Ég sit hérna niðri. Einsamall.
Skuggarnir strjúka mér með nærveru sinni. Ég sit á stól og horfi upp á við. Ég reyni að sjá í gegnum glerið sem þetta skot er úr en móðan er svo þykk að ég sé aðeins útlínurnar. Fólkið lítur út eins og ómálaðar brúður héðan frá. Innileg bros eru ekki greinanleg frekar en sturlaðar hugsanirnar bak við þau, eða óttinn, blíðan. Ég horfi á grandalaus börnin hlaupa í fang foreldra sinna þar sem þau eru örugg. Óhult frá sjálfum sér. Þau raula lagstúfa í bílunum á leiðinni heim. Tungumálið sem þau tala er mér glatað.

Ég hvorki veit né skil hvers vegna mér var komið fyrir hérna. Í fjölda ára var ég sem barn, ósnert. Hugmyndir mínar voru allar byggðar á saklausum, guðlegum forsendum Ég var guð.. en bara í nokkur augnablik. Þetta vald sem Honum einum er sett getur verið þrúgandi, dæmandi lifendur og dauða, dáða eða hrjáða. Þetta geta sum börn klakklaust. Og ég var eitt þeirra.

Þar til einn daginn.

Eftir að hafa sungið mínu blíðasta á flugi gegnum endalausan faðm skýjanna hrapaði ég. Jörðin breyttist úr fallegum bláum og kúlulaga bletti, kyrfilega hnýttan í perlufesti heimsins í hart steingólfid sem einkennir þennan stað sem ég dvel á. Egghvassar eitraðar steindindar tóku mig í faðm sinn med nístandi öskri, rýjandi hvert einasta bein inn að mergi. En hvergi sá ég blóð.. ekki dropa. Í staðin sá ég hvernig líkaminn tók á sig form óreiðu. Neglurnar gengu góðfúslega í burtu. Þeim fylgdu sködduð líffærin og mynduðu hrúgu. Afgangarnir gengu til þeirra og eftir augnablik sá ég spegilmynd anda míns í umkringjandi glerjunum. Ég var kominn til að vera.

Fyrir nokkru sat ég líkt og núna á köldum botninum. Allt í einu var mér litið til hliðar. Ein brúðan var komin alveg upp að veggnum. Þrýsti andlitinu að rúðunni. Ég sá að þetta var barn. Í mirkvuðum hugsunum mínum varð örlítil glæta. Óseðjandi hungur mitt öskraði á mig. Ég reis upp og leið í áttina að litlu brúðunni. Enginn hafði verið í svo mikilli nálægð við mig lengur en ég vildi muna og ég lagðist varlega að útlínum andlitsins við vegginn. Í nokkra stund störðum við á útlínur í móðunni. Smátt og smátt urðu línurnar skýrari. Ég fann hvernig allar tilfinningar mínar kipptust við og þróttur minn jókst og jókst. Er ég loksins sá glitta í augun var sem logandi neistar flygju um holið og allt lýstist í sömu andrá. Þegar hámarkinu var náð breyttist svipur barnsins. Forvitni, sakleysi og sætleiki augnanna breyttust í innantóma og þögula skelfingu á nokkrum mínútum. Andlitið varð enn skýrara og barnið byrjaði að emja skerandi hljómi. Í hugsunum sínum féll það óralanga vegalengd. Andlitið fór að umbreytast á leiðinni. Ég þrýsti mér enn nær til að sjá betur. Ég greindi augljóslega að lögun sjálfs míns væri ad koma í ljós í svipbrigðum verunnar hinum megin við vegginn. Mér hafði liðið örlítið betur hérna niðri, lyftist eitt augnablik upp í skýin á ný. Aðeins eitt augnablik var ég máttugur á ný, með ólýsanlegt vald. En það var ekki nóg. Enn er ég einn,

Einn skuggi hefur bæst í hóp fjölmargra.