IV.
Jara hélt í sér andanum meðan læknirinn færði þeim afa fréttirnar. ,,Við gerðum það sem við gátum,” byrjaði hann. ,,En þau voru ekki í belti og rifbein brotnuðu og stungust inn í lungun. Hjarta föður þíns hætti að slá rétt í þessu og móður þinnar stuttu áður.” Jara lokaði augunum. Þetta var farið að hljóma ískyggilega líkt atriði úr einhverri sápuóperu. Og hún hafði aldrei verið hrifin af sápuóperum. Hún beið eftir að læknirinn héldi áfram; segði kannski: ,,En það gerði ekkert til, við fengum hjörtu beggja til að slá aftur, og nú slá þau í takt við hvort annað. Foreldrar þínir verða búnir að ná sér fyrir jólin.” En hann sagði ekkert slíkt. Hann horfði bara bláum augum á hana og sagði: ,,Mér þykir það leitt.” Jara opnaði augun aftur. Hún brosti kalt framan í lækninn og hrækti síðan á skjannahvítan sloppinn hans. Í mestu rólegheitum lak hrákinn niður tandurhreint og að því er virtist nýstraujað efnið, endaði svo á gólfinu í litlum polli. Reið útí heiminn hljóp hún út, niður Miklurbautina og niður í Kringlu. Það var búið að loka, en jólaskreytingarnar lýstu í myrkrinu. Hún lagðist lafmóð niður á bílastæðinu og sofnaði. Innan við fimmtán mínútum síðar vaknaði hún við að horaður strákur á aldur við hana hristi hana til. ,,Ekki sofa á svona áberandi stað, það koma stundum verðir á nóttunni,” sagði hann. Hún leit á hann, skildi ekki alveg hversvegna hann var að skipta sér af (að?), og skoðaði hann eins og bíl á bílasölu. Lélegan bíl. Ljóst hárið var ógreitt og hafði ekki verið klippt mjög lengi og óhreinindin á honum hefðu nægt handa heilli svínahjörð. Hann var svo horaður að hann leit út fyrir að geta dottið sundur þá og þegar og ryðbrúnn vísir að skeggbroddum gerði hann líkan afturgöngu. Hún velti því fyrir sér hver hann væri, og eins og hugsanir hennar væru læsilegar, sagðist hann heita Jóakim og búa þar sem honum sýndist. Jara var snögg að ákveða að hún byggji heldur ekki neinsstaðar, og ætti engan að. ,,Nú gleymi ég afa og gulmálaða herberginu mínu. Nú er ég ekki lengur Jarþrúður Jórunn Jarlsdóttir, ég er Jara og ég ræð mér sjálf,” sagði hún í huganum við sjálfa sig. Upphátt sagði hún: ,,Ég heiti Jara og ég bý líka þar sem mér sýnist.” ,,Varstu að gráta? Þú ert rauðeygð,” sagði Jóakim eftir smá þögn. Jara leit í augu hans. Þau voru brún. ,,Ég græt ekki. Ég er orðin fimmtán ára.” Hann brosti til hennar og fylgdi henni bak við þykka súlu þar sem þau voru í hvarfi. ,,Þetta er flott,” sagði Jara. ,,Hérna sér enginn okkur, og eiginlega erum við í eigin heimi og ráðum okkur sjálf.” ,,Ég ræð mér sjálfur hvort eð er,” tilkynnti Jóakim ákveðinn og það örlaði á einhverskonar minnimáttarkennd í röddinni. ,,Nú er ég drottning yfir eigin heimi, og ég sem lögin og reglurnar,” sagði Jara eins og við sjálfa sig. ,,Og þú ert kóngur yfir þínum,” bætti hún svo við, því hún sá í brúnu augunum hans Jóakims að hann var afskaplega lítill inni í sér. Síðan sofnuðu þau hlið við hlið, hún vel vafin inn í hlýja kápuna, hann skjálfandi af kulda í gegnblautri hettupeysunni og rifnum gallabuxunum.

V.
