(Ég var að lesa þetta rugl yfir og fannst það nokkuð langt, spurning hvort einhver nenni að lesa þetta. Sagan er um geðklofa, en þarsem ég er hvorki sálfræðingur né geðklofi sjálf, getur meira en verið að þetta sé fullkomlega óraunhæft og algjört bull. Ég kann ekki einusinni skilgreininguna á geðklofa. Þér er því guðvelkomið að hætta að lesa núna. Annars máttu alveg halda áfram…)

ÉG: Erla hélt því alltaf fram að ég væri með mikilmennskubrjálæði. Það er bara bilun. Ég hugsaði að vísu nokkuð stórt, en er það ekki bara forsenda þess að ná takmörkum sínum? Að vísu átti ég mér engin sérstök takmörk, en ef ég hefði haft þau, þá hefði ég allavega mjög líklega náð þeim. Erla var annars besta vinkona mín. Hún var hávaxin og skolhærð, með stórt arnarnef og þunnar varir. Hún átti pottþétt eftirað verða mjög kennaraleg í útliti. Þegar hún gekk, þá vaggaði hún, alveg einsog Svava dönskukennari. Svava hélt því ekki fram að ég væri með mikilmennskubrjálæði. Hún vildi heldur japla á því að ég væri ofvirk, og hugsaði of lítið og talaði of mikið. Það er líka bara rugl, því ég hugsaði helling. Það sem ég talaði eru bara hugsanir sem komust ekki lengur fyrir í höfðinu.

HIN ÉG: Það var þetta með takmarkið. Þetta sem maður stefnir að alla ævi, þráir ekkert heitar en að draumurinn rætist. Á hverju kvöldi biður maður, óskar maður þess að takmarkinu verði á endanum náð, hótar Honum og sárbænir Hann, grátbiður. Og svo þegar það er loksins komið, draumurinn orðinn að veruleika og manni finnst að nú eigi maður að skilja tilgang lífsins og finna himnaríki. Einmitt þá verður maður ruglaðri en nokkrusinni fyrr, maður veit ekki hvað maður er að gera og hvert maður er að fara. Mann langar nefninlega meira en nokkrusinni fyrr í eitthvað miklu, niklu meira.
Draumarnir eru ekki nóg.

ÉG: Ég fór til Erlu eftir kvöldmat og við gerðum vöfflur. Bara svona að gamni. Okkur langaði ekkert ægilega að borða þær, svo við gáfum litlu systkinum hennar þær. Foreldrar hennar voru í Skotlandi að versla. Pabbi lét sér nú venjulega nægja að skreppa í Hagkaup! Steinar, Agnes og Tommi kunnu ágætlega að meta góðgætið og borðuðu meiraðsegja þessar viðbrenndu. Um ellefuleytið sofnuðu krakkarnir loksins framá eldhúsborðið og við drösluðum þeim í rúmin. Erla poppaði á meðan ég klæddi grislingana úr mestu fötunum. Hún setti síðan spólu í tækið og þegar ég var búin að breiða yfir litlu dýrin hlömmuðum við okkur í þriggjasæta gervileðursófann í sjónvarpsstofunni og byrjuðum að innbyrða popp, kók og lélegt sjónvarpsefni. Aðalsöguhetja myndarinnar á RÚV var hávaxinn og massaður kall um þrítugt sem gekk alltaf í jakkafötum. Hann var ekki góður leikari, og það var vonlaust að lifa sig inní fjölbreyttar uppáferðir hans útum allan bæ. Við gáfumst upp eftir þrjú korter.

HIN ÉG: Og svo þetta með býflugurnar og blómin. Mann langar ekkert alltaf að vera blóm eða býfluga. Stundum langar mann að vera laufblað, vængur, grasstrá. Og stundum er maður grasstrá, sem er þá traðkað niður af kuldaskó. Og venjulega er maður það einmitt þegar mann langar tilað vera býflugan.
Maðurinn fær aldrei nákvæmlega það sem hann vill.

ÉG: Við höfðum pantað pizzu sem kom um miðnættið. Pizzasendillinn var lítill og mjór og svo gjörsamlega skegglaus að ahnn hefði getað verið tólf ára. Rauði stuttermabolurinn var alltof stór á hann og bláu buxurnar drógust á eftir honum. Ég hló óvart að honum og hann horfði reiðilega á mig. ,,Eittþúsundsjöhundruðognítíu, þúertfáviti,” sagði hann í einni biðu við mig og rétti mér pizzuna um leiðog hann tók við tvöþúsundkalli af Erlu. Auðvitað fór ég í fýlu sem lagaðist ekki fyrren löngu eftirað stubbur var farinn, og ég búin að tæta í mig hálfa sextántommu pizzu með tómötum, lauk, ananas og skinku.

