Það var eiginkona Þórðar sem hafði fyrst orð á því að hann væri farinn að fitna fullmikið. Þau sátu við að snæða sunnudagslærið og þegar hann hellti þriðju ausunni af sósu yfir kjötið gat hún ekki lengur orða bundist. ,,Heldurðu ekki að þú ættir að borða aðeins minna, væni minn? Já eða hreyfa þig svolítið meira.“
Athugasemdin kom ekki flatt upp á Þórð. Vaxandi ístran var staðreynd sem hann hafði lengi reynt að ýta frá sér með þeirri afsökun að það væri eðlilegt fyrir mann á hans aldri að bæta dálítið á sig. En nú gat hann ekki falið sig lengur. Málið var aftur tekið upp þegar hjónin voru komin upp í rúm um kvöldið. Eiginkonan stakk upp á korti í World Class. Þórður sá sjálfan sig fyrir sér skríða áfram á hlaupabretti í skræpóttum stuttbuxum og Íslandsbankabol sem náði varla að hylja nábleika bumbuna, í miðjum hóp af stæltum og sólbrúnum ungmennum í Arnold Scwarzenegger-stíl. Hann hryllti sig við tilhugsunina.
,,Þá verðurðu að fara að synda”, svaraði eiginkonan festulega. Þarmeð var það útrætt.
Þórður stillti vekjaraklukkuna hnugginn á sjö og lagði augun aftur. Honum fannst hann varla hafa sofið í klukkutíma þegar hún orgaði við eyrað á honum. Það var afar freistandi að stinga höfðinu undir koddann, en eiginkonan gaf honum kröftugt spark í síðuna svo hann endasentist frammúr.
Hann skreið fram á bað og fann eftir langa leit gömlu sundskýluna sína. Með upprúllað handklæði undir handleggnum lagði hann af stað í nístandi janúarkuldanum og slapp innfyrir dyrnar á sundlauginni rétt uppúr hálfátta. Með uppörvandi brosi rétti afgreiðslukonan honum lykil í blárri teygju og hann var kominn hálfa leið upp í kvennaklefann þegar hún kallaði á eftir honum. Blóðrauður flýtti hann sér niður í karlaklefann.
Í sturtuklefanum hífði hann skýluna upp um sig með erfiðismunum og hljóp tindilfættur út í laug í kuldanum. Eftir að hafa dregist áfram þessa þrjúhundruð metra sem eiginkonan hafði sett honum fyrir, hljóp hann uppúr og smeygði sér dauðfeginn innfyrir dyrnar á eimbaðinu.
Þrátt fyrir hnút í maganum og ógleðitilfinningu hafði hann sig aftur í laugina næsta morgun fyrir þrábeiðni eiginkonunnar. Og þarnæsta morgun. Og þann þarþarnæsta. Eftir nokkra daga var hann hættur að láta sparka sér fram úr rúminu og farinn að rata beint niður í karlaklefann. Eftir hvern sundsprett steig hann á vigtina og sá sér til mikillar gleði að kílóin létu undan síga.
Þórður hélt sundferðum sínum áfram og léttist óðum. Eftir rúmt ár höfðu tuttugu kíló fengið að fjúka og hann hafði náð sömu þyngd og þegar hann var tvítugur. ,,Jæja, Þórður minn“, sagði eiginkonan. ,,Nú fer þetta að verða gott.”
En Þórður vildi léttast meira. Þegar hægði á þyngdartapinu fór hann að borða minna. Og minna. Hann var hættur að borða með fjölskyldunni. Hætti að borða kjöt. Hætti að borða fisk. Að lokum var svo komið að hann lifði nær eingöngu á poppkexi. Stolt hans yfir góðum árangri sínum gekk út í öfga og hann var farinn að horfa óþægilega stíft á gilda maga þeirra manna sem hann hitti á förnum vegi. Miðlaði því til fjölskyldunnar um kvöldið. ,,Hann Öddi hlýtur að vera hátt í níutíu kíló…“, og renndi svo fingrinum kæruleysislega yfir eigin útstandandi rifbein. Áhyggjur eiginkonunnar fóru stigvaxandi. ,,Þetta er ekki heilbrigt, Þórður minn.” Hún reyndi að fá hann til læknis og þegar hann harðneitaði fékk hún lækninn heim til þeirra. Þórður var þá ekki nema skugginn af sjálfum sér, borðaði einn fjórða úr gúrku á dag, drakk vatn svo að segja stanslaust og synti fimmþúsund metra í hádeginu. Læknirinn tók eiginkonuna þungbúinn á eintal eftir að hafa skoðað Þórð. ,,Ég er hræddur um að það sé orðið of seint." Konan brotnaði niður og grét.
Viku seinna kom eiginkonan inn eftir að hafa farið út með ruslið og ætlaði að eiga orð við Þórð, sem hafði verið að vaska upp. En þar var ekki annað eftir af Þórði hennar en hrúga af fötum fyrir framan vaskinn.