Ég geng upp að dyrunum. Ég hef aldrei verið jafn hræddur. Hvað ef hún skilur ekki? Eða það sem verra er, hvað ef hún heldur að ég sé skrímsli? Ég gæti ekki þolað að hræða hana svona. Höndin mín snertir dyrabjölluna en fer ekki lengra. Hvað væri ég að gera henni? Að birtast allt í einu eftir fjögur ár og segjast vita hver drap systur hennar? Hvað gæti ég mögulega sagt? “Hæ Lilja. Ég veit að við höfum ekki sést í langan tíma en ég þorði ekki að segja þér að ég veit hver drap systur þína. Hvernig veit ég það? Vegna þess að hann sagði mér hvernig hann fór að því áður en hann breytti mér í vampíru.” Nei, hún mundi ekki skilja. Hún mundi halda að ég væri brjálaður. En ég er kominn svona langt, eftir svo langan tíma. Ég get ekki hætt við núna. Ég reyni að hringja bjöllunni en það er eins og tveir hugar eru að stjórna sama líkamanum. Annar vill hringja bjöllunni en hinn vill fara eins langt frá henni og hann kemst. Ding-dong. Ég bíð. Ég heyri í einhverjum koma hlaupandi niður stigann. Ég get þetta ekki. Dyrnar opnast. Fallegasta stelpan sem ég hef þekkt gægist út með stutta, ljósa hárið og lýtur í kringum sig. Enginn er nálægt. Hún er svo falleg, en hún sér mig ekki þar sem ég svíf fyrir ofan dyrnar. Hún bíður aðeins lengur en svo er kallað á hana. Einhver ung karlmannsrödd, varla mikið eldri en ég. Hún kallar á móti og segist vera að koma. Hún fer inn og lokar á eftir sér. Ég svíf að glugganum hennar og lít inn. Ég hafði rétt fyrir mér. Í rúminu hennar liggur Bárður, vinur minn úr skólanum. Áður en ég kynntist Geira vorum við bestu vinir, ég hafði þekkt hann lengur en Lilju. Lilja kemur inn í herbergið. Það er erfitt að heyra hvað þau eru að segja en ég veit hvað hann vill vita hver þetta hafi verið. Hún beygir sig til að kyssa hann. Ég get ekki horft á þetta. Það tók mig fjögur löng ár að fá mig til að komast hingað en aðeins fjórar langar mínútur til að fara. Hún hefur haldið lífinu áfram, það er eitthvað sem ég get ekki.
Það eru ennþá þrír tímar þar til sólin hefur sig á loft. Ég hef nógan tíma. Ég geng rólega eftir götunum, af og til keyra bílar framhjá. Sama hvað ég reyni get ég ekki hætt að hugsa um Lilju. Hún var svo falleg. Hún átti ekki skilið það sem Geiri gerði lífi hennar. En hún getur ekki lifað við það að hafa misst bæði systur sína og mig og ef einhver þurfti að hjálpa henni í gegnum þetta þá er ég feginn að það var Bárður. Áður en ég átta mig er ég kominn að kirkjunni. Á þessum fjórum árum hef ég aldrei farið eins oft í kirkju. Ég geng inn. Þar er enginn en kveikt er á mörgum kertum. Ég kveiki á tveimur kertum, einu fyrir systur Lilju og einu fyrir lífið sem ég glataði. Þetta má kalla sjálfselsku, mér er sama. Líf mitt var hrifsað af mér í einni svipan. Ég tapaði öllu. Ég á rétt á að vera sjálfselskur. Eins og svo oft áður bið ég Guð til að leiða mig til Geira og gefa mér afl til að drepa hann. En Guð hlustar ekki á mig. Í fjögur ár hef ég beðið hann um að vísa mér leiðina en ég hef aldrei fundið hann. Ég er hræddur. Hræddur um að fá aldrei tækifæri til að hefna mín fyrir það sem hann gerði mér. Ég hræðist hann ekki. Ekki lengur. Ég er of reiður til þess að vera hræddur. Ég stend aftur upp og stefni að dyrunum. “Þú munt finna það sem þú leitar að.” Röddin koma fyrir aftan mig. Þegar ég sný mér við er þar enginn. Ég held áfram og fer út í gegnum dyrnar.
Tveir tímar þar til sólin kemur upp. Ég ráfa ennþá um, veit hvorki hvert ég fer eða hvar ég muni enda. Ég hugsa aftur um það sem ég sá fyrr um nóttina. Ef hún hefði bara vitað að það hafði verið ég sem hringdi dyrabjöllunni. Það rignir ennþá. Í allt kvöld hef ég ekki nærst á neinu. Hungrið hefur verið að segja til sín síðustu daga. Ég verð að nærast, annars get ég ekki einu sinni komið í veg fyrir það sem ég gæti gert. Ég geng framhjá húsi með garði og hundur er bundinn við staurinn. Hundurinn vaknar við það að ég geng framhjá. Hundar byrjar að gelta og urra. Ég er svo svangur. Ef ég nærist ekki fljótlega munu saklaus líf verða fyrir skaða. Ég lít á hundinn. Ég finn fyrir sársaukanum sem hann hefur valdið öðrum. Ég finn lyktina af blóðinu af tönnum hans. Þessi hundur hefur sært einhvern, eða jafnvel drepið. Það er annað hvort hann eða einhver saklaus. Ég beygi mig fyrir framan hann, halla mér að honum, tek snögglega um höfuðið á honum og sný hann úr hálsliðnum. Ég get ekki látið neinn deyja á sársaukafullan hátt. Ég bít í hálsinn á hundinum og hefst handa.