HIN ÉG: Og síðan þetta sem maður hugsar. Maður heyrir gott lag í útvarpinu og það syngur í manni, maður hugsar það aftur og aftur og afturábak og áfram. Og síðan segir einhver við mann að maður sé tilfinninglaus og maður verður sár. Hugsar að ef maðurinn verður sár þá er hann ekkert tilfinningalaus, og langar að segja það við manneskjuna sem er bara tilfinningalaus sjálf! en hún er horfinn og maður veit að kannski sér maður hana aftur og kannski ekki. Og kannski á maður eftir að hugsa einhverntímann seinna um hana, og kannski á mann eftir að dreyma hana, sjá hana fyrir sér að segja svona rugl um mann og reiðast útí hana, langa tilað öskra á hana.
Allir hafa tilfinningar, allir finna til.

ÉG: Við duttum útaf í miðju hörkulagi á popptíví, I am mine mep Pearl Jam. Vöknuðum svo við að Steinar kveikti á morgunsjónvarpinu á slaginu níu. Agnes og Tommi ráku okkur í sameiningu úr sófanum og við forðuðum okkur framí stofu nr. 2. Þar lögðumst við í sitthvorn bleikan flauelsklæddan sófann og steinsofnuðum aftur. Ég í öllum fötunum, Erla í náttkjól af Agnesi, báðar þreyttari en eftir maraþonhlaup.

HIN ÉG: Sumir ætlast til of mikils af manni. Líf manns er lagt í rúst og draumarnir dæmdir tilað rætast ekki og mann langar bara að sofna. Og einhver togar í handlegginn á manni og segir að maður læri bara af þessu. En maður hefur lært nóg fyrir löngu, mann langar ekkert tilað læra meira. Sífellt stærri og flóknari hluti sem enginn skilur, sífellt hraðar og meira í einu. Mann langar bara að gefast upp og leggjast oná sjóinn og láta öldurnar bera mann til himnanna, þarsem englarnir búa. En enginn skilur. Enginn vill skilja að það er búið, maður hefur fyrir löngu lært meira en nóg.
Lexían er lærð í fæðingu og allir kunna hana.

ÉG: Ég vaknaði sjálfkrafa uppúr hádeginu og hringdi í pabba. Spurði hann hvort ég mætti vera framá mánudag. Auðvitað leyfði hann mér það, sjálfsagt bara dauðfeginn að losna við mig í smátíma. Ég fór framí eldhús þarsem litlu krakkarnir voru búnir að dreifa hálftómum súrmjólkurskálum og blautu kornflexi útum allt. Ég tók aðeins til og vaskaði upp og fékk mér svo seinustu pizzusneiðna í morgun/hádegismat. Erla vaknaði tuttugu mínútum seinna, grautfúl útaf pizzunni sem ég kláraði. Ég var ekkert að taka það nærri mér, sætti mig bara við morgunmygluna í vinkonu minni og tæmdi seinustu gosflöskuna. Barnahjörðin var farin útá róló, svo við gátum aftur hertekið sjónvarpsstofuna. Ég hlammaði mér í sófann með kókglas í hend, og Erla með púðursykur með súrmjólk í skál. Hollustan í fyrirrúmi. Ég teygði mig í fjarstýringuna, kvekti á vídeótækinu og við gláptum á upptökur af Southpark í eilífðartíma. Heilsusamlegasta afþreyingin. (Þarna var ég ekki að djóka, það er rosaleg þjálfun fyrir magavöðvana að hlæja og flissa.) ,,Ég ætla að verða sjónvarpsmaður þegar ég verð eldri,” sagði Erla. ,,Ég ætla að leika í þáttum og kvikmyndum og segja fréttir. Og meiraðsegja fréttirnar verða fyndnar hjá mér.” Greyið. Hún var ekki almennilega vöknuð. Annaðhvort það eða hún varð fimm ára af að klæðast náttkjól af fimm ára systur sinni.

HIN ÉG: Og svo eru sumir sem vinna við að baka eða skúra gólf eða moka skurði og aldrei koma þeir í sjónvarpinu. Þeir vinna allan daginn eða alla nóttina eða bara klukkutíma á dag. Þeir vanda sig við vinnuna sína eða ekki, hugsa það sem þeir vilja á meðan. Kannski láta þeir sig dreyma um betra líf, nýjan stað, sólina úti eða dóttur sína í læknaslopp. Kannski dreymir þá um að komast í sjónvarpið, verða bestu skúrarar (ræstitæknar) á Vesturlöndunum og skúra Beckinghamhöll og Hvíta húsið. Að verða klárustu skurðgrafararnir og fá nýja vél í gröfuna.
Alla dreymir.

