Undanúrslit MORFÍS. FB - Verzló Undanúrslit í MORFÍS - Ræðukeppni Framhaldsskólanna.
Föstudaginn 15.mars í Matsal Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

Við mættust lið Verzlunarskóla Íslands og Fjölbrautaskólans í Breiðholti á Heimavelli FB (Matsalnum).

Lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti:
Guðjón Valgarðsson frummælandi.
Gísli Hvanndal meðmælandi.
Gunnar Jónsson stuðningsmaður.
Páll Ármann Pálsson liðsstjóri.

Lið Verzlunarskóla Íslands:
Þorvaldur Davíð Kristjánsson frummælandi.
Breki Logason meðmælandi.
Björn Berg Gunnarsson stuðningsmaður.
Ómar Örn Bjarnþórsson liðsstjóri.


Umræðuefnið var nördar og voru FB með en VÍ á móti….

Bæði liðin voru gífurlega vel undirbúin og keppnin var virkilega skemmtileg enda bauð efnið upp á vissan “nörda-húmor”.

Lið FB byrjaði á því að koma með rök fyrir því að nördar væru, þrátt fyrir félagslega einangrun og flösuræktun, hið fínasta fólk sem vildi bara fá að vera í friði og safna frímerkjum.

Ágætis byrjunarræða hjá Guðjóni, frummælanda FB.

Næstur í pontu var frummælandi Verslinga, Þorvaldur Davíð, hann var frekar yfirvegaður og ljómaði af honum þetta sjálfsöryggi sem hefur einkennt lið Versló síðastliðin ár. Hann skilaði sínu ágætlega og settist aftur niður… grunlaus um stórskotahríðina sem var framundan.

Næstur í pontu var meðmælandi Breiðhyltinga, Gísli Hvanndal, og það fyrsta sem hann gerði var að taka frummælanda Verslinga og tjah… láta hann líta ansi illa út, ég vill ekkert vera að hafa það eftir sem sagt var en hann nýtti sér allaveganna frægðarsól Þorvalds Davíðs til að gera frekar lítið úr honum, og ég verð að segja að mér fannst sum skotin vera fyrir neðan beltisstað, en eins og þeir segja… það er allt sanngjarnt í Ást, Stríði og MORFÍS.

Breki Logason, án efa besti ræðumaður Verslinga fyrr og síðar, steig upp í pontu og hóf upp raust sína, ég veit ekki hvað það er við ræðustíl hans sem lætur mann fá það á tillfinninguna að hann gæti sannfært gyðinga um það að Hitler hafi bara verið ansi fínn gæi, en það er eitthvað.

Stuðningsmaður FB, Gunnar Jónsson, svaraði svo rökum Verslinga með háði og spotti og verður það að teljast sem plús hjá FB-ingum hversu hnitmiðuð og fyndin skot þeirra voru. Á meðan Verslingar voru málefnalegir og frekar svona, hvernigáégaðorðaþetta, Versló-legir (Alls ekki meint sem slæmur hlutur, það er búið að koma þeim í úrslit síðastliðin 2 ár að vera svona Versló-legir).

Björn Berg rak svo endann í fyrri umferðina með frekar þurri og leiðinlegri (að mínu mati) en samt málefnalegri ræðu og hefur örugglega skorað einhver stig þar.

Ég nenni einfaldlega ekki að lýsa seinni umferðinni betur en það er óhætt að segja að hún hafi verið frekar jöfn, þó svo að FB hafi, að mínu mati, staðið sig betur í heildina. Þorvaldur var með skemmtilegan Gettu Betur “twist” í ræðunni sinni en virtist eitthvað stressaður og það gekk illa að fylgja góðri byrjun eftir. Gísli var með mjög góða ræðu og Breki fylgdi henni eftir með annarri svipað sterkri.

Dómararnir voru frekar lengi að ákveða sig, enda voru liðin stigalega séð alveg gríðarlega jöfn. Samt má segja að FB-liðið hafi skarað fram úr í skemmtanagildi og er húmorinn án efa þeirra sterkasta vopn.
Það sem dró Versló-liðið niður að mínu mati var hálfgert ósamræmi í ræðum í seinni helming kvöldsins þar sem þeir voru að koma með fullyrðingar sem stönguðust á við hvorn annann. T.d. hvatti Þorvaldur Davíð til umburðarlyndis við nörda og líkti þessu við eiturlyfjafíkn eða áfengissýki meðan að Breki sagði að það ætti bara að losa samfélagið við þessa plágu. Björn Berg rak svo lestina með einhverri þurrustu og leiðinlegustu ræðu sem ég hef heyrt í ræðukeppni og sjálfsálitið var svo mikið að hann bað Verslinga um að klappa fyrir FB fyrir að “hafa allavegna reynt”…. : )

Þessi orð neyddist hann svo til að éta ofan í sig því að FB vann… naumlega þó, en mjög verðskuldaðan sigur og Meðmælandi FB, Gísli Hvanndal, var valinn ræðumaður kvöldsins.

Verslingar tóku ósigrinum illa, enda vanir að vinna, en eins og Páll liðstjóri sagði í byrjun keppninnar “Megi betra liðið vera FB” og sú varð raunin.