Síminn hringir. Ég lít upp frá tölvunni og í eitt augnablik velti ég því fyrir mér hvort að ég eigi nokkuð að vera að svara. Satt best að segja nenni ég nefnilega ekki að standa upp til að ná í hann. Síminn hringir aftur. Ég andvarpa og stend á fætur. Geng fimm skref og teygi mig í hann. Horfi á númerabirtinn. Leyninúmer. Bara spennandi, hugsa ég.
-Halló.
Það er þögn í símanum. En ég heyri að það er einhver hinum megin á línunni. Síðan dæsir einhver og segir.
-Hæ.
Ég fatta strax hver þetta er.
-Já, hæ.
-Veistu hver þetta er?
Ég glotti út í annað.
-Nei, ekki hugmynd.
-Nú!
-Já, hver er þetta?
Ég er farinn að brosa.
-Ja, hver heldurðu?
-Er þetta Palli?
-Nei, hvað er að þér? Þú veist alveg að þetta er ég, Sigga.
Ég get ekki annað en skellt upp úr. Þrátt fyrir það að ég hafi vel vitað hver þetta væri; því um leið og ég heyrði röddina vissi ég það; þá verð ég að viðurkenna að ég er talsvert hissa á því að hún skuli vera að hringja. Hvers vegna ætli svo sé? Ekki get ég ímyndað mér að hún eigi eitthvað erindi við mig, eftir allan þennan tíma.
-Jú, ég vissi vel að þetta varst þú.
Sigga er fyrrverandi kærasta mín. Við höfum ekki sagt stakt orð hvort við annað síðan við hættum saman. Enda má segja að það hafi soðið upp úr. Ég var kannski ekki barnanna bestur en hún var meira en erfið í umgengi.
-Já.
-Já, já.
Ég er enn með eitthvað aulalegt glott framan í mér.
-Já.
Undarleg svona símtöl. Ég hef í raun ekkert við hana að segja og geri mér enga hugmyndum hvers vegna hún sé að hringja en maður skyldi ætla þá að hún hefði eitthvað merkilegra að segja en ‘já’.
-Hérna, hvað segirðu gott, spyr ég, svona til að segja eitthvað.
-Bara allt sæmilegt.
Gat það verið. Það er nefnilega svo með hana elskanlegu Siggu að aldrei er neitt nógu gott. Einu sinni bauð ég henni út að borða á fínan veitingastað og við borðuðum frábæran þrírétta mat. Síðan fórum við út að skemmta okkur og á leiðinni heim um nóttina í leigubíl fór bílstjórinn eitthvað að spjalla við okkur. Hann spurði Siggu hvernig hún hefði skemmt sér. Svona lala, var svarið. En var maturinn ekki góður, spurði þá bílstjórinn. Jú, hann var alveg sæmilegur, svaraði hún. Ég komst nefnilega fljótlega að því að Sigga á ekki til sterk lýsingarorð í sínum orðaforða, heldur er allt sæmilegt, lala, ágætt eða hefði getað verið betra. Þetta fer ekki lítið í taugarnar á mér.
-Já, bara allt sæmilegt. Alveg er nú gott að heyra það að þú hefur það ágætt.
-Takk, en þú?
-Ég hef það bara frábært. Allt fína í Kína hjá mér.
Það má nefnilega segja að við séum svart og hvítt. Ég er alltaf í góðu skapi og fleygi bröndurum hægri vinstri, hrókur alls fagnaðar og líður best í mannfjölda.
-Já, alltaf bara að vinna?
-Já, líf mitt er nefnilega svo fjölbreytt.
Hún kímir. Síðan fylgir ein af þessum vandræðalegu þögnum. Svona tóm sem neyðir augun til að horfa upp í loftið og maður fer að velta fyrir sér að kaupa nýjar ljósakrónur. En síðan ákveð ég að gera það ekki, því það er alltof tímafrekt. Fara niður í IKEA og velja úr þúsundum ljósakróna. Nei, bið bara mömmu um að gera það, hún hefur svo gaman af því að innrétta hjá mér, fyrst að þau skötuhjú eru búin fyrir löngu með sitt heimili.
-Já, ertu enn að lyfta?
-Nei, ég nenni því ekki lengur.
-Já, já.
-En þú? Ertu eitthvað að hreyfa þig?
-Ég! Nei, þarf þess ekkert.
