Ástæðan fyrir því að ég er eins og ég er mér enn þá hulin ráðgáta. Jafnvel eftir margra ára leit að sjálfinu (í formi tónlistar, íþrótta, mótmæla og ýmsu öðru) hef ég ekki enn komist að því hver hinn raunverulegi ÉG er. Rannsóknin hófst þegar ég var tólf ára, en þá byrjaði ég á grunninum. Og svo hélt ég bara áfram…


12. febrúar 1997
Nafn: Ingibjörn Aðalsteinsson
Fjölskylda: Hallbjörg Ingibjarnardóttir (mamma), heimavinnandi eiginkona Aðalsteins Fróða Frostasonar (pabba), pípulagningamanns, rafvirkja, bakara og blakþjálfara. Og froskurinn Körrmit.
Starf: Nemi í fullu starfi og blaðberi í afleysingum.
Áhugamál: Stelpur, konur og tölvan mín.
Vinir: Ebeneser Jónsson, Örvar Oddur Hreinsson, Jón Daníel Tómasson, Þorri Ágúst Steinsson og Páll Hallfreðsson.
Uppáhalds matur: Franskar kartöflur með sinnepi.
Uppáhalds verkfæri: Hamar.
Framtíðaráform: Skrifa tvær skáldsögur, fara til tunglsins í sumarfríi, hitta Pamelu Andersson, verða ríkari en Bill Gates og þvo sokkana mína fyrir jólin.


Ég endurtek að ég var tólf ára þegar ég skrifaði þetta. Og eftir það hóf ég síðan rannsóknina. Mitt fyrsta verk var að taka viðtal við foreldra mína.


13. febrúar 1997
RANNSÓKNARMAÐUR (R): Hvernig leit Ingibjörn út þegar hann fæddist?
MAMMA (M): Þú vart ósköp sætur og…
(Ávítur rannsóknarmanns óprenthæfar, en meginefni þeirra beiðni til Hallbjargar og Aðalsteins um að líta á rannsóknarmann sem óháðan og algjörlega hlutlausan aðila og tala um hann í þriðju persónu.)
M: Jú, Ingibjörn var ósköp sætur…
PABBI (P): …síorgandi og vælandi rauðbleikt kvikindi.
M: Alli þó!
P: Jújú. (Heimskulegur hlátur.)
R: Þekkið þið áhugamál hans?
P: Jú, hann er vitlaus í allar íþróttir…
M: …og elskar að leika sér í pleimó…

ENDIR VIÐTALS


Ég reiddist mömmu fyrir að gera mig svona stelpulegan, pabba fyrir að gera mig svona strákalegan og sjálfum mér fyrir að vera svona mikið meðaltalsbarn. Næsta skref tók ég ásamt vinahópnum, en samræðurnar urðu svo stóryrtar að ég skráði ekki allt viðtalið en skrifaði niður helstu atriði.



7. mars 1997
Ingibjörn Aðalsteinsson er huglítill en fyndinn, einstaklega rauðhærður strákur sem gegnir hlutverki vingjarnlega náungans í vinahópnum. Hans innsta þrá er (samkvæmt sálgreiningu Örvars Odds Hreinssonar, sonar Hreins Bolla Hjaltasonar, sálfræðings) að njóta ásta með þroskuðum og grófskeggjuðum karlmanni, með agúrku sem hjálpartæki. Þegar þarna var komið í umræðunni var Örvari hent út úr fundarsal og hann vinsamlegast beðinn um að láta ekki sjá sig þar aftur. Í framhaldi af því vöktu ónefndir fundarmenn athygli á því að Ingibjörn gæti verið of skapstór á stundum. Ingibjörn henti öllum fundarmönnum öðrum en honum sjálfum út úr fundarsal. Hann sat í kortér á stól og talaði við sjálfan sig. Niðurstaðan varð sú að hann kæmist ekkert áfram með þessum hætti, þ.e. viðtölunum, og því ákvað hann að finna sér ný áhugamál, í von um að finna sjálf sitt.


Ég ákvað að fara að æfa handbolta.




19. september 1997
Æfingar hófust 13. apríl og enn hefur enginn árangur náðst annar en sá að geta kastað poppkorni í lélega kvikmyndaleikara í bíó og hitt. Ekkert sjálf fundið. Foreldrar skildir vegna tíðra rifrilda og framjáhalds móðurinnar með manninum sem seldi föðurnum Toyotuna. Líf Aðalsteins Fróða Frostasonar í rúst, en Hallbjörg Ingibjarnardóttir hefur það gott ásamt syni sínum og viðhaldi í þriggja hæða einbýlishúsi á Nesinu.


Mér datt í hug að fara að læra spönsku. Gat verið að forfeður mínir hefðu ekki komið frá Noregi heldur Spáni? Myndi ég finna mitt sjálf í móðurmálinu?


1. desember 1997
Eftir mánaðarlangt spönskunám er enn ekkert fundið.