ÉG: Grislingarnir komu inn klukkan hálfsjö og heimtuðu kvöldmat. Ég var eitthvað að mannast við að sjóða pasta, á meðan Erla bræddi ost í tilraun tilað gera ostasósu. Útkoman varð gulur pastagrautur með brenndum osti. Krakkarnir borðuðu þetta með bestu lyst, en við Erla fengum okkur samlokur með skinku og pítusósu. Tommi hljóp út strax eftir mtinn og kallaði á hlaupunum að hann ætlaði í fótbolta með strákunum. ,,Þú kemur inn fyrir níu!” gargaði Erla á hann, en hann var kominn langleiðina útá völl og heyrði ekki í henni. Agnes og Steinar suðuðu-hótuðu-mútuðu-kröfðust þess að fá að horfa á teiknimynd. Erla kveikti á vídeótækinu og leyfði þeim að horfa á Southpark. Steinar, sem var orðinn átta ára, las textann upphátt, og á umþaðbil tveggja mínútna fresti kom annaðhvort þeirra fram að fá útskýringar orðum sem smábörn eiga ekki að kunna.

HIN ÉG: Þetta með fótsporin á himnum. Sporin sem þeir týndu skilja eftir sig. Horfinna guðsbarna merki á himninum í líki stjarna. Það er bara fullkomleikans djúpa gröf í jörðu, fljúgandi í sumarhitanum. (Algjör steypa.) Maður togar og togartogartogar og ekkert gengur. Fótsporin á himnum eru föst, þau hafa alltaf verið þarna og þau hverfa aldrei burt einsog snjórinn á vorin og fuglarnir á haustin. Þeim er sama hvernig viðrar, þau eru þarna, líkari stjörnum en nokkuð annað og óhverfnari en nokkuð annað. Kannski dreymir þau líka, kannski eiga þau sér líka takmörk. Kannski langar þau líka tilað losna burt. Það er sennilega ekki nokkur maður, og heldur enginn sporfótur, hvorki á sjó, landi né himni, ánægður með það hlutverk sem honum hefur verið falið.
Sumir eru einstaklingar, aðrir eru samfélög.

ÉG: Eftirað sjónvarpið hafði verið tekið af okkur Erlu duttum við óviljandi útí umæður um glæpi. Einsog þeir eru nú fjölbreyttir á Íslandi. Sjoppurán, innbrot í sjoppu og nauðganir (í sjoppu?). Í miðjum kappræðum um algengustu nauðgunarstaðina kom Tommi hágrátandi inn með sár á hnénu. Hann hafði dottið á malarvellinum og: ,,meitt sig obboslea,” einsog hann sagði sjálfur. Erla reyndi að hugga hann á meðan ég plástraði hnéð, en hann orgaði og grenjaði svo svakalega að hljóðhimnur fólks í næsta hverfi hlutu að vera að springa. Við prófuðum að sýna honum heimatilbúið brúðuleikhús og héldum utanum hann og kysstum ábyggilega milljón sinnum á báttið, en hann róaðist ekki fyrren hann fékk bangsann sinn. Erla fussaði og sveiaði og skammaðist útaf því að sjö ára barn vildi knúsa og kreista einhvern loðinn bolta með eyru. Þetta var stór og feitur, brúnn bangsi með gleraugu, sem ég gat alveg skilið að Tommi vildi hafa hjá sér. Við sýndum ótrúlega barnapíutakta og komum litla fólkinu í rúmið klukkan hálftíu.

HIN ÉG: Áttu ekkert líf? áttu enga vini? áttu ekki smók? spyr Hann og dansar á ökslinni á manni. Öxlinni. Hann hoppar og stekkur og snýst í hringi og syngur af gleði, leiða, illkvittni, Hann er að gera mann snar. Hann dansar fyrir öll börn sem Hann sér og sýnir þeim brodd býflugunnar og eigin skömm. Hann trúir þeim fyrir sínum innstu leyndarmálum og þau gráta. Hann huggar þau og þau hrópa af hræðslu. Hann er maður sjálfur, Hann er þú, Hann er ég, Hann er einn og tveir og þrír.
Allt er eðlilegt.

ÉG: Við steinsofnuðum eftirað hafa komið þeim í draumalandið, og hugsuðum ekki einusinni útí að stilla vekjaraklukkurnar á skólatím daginn eftir. Ojæja. Mig dreymdi margt. Og mikið.

