Hár

Og ég velti því fyrir mér hvort konan lesi hugsanir.
Hún er með dökkt hár niður að öxlum með rauðum og hvítum strípum, of mikinn augnskugga en ljósbleikar varir sem virðast í öðrum hlutföllum en aðrir hlutar andlits hennar. Hún er mjög sólbrún, eyðir líklega stórum hluta af þeim tíma sem hún er ekki á hárgreiðslustofunni í ljósabekkjum. Fötin hennar eru dökk, svört svunta sem er úr leðri, ekki raunverulegu leðri heldur gervileðri, svona plastblanda með dökkum litarefnum og leður áferð, dökkrauður bolur og svartar buxur. Hún er í inniskóm, hvítum eins og fólkið sem vinnur á heilbrigðisstofnunum. Græn augun horfa á mig í gegn um spegilinn eins og þau viti allt sem ég hugsa, eins og hún viti að ég er að hugsa um að hún sé að lesa hugsanirnar mínar. Hún segir auðvitað ekki neitt, hún passar að sýna engin viðbrögð við ljótum hugsunum svo að ég komist ekki að því fyrir víst að hún les hugsanir. Það er eins og hún viti allt sem ég segi henni um skólann minn og vinnuna áður en ég segi það. Augun eru áhugalaus göt á andlitinu sem stara á hársvörðinn minn með örlítilli fyrirlitningu.
Hún fyrirlítur mig auðvitað. Allar konur fyrirlíta karla.
Það er undarlegt að sitja í stólnum fyrir framan spegilinn og sjá sig breytast. Hægt. Hægt en stöðugt, eins og ganga sólarinnar yfir himininn, hæg en stöðug, maður sér hana ekki hreyfast en ef maður lítur á hana að liðnum klukkutíma þá sér maður að hún hefur færst. Maður er eins og tímaglas með örlitlu gati. Það lekur hægt, hægt en stöðugt.
Hún veit hvað ég er að hugsa.
Hún veit allt um mig en samt er henni alveg sama.
Hún veit ekkert sem skiptir máli.
Hún dustar af hálsinum á mér með stórum bursta og ég ranka við mér. Hún spyr hvort ég sé ánægður og ég svara sjálfkrafa:
“ Já, þetta er fínt”
Ég er með asnalegt hár, hún klippti mig of stutt.
“Viltu að ég setji vax í það.”
“Já, jájá” svara ég.
Konan makar vaxi í hárið á mér. Þetta er samt ekki vax. Það er vax í kertum og þetta er ekki úr neinu kerti. Þetta er lint ógeð. Ég ætla strax í sturtu þegar ég kem heim.
Hún bendir mér á að horfa í spegilinn og spyr aftur “Er þetta ekki bara fínt.”
“Jú, þetta er fínt” svara ég.
Hvers vegna fór ég í klippingu? Vegna þess að karlar með sítt hár eru álitnir skrítnir þó að í raun ætti langt hár að tákna visku.
Það finnst mér.
Ég borga og fer út.
Geng heim og fer inn.
Ég fer í sturtu og þurrka mér.
Fer út og niður í bæ.
Það er margt fólk á gangi á Laugaveginum. Það er í tímaþröng, það er þreytt og það er pirrað. Sumir reykja. Sumir eru með lungnakrabbamein, sumir með heilaæxli. Sumir með Lungnaþembu. Fólkið veit það samt ekki því það er svo upptekið að kaupa og borga. Borga svo það geti keypt meira í fleiri búðum. Það kaupir föt, sjónvörp, tölvur, geisladiska, víbradora, vín, hass, epli og stóla.
Allt þetta fólk á sér nafn, sumir miðnafn. Það á fjölskyldu og vini sem eiga nöfn, erfðaefni og minningar. Allir ættingjarnir eiga sjónvörp, tölvur, útvörp. Þeir eiga ótal hluti með vörumerkjum. Allar þessar upplýsingar er ómögulegt að muna, svo ómögulegt að stærsta tölva í heimi gæti ekki geymt allar þessar upplýsingar.
Ég rekst á mann, ég þekki hann. Hann er í appelsínugulum borgarstarfsmanna vinnugalla. Hann man ekki eftir mér, hann tók ekki einu sinni eftir mér. Hann segir ekkert og gengur áfram niður gangstéttina, hann er að flýta sér. Það er öllum sama en ég finn nettan fiðring í höfðinu.
Ég geng niður laugaveginn sem virðist lengjast um tvö skref fyrir hvert skref sem ég stíg. Ég tel skrefin fram hjá sautján, þau eru ekki sautján. Mér finnst skrefin að Landsbankanum vera óteljandi, eins og upplýsingarnar um fólkið og vörurnar. Gömul kona gengur framhjá mér, hún er svona týpa með prentaðan fýlusvip framan á sig, með gleraugu og í gráum frakka, henni liggur á en samt virðist hún rétt lötrast áfram, allt lötrar áfram. Hún strunsar fyrir hornið og heldur áfram niður í átt að Hverfisgötunni. Ég sest niður í skugganum undir Landsbankanum og loka augunum. Mig klæjar inni í hausnum, birtan er næstum óbærileg.
Það sem gerist næst verður ekki fallegt.

