Hann vissi ekki hve lengi hann hafði staðið þarna og horft á litlausa moldina. Nú var þetta búið. Hún lá þarna í kaldri gröfinni fyrir framan hann, horfin eins og jörðin hefði gleypt hana. Aldrei framar ættu þau eftir að njótast og leiðast saman út í sólarlagið. Hvernig gat hún bara sísvona horfið frá honum um alla eilífð? Hvaða máttur á jörðu og himni var þess megnugur að skilja þau að? Þau sem höfðu verið svo samrýmd. Gert allt saman og ekki getað verið án hvors annars. Stundum var enginn annar til í heiminum nema þau. Aðeins þau og enginn annar.
Hann stóð þarna og grét. Gráturinn færði hann nær henni á ný. Hann fann þó að hún var að hverfa frá honum. Líf hennar var að þurrkast hún, eins og það hefði aldrei gerst.
Hann lagði rósina varlega á kalda gröfina, eins og hann væri að varast að vekja hana. Hann kvaddi með kveðjunni þeirra “Sjáumst fljótt aftur, elskan” og gekk hratt í átt að höfninni.