HIN ÉG: Og flugið. Endalaust flug yfir hrærigraut eilífðarinnar, tilfinningalegt tóm sjálfsins, skammarinnar bernsku og hjákonur ástarinnar. Flug yfir, undir, ofan, neðan, maður veit ekki hvað maður vill, hverju maður leitar að. Þetta er endalaust, án enda, og enginn klippir eða sker á flugið, því það er vatn, það er eilíft. Og það rennur og mun vara að eilífu.
Sumt verður ekki rofið, því er ætlað að vera.

ÉG: Það er alltaf gaman að vakna við skólabjöllu. Erla og familía bjuggu á móti Melaskóla og óþolandi stefið neyddi sér inní eyru okkar klukkan hálfníu á mánudagsmorgni, leiðindabjallan úr þessum leiðindaskóla, sem ég losnaði sem betur fer úr í sjöunda bekk. Við drifum krakkana og sjálfar okkur á lappir, hentum strákunum inní skólann þeirra og skutluðum Agnesi inná leikskólann Hagaborg. Mættum síðan glaðvaknaðar og sprækar (eða þannig), heilli kennslustund of seint í okkar eigin skóla. Sem var ekki Melaskóli, heldur sjálfur agaskóli Íslands, Hagaskóli. Valgreinar í fyrsta tíma, Erla í hannyrðum og ég í málmsmíði. Ég var eina stelpan í málmsmíðahópnum á mánudögum. Eina ástæðan fyrir því að ég valdi þessa grein, en ekki heimspeki eða eitthvað annað skemmtilegra, var sú að andlit andlitanna, líkami líkamanna, gulldrengurinn Guðmundur Logi Guðmundsson, valdi hana. Logi, þessi guðdómlegi drengur með dökka hárið, brúnu augun og hvítu tennurnar. Það lá við að ég skammaðist mín fyrir mitt ófullkomna útlit í hvert skipti sem mér varð litið á hann. Erla var búin að reyna að berja það í hausinn á mér í marga mánuði að ég ætti ekki agnarlítinn möguleika íann og þóttist vera að gera mér greiða með því, en það þýddi ekkert. Ég leiddi það einfaldlega hjá mér og hélt áfram að láta mig dreyma. Ég fékk hann samstundis á heilann. Ég reyndi að setjast sem næst honum í málmsmíðastofunni. Mm… LogiLogiLogiLogiLogi… Mm…

HIN ÉG: Stundum vill maður vera þekktur og stundum óþekktur og stundum óþekkur. Stundum vill maður bara að aðrir láti mann í friði og leyfi manni að vera misheppnað eintak í friði og ró. En það er alltaf einhver sem þykist hafa gott hjarta og góðan vilja. Alltaf einhver sem vill gera mann að manneskju með venjulegt hugmyndalágflug. Alltaf einhver sem skilur ekki að maður þarf ekki að vera stór tilað vera mikill, maður þarf ekki að vera blár tilað vera ekki rauður. Það eru alltof margir sem skilja ekki en þykjast skilja.
Það þarf ekki vængi tilað fljúga.

ÉG: Í tímanum gerði ég allt tilað vekja athygli Loga. Ég lagði mig alla fram við kertastjakann sem ég var að búa til, og passaði vel uppá að hann sæi þegar ég skilaði honum fullkláruðum og flottum í lok tímans. Hann sá ekki neitt, var of upptekinn af ferðageislaspilaranum sínum. Mér heyrðist hann vera að hlusta á Nirvana. Mm, hann hafði meiraðsegja hinn fullkomna tónlistarsmekk. Hann var ekki einhver helv*** píkupoppari sem hlustaði á Írafár og Justin Timberlake einsog sumir! Ég hitti Erlu í tuttugu mínútna hléinu og sagði henni frá þessu. Henni var nákvæmlega sama, þó að hún hafi alltaf hlustað á nákvæmlega sömu tónlist og ég. Kannski ástæðan hafi verið sú að hún var hrifin af strák í tíunda, Adda Kató, og það allillilega. Ég skildi aldrei hvað hún sá við hann, hann var píkupoppari og hálfviti af lífi og sál. Svona er þetta, þeir sem sjá ekkert við fullkomnu strákan, þeir sjá eitthvað við þá sem EKKERT er varið í! Oh, Logi!!! Afhverju varst þú ekki líka hrifinn af mér!?!