Sem er satt. Sigga má nefnilega eiga það að hún var, allavega þegar ég sá hana síðast, nokkuð nett. Lítil og nett. Ég efast um að nokkur kona muni móðgast við það að vera kölluð lítil og nett, en samt er listinn yfir orðin sem ekki má nota um konur nokkuð langur og efst á þeim lista er feit og öll orð sem eru dregin af því t.d. fitna. Það er líka til svona listi yfir orð sem ekki má nota um karlmenn og á honum er líklegast efst vinur. Það er ekkert jafn skemmtilegt og að vera reyna við einhverja stelpu og hún er sífellt að tala um hversu góður vinur maður sé. Strákar hafa nefnilega lítinn sem engan áhuga á að vera vinir stelpna, það er að segja ef þeir græða ekkert á því. Jú, margir þeirra eru vinir ‘feitu stelpunnar’ en það er bara til að komast yfir vinkonur hennar. Strákar vilja bara eitt hjá stelpum.
-Nei, það er rétt.
-Er eitthvað annars að frétta af þér?
Frétta af mér. Ég velti fyrir mér spurningunni um stund. Ég er búinn að kaupa nýjan bíl, er farinn að heiman, djamma allar helgar, stunda reglulegt en öruggt kynlíf, líður bara vel, fróa mér daglega, fer oft í bíó og borða alltaf hjá mömmu á sunnudögum.
-Nei. En þér?
-Já, það er ýmislegt að frétta.
Hvernig stendur á því að kvenfólk heldur að karlmenn hafi óendanlegan áhuga á ómerkilegum smáatriðum í lífi þeirra? Það er nefnilega alveg með ólíkindum hversu oft maður þarf að hlusta á eitthvað hundleiðinlegt væl um fyrrverandi kærasta og ömurlega foreldra, þegar maður er að reyna við einhverjar stelpur á djamminu. Ég þoli það ekki.
Ég ranghvolfi í mér augunum og velti fyrir mér hvaða afsökun ég eigi að beita fyrir mig, til að losna undan marga klukkustunda símtali um hið sæmilega líf Siggu.
-Já, er það?
-Já, ég hérna hringdi í þig meðal annars út af því.
Ó mæ god, hugsa ég.
-Sko, heldur Sigga áfram, þegar við hættum saman þá leið mér illa nokkuð lengi yfir því.
-Nú!
-Láttu ekki eins og fífl, þú vissir það vel.
-Okei.
-Já, og ég kynntist fullt af nýju fólki og fór að djamma með þeim. Sumir af þessu fólki var eitthvað að fikta við dóp og ég eiginlega svona smitaðist af því.
-Ja hérna megin, svara ég.
Ég var reyndar búinn að frétta það, en er ekkert að láta það uppi að ég hafi verið að fylgjast með henni úr fjarlægð.
-Veistu, þú hefur ekkert breyst.
-Takk.
-En hvað um það, þá leiddi eitt af öðru og smátt og smátt seig ég neðar og neðar. Einn daginn uppgvötaði ég að ég var orðin dópisti.
-Nei, nú er mér öllum lokið.
-Æ, þegiðu og leyfðu mér að tala.
-Okei.
-Allavega, ég fór í meðferð og hef síðan verið á námskeiðum hjá SÁÁ. Hef verið í þessu þrepakerfi. Og eitt af þrepunum er að komast yfir fortíðina. Það er ástæðan fyrir því að ég hringdi. Mig langaði til að heyra í þér og biðjast afsökunnar á því hvernig ég kom fram við þig á meðan við vorum saman og eftir það.
Ég sit og þegi. Glottið framan í mér er frosið og ég veit ekkert hvaðan á mig stendur veðrið. Aldrei í dauða mínum hefði ég átt von á þessu. Sigga að biðjast afsökunnar.
-Þú þarft ekkert að segja að þú fyrirgefir mér, það er algerlega undir sjálfum þér komið.
-Já.
Ég finn að ég er farinn að svitna undir höndunum.
-Ég veit eiginlega sko ekkert hvað ég á að segja. Ég átti bara alls ekki von á þessu, segi ég.
-Já, en hvað sem því líður, þá ætla ég ekki að tefja þig lengur. Vertu sæll.
-Já, bæ.
-Nei, Hannes, bless segir maður á íslensku. Bæ er þolfalsmyndin af orðinu bær og hins vegar ensk kveðja. Á Íslandi segja menn bless eða vertu sæl.
-Ó, já, bless.
Síðan legg ég á. Ég sit um stund og reyni að ná áttum.