Hér kemur önnur greinin í flokki greina um útivistarbúnað. Nú eru það tjöld, það er eins og svefnpokar eitthvað sem ég hef nokkuð góða þekkingu á. Einnig hvet ég aðra hugaða skáta til að skrifa svipaðar greinar um annan útivistarbúnað, ef þeir hafa góða þekkingu á einhverju sviði.

Þessa grein eins og aðrar miða ég algerlega við skáta.

Á Íslandi er veður sem er varla til annars staðar, mikill vindur og bleyta. Þess vegna þurfa tjöld sem á að nota hér á landið að vera svolítið sérstök. Og tjöld sem virka vel á meginlandinu virka í flestum tilfellum alls ekki á Íslandi. Byrjum á að útskýra nokkur hugtök áður en við förum nánar úti það hvað tjald fyrir Íslenskar aðstæður þarf að hafa.

Vatnsheldni: Mælt eftir því hvað það er hægt að setja mikið vatn ofan á dúkinn áður en hann fer að leka. Þetta er mælt í mm. Það er ekki átt við hversu marga mm á sólarhring tjaldið þolir heldur hversu mikin vatnsþrýsting dúkurinn þolir. Algengar tölur eru 1500-6000 mm. En það þýðir að dúkurinn þoli td 1500 mm háa vatnssúlu ofan á sig áður en hann fer að leka.

Fibersúlur: Súlur sem eru gerðar úr koltrefjum. Eru venjulega notaðar í ódýrari tjöld. Hafa þann kost að þær fara alltaf í upphaflega lögun sína eftir að hafa svignað, þ.e. ef þær svigna ekki of mikið og brotna. Þá kemur ókosturinn, brotin fibersúla er beitt og maður fær mjög leiðinlegar flísar úr þeim. En í þessu eins og svo mörgu örðu eru til margar gerðir af fibersúlum, missverum, og með mismunandi styrkingum.

Álsúlur: Súlur sem eru úr áli. Þær eru í vandaðri tjöldum, léttari heldur en fibersúlur miðað við styrk. Og þola oftar en ekki meira. Hafa þann ókost að að ef þær bogna þá fara þær ekki til baka, nema um litla sveigju hafi verið að ræða. Góðar súlur eru reyndar forbeygðar af framleiðenda til að passa sem best. Álsúlurnar eru einnig mjög missmunandi að gerð, en við skulum ekki fara í mjög flókna efnisfræði. En ef súlurnar eru merktar sem T6 eða T3 eru þær sterkari en samskonar súlur sem eru ekki með þeirri merkingu. Dæmi um góðar súlur eru súlur sem eru úr efni sem heitir 7001 T6 og er einfaldlega nafnið á álblöndunni sem er notað í súlurnar.

Fortjald: pláss sem er fyrir framan svefnrými tjaldsins, oftar en ekki botnlaust eða með lausum botni

Svefntjald: innra tjaldið (ef tjaldið er tvöfalt). Hefur venjulega áfastanbotn.

Himin: Ytratjaldið, vatns og vindheldi hluti þess. Nær utan um svefntjald og fortjald.

Skarir: Flipar sem koma útfrá tjaldinu að neðanverður og varna því að það blási inn undir tjaldið. Einning gott í snjó, því þá er hægt að hlaða ofan á skarirnar til að festa tjaldið betur, og það lokar því einnig betur.

Stög: Bönd sem eru notuð til að tryggja tjaldið niður, og ganga út frá tjaldinu.

En gott íslenkst tjald hefur í það minnsta 3000 mm vatnsheldni og er með tvöföldum stögum á hverri súlu. Það gagnast lítið að hafa bara stög á hliðunum, því þá aflagast súlurnar ef það blæs eitthvað. Himininn verður að ná alveg niður að jörð, þar sem það rignir á hlið á Íslandi. Botnin í svefntjaldinu þarf að ná vel upp á hliðarnar, kallað ‘tub’-lag. Ekki ósvipað og sturtubotn í laginu.

Það eru til nokkrar gerðir af ´skátatjöldum´ og hér koma flokkar þeirra og útskýringar á því hvering tjöld duga best í það verk, og hvering tjöld eru nóg í það.

