Vetrarnótt Á köldum vetrarnóttum fer hann á stjá. Lítur út um gluggann, sér myrkrið. Bros færist yfir andlitið. Hann veit að hann er hataður. Hataður af öllum sem hafa lent í honum. Þau vita bara ekki hver hann er - það er bónusinn.
Fram í eldhúsi bíður hans heitt kaffi á könnunni. Hann tekur fram tekex og mylur það með höndunum. Situr rólegur og nýtur andartaksins. Augu hans eru vot. Hann er hverfull á svip. Hann heldur áfram að drekka kaffið. Horfir á bollann. Grænn með rósarmynstri. Hann áttar sig skyndilega á hvað hann er ljótur og grýtir honum í vegginn. Stynur. Tekur restina af kexpakkanum og kremur hann með höndunum. Hann stendur upp og gengur fram.
Gengur fram langan gang. Því næst inn um herbergisdyr og niður stiga. Niður í kjallara. Þar er dimmt og rakt. Mýsnar forða sér. Inn í dimmu herbergi undir stiganum eru fötin hans. Hann gengur inn. Hann sér ekki handa sinna skil – eða það höldum við. Hann var ekki vanur að kveikja ljós. Tekur svartan frakka og hanska. Fer í upphá stígvél. Í boxi undir gólfinu er hnífur. Nær í hann. Dregur svo djúpt að sér andann.
Hann gengur lengra inn í kjallarann og inn í annað herbergi. Kveikir á kerti. Á veggjunum hanga myndir. Myndir af fólki. Alls konar fólki. Þar er líka spegill. Hann er blóðugur. Á gólfinu er motta. Hann tekur 51 kerti og setur hringinn í kringum mottuna. Kveikir á þeima. Stendur í miðjunni og horfir upp í loftið. Raular á latínu; Ellos nar í deno, maggas larító na kvas. Hann hækkar róminn. Brátt er hann farinn að öskra. Ellos nar í deno, maggas larító na kvas!!!
Skyndilega stoppar hann. Horfir með stingandi augnaráði á allar myndirnar á veggjunum. Svitinn lekur af honum. Hann setur hettu yfir sig. Úr nösunum lekur blóð… Kertin slokkna.
Hann gengur út og skellir hurðinni á eftir sér. Glugginn fýkur upp. Hvítar gardínurnar eru við það að rifna. Inn í herberginu er vindgustur sem feykir öllum myndunum af veggnum.
Hann þrammar upp stigann. Stynur og raular á latínu. Hann gengur þar til hann er kominn að útidyrahurðinni. Stansar. Horfir á hana. Leggst á kné og spennir greipar. Grætur lágt. Brátt breytist gráturinn í latínu og hækkar stöðugt. Hann stendur upp, öskrandi sömu setningu. Rífur upp hurðina og hverfur út í náttmyrkrið.
Í kuldanum bíður enn eitt fórnalambið.