Jæja, meira ruglið í þessari veröld…

Fjandinn sjálfur. Þá er Gauji dauður. Ekki það að mér hafi þótt eitthvað vænt um gamla manninn. Persónulega hef ég aldrei þolað þessa eilífu rotnunarlykt sem er alltaf af gömlu fólki. Nei, ég segi fjandinn sjálfur einfaldlega afþvíað mamma er í rusli yfir þessu. Í morgun byrjaði hún á að fá sér nokkra bjóra. Síðan þá hefur alkóhólprósentan í drykkjunum hækkað jafnt og þétt og þeim fjölgað, og um kaffileitið var mamma líklega dauð…

Gleymdi alveg allri kurteisi. Ég heiti semsagt Hersteinn. Töff nafn, ha? Það finnst mér ekki. Það er of ljótt og það liggur við að þurfi sérþjálfaðar tungur tilað segja það. H-e-r-s-t-e-i-n-n . Þessvegna er ég bara kallaður Steini. Ég er fimmtán ára og bý hjá mömmu minni sem er fín kelling, litla bróður mínum sem er fínn strákur og kettinum mínum. Sem er seyndar fínn köttur. Mamma mín heitir Matthildur, bróðir minn Hrólfur og kötturinn minn Jón Hreggviðsson. En hann ég kalla hann Kattarhelvíti.

