Kæri viðtakandi.
Allir vita hvað einelti er, jafnvel 6 ára gömul systir mér getur sagt mér í grófum dráttum hvað það er. En svo virðist sem að Vesturbæjarskóli hafi eitthvað misskilið málið. Þar sem að ég var fórnalamb eineltis í 7 ár hef ég sett mér það markmið að berjast gegn því, svo ég hef tekið mér það bessaleyfi að upplýsa þig. Ég skal hafa þetta einfalt, svo enginn misskilningur verði.

Samkvæmt Wikipedia er einelti samfélagslegt hegðunarmynstur sem einkennist af grófri niðurlægingu og stríðni, andlegri og líkamlegri, sem beinast að ákveðnum einstaklingi af hálfu annars einstaklings eða hóps.

Nýlega las ég fréttagrein á visir.is sem gengur undir fyrirsögninni „Ósátt móðir segir einelti líðast í Vesturbæjarskóla“. Athygli mín var strax gripin og ég hugsa með mér „það getur ekki verið, hvers konar skóli líður einelti? Þetta hlítur að vera grín.“
Í greininni var sagt frá móður og 12 ára syni hennar sem er greindur með athyglisbrest, ofvirkni, tourette og ódæmigerða einhverfu. Í greininni er farið fremur ítarlega í veikindi hans og erfiðleika, en þar sem ég geri fastlega ráð fyrir því að þú, lesandi góður, gerir þér grein fyrir því hvaða mál ég er að tala um ætla ég ekki að fara dýpra í það.

Í umræddri grein er greint frá máli sem gerðist föstudaginn 27.ágúst. Móðir drengsins fékk símtal frá Vesturbæjarskóla þar sem henni var sagt að það hafi komið til stimpinga á milli sonar hennar og 3ja annara drengja. Þá voru fyrrnefndir 3 drengir búnir að vera að atast í syni konunnar síðastliðna viku (það væri þá í fyrstu viku skólans) og var henni fyrst sagt frá því þá. Henni var einnig sagt að búið væri að veita drengjunum tiltal vegna þessa.

Þarnæst er henni sagt frá atviki sem átti sér stað í íþróttatíma umræddan dag.

„Íþróttatíminn var kenndur utandyra. Drengirnir þrír voru að leika sér með hjólalás sem einn þeirra hafði stolið af hjóli eins nemandans í skólanum. Sonur minn sýndi þessum hjólalás áhuga. Einn drengjanna og sonur minn fara að togast á um lásinn. Hinir drengirnir fara að skipta sér af (þrír á móti einum) og fær minn sonur m.a. högg í andlitið og spark í sköflunginn. Á endanum lætur sonur minn í minni pokann og sleppir lásnum, með þeim afleiðingum að hinn drengurinn dettur aftur fyrir sig og fær kúlu á höfuðið. Sonur minn dettur líka aftur fyrir sig, en þar sem hann var með skólatöskuna sína á bakinu, sakaði hann ekki.“

Síðar þennan sama dag var hringt í hana og henni tilkynnt að hún þyrfti að halda syni sínum heima næsta virka dag. Þegar hann rennur upp fær hún enn eitt símtalið (greinilega enginn tími fyrir viðtöl í þessum skóla) og henni greint frá því að hún fengi ekki að koma með drenginn aftur í Vesturbæjarskóla og það væri þegar búið að finna neyðarpláss fyrir hann í öðrum skóla.

Ekki er nóg með það, heldur frétti hún einnig af því að foreldrar barna í bekk sonar hennar hefðu sagt börnum sínum að standa upp og ganga út úr kennslustofunni ef sonurinn kæmi aftur í skólann.


Í hreinskilni sagt varð ég reið við lestur þessa greinar, ég varð reið í garð barnanna, í garð foreldra þeirra og sérstaklega í garð Vesturbæjarskóla. Hvers konar skóli lætur svona viðgangast? Eftir hvaða kerfi voru þeir eiginlega að fara? Allavegana ekki Olweus, eins og greint er frá á heimasíðu skólans.

Nú er ég utanaðkomandi aðili og veit ekki meira um málið heldur en almenningur, en ef ég byggi skoðun mína algerlega á þessari grein þá er hún eftirfarandi:

Einelti ætti hvergi að líðast og voru viðbrögð skólans í öllu röng. Allir sem hafa lent í einelti vita að kerfið virkar oftast ekki, en að reka barnið er gjörsamlega rangt. Hvernig heldur þú að drenginum líði? Svona framkomu á enginn skilið. Við búum í samfélagi þar sem allir eiga skilið jöfn tækifæri. Ég ætla að endurtaka mig, allir eiga skilið jöfn tækifæri. Þessi atburðarrás greinir svo sannarlega ekki frá sanngirni og réttlæti.

Ég vona innilega að Vesturbæjarskóli taki sig á í þessu málum, vegna þess að einelti er eitt það hræðilegasta sem barn getur upplifað. Ég vænti ekki svars, en mér þætti það lámark að biðja ofangreind mæðgin afsökunnar.
Ég myndi ekki búast við því að drengurinn hafi nokkurn áhuga á því að halda áfram í Vesturbæjarskóla, en mér finnst hann hafa fullan rétt til þess.
Virðingafyllst,
áhyggjufullur borgari.
Dýrð sé móðurinni sem ól þig!