Þegar stór hlutur á miklum hraða og með mikinn massa rekst á lítinn hlut með lítinn hlut með lítinn massa og á litlum hraða tapar stóri hluturinn aðeins litlum hluta hreyfiorku sinnar. Litli hluturinn hlýtur hinsvegar gífurlega mikla hröðun á örskömmum tíma. Ef við tökum til dæmis A: lítinn hlut sem hefur massa ca. 70 kg og B: annan mjög stóran og þéttan hlut með massa 150 faldan massa litla hlutsins eða um 10.500 kg.
A er kyrr á braut í átt að B.
B hefur hraða 16,7 m/s eða 60 km/klst og er á braut sinni í átt að A.
Árekstur A og B verður
A heldur áfram á nær sama hraða og áður en B hefur fengið sama hraða og A
B stöðvast.
A stöðvast.
Fólk hleypur að B
Enginn veltir fyrir sér varðveislu skriðþungans.

Það er líklega best að orða ástand gömlu konunnar þannig að hún “er” ekki lengur. Hún er dáin, er í klessu, orðin að mauki, úrgangur, rusl, minningin ein. Bílstjóri öskubílsins situr við hlið hennar með andlitið í lúkunum. Hann er allur í rusli. Hvernig sem á það er litið.
Þetta er maðurinn sem rakst á mig áðan en þekkti mig ekki. Fólk er byrjað að hópast saman í kring um slysstaðinn í fjarska heyrast sírenuhljóð. Hópar lögreglumanna koma hlaupandi niður Hverfisgötuna úr Lögreglustöðinni sem er aðeins spölkorn í burtu.
Mér líður illa því að ég vissi að slysið myndi gerast, ég gat samt ekkert sagt við neinn, ég gat engan varað við því að það trúir mér enginn. Það hefði ekkert slys orðið ef ég hefði stoppað hann og spurt hann hvort hann myndi ekki eftir mér. Við unnum saman í Kassagerðinni en hann var rekinn fyrir að eyðileggja nokkrar kassastæður með vatni.
Bara að ég hefði stoppað gömlu konuna, ég hefði getað logið að hún hefði misst eitthvað eða að ég væri vottur Jehóva sem vildi vekja athygli hennar á landsfundi sem yrði haldinn næstu helgi í Laugardalshöllinni.
Ég er líka rusl, ég er í rugli.
Ég reyni að réttlæta þetta. Ef litið er á málið frá öðru sjónarhorni, eins og til dæmis því að konan var eldgömul og gerði ekkert annað en að lifa á skattpeningum ríkisins og var í þokkabót ljót þá var svo sem ekki mikill missir af þessarri gömlu konu.
Ég geng heim.
Klukkan er 21:01
Ég á heima í Breiðholtinu.
Maturinn er kaldur.
Rúmið er kalt.
Mig dreymir að ég sé Guð.