…reikna ég með. Ég var ekki heima í dag, nennti ekki að horfa uppá alla eymdina og sjálfsvorkunina, og fór heldur til Eika. Eiki heitir Eiríkur. Enda er hann ei ríkur. Það eru foreldrar hans hinsvegar. Hann býr í kjallaranum á þriggja hæða einbýlishúsi með bílskúr, gufubaði og heitum potti. Eyðslan í þessu er bilun. Á hverjum sunnudegi þarf Eiki að fara í kirkju með forerldrum sínum, öfum, ömmum og kattavinkonunni Jónu, sem er föðursysturdóttir hans. Það finnst mér ferlega fyndið, enda er ég húmoristi að eðlisfari, og hlæ að öllu. En í dag var ekki sunnudagur, og Eiki þarafleiðandi ekki í kirkju. Þessvegna var það nokkuð eðlilegt að hann kom til dyra í eigin persónu þegar ég bankaði, og bauð mér inní höllina. Hann var á náttfötum með kanínumyndum og í loðnum inniskóm. Minnti dáldið á Jon Arbuckle. Og þegar ég réðst á ískápinn gat ég verið Garfield. Rændi kjúklingahjörð og pizzuleifum úr efstu hillunni og tveggjalítra spræt. Hlammaði mér síðan í sófann og byrjaði að éta. Sosum ósköp normalt, mamma búin að vera of sorrý útaf Gauja tilað gefa mér að éta í tvo daga. Og ekki Hrólfi heldur. En maður tekur ekki litla bræður með sér í heimsóknir til vinanna, svo hann verður bara að éta Kattarhelvítið eða eitthvað ef hann er svangur. Eiki kveikti á sjónvarpinu og við horfðum á elliæra Simpsonsþætti þartil hænsnabúgarðurinn og flatbakan voru horfin ofaní magann á mér. Þá klæddi Eiki sig og við ákváðum að fara í pílagrímsferð heimtil Viktors. Viktor býr dáldið langt frá Eika og við mættum ótrúlegustu hættum á leiðinni. T.d. Orra skólastjóra, sem byrjaði strax að yfirheyra mig vegna tveggjamánaða langrar fjarveru. (Það gera 608 punkta. Einkunnin mín í mætingu er sennilega orðin nokkuð negatív.) Eiki reddaði mér með gamla ljóskubrandarnum. ,,Nei, sjáðu dauða fuglinn þarna!” og benti uppí loftið. Orri glápti útí loftið einsog Hafnfirðingur og á meðan smeygði ég mér undir næsta bíl, rauða Toyotu. Þegar Orri fattaði loksins hálfvitaskapin og leit niður, var ég horfinn úr augsýn. ,,Jæja, gaman að hitta þig,” sagði Eiki og labbaði af stað í áttina að Eiðistorgi. ,,Já, blessaður vinur, við tölum aftur saman seinna,” sagði Orri og ég gat ímyndað mér svipinn á honum. Orri opnaði bílhurðina og settist inní rauðu Toyotuna sína. Ég fraus. Þessi rauða Toyota var nefnilega sú sama rauða Toyota og ég var undir. Eldsnöggur renndi ég mér undan bílnum og lá hliðiná honum þartil Orri var rokinn burt. Var einsog drulluklessa á götunni þartil Eiki kom og hreinsaði mig upp. Toyotan hafði rennt yfir puttana á mér, en bara á hægri hendinni, svo það var í lagi (ég er örvhentur). Eiki var nett sjokkeraður, og heimtaði að við drifum okkur til Viktors. Ég neitaði og krafðist þess að fá a.m.k. eina litla kók tilað róa taugarnar. Eiki veiddi upp einn af fimmþúsundköllum pabba síns og hljóp inní Hagkaup eftir kók. Kom aftur út með þá hálfslíters og rétti mér og fjóra þúsundkalla, einn fimmhundruðkall, þrjá hundraðkalla, einn fimmtíukall og tvo tíkalla (semsatgt, mun meiri pening en hann fór með inn) sem hann stakk í vasann. Ég kláraði úr flöskunni á átján sekúndum, og svo héldum við áfram eilífðarlabbinu til Viktors. Rétt hjá Vesturbæjarsundlauginn mættum við nokkrum krakkafíflum með blautt hár. Eitt af þessum krakkafíflum var Hrólfur, litla gerpið sem tólf ára var tekið í karlmanna tölu. Líkur stóra bróður sínum! Ég lét einsog ég sæi hann ekki og vonaði að hann tæki ekki eftir mér. Ef hann gerði það lét hann allavega einsog ég væri ekki til. Góður! En auðvitað þurfti Eiki að láta hina meðfæddu athyglissýki sína bitna á okkur bræðrum, og heilsaði Hrólfi einsog gömlum félaga. ,,Hæ,” svaraði hann drungalega. Ég sagði ekkert, leyfði Eika bara að leika sér. ,,Eruði að koma úr sundi, krakkar?” ,,Það segir sig sjálft,” svaraði proffaleg stelpa með eyrnaband fýlulega. ,,Já. Hehe.” Eiki var að byrja að átta sig á að engum fannst gaman að tala við hann. Hann drullaðist loksins tilað segja bæ og koma sér í burtu. ,,Hva, eruði í einhverri fýlu?” spurði hann þegar krakkafíflagrúppan var komin í örugga fjarlægð. Hann meinti okkur Hrólf. ,,Ha, nei, það er bara þegjandi samkomulag að þekkja ekki hvorn anna utan heimilisins.” Eiki jummaði til merkis um að hann léti einsog hann skildi, en skildi ekki í alvörunni. Svona er að láta heilaþvo sig í kirkju í hverri viku. Loksins komum við heilu og höldnu heimtil Viktors. Og… drengurinn var ekki heima! Ég kýldi Eika svona mátulega fast í magann og skammaði hann fyrir að hafa ekki hringt áðuren við löbbuðum alla þessa leið. Við heilsuðum þó aðeins uppá lesbíuna í kjallaranum. Lóa var fertug og ennþá alltaf á djamminu, þráttfyrir hrukkur og einstaka fitukeppi. ,,Nei, sælir strákar! Viljiði bjór?” Ég var samtals búinn að drekka tvo og hálfan líter af vökva þennan daginn, en þáði samt meira. ,,Heyrðu, Steini, ég er alltaf að sjá mömmu þína þessa dagana. Oftast á skallanum.” ,,Mm,” útskýrði ég, ,,hún er að fagna því að Gauji á loftinu er dauður. Hann var farinn að mygla.” Lóa varð allillilega hissa. Það sást á hrukkunum. ,,Hvað segirðu, og mamma þín búinn að vera að slá sér upp með honum síðustu, hvað, fimm mánuðina!” Djöfull í fokkin helvíti… ,,Ha? Ojj… maðurinn var eldgamall… ojjojjojj… og fýlan…” Ég kúgaðist. Viðbjóður! Mamma og þessi eldgamli kall sem gekk í drullubrúnum buxum og skyrtum sem lyktuðu af sveitabýlinu sem hann bjó á árið 1934, sennilega ekki verið þvegið af honum síðan þá. ,,Ertað meina þetta?” spurði ég þegar ég var loksins fær umað stynja upp heilli steningu. Eiki hló bara einsog vitleysingur oní bjórdósina sína. ,,Auðvitað, elsku drengurinn, ég færi ekki að ljúga að þér. Vesalings Matta, þetta vissi ég ekki. Kannski ég kíki bara í heimsókn bráðlega.” Ég sagði við Eika að við þyrftum að fara að koma okkur, jólagjafainnkaupin framundan og svona. ,,Steini, það er febrúar,” mótmælti hann þegar ég reyndi að draga hann út. ,,Það er sama, alltaf best að vera tímanlega í þessu,” sagði ég og tókst á endanum að fá hann með mér út. Kvaddi þó Lóu og þakkaði henni fyrir bjórinn. ,,Ohojj,” var það eina sem ég gat sagt þegar við vorum komnir útá götu. ,,Ohojj.” ,,Jújú, einmitt,” sagði Eiki. Þetta voru uppbyggjandi samræður af bestu gerð. ,,Hvað segirðu, finnst þér að ég eigi að gefa pabba bindisnælu eða bréfahníf í jólagjöf?” Eiki. Asninn. Ég kýldi hann laust í magann.