Hverahlíð Skálinn Hverahlíð er skáli í eigu skátafélagsins Hraunbúa og hefur staðið í miklum endurbótum síðasta árið og eru þessar endurbætur enn í fullum gangi. Skálinn er 20-30 manna, rúmgóður skáli sem hentar einkar vel fyrir skátasveitir og stærri hópa. Hann er staðsettur við syðri enda Kleifarvatns, í Hverahlíð. Skálinn stendur á hitasvæði og er heitur hver við hliðina á honum, en hitastigið í hvernum lækkaði talsvert í kjölfar Suðurlandsskjálftanna en hefur hækkað hægt og rólega með tímanum og er því uppálagt að baka sér rúgbrauð í leirnum.. Í nágrenni skálans er nánast allt sem skátinn getur hugsað sér, vatn, fjöll, hverir, heitur pottur og margt, margt fleira. Það er ekki alvöru Hverahlíðarútilega nema farið sé í pottinn, en potturinn er í göngufæri frá skálanum. Til að komast að pottinum er farið út að Krýsuvíkurveg og labbað í átt að Krýsuvík í smá tíma og beygt til hægri á litlum vegslóða. Þar er hin svokallaða Hraunbúalaug en hún varð margfræg þegar Síminn tók upp kollektauglýsingarnar sínar þar.

Skálinn er á tveimur hæðum og er efri hæðin svefnloft. Á neðri hæðinni er svo eldhúskrókur, anddyri og rúmgott rými til að sitja saman og borða, spila eða gera hvað sem er. Skálinn er hitaður upp með gashitara og lýstur upp með gasluktum á neðri hæðinni. Símasamband er mjög takmarkað en þó eru nokkrir punktar á svæðinu þar sem hægt er að ná sambandi.

Ég mæli eindregið með því að skátasveitir prófi að fara í útilegu í Hverahlíð því það er mjög mikil upplifun að fara þangað og æðislegur skáli þar á ferð.
- Á huga frá 6. október 2000