Þegar ekkert hafði enn borið árangur ákvað ég að ég hefði mun meiri þörf fyrir að finna mér framtíðarstarf. Ég las alla símaskrána í leit minni að flottu starfsheiti. Það tók tímann sinn, en ég fann loks hið rétta á blaðsíðu 788. Ráðherra.


29. apríl 1998
Ingibjörn Aðalsteinsson, tilvonandi hæstvirtur ráðherra, bankaði á dyr Alþingishússins kl. 10:31. Ekkert gerðist. Ingibjörn Aðalsteinsson, fyrrverandi tilvonandi hæstvirtur ráðherra, gafst upp.

Ég rathugaði mörg fleiri störf. Pípulagningar reyndi ég á baðerberginu hans Grétars viðhalds og tókst að eyðileggja nýflísalagt gólfið í höllinni. Það var allt í lagi, það voru þrjú önnur baðherbergi á staðnum. (Að vísu eitt þeirra aðeins kattasandkassi.) Rafvirkjamennt mína hlaut ég við rafmagnstöflu Vesturbæjarskóla og fékk viðurkenningu mína í formi einkaviðtals við skólastjóra, húsvörð og félagsráðgjafa. Bílasala átti ekki heldur við mig. Þegar ég hafði selt Charokee-jeppa Grétars, keyrði kaupandinn burt án þess að borga og sást aldrei aftur. Seinasta tilraunin sem ég gerði til að finna mér starf var einföld: Mér datt í hug að ég gæti orðið uppfinningamaður. Ég lagaði brauðristina okkar aðeins, þannig að hún spýtti brauðsneiðunum hátt í loft eins og í teiknimyndunum. Ég setti tvær sneiðar af heilhveitisamlokubrauði frá Björnsbakaríi í ristina og setti á straum. Stór blossi kviknaði og brauðristin hvarf. Ég gafst upp á starfsleitinni og sneri mér að því að finna köllun mína.


18. júní 1998
Ingibjörn Aðalsteinsson gekk niður í fjöru, klæddur í hvítt lak, bleika gúmmísandala og með koddaver á höfðinu. Hann gekk út í sjóinn og öskraði: ,,Sjór, í Guðs nafni, víktu!!!” Ekkert gerðist. Ingibjörn gekk lengra. Þegar sjórinn náði honum upp að nefi öskraði hann aftur. Ekkert heyrðist, því munnur hans fylltist af söltum sjó. Eina kraftaverkið sem varð þennan dag var það að björgunarsveitarmennirnir skyldu ekki hlæja sig dauða. Ingibjörn Aðalsteinsson lét lita hár sitt ljóst svo hann þekktist ekki aftur.


Mér datt allt í einu í hug að ég finndi tilganginn með lífi mínu með því að fá það sem allir strákar þrá: Kynlíf.


28. nóvember 1998
Ingibjörn Aðalsteinsson reyndi að meðaltali við ellefu og hálfa stelpu á dag á tímabilinu 1. september til 27. nóvember 1998.
Stelpur sem sýndu áhuga: Tvær ljótar og ein feit.
Stelpur sem voru til í kynlíf með Ingibirni: Engin.
Einkunn sjálfsvirðingar í nóvemberlok: 0,2


Ég fann ekki köllun mína. Svo einfalt var það nú. Þess í stað ákvað ég að stokka upp í vinahópnum. Ég komst í kynni við umhverfisverndarsinna með lopahúfur í níunda bekk, sem ég fór á fjölmarga mótmælafundi með. Árið 1999 var ég handtekinn alls hundrað og fjórtán sinnum. Þegar níunda bekk var að ljúka og flestir proffarnir farnir að huga að samræmdum prófum keypti ég mér rafmagnsgítar, magnara, kennslubók í gítarleik og skærgræna gítarnögl. Eftir tveggja mánaða langt, mjög svo hávaðasamt tímabil í bílskúrnum, var ég farinn að geta hlustað á sjálfan mig. Og um sumarið gerði ég tilraun.


30. maí 2000
Framkvæmd tilraunar: Auglýsa gítarkennslu fyrir byrjendur.
Árngur tilraunar: sjö nemendur á aldrinum fjögurra til þrjátíu og níu ára.
Árangur kennslu: sex nemendur héldu út sumarið og lærðu þrenns konar þvergrip og ótal hljóma og óhljóma. Á tónleikum sem nemendur héldu fyrir aðstandendur og velvildarmenn (alls fimm manneskjur plús Páll Hallfreðsson, hljóðmaður) var aðeins einn púaður niður. Ingibjörn sjálfur orðinn svo góður að hefði Jimi Hendrix séð hann hefði hann horft á hann öfundaraugum.
Niðurstaða: framtíðarstarf fundið.


