Hún sá bara tómið. Hún vissi líka að enginn vildi skilja hana. Það sem gaf henni gleði hafði verið tekið frá henni. Hún var ein í þessari þjáningu sinni. Allir sem hún hafði elskað voru frá henni teknir. Hvers vegna hún? Guð, var ekki einu sinni lengur til. Öldurnar brotnuðu í fjöruborðinu við fætur hennar og þegar sjórinn hafði næstum því náð til hennar hörfaði hann frá henni jafnfljótt aftur. Svona var lífið.
Hún horfði upp og sá hvar börn komu hlaupandi í átt til hennar. Stúlkan var klædd í rauða úlpu og drengurinn hélt á bát, sem hann hafði sennilega smíðað sjálfur. Þau brostu til hennar og gleðin skein út úr andliti þeirra. “Megum við biðja þig um að koma bátnum okkar útí sjóinn svo hann geti flotið”, sagði litla stelpan af óþreyju. “Við erum of lítil til að koma honum nógu langt út, hann þarf að komast út fyrir öldurnar, og þá bjargast hann”, sagði drengurinn kokhraustur. Hún óð útí og setti bátinn varlega niður. Hann sigldi til hafs. “Þakka þér fyrir, nú er honum borgið”, sagði litla stelpan þakklát. Þægilegur hrollur fór um konuna þegar hún gekk heim á leið og nú vissi hún að Guð var til.