Hérna kemur ein ákaflega gömul, samdi þessa þegar ég var sautján. Hef enn ekki komið mér í að laga hana til.

hiti

-Núna er aldrei, hugsaði hann. -Núna getur aldrei orðið þar sem augnablikið er liðið hjá sem hún átti við. Augnablik byggja upp hversdagsleikann og fylla hann upp af tilgangsleysi, svo djúpu og svörtu að skuggar dagsins hverfa þar inni. Þó geta augnablik verið eilíf, eilíf í óvaranleika sínum svo að þau hverfa inní augnatillit guðanna sem horfa á heiminn stjörfum augun.

Sótthitinn ágerðist og hann átti erfitt með að halda augunum opnum. Honum fannst hann verða að vera vakandi því annars var hann ekki viss um að hann myndi vakna aftur. Kannski myndi hann ekki sofna aftur. Nei, hann varð að vera vakandi. Hann þurrkaði þvalt ennið með blautri tuskunni úr rauðu fötunni sem systir hans hafði komið með. Honum svimaði þegar hann rétti sig við til að láta tuskuna aftur í fötuna. Herbergið byrjaði að hringsnúast fyrir augum hans og hann reyndi að loka augunum til að halda þessu frá sér.

-Ég er lækurinn, seytlandi niður fjallið, skopandi syngjandi glaður renn ég niður fjallið. Samt svo sterkur að steinninn gefur eftir. Nei, ég er áin. Beljandi, berjandi niður dalinn sem á líf sitt mér að þakka” hugsaði hann. Eða sagði hann þetta kannski. Hann vissi ekki lengur hvort hann var að tala eða hugsa. Hann reyndi að rétta úr sér. Nei, hann var sem negldur við rúmið. Hann lingdi aftur augunum eða opnaði hann þau. Tíminn var hættur að líða, eða öllu heldur, leið framhjá honum og virtist ekki taka eftir honum. Dagur og nótt komu annan hvern klukkutíma sem var sólarhringur og sekúnda í senn. Þó var dagur um nótt og sólin skein þegar hann sá ekki til.

-Ég er rauði liturinn, ég er guli liturinn. Ég er ekki til, nema hér sem hugsun guða sem trúa ekki á mig. Ég er guð, ég er maður. Ég er dagur, ég er nótt. Ég er allt sem ég óttast og allt sem ég hata. Ég er hvít, ég er svart. Hvernig get ég verið til?

Hann var hættur að gera sér grein fyrir því hvort hann var að dreyma eða hvort hann var vakandi. Í draumi var allt svo raunverulegt en í raun og veru var það ekki þannig heldur eins og í draumi. Hvort raunveruleikinn var til eða draumar raunverulegir vissi hann ekki. Hann horfði til himins,sem var þó ekki nema tvo metra fyrir ofan hann en þó svo langt í burtu. Í fjarska heyrði hann í röddum englanna, herskarar himnanna syngjandi Guði lof. Þær kölluðu til hans og hann fann frið færast yfir sig. Smátt og smátt sveif á hann svefn. Hann féll í faðma draumadísanna sem færðu hann fram fyrir bróður hans. Bróðir hans gaf honum sólskin.

-Þetta er góður draumur. Eða er þetta raunverulegt? Hann steig á fætur og þá var bróðir hans farinn ásamt englunum og draumadísunum. Hann öskraði. Einmannaleikinn heltók hann og hellti honum í sjó tunglins. Hann kallaði á engilinn sinn en engillinn er upptekinn sagði símsvarinn. Svo þegar sólin kom upp var fékk hún raflost og var myrt af tunglhafinu.

-Ertu nógu sterkur, ertu nógu sterkur, spurðu englarnir sem svifu hjá. Vindurinn blés í burtu seinustu hugsunum hans áður en hann gat svarað. Eða gat hann svarað? Hann reyndi að vera til, finna til en eina sem hann fann var fyrir þungu tómu höfðinu. Rauða veröldin sem hýsti tunglsjóinn varð dekkri eftir því sem hann rak lengra í burtu frá staðnum sem bróðir hans var. Hann hélt á sólskininu í höndinni og reyndi að láta það ekki blotna. Hann öskraði. Hann reyndi að kalla á hjálp en hann heyrði bara ópin bergmála inní höfðinu á sér.

Þetta gerðirðu sjálfum þér, þetta gerirðu sjálfum þér, hvíslaði vindurinn og hló. Hann horfði í átt til tunglsins sem vaktaði hafið. Fölbleikt starði það á hann.

-Trúirðu á mig, spurði það.
-Nei, ég trúi ekki því trúin færir mann í hlekki sem enginn lykill er til að. Hvernig á ég að getað sætt mig við að trúa þegar sál mín flýgur um og sér sannleikann í dagsbirtunni bjartan og fagran þrátt fyrir biturleika sinn og skugga. Nei, ég skal ekki færður í hlekki, svaraði hann. Hann reyndi að synda í burtu. Eða var hann að synda til einhvers, hvert hann var að fara var hann ekki viss um. Hann skildi í burtu en þó vildi hann trúa því að ferð hans hefði tilgang og endastöð.

Hann opnaði augun og leit herbergi sitt. Myrkur umlukti hann og rúmið. Hann horfði á sjálfan sig liggja þar í ómegin, fallinn í öngvit þó svo meðvitaður um sjálfan sig. Hann reyndi að snerta sjálfa sig en fór í gegnum líkamann og endaði á gólfinu.