Jara vaknaði við skerandi háan söng rykugrar stúlku á leikskólaaldri með bláa og illa prjónaða húfu. Hún leit í kring um sig. Enginn Jóakim sjáanlegur. Hún stóð upp og fór inn í Upplýsta og yfirfulla Kringluna. Jólaskreytingarnar sem héngu niður úr loftinu minntu hana á jólafötin sem aldrei höfðu verið keypt, og hún fór inn í Hagkaup á efri hæðinni. Það var auðveldara að stela úr stórum búðum. Hún ráfaði um þar til hún var búin að finna flöskugrænan kjól úr velúrefni með gagnsæjum ermum sem hún sætti sig við. Hún tók líka ljósbláa skyrtu og grænröndótt bindi ef hún skildi sjá Jóakim aftur. Síðan fór hún eins að með kjólinn og pilsið, nældi hann upp undir kápuna, klæddi sig í skyrtuna og vöðlaði bindið saman í vasann. Þegar hún tróð bindisvöðlinum ofan í kápuvasann fann hún fyrir einhverju pappírssnifsi og tók það upp. Tvöþúsundkrónaseðill. Hún setti hann aftur í vasann. Þar næst gekk hún frá peysunni, gallabuxunum, úlpunni, kápunni og bolnum sem hún hafði líka tekið með sér inn í mátunarklefann. Þegar hún var á leiðinni út sá hún aftur litlu stelpuna með bláu dúskprjónahúfuna. Hún stóð alein við hillu með uppskriftabókum og hágrét. Jara gat ekki fengið sig til að koma sér sem fyrst undan með fötin, hún einfaldlega gat ekki skilið stúlkuna eftir. Jara gekk að henni og kraup niður fyrir framan hana. ,,Hvað er að? Af hverju ertu að gráta?” spurði hún. Stelpan horfði hissa á hana, furðulostin yfir að einhver svona stór manneskja úrhinum harða heimi skyldi láta sig örlög hennar og ástæður gráts varða. Hún gleymdi alveg að gráta, og fræddi Jöru um að hún hefði týnt pabba sínum. ,,Hann ætlaði að passa mig í allan dag og ekki fara neitt í burtu. Hann lofaði líka að gefa mér ís, ha. Og með dæmkúlum.” Litla manneskjan var orðin áköf, og Jara ákvað að hjálpa henni að finna pabba sinn. ,,Hvað heitirðu?” ,,Jenna, alveg einsog mamma.” ,,Og hvernig lítur pabbi þinn út?” Jenna virtist ekki vita almennilega hvað hún átti að segja. ,,Bara, hann er svona með hár einsog ég.” Það var ljóst og liðað. ,,Og hann er rosa stór og líka sterkur, hann getur lyft mér alveg upp í himininn.” Jara brosti. Jenna litla var greinilega mjög stolt af pabba sínum. ,,Og hann er með svona eyru sem er hægt að toga langt, langt út!” Jara tók í hönd Jennu og leiddi hana af stað. ,,Láttu mig vita ef þú sérð pabba þinn einhversstaðar,” sagði hún. Hún var alveg búin að gleyma pilsi, skyrtu og samanvöðluðu bindi. Stuttu seinna kreisti sú litla hönd hennar og sagði glöð: ,,Þarna er hann! Þarna er pabbi minn!” og hljóp svo frá henni. Hlæjandi stökk hún í fang Jóakims. Jara vissi ekki hvað hún átti að halda.

VI.