HIN ÉG: Og fiskurinn sem kunni ekki að synda. Hann gekk. Maður heldur kannski að það hefði verið auðveldara fyrir fiska að synda en ganga. En þeir sem kunna ekki að synda, þeir ganga, fljúga, skríða áfram. Þeir sem kunna ekki að fljúga, þeir synda, ganga, skríða heim. Allir geta bjargað sér einhvernveginn fyrir horn fimmpagóðumusterisins; hvort sem þeir eru fiskar eða fuglar eða mýs eða menn. Þetta veit maður. Þetta þykist maður skilja.
Það getur verið sárt, en einhverntíman verður það búið.

ÉG: Í lok dagsins var mig farið að langa tilað drepa mig. Ég var búin að ganga aftur og aftur framhjá Loga, hlæjandi, talandi, þegjandi, flissandi, tælandi, ég hafði prófað allt! Fyrir honum var ég einfaldlega ósýnileg. Ég spurði Erlu aðeins útí hvað yrði um mann eftir dauðann, en hún var alveg jafn glær í þeim málum og ég, svo það var ekkert gagn af henni. Í dönskutímanum talaði ég oní Svövu hvað eftir annað og kom með mjög svo áhugaverðar spurningar um lífð og dauðann. Þegar hún var orðin á svipinn einsog hún væri fimm millímetrum frá því að reka mig út og proffarnir í bekknum voru farnir að líta hornauga á mig, hætti ég. Það sem eftir var tímans lagði ég allt mitt í að glósa danskar sagnir.

HIN ÉG: Og líf fyrir dauðann er eðlilegra en allt sem eðlilegt er en líf eftir dauðann þykir eitthvað öðruvísi. Við lífinu tekur dauði! tilkynna spekingarnir háum rómi, þykjast allt vita og allt geta og allt skilja. Þó vita þeir svo miklu minna en Hann og þeir kunna ekki að dansa á ökslum. Öxlum. En samt er líf eftir dauðann og ekkert líf fyrir dauðann, lifandi er maður svo einmana í sjálfum sér, dauður er maður lífgaður og upp risinn einsog Hann sem veit og getur og skilur og kann að dansa á ökslum mannanna. Öxlum. Áhyggjur eru óþarfar því eftir þennan niðurdrepandi kafla tilverunnar eru allir það sem þá dreymir aldrei, lifandi.
Það er líf eftir dauðann.

ÉG: Þegar ég kom heim eftir skóla kom pabbi æðandi á móti mér með reiðisvip á fési. ,,Svo þú ert þá ennþá á lífi!?! Hvar í andskotanum hefur þú verið barn!!??!!” Mér dauðbrá að fá svona glaðlegar móttökur. Eftir smá hiss og ha af minni hálfu útskýrði ég fyrir honum að ég hafði hringt og fengið leyfi tilað vera um helgina hjá Erlu. Hann varð ósköp meme og voða sorrý í framan og viðurkenndi að hafa steingleymt því. Ég fussaði og henti skólatöskunni á forstofugólfið, í allmyndarlegri fýlu útí minnið hans pabba. Læsti að mér inní herbergi og hugsaði. Gleymdi hann kannski því sem ég sagði afþvíað honum þótti ekki vænt um mig? Hafði hann gengið í lið með Loga og ákveðið að leiða gjörðir mínar hjá sér? Ég kveikti á útvarpinu. Supergrass, Seeing the light. Drullugott lag.

HIN ÉG: Allt er alltaf að verða undarlegra og óútskýranlegra. Kannski er það lífið sem er að taka við mnani, kannski er maður að ljúka upp hliði sældar og fegurðar Hans. Má vera að Hann hafi bænheyrt mann og nú sé það ætlunin að gera mann að raunverulega lifandi veru? Ef svo er, þá mun tóminu brátt ljúka, flugið verða yfirstaðið, klukkan hringja inn seinsta sekúndubrotið. Svo munu himnarnir hrynja í eilífri sæluvímu og gleði yfir að flugi, hringrás, dauða þeirra sé lokið.
Allt tekur enda, líka eilífðin og annað.

ÉG: Eftir mjög þegjandalegan kvöldmat með pabba læsti ég aftur að mér inní herbergi. Kom skyndilega auga á vasahnífinn minn sem lá á skrifborðinu. Stillti Metallicu og Sad but true á fullt og tók ákvörðun.

HIN ÉG (SÚ SEM ÞARF ALLTAF AÐ EIGA LOKAORÐIÐ): Sjá, eg hefi upp risið. Sjá, eg mun ei niður stíga af himni. Sjá, eg er fótspor á himnum, djúpt far í bleiku skýi og eg er sem engill. Sjá, mínir vængir munu ávallt vera tákn á himni sem jörðu og bera mig hátt. Sjá, eg hefi leitað, eg hefi fundið.