Matartjöld
Stór tjöld sem maður getur gengið uppréttur í, gjarnan botnlaus. Þurfa að vera sterk, vatnsþolinn og þola mikinn vind. Hef svo sem ekki mikið meira um þau að segja, enda hef ég ekkert stúderað þau mikið. En bómullardúkur hefur komið vel út í þessum tjöldum.

Skátamótstjöld / chilltjöld
Tjöld sem henta vel til að vera lengi á sama staðnum, rúmgóð, sterk. Fyrir skátaflokka er að mínu mati nauðsynlegt að allur flokkurinn komist í tjaldið, og það sé pláss fyrir farangur. Fyrir dróttskáta er þetta bara spuring um að hafa nóg pláss svo allir geti verið í sama tjaldinu og haldið gott partý :D Svíþjóðartjöldin svokölluðu hafa reynst vel fyrir dróttskáta, og sæmilegir braggar/kúlur vel fyrir skátaflokkanna.

Göngutjöld
Tjöld sem eru nothæf til þess að hafa í bakpokanum á sumarferðum. Oft miðað við að gott göngutjald sé ekki þyngra en 1,5 kg á hvert svefnpláss. Þannig að tveggja mann tjald sé ekki þyngra en 3 kg. Þessi tjöld eru oft plásslítil en samt nóg til að gott skjól sé af þeim. Gott göngutjald hefur 3000 mm vatnsheldni, góð stög og álsúlur. Oft reynir mjög á stöginn á þessum tjöldum þar sem súlurnar eru hafðar sem einfaldastar. Td. er til mjög gott göngu tjald með aðeins einni súlu. En það er vitnalega erfitt að tjalda því nema hægt sé að festa það almennilega niður. Stöguðri tjöld eru svokölluð sjálfstandandi tjöld, en þau þurfa ekki að vera fest við jörðina til að standa. Þannig tjöld eru mjög góð þar sem lítið er um jarðveg, því það er nóg að binda þau niður.

Vetrartjöld
Tjöld sem eru nothæf uppi á fjöllum að vetri til. Gott vetrartjald er nánast án undantekinga sjálfstandandi, því það getur oft verið erfitt að setja niður hæla í snjó. Vatnsheldnin þarf helst að vera í það minnsta 4000-5000 mm. Þetta stangast reyndar töluvert á við það sem er almennt talað um úti í heimi. En ástæða þess er sú að það er einfaldlega bara mjög blautt á Íslandi yfir veturinn og lítið frost. Þannig eru mjög mörg tjöld sem eru virkilega góð vetrartjöld við flestar aðstæður ekki með nógu mikla vatnsheldni til að þola Íslenska vetrarrigningu. Gott er að hafa skarir á vetrartjöldum og góð öndunar op á dúknum, svo ekki myndist saggi í þeim, en þá er alveg eins gott að það snjói bara inn í þau. Fortjald myndi ég einnig telja nauðsynlegt, því að er leiðinlegt að þurfa að grafa dótið sitt upp þegar maður vaknar.
Svo þurfa lykkjurnar fyrir hæla að vera stórar, því maður þarf að nota skíði, skóflur, axir og því um lít sem hæla í snjónum. Einnig eru til snjó hælar, en það er nú eitthvað sem maður tekur varla með sér í göngutúrinn þegar maður er hvort sem er með skíði og eitthvað annað.
Vetrartjöldin þurfa einnig að þola mikin vind, og því fleiri krossar sem súlurnar mynda því betra, og best er að hafa þau svæði sem eru á milli súlna sem minnst að flatarmáli. Því það minnkar líkurnar á því að ytratjaldið komist í snertingu við innra tjaldið, en það er ávísun á sagga. Og þá eru einnig minni líkur á því að tjaldið falli saman.
Gott ráð til að sjá hvort vetrartjald sé nógu stöðugt í vindi er að leggjast hreinlega ofan á það, en það á að geta haldið meðal manni uppi án þess að falla saman.

Fellihýsi, tjaldvagnar og hjólhýsi
Er eitthvað sem á ekki að sjást í skátastarfi, því það telst seint alvöru útilega. Eitthvað sem er bara fyrir gamalt fólk sem kann ekki að fara í útilegu.
Baldur Skáti