fer að velta því fyrir sér hvort efnin í lyktinni leiti niður á við. Hann klofar yfir gamla hurð sem liggur í ráðaleysi á gólfinu, tiplar meðfram listaverkum sem guð má vita hver málaði, og að lokum kemst hann að harmonikkunni. Hann heldur fyrir nefið, fýlan er orðin það sterk, og beygir sig niður til að gæta að hvort mýsnar séu þarna enn þá. Ekkert gerist. Hann potar í harmonikuna af einhverri eðlisávísun, og finnur að það er eitthvað inni í belginum. ,,Þetta þýðir ekki, ég þarf að gera eitthvað róttækt við hana,” hugsar Magnús og slengir harmonikunni upp á myglaðan sófa sem liggur á hvolfi.
Um leið sér hann blá-gráleitan vökva sullast út úr harmonikunni, yfir handlegginn á honum, inn á fötin hans og rennbleytir skóna. Hann rennur til á vökvanum og steypist aftur fyrir sig og harmonikan fylgir á eftir. Hann finnur hvernig þessi ógeðslegi vöki rennur niður eftir maganum, ofan í buxurnar og…

,,Það voru engar mýs í harmonikunni. Það hefði hvort eð er ekki verið neitt pláss fyrir þær. Þegar ég setti eitrið inn í harmonikuna hefur það lent í einhverjum ógeðslegum, eldgömlum vökva sem hefur ábyggilega safnast saman í stórrigningum. Ha, hef ég ekki sagt þér frá því að kjallarinn lekur stundum þegar það gerir úrhelli? Jæja, þú veist það þá núna. En, semsagt, þegar eitrið hefur lent í vatninu þá hefur það bólgnað út og valdið svo miklum þrýstingi á belginn að hann hefur sprungið þegar ég lyfti honum.”
Mýsnar höfðu notað harmonikuna fyrir vatnsból. Auðvitað þurfa þær líka að drekka eins og allar lífverur. Magnús þurfti að setja öll fötin sín í hreinsun, en það náðist ekkert úr þeim. Eitrið síaðist inn í þau og ónýttu hvern einasta þráð.
Magnús tekur um sárabindið á enninu um leið og hann klemmir tólið við öxlina á sér. Ennið var enn þá aumt. Hann situr á litla stólnum í kaffistofunni og horfir á myndirnar á veggnum um leið og hann ræðir við yfirmanninn í símann.
,,En, hvaðan komu mýsnar? Vatnsmýrinni? Já, það getur alveg verið, ég meina, hver veit hvaða ógeð felur sig þarna á þessum skítastað.”
,,Já, er þetta meindýraþjónustan? Ég þarf að fá ykkur hingað. Þjóðarbókhlaðan. Það eru mýs út um allt hjá mér, þær skíta í kjallarann, naga upp teppin, ég er að verða brjálaður á yfirgangseminni í þeim! Komið strax, þetta er alvarlegt tilfelli.”
Mýsnar hverfa með hjálp fagmannanna. Um leið og hann sér meindýraeyðana einnig hverfa út um dyrnar, sér hann peningapokana fljúga sitt oddaflug um leið og dyrnar lokast.
Magnús snýr við, heldur af stað upp á kaffistofuna og sest á stólinn. Úti er sólskin og logn.