Þegar ég var maur dreymdi mig umað verða jólasveinn. Eða, jólasveinka. Ég sá í hillingum allar gjafirnar sem ég gæti sleppt að gefa og átt bara sjálf, og ég mætti borða einsog ég vildi tilað verða feit og pattaraleg. Mig langaði líka dálítið tilað verða Lína Langsokkur því hún var svo sterk. Og með magnaða hárgreiðslu! En núna er maður kominn á þann aldur að ekki er hægt að komast hjá því að fá spurninguna: í hvaða menntaskóla ætlarðu? í hvert skipti sem maður hittir ættingja. Hvernig er hægt að ætlast tilþess að fjórtán ára stelpufífl viti hvað hún ætlar að gera í framtíðinni? Ég meina, ég er bara í 9. bekk! Auðvitað væri frábært að vera jólasveinka eða Lína Langsokkur…

Mig langar að verða ótrúlega margt, en einhvernveginn NENNI ég ekki að verða neitt. Ég NENNI ekki að verða barnalæknir (alltof langt nám), ég NENNI ekki að verða leikskólakennari (dæmd til ævilangra láglaunastarfa) og ég NENNI ekki að sitja á rassgatinu allan daginn í einhverju tilbreytingasnauðu skrifstofustafri til dauðadags.

Ég er ekki einusinni fær um að flokka menntaskóla landsins í Koma til greina og Koma ekki til greina. Margar vinkonur mínar eru farnar að pæla í skólum og jafnvel farnar að skipuleggja grúppur og klíkur útum allan bæ. Afhverju finnst mér einsog það sé einhver pressa á mér? Ég spjallaði aðeins við vin minn sem er í menntó um þetta, og hann sagði að hann hefði bara farið í sinn hverfisskóla, það hafi legið beint við. Minn hverfisskóli er MR, mesti snobbskóli allra tíma, næsti skóli við mun svo vera MH, sem samkvæmt vinkonu vinkonu minnar (!) er uppfullur af leiðindaklíkum. Þá er bara Verzló eftir af þeim sem eru í þokkalegri fjarlægð/nálægð, og það er nokkuð öruggt að ég ætla ekki að verða hagfræðingur!

Semsagt: ætli ég verði ekki að þola spurningar og pressu foreldra og ættingja og annarra óviðkomandi aðila um framtíð mína. Vona bara að ég verði búin að gera mér greIn fyrir hvað ég vil eftir eitt og hálft ár. Svo ég lendi nú ekki í eilífðarstarfi á McDonalds eða í Nóatúni. Með fullri virðingu fyrir starfsmönnum þeirra fyrirtækja…