<i>Mig langar að finna þig, sjá þig, komast að því hvar þú ert, og þegar ég er búinn að finna þig þá ætla ég að kreista þig og kreista þig og kreista þig svo ekkert verður eftir.
Þetta er staðurinn, hérna verður þú eftir. Sérðu veggina, þeir eru berir, kaldir, gráir, harðir. Sérðu gólfið, það er brúnt, blautt, mjúkt, sleipt. Sérðu loftið, það er hærra en þú getur nokkurn tímann náð. Sérðu mig. Sérðu mig. Horfðu á mig. Þú verður að horfa á mig. Ekki gráta, þú þarft ekki að gráta enn – ertu í þessum augum? Ertu bakvið þessi augu?
Ertu í naflanum, best að gá … oj … blautt, rautt, slepjulegt – en ekki þú. Ertu í þessari tá? Úbbs, nei, tóm. En í hinni? Nei, ekkert nema bein og sinar. Ha ha. Finnst þér þetta ekkert fyndið?
Af hverju ertu að öskra svona? Hver er að öskra? Hver er það sem er að nota þessi raddbönd, hver er það sem er að opna þennan munn, hver á þessar tennur, þessa tungu. Nú er hún mín, nú á ég þessa tungu, sérðu?
Ein tönn, tvær tennur, þrjár tennur, ekki gráta – ég er að leita, ég verð að finna. Ég verð að finna þig. Ég vil finna þig, svo ég geti kramið þig.
Ertu í augunum? Augun gráta, þau horfa, en ef ég tek annað þá er ennþá hitt eftir og horfir – ertu í því sem horfir eða því sem ég held á? Eða ertu kannski einhvers staðar fyrir innan? Bak við augun?
Ertu sofnaður? Sló ég of fast? En ég þurfti að komast inn, ekkert nema grátt jukk. Ekki ertu þar, ekkert nema hafragrautur. Þey – hlusta – það slær, það slær, ertu þarna helvítið þitt, hélstu að þú gætir falið þig þarna, en ég heyri, bíddu bara.
En það var tómt. Það hætti að slá meðan ég hélt á því og reyndi að sjá inní hólfin, síðan skar ég og skar en það var ekkert. Hvert fórstu? Hvar ertu? Þú ert farinn eitthvað, ég veit það, ég veit að þú hefur sloppið en bara í þetta sinn, bara núna – þú kemst ekki langt, ég skal ná þér og þá skaltu fá að finna fyrir því. En fyrst ætla ég að leita af mér allan grun hérna!</i>

Lágur hóll skammt frá bænum, einn af ótal mörgum fyrir ofan Rauðavatn. Þessi hóll sem enginn sá í gær er í dag baðaður ljósum, þakinn fólki, umlukinn bláblikkandi bifreiðum.
Efst stendur lítill hópur, Gummi og Palli standa grænir í framan og passa að enginn óviðkomandi komi nálægt. Hjá þeim stendur Pétur og reykir. Það var Pétur sem hringdi í mig, það var Pétur sem hljómaði í símanum eins og hann hafði séð draug.
“Ég hélt þú værir hættur,” segi ég þegar ég kem nær.
“Var það. Var það,” segir Pétur og hristir hausinn.
“Hvar er liðið?” spyr ég.
Palli stígur til hliðar og bak við hann sé ég eitthvað sem í fyrstu líktist opnum pappakassa liggjandi á jörðinni. “Þarna,” segir Palli og bendir á kassann. Ég er smá stund að átta mig, en svo sé ég að þetta er steyptur ferkantaður krans um op niður í neðanjarðarbyrgi, eitt af fjöldamörgum mannvirkjum sem liggja enn um alla heiðina eftir Bretana, fimmtíu árum seinna.
Ég geng að opinu og horfi niður. Það fyrsta sem ég tek eftir eru ljósin sem flökta fram og til baka yfir moldargólf einum þremur metrum fyrir neðan yfirborðið. Það annað sem ég tek eftir er lyktin, blaut og sæt, örlítið bitur. Kúgunarviðbrögðin eru næstum búin að bera mig ofurliði, mér rétt tekst að halda kvöldmatnum niðri en hann skilur eftir sig súrt bragð í hálsinum.
“Þetta er var víst vatnstankur,” segir Gummi og bendir í kringum sig og nú sé ég að við stöndum á steyptu þaki byggingarinnar, það er slétt við yfirborð hólsins og í myrkrinu tekur maður varla eftir því enda að hluta þakið grasi. Þakið er einir sex metrar á annan veginn, kannski átta eða tíu á hinn. Á stærð við góða stofu í einbýlishúsi, hugsa ég.
“Hvernig kemst ég niður?” spyr ég.
“Við hjálpum,” segir Palli og hann og Gummi taka sér stöðu sitt hvor megin við mig. Ég sest á brún opsins, þeir taka sinn í hvorn handlegginn og láta mig síga niður.
Niður til helvítis.