Ég var að lesa grein eftir Rakel þar sem hún fjallaði meðal annars um skólann og samræmd próf.

Það var ekki laust að á varir mínar læddist örlítið bros þar sem ég sat og las greinina og þau álit sem á henni voru. Ástæðan er ekki sú að ég sé svo illgjörn og vond heldur að ég er ein af þessum kennaradruslum, sem reyni að troða fróðleik í höfuðið á elskulegum nemendum mínum og minni þá sí og æ á samræmdu prófin. Þá fannst mér líka gaman að sjá hvað ykkur “hinum” finnst raunverulega um öll herlegheitin.
(Já og þó að ég sé kennari þá þýðir það ekki endilega að ég sé vond og illgjörn, skammastu þín að hugsa svona krakki!)

Það var bara síðast í morgun að ég brýndi fyrir nemendum mínum að nú væru bara 4 mánuðir til stefnu og ekki seinna vænna en að fara að taka sig á. Ég spjallaði líka við þau um metnað og námsleiðir og ýmislegt annað sem máli skiptir.

Þeir sem segja að samræmdu prófin séu ofmetnustu próf, sem til eru og að þau hafi ekkert með framtíðina að gera hafa að mörgu leiti rétt fyrir sér (já þú ert að lesa rétt, haltu samt áfram að lesa!).

Auðvitað skiptir það ekki ÖLLU máli hvort þú fáir 4,5 eða 10 í samræmdu prófunum.
Fæstir koma til með að nota dönskuna eða algebruna og íslensku beygingarreglurnar eitthvað ógurlega mikið eftir að skóla líkur. Þið eigið öll eftir að geta farið út í búð og keypt mjólk og spjarað ykkur ágætlega í samfélaginu, þó þið munið ekki stundinni lengur að “umsögn er sögn sem er venjulega aðalsögn setningar og lýsir því hvað frumlagið og andlagið eru að gera” eða að “a í öðru + b í öðru er = c í öðru”.

Þetta breytir samt ekki því að til eru fjölmargar ástæður fyrir því að þið ættuð að leggja ykkur fram og reyna að ná bestu mögulegu einkunn. Hér koma þrjár:
Þegar ég tók samræmdu prófin fyrir mörgum, mörgum árum þá höfðu þau lítil áhrif á líf mitt nema að þau urðu til þess að ég fór í 103 áfanga í fjölbraut í stað 102 áfanga. Þetta þýddi að ég komst hraðar yfir heldur en einhver sem var svo óheppinn að hafa fengið minna en 7 og hefði þá þurft að fara í 102 eða einhver sem fékk undir 4,5 sem hefði þurft að fara í svokallaðan 0 áfanga. Þetta finnst mér vera góð ástæða til að gefa svolítið í og reyna að fá hærri einkunn. Ég meina eruð þið ekki búin að vera nógu lengi í skóla þó þið séuð nú ekki að lengja skólagönguna bara vegna þess að þið nennið ekki að læra núna eða trúið ekki á að þið getið þetta?
Nú eru breyttir tímar. Því nú hafa samræmdu prófin enn meiri áhrif. Nú eru ekki lengur svokallaðir hverfisskólar og því hafa menntaskólarnir og framhaldsskólarnir leyfi til að neita fólki um skólavist. Þetta er ekki bara einhver hræðslusaga sem við kennarar höfum fundið upp á heldur hefur þetta gerst í raunveruleikanum. Jú það eru lög á Íslandi sem segja að allir eigi rétt á skólavist og ef einhver fær ekki inngöngu í neinn skóla þá er málinu vísað til menntamálaráðuneytisins sem þá reynir að útvega viðkomandi skólavist en hver nennir kannski að lenda í því að þurfa að fara í skóla á Selfossi þegar hann á heima í Grafarvogi? Þá eru líka margir, sem langar meira í einn skóla en annan og þá er ekki verra að vera með einkunnir sem eru samkeppnishæfar.
Auk þessa þá opna samræmdu prófin og loka ýmsum dyrum. Segjum sem svo að nemandi sé búin að ákveða að fara á náttúrufræðibraut og sleppi því að taka próf í samfélagsfræðinni. Eftir sumarfrí fer þessi ákveðni nemandi í framhaldsskóla og fer á náttúrufræðibraut eins og ákveðið var en ó ó þessi braut er bara ekki eins skemmtileg og gert var ráð fyrir og Sigga systir er að læra svo marga skemmtilega hluti á félagsfræðibraut! Þá eru góð ráð dýr. Þessi nemandi á þá miklu erfiðara með að skipta um braut en ef hann hefði tekið öll 6 samræmdu prófin og staðist þau.
Sem sagt 3 góðar ástæður fyrir að taka öll þessi próf og taka þau alvarlega og hafa svolítinn metnað hvað þau varðar.

Sem sagt þó að samræmdu prófin hafi marga galla (sem verður kannski efni í aðra grein af minni hálfu en ég ætla ekki að leggja í hér því ég efast um að þið nennið að lesa lengri grein) þá er það ekki ástæða til þess að standa sig ekki eins vel og maður mögulega getur.
Með baráttukveðju,
Gerdam