Ég hafði semsagt fundið framtíðarstarfið. Og nýtt áhugamál í leiðinni. En köllun mín, nýju vinirnir, tilgangur lífsins og mitt innra sjálf var enn ófundið efni. Í tíunda bekk hundsaði ég því algjörlega samræmdu prófin og leitaði. Ég reyndi að finna sálufélaga minn, en eftir að fimmtíu og þrjár manneskjur höfðu skellt á mig eftir innan við mínútu langt símtal í þeirri trú að ég væri geðsjúklingur að gera símaat, játaði ég mig sigraðan. Ég varð að sætta mig við gömlu vinina, Ebba, Örvar, Jón Dan, Þorra og Palla. En ég gafst ekki alfarið upp. Næsta skref var fólgið í því að leita uppi tilgang lífsins og mitt innra sjálf.


2. júní 2001
Eftir óralanga íhugun, íklæddur appelsínugulu laki og með krúnurakað höfuð, hefur Ingibjörn Aðalsteinsson ekki enn hlotið Nirvana og tilgangur lífsins er jafn týndur og vanalega. Hann hefur enga vitrun fengið.
Íhugun samtals: 611 klst., 32 mín., og 8 sek..
Árangur: Ingibjörn er orðinn liðugri og á auðveldara með að sitja lengi með tærnar í eyrunum.
Kostir: Ingibjörn getur klórað sér með fjórum útlimum í einu, hann þarf ekki að þvo hárið og hann á auðveldara með að velja úr fataskápnum.
Gallar: Litið er á Ingibjörn sem geðsjúkling og stelpurhafa misst allan áhuga á honum.
Athugasemdir: Þó er dvergvaxin stúlka í áttunda bekk, að nafni Anna Klara Ástvaldsdóttir, ástfangin upp fyrir haus af Ingibirni, aðallega vegna alls þess dularfulla og dulræna sem einkennir lifnaðarhætti Búddha-munka.


Ég sagði mig úr söfnuðinum og gekk aftur í Þjóðkirkjuna. Í kjölfarið gekk ég svo í Dómkórinn í von um að skapa mér tónlistarsmekk. (Og svo byrjaði ég í MR.)


26. desember 2001
Eftir að hafa gert sig að algjöru fífli í jóladagsmessu Dómkirkjunnar hefur Ingibjörn Aðalsteinsson sagt sig úr kórnum. Fyrstu mistökin voru þau að gleyma að fara í nýstraujaðar sparibuxurnar og mæta í gatslitnum gallabuxum sem runnu alltaf niður svo sást í nærbuxur Ingibjarnar. Önnur mistökin voru þau að mæta í Snoopy-nærbuxum. Þriðju mistökin áttu sér stað þegar Ingibjörn hóf upp raust sína, hálfri mínútu á undan öllum öðrum. Og allt er ekki þá er þrennt er! Fjórðu mistökin voru jafnframt þau neyðarlegustu. Í miðju lagi hnerraði hávaxinn og kvefaðu kvenmaður fyrir aftan Ingibjörn. Það hefði í sjálfu sér ekki verið svo neyðarlegt ef hann hefði ekki skrækt eins og smástelpa og misst niður um sig buxurnar af hræðslu. En Ingibjörn náði þó að skapa sér þokkalegan tónlistsarsmekk, hann hlustar aðallega á Radio X og uppáhalds hljómsveitin hans er Metallica. Hann hefur nú ofnæmi fyrir sálmasöng.


Ég féll á jólaprófunum, vorprófunum, jólaprófnuum, vorprófunum, jólaprófunum, vorprófunum, jólaprófunum og vorprófunum. Ég græddi þónokkurn pening á gítarkennslunni og er kominn upp í þrjátíu nemendur á viku allt árið. Fyrir stuttu var ég orðinn nógu ríkur til að kaupa mér íbúð í Hlíðunum og þar bý ég núna ásamt kettinum mínum, Garry Fatfield, og páfagaukunum Hermundi og Freymóði. Eina kvenveran í íbúðinni er gullfiskan Olga Stroganova, en hún er endurnýjuð að meðaltali tvisvar í mánuði vegna græðgi Garry Fatfield og gífurlegrar fiskifíknar. Ég er hættur að leita að mínu innra sjálfi. Ég er sáttur við að eiga þá vini sem ég á og þau áhugamál sem ég hef, og ég hef fundið framtíðarstarfið. Köllun mín og tilgangur lífsins er að gefa fjölskyldu minni, þ.e.a.s. Garry Fatfield, Freymóði, Hermundi og Olgu Stroganovu, að éta. Þrátt fyrir rannsóknir mínar hef ég ekki ennkomist að því hver ÉG er, en þetta er það sem ég kemst næst því:


Nafn: Ingibjörn Aðalsteinsson
Fjölskylda: Köttur, páfagaukar og gullfiskur, foreldrar, viðhöld foreldra og allt of margt óþekkt frændfólk.
Framtíðaráform: Sofa út um helgar og borða hollan mat einu sinni í viku.
Takmark í lífinu: Finna mér konu eða kall til að eyða elliárunum með og komast til tunglsins í sumarfríi.
Uppáhalds litir: Blágrænn og Appelsínugulur.
Trú: Engin, bara hjátrú.


Endanleg niðurstaða: Líf mitt er ágætt eins og það er.













Með kveðju og óskum um gleðileg jól og farsæl komandi ár,
Ingibjörn Aðalsteinsson