Þau sátu öll þrjú við borð á Stjörnutorgnu. Jenna var upptekin af plöntu sem óx uppúr stórum potti (með mold í) við hliðiná þeim, svo Jara gat yfirheyrt Jóakim í friði. ,,Er eitthvað til í því að þú, drulluskítugur og heimilislaus krakkahálfviti, eigir þetta barn? Hvað ertu eiginlega gamall?” ,,Sextán. Og já, ég á hana. Hverja frumu. Og hún á mig.” ,,Og hvað vrstu gamall þegar hún fæddist? Þrettán?” Jara var hneyksluð, stórlega hneyksluð. ,,Tólf,” tautaði Jóakim og horfði fast á flísarnar í gólfinu. ,,Tólf og hálfs.” Jara andvarpaði bara, gat ekki sagt neitt. ,,Pabbi, ísinn minn!” galaði Jenna skyndilega. ,,Ég er svöng í ís!” Og Jóakim stóð á fætur, gekk að ísbúðinni og keypti ís með lakkrísdýfu og dæmkúlum. Jara horfði rannsakandi á hann þegra hann kom til baka og settist aftur. ,,Hvar fékkstu pening?” Jóakim fullvissaði sig um að Jenna væri með allan hugann við ísinn sinn og nikkaði síðan í átt að feitum náunga í brúnni leðurkápu. ,,Sérðu fitubolluna í hrosshúðinni sem var á undan mér í röðinni?” Jara kinkaði kolli. ,,Ég fékk pening hjá honum.” ,,Ekki gaf hann þér pening, bara sí sona?” Jóakim svaraði ekki. ,,Ojæja,” dæsti Jara. Hún vissi vel að hún var ekki besta manneskjan sem talsmaður siðferðisins. Skyndilega mundi hún eftir skyrtunni og bindinu. Hún tók það upp úr vasanum, og himinlifandi batt Jóakim það um hálsinn á sér. Hnúturinn var dálítið líkari rembihnút en bindishnút, og Jara lagaði það. Jóakim var orðinn eins og sannur herramaður, í dökkblárri hettupeysunni með grænröndótt bindið. Jenna var allavega á þeirri skoðun, og montnari en nýbakað foreldri togaði hún eyrað á pabba sínum langt, langt út. Jóakim kleip vinalega í nefið á henni, og Jöru leið einsog einhverju óþörfu. Eins og til dæmis kjöti. En svo litu þessi óvenjulegu feðgin samtímis á hana og Jóakim bauð henni að koma með þeim á hlýjasta og öruggasta stað í borginni. Jöru fannst tilboðið hljóma vel og elti þau niður í bæ. Jóakim bar Jennu litlu á háhesti, og Jöru fannst hálfótrúlegt hvernig þessir örmjóu fætur gátu borið tvær manneskjur svona langa vegalengd. Þau gengu niður Laugaveginn, yfirfullan af fólki í jólagjafainnkaupum á seinasta snúningi. Stressið lá í loftinu. Í öðrum hverjum búðarglugga sá Jenna eitthvað sem hún vildi skoða betur, svo ferðin tók langan tíma. Veðrið var gott, logn og ekkert of kalt, snjókoman stútfull af jólaspenningi. Jara gat ekki stillt sig um að skjótast inní barnafataverslun og stinga pari af fjólubláum ullarsokkum í vasann. ,,Bara að skoða,” sagði hún þegar afgreiðslumaðurinn spurði hana hvort hana vantaði eitthvað, og skaust út aftur. Jóakim fór til vinstri þegar þau komu að Lækjargötunni, beygði inn Vonarstræti og upp Suðurgötu. Eftir nokkra snúninga í viðbót komu þau að húsi. Það kom svosem ekkert á óvart að um hús var að ræða, en þessi “hlýji” og “öruggi” staður sem Jókaim hafði talað um var ekki það fyrsta sem Jöru kom í hug þar sem hún stóð og starði á hrörlegt og yfirgefið hús með brotnum rúðum. Hurðin var eitthvað laus á hjörunum, og þegar Jóakim opnaði datt hún af. Þegjandi stillti hann henni aftur á sama stað og hvarf inn í bygginguna. Jara stóð smá stund fyrir utan og hugsaði. Myndi það hrynja þegar hún færi inn? Var þorandi að anda? Það virtist vera það, því Jenna hljóp upp stigann á þungum gúmmístígvélunum, með þvílíku trampi að hefði rústað venjulegum stigum. En þetta var augljóslega enginn venjulegur stigi. Og húsið hrundi ekki. Jara gekk varlega innfyrir og lokaði ennþá varlegar á eftir sér. Inni var allt dimmt og vindurinn hreyfði við brotum úr hinum fyrrverandi gluggarúðum svo skrölti í. Barnshlátur barst ofanaf efri hæðinni. ,,Komdu upp!” var hrópað lítilli, skærri röddu. Og hikandi læddist Jara upp.