Englarnir sem stóðu í kringum hann reyndu að halda aftur af honum.

-Nei, ég neita að fara, ég fer ekki núna, ég fer ekki, hrópaði hann.

Hann opnaði augun. Var hann að dreyma? Var þetta raunveruleikinn? Hann leit á hendur sínar og fór á fætur. Loks á fætur. Hann klæddi sig í sloppinn og gekk fram. Á ganginum var enginn. Myrkrið hékk yfir öllu nema litlu gluggunum sem voru á veggjunum eins og landslagsmyndir. Hann horfði út. Birtan skar í augun á honum og hann leit undan. Þegar augun höfðu vanist birtunni leit hann aftur út. Hann sá sjálfan sig speglast í glerinu, gráan og illa haldinn. Fyrir utan gluggan horfði hann á sjálfan sig leika sér við systur sína í snjónum fyrir mörgum árum. Það var áður en hann dó því hann stóð þarna og horfði á þau og hló. Sólin glampaði á snjónum og á frostrósunum í gluggunum þar sem hún fékk bensínlitaðan geislabaug.

Hann hristi höfuðið til að reyna að ná myndinni úr höfðinu á sér en allt kom fyrir ekki. Hún var þarna enn. Hann gekk áfram eftir ganginum þar til að hann kom að næsta glugga. Þegar hann leit út um hann sá hann ekkert nema myrkur. Endalaust myrkrið sem ætlaði allt að gleypa. Í myrkrinu var þó lítið ljós sem stækkaði og stækkaði. Hann reyndi að skýla augunum fyrir því en það var eins og það hefði brennt sig inní höfuðið á honum. Hann opnaði augun og sá bróður sinn standa fyrir utan. Grár, með bauga undir augunum rétti hann fram höndina í beiðni um hjálp. En hann var of seinn. Bróðir hans flaut í burtu og hvarf inní ljósið.

Hann gekk áfram að dyrunum. Þegar hann opnaði og gekk í innum þær þurfti hann að beygja sig undir þær. Þær virtust hafa minnkað eða hann stækkað. Hann gekk inní eldhúsið þar sem hún sat. Hann horfði á systur sína lengi. Ljós og falleg eins og bróðir hans hafði verið. En hann var dökkur og lítill, eins og skrattinn úr sauðalæknum enda voru þau vön að kalla hann litla skrattann.

-Þú ert bara að grafa þína eigin gröf, sagði hann. -Hún verður dýpri og dýpri og á endanum mun ég sparka moldinni yfir þig og þú munt verða grafin lifandi.

Hún brosti að honum, bros sem sýndi honum sterkar og beittar tennurnar. Hún stóð upp og gekk að honum.

-Ég mun aldrei þurfa á gröf að halda, sagði hún og teygði sig að honum. Hann reyndi að forða sér en var of máttfarinn. Hún greip í hann og beit hann fast í hálsinn. Hann fann hvernig hún saug úr honum lífið.

Hann hrökk við og vaknaði í rúminu sínu. Hún sat hjá honum og hristi hann.

-Hvað er að, spurði hún.
-Mig var bara að dreyma, svaraði hann
-Þú ert enn með mikinn hita. Þú mátt ekki vera á ferðinni. Þú varst kominn alla leið inní eldhús en varst alveg steinsofandi.

Hann horfði á systur sína. Hvernig gat það verið? Hann átti mjög erfitt með að trúa því að þetta hafi bara verið draumur eða hitinn sem sótti að honum.

Hann lagðist aftur í rúmið og fann svefninn koma yfir sig. Þegar hann vissi að hann var sofnaður hóf hann ferð sína. Hann sveif niður úr himnunum, úr svörtu flauelsmjúku myrkrinu kryddað bláleitum, tifandi stjörnum, niður í átt til dúnmjúkra skýjanna. Hann horfi á sjálfan sig fljóta. Hann lá þarna eins og hann væri í líkkistu, beinstífur og yfir andliti hans var tign dauðans og friður.

Hann fann skýjahuluna umlykja sig þegar hann lenti í henni. Mjúk og hlý tók hún við honum og vafði örmum sínum um hann. Hann sveif neðar og neðar í gegnum skýjin. Hann stóð enn fyrir ofan sjálfan sig og horfði á allt þetta án þess að gera nokkuð til að stoppa rólegt fallið. Að lokum var hann kominn í gegnum skýjin. Fyrir neðan var borgin í allri sinni dýrð. Myrkrið og snjórinn mynduðu sterkar andstæður svarts og hvíts og ljósin í borginni gerðu sitt besta til að varpa ljósi á þær. Hann sveif í átt til litla, gula hússins sem hann bjó í. Hann fór í gegnum veggina eins og draugur sjálf síns og lenti í rúminu.

Hann reis á fætur. Hann fór í sloppinn og gekk fram. Hann gekk eftir ganginum og opnaði hurðina fram. Litla stelpan hans hljóp móti honum og upp í faðm hans. Mamma hennar var eflaust frammi í eldhúsinu. Hann vissi ekki hve langi hann hafði sofið eða verið með óráði vegna hitans.

-Ertu komin á fætur, pabbi? Ertu vaknaður, spurði litla stelpan.
-Ég vona það, elskan mín, ég vona það.